20. apr. 2004

Á leið út á flugvöll. Búin að pakka og finnst ég allt í einu hafa verið hérna svo lengi og svo stutt og veit ekki alveg hvort mig langar til að fara eða vera. Það er búið að vera frábært að hitta alla og líða eins og blómi í eggi á Tómasarhaganum. En nú er það London beibí!

16. apr. 2004

Ný klipping og gömul kisa (sjá mynd). Soldið öðruvísi en ég er vön en ég held samt að hún venjist vel (klippinging, kisan er búin að venjast). Takk Brynja og Ólöf fyrir að mæla með zoo.is p.s. þessi mynd er soldið stór, ég veit...gekk eitthvað illa að minnka hana. Svo er ég líka bara svo mikill egóisti... eins og flestir bloggarar, mitt blogg um mig frá mér til mín ;)



14. apr. 2004

Kíkti aðeins á keppendur í ísbjútíkeppninni. Þar er að finna Um mig dálka þar sem drottningarnar lýsa sér nær undartekningarlaust sem "hress, kát og brosmild". Svo eru þær með "if looks could kill/aumingja ég" svip á myndunum! Hvar er KEA skyr brosið stelpur?

13. apr. 2004

Mig dreymdi að ég hefði verið rekin úr vinnunni vegna þess að ég væri með svo asnalegt hár. Held að það sé kominn tími á að panta sér tíma í klippingu...



Rosa gott að vera orðinn ungi aftur í páskahreiðrinu hjá mömmu og pabba. Reyndar gilda reglur sem ég var búin að gleyma eins að það á ekki að borða súkkulaði í morgunmat :)



Fór í sund í dag og fannst svo gott að sleikja sólina í vatninu að mér fannst ömurleg tilhugsun að þurfa að fara aftur í land innisundlauganna. Kannski get ég farið með barnasundlaug í Regents Park í sumar.

Sakna Dr. Big. Hann liggur slasaður á ökkla á Baker Street :(



Búin að fara í stórkostleg fjölskylduboð, þar á meðal eitt a la Jamie Oliver/Oddur Albertsson í gær. Ræddi við frænda minn (6 ára) um framtíðaráform hans. Hann ætlar að vera dýratannfræðingur sem er ekki það sama og tannlæknir því hann ætlar líka að grafa upp tennur. Ef maður sjálfur væri með svona skýra stefnu í lífinu...

7. apr. 2004

Mætt á Íslandið og búin að opna Sálfræðistofu Sólrúnar. Það beið mín nefnilega þetta fína aukaherbergi með sófa sem er tilvalinn til Freudískrar meðferðarvinnu. Allir velkomnir í ókeypis tilfinningaútrás á sófanum til 20. apríl. Eða bara í heimsókn til að kjafta... :) Mig langar að hitta svo marga!



Lenti við hliðina á áströlskum krullhaus í flugvélinni sem sagði mér að Macdónalds á Íslandi væri dýrasti makki í heimi samkvæmt Lonely Planet. Bara svona smá fróðleiksmoli...



Horfði á fótbolta í sjónvarpinu með öðru auganu um daginn. Það stóð að liðin Lei og Lee væru að spila. "Nú nú, kínverskur bolti, eitthvað nýtt" hugsaði ég og færði hitt augað yfir á Stevie (the TV). Fannst samt skrýtið að leikmennirnir litu ekki út fyrir að vera kínverskir. "Eru þetta allt aðkeyptir leikmenn" hugsaði ég en var samt ánægð með að breska sjónvarpið væri með svona fjölþjóðlega íþróttadagskrá. Það er að segja þangað til að ég fattaði að þetta væri auðvitað leikur Leicester og Leeds...