26. apr. 2009

Blóð, sviti og tár

Það féll blóð, sviti og tár á kjördag, þó ekki vegna dramatískra kosningaúrslita. Svitinn féll í Kópavogslaug þar sem ég eyddi töluverðum tíma í sund og sól og kaus því með rjóðar kinnar og nýjar freknur. Ég var lengi inni í kjörklefanum enda búin að skipta nokkrum sinnum um skoðun á síðustu metrunum, en var vissari þegar ég labbaði út en inn. Blóðið var ekki mitt eigið heldur Rúsínusar sem kipptist við þegar ég var að reyna að klippa á honum klærnar svo ég klippti óvart aðeins of langt. Ég var að fríka út með hann í fanginu í blóðugu handklæði sem varð sífellt rauðara, á meðan var hann svo pollrólegur að ég hélt að honum væri að blæða út. En þetta jafnaði sig fljótlega sem betur fer. Tárin féllu síðan í dramatísku samtali við Útlendinginn sem hélt yfir mér langa ræðu um hvað Íslendingar hefðu verið vitlausir og veruleikafirrtir að taka erlend lán fyrir flottu jeppunum sínum og að þeir gætu bara sjálfum sér um kennt um þessi vandræði. Þetta er kannski einföldun á því sem hann sagði en það endaði að minnsta kosti því miður með því að ég missti stjórn á skapi mínu yfir þessum bresku besserwisser stælum. Þetta var nóta bene strax í kjölfar blóðbaðsins svo ég var þá þegar í uppnámi og endaði með því að öskra og grenja afar ómálefnalega í símann. Okkur tókst samt að verða sammála um að vera ósammála og ákváðum að þetta yrði ekki rætt í næstu viku þegar við hittumst.

21. apr. 2009

Endurfundir og erótíski nuddarinn

Um síðustu helgi var haldið reunion í mínum gamla unglingaskóla sem var á sínum tíma stærstur sinnar tegundar á landinu. Það er eiginlega undurfurðulegt að fara á svona endurfundi. Gaman að hitta skólafélagana, rifja upp gamlar sögur og heyra nýjar. Samt hálfpartinn eins og að vera kominn 15 ár aftur í tímann á skólaball, nema hvað allir unglingarnir eru fastir í ókunnugum fullorðnum líkömum. Allir svona passlega kjánalegir og vandræðalegir. Erfitt að ákveða hvort ætti að kinka kolli eða heilsast innilega.

Eins og í uppskrift að bandarískri unglingamynd hertóku aðalpæjurnar dansgólfið og nördarnir fengu uppreisn æru. Sumir höfðu ekkert breyst og kvörtuðu yfir að vera ennþá spurðir um skilríki, aðrir orðnir miðaldra fyrir aldur fram. Víða heyrðist hvíslað Hver er þetta? Ég náði með aðstoð að komast að því hverjir allir væru nema einn dularfullur svarthærður strákur í leðurjakka sem ég kannaðist bara ekki neitt við. Var búin að ganga á milli og reyna að hlera en enginn vissi hver þetta var. Komst að lokum að því að hann var bara alls ekkert í skólanum heldur var að sækja einhvern...

Svo var slúðrað - hverjir eru að vinna hvar, hverjir eru giftir, fráskildir, frægir, orðnir sköllóttir, búnir að fara í brjóstastækkun, óléttir, komnir með börn, komnir út úr skápnum og þaðan eftir götunum. Ég lenti í töluvert mikið af trúnóum þar sem fólk sagði mér ótrúlegustu hluti og fékk nokkrum sinnum að heyra Þetta hef ég engum sagt en... Hef reyndar mjög gaman af því að tala við fólk sem ég þekki um leyndarmálin í lífinu og tilverunni en hef takmarkaða þolinmæði fyrir að fara á trúnó með ókunnugu fólki utan vinnunnar. Svo finnst mér Hvað gerirðu afskaplega leiðinleg opnunarspurning, man eftir því hvað ég þoldi ekki að vera spurð að þessu þegar ég var atvinnulaus og ekki á þeim stað í lífinu sem ég vildi vera á.

Ég ákvað því að fíflast aðeins og segja við þá sem spurðu og sem ég þekkti lítið að ég starfaði sem erótískur nuddari. Sagði þetta ábyggilega við svona 10 manns, það var alveg ótrúlegt hvað fólk spurði lítið út í það og var fljótt að skipta um umræðuefni. Tveir spurðu reyndar í lágum hljóðum hvort það væri hægt að panta tíma. Bara einn sem áttaði sig á að þetta væri grín og sagðist sjálfur vera ljónatemjari. Tek það fram að ég leiðrétti þetta við viðmælendur að lokum :) Allt fór þetta samt vel fram þótt eitthvað hefði verið um uppgjör og tár eins og fylgir svona samkomum, þótt ekki hafi ég lent í því sjálf. Verður áhugavert að hitta sama fólk eftir eins og 10 ár eða svo...

19. apr. 2009

Fjarlægðin gerir fjöllin blá (og folana fagra)

Vegna þess mikla meðbyrs sem ég hef fundið fyrir meðal kjósenda heldur rauðu seríu bloggið áfram enn um sinn.

Ég hafði smá áhyggjur þegar ég heyrði ekki til baka frá skandínavíska doktornum og velti því fyrir mér hvort ég hefði virst of áhugasöm. Hugsanlega (ég sagði hugsanlega) var hægt að lesa það úr svarbréfi mínu að ég væri að bjóða honum gistingu og í fjölskyldumatarboð á páskadag. Sem væri allt í lagi ef ekki væri fyrir þá staðreynd að við höfðum ekki sést í sjö ár og aðeins átt í afar takmörkuðum rafrænum fésbókarsamskiptum síðustu ár.

En hann hafði samband að lokum og féllst á kynningu á næturlífi Reykjavíkur með nokkrum íslenskum yngismeyjum laugardaginn fyrir páska. Hann reyndist síðan jafnvel skemmtilegri (og myndarlegri) en mig minnti og við hittumst nokkrum sinnum í viðbót áður en hann hvarf af landi brott. Þótt hann hafi verið afskaplega indæll verður að hafa í huga að hann býr í landi sem er ekki einu sinni beint flug til frá KEF. Því tel ég óráðlegt að spá meira í hann sökum langrar og leiðinlegrar reynslu af fjarsamböndum.

Lenti einmitt á spjalli við kunningja um helgina um að hann væri ekki farinn að búa með kærustunni þrátt fyrir nokkurra ára samband. Hann býr á Seltjarnarnesi en hún í vesturbænum (í Reykjavík). Það er nú ekki svo slæmt sagði ég, stutt að fara á milli og svona. Já þetta gengi aldrei ef hún byggi til dæmis í Grafarvoginum sagði hann. Klárlega ekki að grínast. Ég varð frekar pirruð.

Þeir karlmenn sem ég hef hrifist af undanfarna mánuði hafa reyndar allir haft ákveðna galla sem er erfitt að líta framhjá. Kannski er ég bara svona vandlát, en það hefur truflað mig að þeir hafa ýmist verið a)Giftir b)Hrifnir af öðrum konum c)Samkynhneigðir d)Getulausir. Þannig að það er spurning hvort flokkurinn e)Búsettir erlendis til frambúðar sé nokkuð verri en hinir.

11. apr. 2009

Pólitík, erótík og tíkin sem skildi við Mel

Ég er í smá blogg-tilvistarkreppu sem felst í því að ég er í hálfgerðum mínus vegna lágmenningarlegs blogginnihalds. Hvert sem litið er eru bloggpennar að skrifa af eldmóð um efnahagsástandið, spillingu stjórnmálaflokka og Draumalandið. Þeir nýta tækifærið til að láta rödd sína heyrast og eru að leggja sitt af mörkum í þjóðfélagsumræðuna. Ekki það að ég hafi ekki skoðun á málinu, verð bara stundum svo þreytt á þessu öllu saman að ég horfi og hlusta helst ekki á fréttir nema þær tengist einhverju alls ótengdu pólitík eins og hvort Belgi í haldi lögreglu sé búinn að hafa hægðir eður ei. Heyrði t.d. samstarfskonu mína segja í hádeginu fyrir helgi Krónan er bara að hrynja. Ég hváði og varð mjög æst yfir þessum fréttum, spurði hvar hún hefði heyrt það. Ja, þetta er bara í öllum fréttum sagði hún undrandi. Tók mig smástund að átta mig á að hún var að meina íslensku krónuna í efnahagslegum skilningi. Ég hafði skilið það þannig að húsið sem hýsir nýju Krónuverslunina beint á móti vinnustaðnum væri að hrynja....

Aðrir bloggarar skrifa hámenningarlega leikhúsgagnrýni, girnileg erótísk matarblogg eða krúttlegar lýsingar á nýjustu afrekum erfingjanna. Ég sé ekki alveg fyrir mér að ég fari út í slíkar pælingar. Það glampaði á gullinbrúna flatbökusneiðina í örbylgjuofninum og olían draup af snarkandi pepperóníinu á meðan sneiðin snerist hring eftir hring...

Þannig að ég er bara að hugsa um að halda áfram að vera með plebbablogg enda unglingur í anda og barn í hjarta. Mun því enn um sinn blogga um ástir og örlög. Ég get til dæmis sagt ykkur að ég er niðurbrotin eftir að hafa lesið um skilnað Mel Gibsons við konuna sína til 28 ára (eiga 7 börn saman!). Hvar er ástin? Hvor er livet? Hvor er veskan mín!

6. apr. 2009

Vonbiðill og veislur, kristallar og knús

Held að fyrsta apríl "gabbið" mitt um norska lækninn hljóti bara að hafa verið fyrirboði. Að minnsta kosti fékk ég tölvupóst í dag frá afar myndarlegum, hávöxnum, ljóshærðum, skandínavískum doktor sem ég hef ekki hitt eða talað við í fjölda ára. Hann verður á Íslandi um páskana vegna vinnu og stakk upp á að við hittumst í drykk. Alltaf gaman að fá óvænta, skemmtilega tölvupósta :)

Annars leið helgin hratt, byrjaði á tónleikum á Nasa þar sem færeyski söngfuglinn þandi sína ótrúlegu rödd, þvílíkt vald og tækni. Hef ekkert hlustað á hana að ráði en líst vel á nýju plötuna sem hún var að kynna. Laugardagurinn hófst á ofur-flottri fermingarveislu á Hótel Borg og endaði í mögnuðu þrítugsafmæli sem skartaði meðal annars töframanni, trúbador og casinohorni. Sunnudagurinn var Kolaport og kaffihús með litlu systur en við lentum svo í skemmtilegri uppákomu á Austurvelli á leiðinni heim. Þar rákumst við á dásamlegan tvífara Línu langsokks á hjóli sem gaf okkur hvorri sinn kristallinn til "hreinsunar". Minn hefur reyndar ekki ennþá þrifið heima hjá mér sama hvað ég nöldra.

En já, Barnið og co komu semsagt til landsins og ég reyni að nota hvert tækifæri til að knúsa liðið, enda sé ég þau allt of sjaldan. Var svo þreytt í dag að fór í bað og svo beint í náttfötin fyrir kvöldmat. Langaði samt aðeins að hitta þau þannig að ég fór í heimsókn til þeirra (heim til ma og pa) og vann þar keppnina um hver sofnaði síðastur yfir myndinni Golden Compass. Var letidýr og fór semsagt í heimsókn á náttfötunum, sem eru græn silkináttföt nokkrum númerum of stór. Pabbi vildi ekki móðga mig svo spurði varlega hvort ég væri í einhverjum nýjum fötum. Sýndist hann vera feginn á svipinn þegar ég sagði honum að þetta væru náttföt en ekki nýjasta tískan.

Svo er það bara páskafrí eftir 40 klukkustundir...

2. apr. 2009

Afrískur arfur

Ég fékk bréf í dag gegnum fésbókina frá vestur-afrískum lögfræðingi nokkrum sem vildi endilega aðstoða mig við að innheimta arf. Hann sagði mér sorgarsögu af karlmanninum J. B. Lárusdóttur (sem hann taldi næsta víst að væri fjarskyldur ættingi minn þar sem við bærum sama eftirnafn) sem vann hjá Shell en dó ásamt konu sinni og einkadóttur í bílslysi í borginni Lome Togo. Íslenska sendiráðið í V-Afríku (?) neitar víst að aðstoða hann við að finna ættingja mannsins til að geta greitt út umræddan arf sem er riiiiisastór. Nú hefur aumingja lögfræðingurinn (hann James Desouza) leitað ættingjanna í þrjú ár og bankinn hótar að hirða peningana ef hann finnur ekki erfingjana strax! Hann ætlar þess vegna að segja bankanum að ég sé nánasti ættingi og láta mig fá peningana, hann kannski tekur eitthvað smá sjálfur. Þetta er víst allt löglegt og allt í lagi samkvæmt elsku James. Ég þarf bara að senda honum email með öllum upplýsingum um mig og svo verðum við í bandi. Stórkostlegt! Ég er að verða rík!

1. apr. 2009

Fréttir

Jæja góðir gestir.

Þá er víst tímabært að upplýsa ykkur um það að mér hefur boðist starf í Noregi og mun ég flytja þangað þegar nær dregur sumri. Ég hef fengið frábæra vinnu á heilsugæslunni í Tromsø og líst bara ótrúlega vel á þetta. Húsnæðismál eru að skýrast, líklegast fer ég að leigja hjá yfirlækninum en við höfum verið að spjalla saman á netinu síðan um áramótin. Þetta bar allt mjög skjótt að, samband okkar hefur verið að þróast smátt og smátt en í síðustu viku sprakk allt og konan hans fór frá honum. Þau voru því miður líka að vinna saman, hún er nú flutt til mömmu sinnar í Lillehammer og þetta er semsagt hennar starf sem ég er að fara í.

Djók. Ég gerði ekkert fyrsta apríl gabb enda með eindæmum lélegur lygari þótt mér finnist mjög gaman að prakkarast. Hló samt að ýmsu plati í fjölmiðlum. Langaði ótrúlega mikið til þess að gera eitthvað sniðugt en var alveg tóm, þrátt fyrir mikla umhugsun. Á Íslandi a.m.k. er líka málið að láta fólk hlaupa apríl en ekki bara að plata. Samstarfskona mín reyndi reyndar að stríða mér, hringdi í mig og bað mig um að koma niður til sín en þá var ég blaut í gegn af slabbi og sagðist ekki geta komið fyrr en skórnir og sokkarnir hefðu þornað á ofninum. Þannig að ég hljóp ekki neitt. Það eina sem ég lét gabbast af var frétt á sunnlenskum vef um að bæjarstjórinn væri að fara í námsleyfi. Við vorum nokkur sem fórum í panikk yfir því að hafa misst af starfsmannafundi eða ekki tekið nógu vel eftir, en svo reyndist þetta bara vera gabb. Þá fannst mér nú fréttin betri um skákeinvígi fyrrverandi og núverandi Seðlabankastjóra.

En... það kemur fyrsti apríl eftir þennan. Og kannski bara um að gera að byrja að skipuleggja grín næsta árs.