Tseins of plens, ég verð víst að vinna á meðan á Landsmótinu stendur þannig að ég kemst ekki í vikufríið mitt í borgina. Sorglegt en satt. Í staðinn tek ég rútuna í fyrramálið og býð nokkrum stúlkukindum í heimsókn annað kvöld. Ég er þó mjög fegin að þær eru talsvert líkari stúlkum en kindum og eru yndislegar og skemmtilegar í alla staði (
þið vitið hverjar þið eruð :)
Annars er furðulegt með þessar rútuferðir. Ég hringdi auðvitað fyrst niður á BSÍ og sagðist þurfa að komast með rútu í bæinn á fimmtudaginn, frá Varmahlíð.
Stelpan í símanum (SÍS): Haaa.... Varmahlíð... já bíddu...
Ég (SÓL): Já já (dúddelídú, dúddelídei)
SÍS: Hmm...... (kallar) Jóna hvar eru þessir bæklingar... ég finn engar áætlanir.
Löng þögn
SÍS: Heyrðu já það fer ein rúta klukkan sjö.
SÓL: Já já er það eina ferðin?
SÍS: Nei bíddu þetta er vetrarplanið
Löng þögn
SÍS: Það fer ein rúta klukkan 18:20
SÓL: Ertu viss um að það sé eina ferðin?
SÍS: Já...eða ég held það að minnsta kosti... ég finn ekkert annað
SÓL: Alltílagibleeeeesss
Mér fannst þetta frekar ósannfærandi upplýsingar þannig að ég hringdi í ferðaþjónustuna í Varmahlíð. Þar fékk ég samstundis þær upplýsingar að Norðurleið færi klukkan 10:50 og 18:20 og Suðurleið færi jafnframt klukkan 10:20 á fimmtudögum og væri þar að auki ódýrari. Ég stend því við þá fullyrðingu mína að Skagfirðingar eru dásamlegt fólk.
Ein saga til viðbótar svona fyrir háttinn. Ég þurfti að fara með bílinn í smurningu og afrekaði það að hringja á bílaverkstæði og panta tíma. Það var samt um það bil það eina sem bílaspassinn ég gat höndlað. Fyrir mér eru bílar bara bílar, ég get ekki sagt: "Nei sko þarna er bíllinn hans Jóns eða neitt slíkt" og ég gæti ekki bent á Volvo eða Bens eða hvaða bílategund sem er á stóru bílastæði þótt mér væri borgað fyrir það. Ekki nema auðvitað að ég fengi að skoða bílana. Bílar eru rauðir, bláir, grænir og svo framvegis og svo eru til jeppar og fólksbílar. Þetta olli mér smá vandræðum.
SÓL: Já..... ég ætlaði að koma með bíl í smurningu
Bílastrákur: Alveg sjálfsagt, hvernig bíll er þetta
SÓL: Hann er blár
Bílastrákur: (þögn)
SÓL (man skyndilega eftir að það stendur Toyota á bílnum) já þetta er svona Toyota
Bílastrákur: (þögn)
SÓL: svona lítill bíll
Bílastrákur: (þögn) já ég veit ekki alveg hvaða árgerð en hann er ekkert rosalega gamall
Bílastrákur: humm......hvert er númerið á bílnum
SÓL: (þögn)
Bílastrákur:(þögn)
SÓL: (kviknar á perunni) Það byrjar á N!
Bílastrákur: (gefst upp) Við segjum það þá, ég á tíma klukkan 10
SÓL: Alltílagibleeesss
Stuttu seinna fatta ég að ég er að fara með rútunni klukkan 10:20 og kemst þess vegna ekki með bílinn þá. Ég þurfti þess vegna að hringja aftur í Bílastrákinn.......