28. nóv. 2003

Var að koma úr skandinavísku partýi með Evu Heiðu sætu. Allir voðalega sænskir, ljóshærðir og laglegir og úr gallabuxum úr H&M.



Ég ætlaði alltaf annars að segja ykkur frá því þegar ég hitti næstum því Russell Crowe um daginn. Ég var svo nálægt því að hitta hann að ég ætla eiginlega bara að breyta sögunni þannig að ég hafi hitt hann. Það má alveg. Er það ekki? Hann var að mæta á frumsýningu á Leicester Square. Ég missti af honum labba á rauða teppinu - heyrði bara gelgjuvæl og sá blossa. Svo var mynd af honum varpað á stóran skjá fyrir utan þegar var verið að taka viðtal við hann. Þannig að hann var bara nokkrum metrum frá mér... inni í bíóinu sko... en ég sá hann á skjánum fyrir utan læv. Ergo, ég hef séð/hitt/talað við/kysst/sofið hjá (eftir því hverjum maður er að segja söguna) Russell Crowe. Eins og hann var í Gladiator sko. Þá var hann svona Brad Pitt sætur. Þannig að ég hef næstum því hitt Brad Pitt...

26. nóv. 2003

Kenndu mér varanlegar vísanir Tryggvi! (Vissuði annars að ef þið flettið upp orðinu ísskápur í Google er fyrst vísað á bloggið hans Tryggva?) og Maja sæta ég skal skrifa þér bréf...



Hörður Mar var eitthvað að efast um sannleiksgildi þess að ég hafi ofklætt mig á flugvellinum í Malmö. Ég sem var ekki einu sinni að ýkja. Hnuss. Freyja dýralæknir getur vottað það. Hún á einmitt sætasta hund í heimi. Fyrsti hundurinn sem mér hefur þótt sætur. Enda er ég ekki mjög hrifin af hundum. Þeir eru svo andfúlir. Nema Míó :)



Eigandinn og hasshausvinkonan ætla bæði að gista hérna í nótt. Ef hún étur dönsku kókosbollurnar mínar verð ég alveg brjáluð! Ég fæ kannski þvottavél í íbúðina en þá þarf ég að finna þvottavél sem er 59 sentimetrar (eins og gatið fyrir þvottavélina) en ekki 60+sentimetrar (eins og ALLAR þvottavélar í Englandi virðast vera). Spurning um að saga aðeins af ísskápnum.



Aðalmálið í Bretlandi núna eru fréttir af Soham réttarhöldunum yfir gæjanum sem er sakaður um að hafa myrt tvær 10 ára stelpur. Hann hefur viðurkennt að þær hafi látist á heimili hans og að hann hafi falið líkin en neitar að hafa myrt þær. Ég beið alltaf spennt (ef svo má að orði komast) eftir því hverju hann myndi halda fram. Veðjaði á geðveiki, klofinn persónuleika eða eitthvað svoleiðis. "Raddirnar í höfðinu á mér sögðu mér að gera það" eða þannig. Nei nei. Vörnin er sú að önnur hafi óvart drukknað í baði og hin hafi óvart kafnað. Af einhverjum ástæðum draga sérfræðingar þessa skýringu í efa...
Er ég komin í aðra vídd? Er ég á öðrum tíma en aðrir í heiminum? Ýmist fæ ég ekki tölvupóst, sms, talhólfsskilaboð eða þau virðast vera að berast nokkrum dögum of seint. Ég er vön að treysta á tæknina og í kjölfarið veit ég ekki hvað snýr upp og hvað niður. Skilaboðin "Ég kem á morgun kl. 2" bárust aaaaaðeins of seint þannig að eigandi íbúðarinnar kom óvænt og það var drasl út um aaaaallt (já ég veit, óhófleg notkun á "a" fer í taugarnar á þér).

25. nóv. 2003

Jæja þá er ég komin heim úr Kóngsins Kaupmannahöfn með stoppi í Malmö og Lundi, voða gaman. Skemmtileg helgi. Ótrúlegt en satt tókst mér að vera bara með eina tösku í handfarangri á leiðinni út sem var auðvelt og þægilegt. Hins vegar var aðeins skroppið á Strikið og töskugreyið átti erfitt með að bæta við sig, enda troðfull fyrir. Ég nennti alls ekki að standa í tékk-inn á leiðinni til baka þannig að mér kom snilldarráð í hug. Ég klæddi mig í öll fötin! Var í náttfötum innst, svo buxum og pilsi yfir, tveimur stuttermabolum, þunnri peysu, þykkri peysu, kápu, tvennum sokkum auk húfu, trefils og vettlinga. Sem betur fer var kalt úti þannig að þetta var ekkert allt of grunsamlegt. Tókst að komast gegnum tékk-innið þótt starfsmönnunum í security-tékkinu hafi líklega fundist hálfskrýtið að leita á mér... Svo beint inn á klósett (enda að kafna úr hita), dró upp stóran plastpoka og setti aukafatnaðinn þar í. Voilá!

20. nóv. 2003

P.s. Er að fara til Malmö/Köben eftir nokkra klukkutíma. Sjáumst eftir helgi! Kiss kiss...
Vúps... aðeins of fljót á mér með yfirlýsingar um að ekkert "spennandi" væri að gerast. Að minnsta kosti 27 látnir, þar á meðal breskur konsúll, í Istanbul eftir sjálfsmorðssprenginguna. Þetta er auðvitað aðalfréttin á Sky, BBC, ABC, jú neim it. Á meðan fer Mbl.is á kostum með aðalfrétt um að jólasveinar hafi sést í Stokkhólmi og séu óvenju snemma á ferð. Aðrar fréttir á forsíðunni á þessari stundu eru að Hafnfirðingar fari óþvegnir í háttinn (ekki heitt vatn), sárasótt sé í vexti í Bandaríkjunum og að sex hafi verið teknir fyrir hraðakstur á Ólafsvík. Það er rétt aðeins minnst á sprengitilræðið undir fyrirsögninni Erlendar fréttir og upplýsingarnar eru rangar/úreltar (14 látnir).



Ég er orðin pirruð á að mbl.is geti ekki haldið uppi almennilegum fréttavef :( Mér finnst vefurinn hafa dalað verulega - hann var nefnilega alveg helv. góður á tímabili.
Þrátt fyrir svakalegar öryggisráðstafanir og mótmæli er (sem betur fer) ekkert "spennandi" að gerast þannig að helst í fréttum í Bretlandi er hvað Bússi og Drollan fá í matinn. Já og svo fréttirnar af undercover blaðamanninum sem vann hjá kóngafólkinu í mánuð og komst að eigin sögn í aðstöðu til að eitra, sprengja, skjóta og ég veit ekki hvað og hvað. Öryggistékkið klikkaði greinilega eitthvað. Reyndar fylgdi sögunni að það hefði nú bara þurft að fletta nafninu hans upp í Google til að komast að því að hann væri blaðamaður. Að sleppa því að gúgla starfsmennina eru auðvitað grundvallarmistök.



Screening tæknin hefur einmitt þróast hjá okkur vinkonunum gegnum árin. Þegar ég var í grunnskóla var spurt: "Ertu búin að hringja í hann (og skella á)?" þegar við vorum skotnar í strák. Í menntaskóla var aðalmálið hvort við værum búnar að rúnta framhjá húsinu hans (og flýja áður en mamman hringdi á lögguna). Núna er auðvitað spurningin: "Ertu búin að gúgla hann?" Ég veit um dæmi þess að dreng hefur verið dömpað vegna gúglunar... ekki vegna óhagstæðra upplýsinga heldur vegna engra upplýsinga. Það þótti grunsamlegt. Við Íslendingar höfum það reyndar gott með Íslendingabók og Þjóðskrá. Alltaf gott að vita hverjir eru þriggja barna feður og náfrændur manns og hverjir ekki...
Er að horfa á þátt sem heitir Tarrant on TV sem er með alls konar skemmtilegar auglýsingar og annað efni alls staðar úr heiminum. Og sjá, það kom íslensk auglýsing! Tóbaksvarnarauglýsingin með Nóa Albínóa þar sem konan er að hrækja. Ég var ferlega ánægð. Hef mikinn áhuga á auglýsingum en finnst þær íslensku aldrei vera nógu spennandi miðað við þær erlendu. Þökk sé Stevie the TV fæ ég nú úglenskar auglýsingar á færibandi og skipti aldrei um stöð í auglýsingahléum...

19. nóv. 2003

Til hamingu með afmælið Trigger!
Í gær málaði ég, spaslaði og lagaði flísar á baðherberginu. Reyndar tókst mér líka að rífa stykki úr veggnum, það eru slettur á gólfinu, kraninn er laus (var að reyna að setja upp sturtu) og veggurinn er flekkóttur en þetta var góð byrjun...
Fór á msn í gær að hitta sis. Spjallaði við Sigga vin minn í leiðinni sem var með webcam. Hef aldrei séð svoleiðis áður og skemmti mér konunglega við að biðja hann um að lyfta höndum og svona... til að sanna að hann væri læv. Þetta var reyndar ferlega skrýtið... ég sá hann til dæmis skríða upp í rúm og hélt að ég hefði óvart beðið um læv sæbersex sjóv. Smá misskilningur...hann var bara að ná í teppi :)
Allt fullt af löggum með risabyssur í garðinum í dag. Ég hélt kannski að íkornarnir hefðu gert uppreisn. Þeir eru nefnilega fjölmennir og frekir hérna í Regents Park. En nei nei, þá er Bússi kallinn bara að koma í heimsókn.

18. nóv. 2003

Það hellirigndi í dag. Allir með regnhlíf nema Íslendingurinn og ein gömul kona sem hélt á billjardkjuða. Geri ráð fyrir að hún hafi verið farin að sjá illa og tekið hann í misgripum fyrir regnhlífina. Hún leit samt ekki út fyrir að spila billjard...
Ég keypti lítið gervijólatré og seríu í dag! Já, já... ég veit að það er nóvember en ég bý ein og það er svo hyggeligt (og var á helmingsafslætti...).

17. nóv. 2003

Uppáhaldsbíómyndin mín þessa stundina og kannski á þessu ári og kannski ever er Love Actually . Verst að ég hef ekki ennþá séð hana...

Það var uppselt á forsýninguna í kvöld þannig að það verður að bíða betri tíma. Vona að hún standi undir væntingum :)
Hobbitinn hélt þrusuræðu áður en hann fór um hættur London. Sérstaklega hafði hann áhyggjur af því að ég passaði mig ekki nógu vel á bílunum. Æ ég er nú farin að sakna hans pínulítið... sérstaklega saknaði ég hans fyrr í kvöld. Það var reyndar vegna þess að það tók mig hálftíma að ná lokinu af salsadollu en það er önnur saga. Reyndar er útlit fyrir að ég fái annan samleigjanda eftir nokkrar vikur en það er enn önnur saga. Ég hlakka mikið til :)



Bretarnir eru sumir að missa sig í jólaundirbúningnum. Ég labbaði framhjá "Jackson five" look-a-likes á Oxford Street í dag. Þar var einhver fjölskylda að syngja jólalög í karókí (og biðja um pening) sem er kannski allt í lagi nema hvað ég hef aldrei heyrt verri söng. Greyið krakkarnir enda örugglega komin með kvef af því að standa úti í kuldanum.



Mér finnst annars svolítið gott á þá að hafa tapað fótboltaleiknum fyrir Dönum í dag...



13. nóv. 2003

Brighton bloggið er að verða svolítið þreytt þannig að flutningur á klakann stendur yfir. Ég lofa blogghríð á nýja Bakarablogginu mínu...
Hæ hæ og hó hó og verið velkomin á Bakaragötubloggið (réttnefni er auðvitað næstum-því-á-Baker-Street-blogg en hitt hljómar bara miklu betur...). Nú ræð ég ríkjum og rækjum ein hér í Londonkastalanum mínum... moahahahaha.

Spennandi tímar framundan.

3. nóv. 2003

Ég held að ég sé ástfangin. Ég hef nefnilega eignast nýjan besta vin. Hann heitir Stevie og er draumur hverrar konu. Ég er að minnsta kosti búinn að þrá hann heitt og innilega í rúmlega ár. Ég sá hann í Woolworths í gær og það var ást við fyrstu sýn. Ég vissi að ég þyrfti að ná í hann strax því ég sá hvernig hinar konurnar í búðinni horfðu á hann. Og nú er hann minn! Verst hvað hann er mislyndur. Í morgun var hann til dæmis hundleiðinlegur (kannski er hann bara morgunfúll) en í gærkvöldi var hann frábær - áhugaverður, skemmtilegur og fyndinn. Ég horfði á hann aðdáunaraugum tímunum saman. Ég ætla samt að reyna að eyða ekki of miklum tíma með honum - svona til að fara hægt í sakirnar. En það gæti auðvitað orðið erfitt úr því að við búum saman. Bíð spennt eftir að sjá hvernig sambandið gangi. Ég veit samt að það á eftir að endast því Stevie skarar framúr flestum öðrum... hann er með innbyggðan DVD spilara :)