5. okt. 2012

Meistaramánuður - dagur 4

Langt snús að vanda (mig langar ekki einu sinni að hætta því!) en tókst samt að vakna á nóinu og mæta í vinnunna 8:55 - tékk!

Var boðið upp á hnetusmjörssúkkulaði og bjór í heimsókn hjá dásamlegri vinkonu í kvöld en neitaði! Afrek dagsins nammibindindislega séð átti þó sér stað í kennslustund fyrr í dag eftir að ég bað nemendur um að giska á fjölda Skittles sem ég hafði sett í sultukrukku. Giskið þjónaði þó leyndum tilgangi og það var mikið svekkelsi þegar ég upplýsti um það að ég hefði ekki hugmynd um nammifjöldann. Þannig að ég reyndi að bæta upp fyrir það með því að telja - 318 Skittles (þrisvar) upp úr krús án þess að stinga einu einasta upp í mig.

Það sem tókst sérlega meistaralega vel í dag var að bakka í stæði svona samsíða - tvisvar! Hægri bakk og vinstri bakk þar að auki.

Það sem tókst sérlega ómeistaralega var eiginlega það að ég horfði á hinn skelfilega, skelfilega þátt Bridalplasty seint um kvöld í gær. Reyndi að bæta það upp með að horfa á hinn fallega og heilsteypta þátt Everwood í kvöld. Er algjör sökker fyrir svona small-town drama þáttum, Gilmore Girls, Hart of Dixie, Men in Trees og svona.

Svo er það bara draumalandið... sjáum hvaða freistingar fyrsta októberhelgin hefur í för með sér!

4. okt. 2012

Meistaramánuður - dagur 3

Jæja þetta fer að verða svolítið þreytt, er ekkert sérstaklega spennt fyrir að skrifa endalaust um svefnvenjur og mataræði. En þetta er ágætis dokjúmentasjón auðvitað. Og þjálfar skrifvöðvana!

Snúsaði vel og lengi, er búin að skipta snúshljóðinu í engisprettu- og hörpuhljóð og þetta er bara yndislegt að vera svona milli svefns og vöku, úff. Náði nú samt að fara á fætur 7:45 og mæta 8:45 sem er samkvæmt markmiði.

Búst í morgunmat, fiskur í hádeginu og kjúklingur í kvöldmat. Er reyndar ostsjúk (betra en ástsjúk?) og missti mig aðeins í parma- og fetaostinum en hey, ekkert nammi! Tókst meira að segja að meðhöndla, bera á borð og sitja fyrir framan súkkulaði og súkkulaðikex án þess að fá mér. Árangur! Fann samt fyrir nammilöngun í dag í fyrsta sinn í mánuðinum (ok það eru bara liðnir þrír dagar en samt...).

Smá vonbrigði á sviði ástarinnar sem voru samt liklega fyrir bestu. Já og Myndarlegi maðurinn reykir sem er eiginlega deal-breaker þannig að ég ætla bara að horfa á hann úr (lengri en þef-) fjarlægð.
2. okt. 2012

Meistaramánuður - dagur 2

Úff hvað ég vaknaði ómeistaraleg í morgun. Á degi tvö takk fyrir! Á maður kannski bara að gefast upp strax?  Snúsaði frá 7:30 til 8:45 takk fyrir og mætti í vinnuna 9:15. FAIL! En mér til varnar var ég að vinna frameftir og gat svo ekki sofnað fyrr en kl. 3. 

Mataræðið var svona skítsæmilegt þannig séð, að minnsta kosti enginn skyndibiti eða nammi eða gotterí. Vigtin segir upp á gramm (já eða hundrað grömm) það sama og fyrir tveimur vikum síðan. Var svo búin að bóka fundi í vinnunni á þann hátt að ég komst ekki í hádegisjóga. Er sextíu mínútum af hreyfingu í mínus. 

Það sem var yndislegt og ástríkt var að hitta ma og pa, litlu systur og yndislegu systurbörnin í mat, já og símtal frá Freyju minni í kvöld. Það var hins vegar ekki jafn skemmtilegt að bíða í að því er virtist óendanlega lengi í símabiðröð hjá Arion banka, Símanum og Tollinum til að reyna að borga reikninga sem birtust ekki í heimabankanum. Hversu lengi getur maður eiginlega verið númer 8 í röðinni? Hefði átt að skipta þessum hringingum niður á fleiri daga. 

Svo er ég sannfærð um að Myndarlegi maðurinn sem veit ekki einu sinni hvað ég heiti sé hrifinn af (lofaðri) kunningjakonu minni. Er kannski að lesa of mikið í líkamstjáningu og augnsamband. En ég meina ég hefði líka horft í augun á henni frekar en á mér í dag, er með augnsýkingu og hálf zombie-vampírulúkkið er kannski ekkert sérstaklega sexý ef maður er ekki að leika í Twilight mynd. 

Jæja þá er blogg - markmiðið uppfyllt fyrir dag tvö. Tékk! 

Meistaramánuður

Jæja, ég hef ákveðið eins og skrilljón manns að vera með í meistaramánuði! Dagur eitt, tékk!
Markmiðin mín (sem eru kannski ekki alveg jafn tilbúin og vel skilgreind og þau ættu að vera á þessu stigi máls) eru eftirfarandi:

- Vakna fyrr, snúsa minna og mæta fyrir kl. 9 í vinnuna... (ég er voða gjörn á að snúza til 8:45 og mæta 9:15).
- Borða ekkert nammi... skilgreiningin á því hvað telst sem nammi er í nefnd. Yoyo ís með ávöxtum er leyfður svo og lítið popp í bíó! Svo ætla ég að fá mér köku í fimm ára afmæli 27. október.
- Hreyfing að meðaltali hálftíma á dag eða í þrjá og hálfan tíma á viku...þarf ekki að vera á hverjum degi semsagt, þetta er uppsafnað yfir vikuna. Vikan telst frá mánudegi til sunnudags! (á miðnætti). Sé fyrir mér lannga göngutúra á sunnudagseftirmiðdögum...
- Ekkert áfengi... Þetta er að mér skilst partur af programmet. Er samt að spá í að hafa þetta með undantekningum þar sem mig langar ægilega mikið að fá mér kokteil á föstudagskvöldið næstkomandi og bjór á Airwaves 31 okt. (kannski bara eftir miðnætti?) En þetta ætti annars að vera auðvelt og auðveldar að minnsta kosti hollt mataræði, ég er ekki svo góð í að borða hollt svona daginn eftir kvöldið áður.
- Ákveða efni fyrir lokaritgerð... ég hef verulegar áhyggjur af því að ég nái ekki að standa við þetta en ég er á nákvæmlega sama stað í þessari ritgerð og fyrir ári þannig að here goes.
- Finna ástina... þetta er vísvitandi óljóst markmið... love is all around!
- ooog að lokum: Blogga daglega um meistaramánuð! Þetta markmið er í rauninni dulbúið þar sem raunverulegur tilgangur er að æfa dagleg skrif sem eru ekki vinnu- eða námstengd. Í nóvember er svo NaNoWriMo og þá ætla ég að taka góðan slurk í tilvonandi metsölubókinni minni (*hóst*).
- Mögulega bætast við einhver markmið en þetta er svosem alveg nóg í bili. Svo er planið bara að lifa eins og meistari almennt!

1. okt - hvernig gekk? 
Vakna: Stillti klukkuna á sex en snúsaði til 7:30. Fór í langt og meistaragott bað og var mætt í vinnuna 8:45... greinilega mjög óvenjulegt því samstarfsfólkinu varð mikið um, fékk tvö Ert þú MÆTT? (á fjögurra manna vinnustað með mér meðtalinni).
Borða: Ekkert nammi, vei! Svosem engar sérstakar freistingar en frekar einhæft mataræði -tvö búst og tvisvar kjúklingur.  Hádegiskjúllinn á Ali Baba var reyndar fáránlega góður. Mmmmm.
Hreyfing: Til og frá bílnum. Glatað. Bæti úr því á morgun. Eða hinn!
Áfengi: Er ekki mánudagsrauðvínssullstýpan (ekki það að það sé neitt að því!) þannig að ég sé ekki að þetta sé að fara að trufla mig á næstunni. Enda var september að mestu sin-alco.
Lokaritgerð: Ég var reyndar aðeins í skólanum að vinna (ekki að læra) og hitti nokkrar skólastelpur og ræddi nokkrar lokaritgerðishugmyndir. Mundi þá að ég er með nokkrar hugmyndir í kollinum, þarf bara að pæla og velja á milli. Er sumsé ekki alveg blankó. Sem er gott!
Ástin - Ekkert rosalega mikil ást í loftinu í dag. Jú gott símasamtal við mömmu, ég elska hana nú alveg heilan helling!
Blogg - tékk!

Það sem gekk meistaralega vel í dag: Náði afar góðri vinnutörn og einbeitingu -fyrst í vinnu eitt, svo í vinnu tvö, svo í smá verkefnavinnu og svo aftur í vinnu eitt (já það er aðeins of  mikið að gera).

Það sem gekk ekki meistaralega vel: Í miðju meistarabloggskafi hringdi mamma og spurði hvort ég hefði gleymt að sækja frænku mína í vinnuna... sem ég hafði gert! Hljóp bókstaflega út á stuttermabolnum og skildi sjónvarpið og tölvuna eftir á fullu, öll ljós kveikt og Rúsínus Maximus í freestyle í chilli á sófanum. Sem betur fer slapp þetta fyrir horn og bæði sófinn og IKEA teppið stóðust nagskoðun við heimkomu.

Já og það sem gekk heldur ekki meistaralega vel er svefntíminn! Klukkan er 2:10 og ég ekki ennþá farin að sofa. Veit ekki hvernig snúsíð gengur í fyrramálið Kemur í ljós.
Óver and át!
19. júl. 2011

Harry og Hobie


Nýjasta Harry Potter myndin er bara alveg ágæt. Svolítið löng og dimm en ég kvaddi alveg sátt. Er ekki meðal hörðustu aðdáanda (á eftir að lesa eina bók og sjá tvær myndir) en langar samt að heimsækja Harry Potter skemmtigarðinn í Orlando. Var að skoða youtube myndband af fyrstu prufum leikaranna fyrir myndirnar og er fyrir löngu búin að gleyma hvernig ég sá karakterana fyrir mér áður en sagan var kvikmynduð.  Daniel Radcliffe er bara Harry Potter, þótt hann hafi svosem reynt að brjótast út úr því hlutverki með að vera allsber á hestbaki í leikriti fyrir nokkrum árum. Það gaf aðallega þeim sem skrifa erótískar sögur á netinu um Harry Potter byr undir báða vængi (ótrúlegt hversu margir virðast hafa það áhugamál).En semsagt. Myndbandið minnti mig á umræðu sem fór af stað eftir aðra eða þriðju myndina, um að það yrði kannski að finna nýja leikara þar sem krakkarnir eltust mun hraðar en myndirnar voru framleiddar. Hvernig hefði það nú allt saman verið? Sé það ekki fyrir mér. Maður kemur svosem í manns stað en ég hef ekki verið hrifin af því almennt þegar leikurum er skipt út. Ég er ekki ennþá búin að jafna mig á því þegar það kom nýr Hobie í Baywatch og var mjög sár yfir þegar allir gleymdu gamla Hobie og nýji Hobie varð frægur. Hobie 1, þú lifir í minningunni hjá mér! 


15. júl. 2011

Ferðablogg frá Ítalíu 2. hluti - Cinque Terre

1.     Þótt La Spezia veiti vissulega innblástur við skrifin er svo margt að sjá og skoða að það er líka truflandi. En það hlýtur að vera í lagi, við verðum jú að njóta umhverfisins líka er það ekki? Ólíkt veðurspám á Íslandi (og ég meina þetta alls ekki sem móðgun við Soffíu Sveinsdóttur) stenst veðurspáin hérna á Ítalíu nokkuð vel. Þegar það er spáð sól skín sól, þegar það er spáð rigningu  rignir og svo framvegis. Við skipuleggjum skoðunarferð á sólríkum mánudegi og ákveðum að fara til Le Cinque Terre, strandlengju sem við standa fimm gömul og falleg þorp með marglitum húsum sem raðast þétt utan í brattar fjallshlíðar. Á milli leynast fallegar víkur og gönguleiðir og allt svæðið er þjóðgarður, hluti af heimsminjaskrá Unesco. Það er hægt að ferðast á milli með lest, bát eða fótgangandi. Við ákveðum að heimsækja fjögur þorpanna og byrjum á Monterosso sem er fjærst La Spezia. Það er eina þorpið með baðströnd svo við notum tækifærið og böðum okkur í sólinni og sjónum (með sólarvörn að sjálfsögðu). Hópur ítalskra unglinga sólar sig við hliðina á okkur og við teljum okkur geta lesið gegnum líkamstjáningu þeirra hver er vinsælust, hver er skilinn útundan og hver er skotinn í hverjum. 


      Okkur finnst lítið að sjá í Monterosso fyrir utan ströndina og nokkur sítrónutré svo við ákveðum að taka lest í næsta þorp (seinna sjáum við loftmynd af Monterosso á póstkorti, höfum greinilega misst af miðbænum þar sem aðalfúttið er).  Á lestarstöðinni er fjölskylda að ræða málin á íslensku. Alltaf þurfa þessir Íslendingar að vera að þvælast eitthvað hnussum við, eins og við séum staddar í Örkinni hans Nóa og séum einu tveir leyfilegu fulltrúar okkar tegundar. Við flýtum okkur upp í næstu lest sem okkur að óvörum fer beinustu leið í bandvitlausa átt. Eftir óvænt stopp í Levorno komumst við loksins þangað sem ferðinni var ætlað, til Vernazza. Þorpið er fallegt og aðalgatan liggur inn í litla vík þar sem við leitum árangurslaust að bát sem okkur skilst að ferji fólk milli þorpa. Fleiri Íslendingar heilsa okkur kumpánlega í Vernazza og við losum okkur við Kristófer Kólumbus komplexana. 
      Knoll og Tott halda áfram skipulegri ferðaáætlun sinni og við tekur löng bið á lestarstöðinni þar sem við höfðum lesið vitlaust á tímatöfluna. Í Manarolo ákveðum við að borða kvöldmat á ægilega fínum og dýrum sjávarréttastað með útsýni yfir sjóinn og klettana. Humarpasta verður fyrir valinu en við fáum að vita að humarinn sé búinn svo við tökum leiðbeiningum þjónustustúlkunnar og pöntum okkur blandaða sjávarrétti fyrir tvo. Ég kann greinilega ekki nógu vel að meta þessa hlið ítalskrar matarmenningar. Í miðju disksins er heill fiskur af óþekktri tegund sem starir illilega á mig og inniheldur óteljandi ósýnileg bein sem klóra á mér hálsinn innan frá. Í kring er búið að raða ýmsum sjávardýrum, eitt þeirra er mögulega krabbi, frekar bragðgóður raunar, annað er smokkfiskur sem bragðast eins og strokleður. Það þriðja er lítill kolkrabbi sem minnir mig of mikið á leikfangaútgáfu af Úrsúlu, vondu nornina í litlu hafmeyjunni (Disney-útgáfu) til að ég geti hugsað mér að leggja mér hann/hana til munns. Einnig eru á disknum fjórir humrar með kjafti og klóm sem okkur þykir undarlegt að hafi ekki verið hægt að nota í humarpastað sem okkur langaði í. Ef til vill hefur þetta bara verið lygi,  kannski er offramboð af strokleðrum og Úrsúlum sem veitingastaðurinn beitir öllum brögðum til að reyna að pranga á gestina. 

     Við skoðum fólkið í kringum okkur og veltum því fyrir okkur hvort ungur maður og eldri kona á næsta borði séu mæðgin eða par. Hann er í ermalausum bol og teygir reglulega úr handleggjum sem eru girnilegri en allir sjávarréttirnir okkar til samans. Sólin er að setjast og sólsetrið ægifagurt og við frænkurnar ákveðum að ganga Via D‘ell Amore eða veg ástarinnar yfir í næsta bæ, Rio Maggiore. Vegur ástarinnar reynist hvorki órannsakanlegur né erfiður, þetta er létt tuttugu mínútna kvöldganga og mættu aðrir ástarvegir taka sér þennan til fyrirmyndar.


 Á leiðinni rifjum við Freyja upp góðar stundir úr bakpokaferðalaginu okkar fyrir áratug. Við erum eiginlega sammála um að slík ferðalög eigi maður helst að fara í ungur og vitlaus til að þora að taka áhættur og lenda í ævintýrum. Í dag erum við kræsnari á gististaði og hreinlætisaðstöðu og kannski ekki jafn saklausar og trúgjarnar (í síðustu ferð fannst okkur t.d. ekkert mál að ferðast með „niðursoðna ávexti“ í krukku milli landa fyrir ókunnugan mann).

Við rifjum upp ævintýri okkar í Slóveníu fyrir áratug. Þá var Guðrún vinkona okkar búin að slást í hópinn og það sem blasti við okkur í Ljubljana var frekar óspennandi, sérstaklega þar sem það var grenjandi rigning. Við leituðum skjóls undir þakskeggi, þar sat strákur með gítar og eins og allir vita verða strákar helmingi meira spennandi með hljóðfæri í hönd (ákveðin hljóðfæri reyndar undanskilin) Hann reyndist heita Goran og kynnti okkur fyrir Kristof vini sínum, þeir voru aðeins eldri en við og voru að læra arkitektúr og töldu okkur á að gefa Slóveníu séns. Daginn eftir var hætt að rigna. Við mæltum okkur mót og þeir keyrðu með okkur um sveitir Slóveníu, við fórum í hellaferð, á markað og syntum í vatninu Bled. Þeir kenndu okkur að syngja lagið sem Goran hafði verið að spila á gítarinn, og var reyndar eina lagið sem hann kunni að spila. Við gistum á endanum þrjár nætur í Slóveníu, þar af eina á gólfinu heima hjá strákunum. Tekið skal fram að það var ekki um neinn rómans að ræða á milli okkar og þeirra, þeir voru bara ótrúlega ljúfir, skemmtilegir og vinalegir strákar.

Við rifjum upp lagið sem þeir kenndu okkur og munum það ennþá. „Dekle moje pojdes menoj, dekle moje pojdes menoj, dol o breki vtisti beli o bleki....“ Lagið er víst um stúlku í hvítum kjól og í miðjum söngnum dettur okkur í hug að senda þeim Goran og Kristof sms. Ég er ennþá með númerin þeirra geymd í símanum mínum en óvíst að þeir séu með sömu númer. Við sendum að við séum að syngja lagið og hugsa til þeirra á 10 ára ferðaafmæli okkar. Vonbrigði gera vart við sig þegar við fáum ekkert svar en við erum komnar á áfangastað og það er orðið dimmt. Við deilum eftirrétti á veitingastað og klöppum ketti (sem virðist reyndar breytast í uppvakning þegar ég reyni að taka mynd af honum).


 Það eru fáir á ferli og við tökum næstu lest heim. Ég kíki á símann og sé að Kristof er búinn að svara! Hann er ánægður með sms-ið og ætlar að hitta Goran á morgun í bjór og skála fyrir okkur. Skilaboðin enda á textabroti, „segðu ekki nei segðu kannski kannski“ – við kenndum þeim jú lag á móti! Ótrúlegt að þeir muni það ennþá.

Líklega myndum við hugsa okkur tvisvar um núna áður en við færum upp í bíl og í ferðalag með ókunnugum karlmönnum. Við hikuðum ekki við það þá, en svona gerast ævintýrin, það er að hrökkva eða stökkva.


Þriðji og síðasti hluti ferðasögunnar er á leiðinni!