17. nóv. 2009

Draumar og dömubindi

Mig hefur alltaf langað til að verða rithöfundur hvíslaði ég aðfaranótt laugardags að vini mínum þar sem við sátum saman á löngu trúnói á köldum bekk hjá Hlemmi. Hann spurði hvort ég væri skúffuskáld og ég neyddist til að játa að þótt það væri vissulega eitthvað í skúffunum fengi ég helst útrás fyrir skrifþörfina á blogginu mínu. Hann viðurkenndi að hafa lesið umrætt blogg og ég hálfskammaðist mín fyrir opinberun rithöfundadraumanna enda bloggið ekki í ætt við þær fagurbókmenntir sem vinurinn er vanur að lesa. En mig hefur reyndar aldrei langað til að skrifa fagurbókmenntir eða vinna bókmenntaverðlaun. Hins vegar hefur mig lengi langað að skrifa sögur sem fá fólk til að brosa og gleyma sér stutta stund í grámyglu hverdagsins.

Það var síðan á sunnudaginn sem ég sá auglýst að Salka bókaútgáfa stæði fyrir chick-lit örsögukeppni. Chick-lit er enska orðið yfir léttar kvennabókmenntir á borð við Dagbók Bridget Jones og Draumaveröld kaupalkans. Reynt hefur verið að íslenska orðið sem skvísuskruddur sem mér þykir nokkuð vel heppnað. Að minnsta kosti skárra en dömubindi, sem er þó bráðfyndið. Þar sem ég hef lesið töluvert af skvísuskruddu afþreyingarbókmenntum þekki ég stílinn vel. Enda er bloggið svosem lítið annað en eitt stórt dömubindi. Maxi-pad.

Mig langaði að taka þátt en átti enga almennilega sögu sem ég var tilbúin að láta frá mér. Þetta hefur iðulega verið vandamálið, mig skortir kjarkinn til að láta skriftirnar líta dagsins ljós. Kannski óttinn við gagnrýni, að láta ókunnugt fólk dæma eitthvað sem maður hefur skrifað frá hjartanu. Ótti við að fá það blákalt í höfuðið að maður eigi að gefa rithöfundadraumana upp á bátinn. Þurfa svo kannski að fá sér nýjan draum.

En það greip mig eitthvað kæruleysi á mánudagsmorguninn á leið í vinnuna og ég hugsaði með mér að nú skyldi ég láta slag standa. Þótt efniviðurinn væri ekki í skúffunum þá væru margar sögur á blogginu sem gætu með smá lagni staðið sjálfar sem örsögur. Ég ákvað að borða hádegismat við tölvuna og skellti saman tveimur bloggum, breytti og bætti eins og tími var til en meginuppistaðan var sagan um Bónusferðina góðu sem ég skrifaði um í ágúst undir yfirskriftinni Draugur í Bónus sem dyggir lesendur muna eftir.

Eftir að hafa sent inn söguna á síðustu stundu fékk ég hnút í magann, ég átti eftir að fínpússa og laga og lesa yfir og þetta var bara alls ekki nógu gott. Varð þó að endingu bara ánægð með að hafa stokkið en ekki hrokkið. Fyrsta skrefið hlýtur að vera að taka þátt. Vera með þótt maður vinni ekki. Fékk póst frá Sölku með þökk fyrir þátttökuna. Þar stóð að það hefðu borist 20 frambærilegar sögur í keppnina og hefði verið úr vöndu að velja en það yrði hringt í vinningshafann von bráðar. Sendi bókaforlaginu póst og afsakaði hvað sagan mín væri hroðvirknislega unnin um leið og ég þakkaði fyrir frábært framtak.

Til að gera langa sögu stutta þá var mér tilkynnt klukkan 17 í dag að ég hefði unnið keppnina (vann þrjár bækur og 15 þúsund króna gjafabréf í íslenskri hönnunarlínu) og ég beðin um að lesa upp hluta sögunnar á Sölkukvöldi í Iðu. Sem betur fer var þetta stuttur fyrirvari því ég hafði varla tíma til að vera stressuð. Hljóp þó um íbúðina eins og hauslaus hæna með dúndrandi hjartslátt að leita að viðeigandi klæðnaði fyrir fyrsta upplesturinn. Því þetta er vonandi bara fyrsti af mörgum ;) Verðlaunin eru í það minnsta hvatning til þess að hætta að hugsa og fara að framkvæma. Þú verður ekki bakari ef þú býrð ekki til brauðið.

Formálinn varð aðeins lengri en hann átti að verða. En hér kemur chick-lit sagan mín. Ber kannski ekki titilinn örsaga með réttu en fellur þó innan skilgreiningarinnar. Alls ekki dagsönn en þó líklega meira satt en logið.

--------------------------------------------------------------------

Ég hef oft hugsað að ef ég byggi yfir einhvers konar yfirnáttúrulegum hæfileikum væri afar gagnlegt að geta stjórnað því hvenær maður rekst á fólk. Í borg á stærð við Reykjavík leynast draugar fortíðar víða og maður er í sífelldri hættu á að rekast á manneskjur sem maður óskar þess helst að byggju á hinum enda hnattarins. Gsm síminn hefur þó reynst mörgum bjargvættur eftir að hann kom til sögunnar enda mun auðveldara að þykjast vera niðursokkin í að senda sms heldur en að horfa út í loftið og þykjast ekki sjá viðkomandi. Til að vera aðeins kurteisari er hægt að bera símann upp að eyranu, þykjast vera í miðju mikilvægu símtali og rétt nikka og brosa. Þetta virkar vel að því gefnu að síminn hringi ekki rétt á meðan.

Að sama skapi er afskaplega tímafrekt að reyna að rekast á það fólk sem mann virkilega langar til að hitta án þess þó að vilja beinlínis stinga upp á stefnumóti. Eitt sumarið fór ég nánast daglega í ísbúðina á Hagamel í von um að rekast aftur á myndarlega manninn sem brosti svo fallega til mín eitt kvöldið. Það gekk ekki eftir en aftur á móti rákust um það bil fimm stykki aukakíló á mig. Að hringsóla fyrir utan heimili einhvers kostar síðan bæði tíma og eldsneyti og er sérlega óhentugt ef viðkomandi býr í botnlanga.

Nei, ég bý víst ekki yfir þeim yfirnáttúrlegu hæfileikum að geta stýrt því hvenær ég rekst á fólk. Því að þá hefði ég aldrei, aldrei valið að fara í Bónus í Grafarvogi þann 14. október síðastliðinn klukkan 16:32.

Þetta hefði ef til vill gengið betur ef ég hefði fengið smá fyrirvara. Ég hefði undirbúið mig undir hvað ég ætlaði að segja, í hverju ég ætlaði að vera og hvernig ég myndi haga mér. Ég hefði að sjálfsögðu verið óaðfinnanlega klædd, á háum hælum, með varalit og haft einungis lífrænt ræktaðar vörur í innkaupakörfunni. Í staðinn var ég á hlaupum, sveitt og þreytt í lopapeysu og joggingbuxum og verst af öllu Crocs skóm sem ég viðurkenni að ég nota í vinnunni en bara af því að þeir eru svo óskaplega þægilegir. Ég ætlaði jú bara rétt að skjótast inn í Bónus.

Þess vegna langaði mig mest til að hverfa ofan í jörðina þegar ég fann kunnuleg kaffibrún augu stara á mig í mjólkurkælinum. Augu sem ég leit síðast í fyrir fimmtán árum síðan, á fyrsta ári í menntó. Ennþá jafn sætur. Húðflúrið á sínum stað. Ég fann gamalkunnug fiðrildi blaka vængjunum neðarlega í maganum. Það var of seint að þykjast taka upp símann og ég sannfærði sjálfa mig á örskotstundu að fiðrildin væru garnagaul og að ég væri að rekast á gamlan vin, ekkert meira.

Við heilsuðumst innilega og þegar ég kom nær honum sá ég að hann var ekki einn, heldur var hann með lifandi eftirmynd sína meðferðis, lítinn brúneygðan snáða á að giska tveggja ára. Ég sá líka að hann var með hring á fingri og andvarpaði lágt. Skimaði í kring eftir konunni hans en hún var hvergi sjáanleg. Við spjölluðum aðeins kurteislega í þessum hvað er að frétta af þér dúr eins og venja er. Á meðan hann talaði reyndi ég að bjarga því sem bjargað varð. Fálmaði í handtöskunni eftir glossi, reyndi að henda nokkrum skyrdollum yfir 1944 kjötbollurnar mínar og laumaði súkkulaðistykki varlega upp úr körfunni og stakk því undir kotasæludollu á næstu hillu.

En þú, hvað segirðu enginn maður og engin börn? ...Hvernig stendur á því? spurði hann glottandi og af einhverjum óútskýranlegum ástæðum áttaði ég mig ekki á því að þetta var ein af þessum spurningum sem þarf ekki að svara.

Tja… það er góð spurning svaraði ég, sem var í sjálfu sér ágætis svar við asnalegri spurningu.

Hann horfði samt ennþá á mig spyrjandi og mér fannst ég þurfa að að réttlæta það af hverju ég hefði ekki enn uppfyllt kröfu samfélagsins um að finna mér lífsförunaut og búa til nýta þjóðfélagsþegna. Svona ef ske kynni að hann héldi að ég væri svo gölluð að það vildi mig enginn. Og þá hófst alveg skelfilegt samtal þar sem sá hluti heilans sem var enn að starfa eðlilega öskraði á mig að halda kjafti en ég hélt samt áfram að sökkva dýpra og tala og tala og tala...

Já sko ég var í sambandi mjög lengi með útlendingi... (hér kom löng útlistun á síðasta sambandi mínu) ... og já svo hættum við saman og ég bara hef ekki kynnst neinum almennilegum síðan. Þarna hefði verið gott tækifæri til að láta staðar numið og skynsemisröddin reyndi að tjá mér að þetta kæmi manninum ekkert við. En ég hlustaði ekki á skynsemina þar ég var of upptekin af því að hugsa um hvað það væri langt síðan að ég hefði átt kærasta og hvort að það væri rétt sem þær segja í Beðmál í borginni að það taki helming þess tíma sem samband stendur yfir að jafna sig á því.

Jahá sagði hann og horfði undarlega á mig, sem ég skildi þannig að þetta hefði ekki verið sannfærandi útskýring á makaleysinu.

Eða þú veist ég hitti alveg almennilega menn auðvitað, þeir eru bara oftast giftir. Á þessum tímapunkti var skynsemisröddin orðin mjög hávær - HÆTTU AÐ TALA!

Aha sagði hann og mér datt í hug að hann héldi kannski að ég væri að reyna við sig þar sem hann virtist vera giftur. Fannst ég þurfa að útskýra að ég væri ekki á höttunum eftir mönnum annarra kvenna og væri ekkert sérstaklega þurfi svona almennt.

En sko það er samt alveg margt í gangi, ég meina ég fór heim með manni síðustu helgi! Skynsemisröddin var þarna farin að kjökra af örvæntingu.

Það kom vandræðaleg þögn og aumingja maðurinn virtist ekki vita hvort hann ætti að skellihlæja eða taka til fótanna. Litli snáðinn missti snuðið sitt í gólfið og hljóðið rauf þögnina. Um leið virtist fyrir eitthvað kraftaverk rofa til í höfðinu á mér og óp skynseminnar náði í gegn.

Heyrðu mér er orðið svo kalt tautaði ég, sem honum hefur líklega þótt ólíklegt þar sem ég var vel dúðuð í lopapeysunni með trefil og vettlinga að auki. Ég kvaddi með handabandi og gekk hröðum skrefum út úr mjólkurkælinum, greip súkkulaðistykkið undan kotasæludollunni og henti því aftur ofan í körfuna.

Ég þarf víst að finna mér nýja Bónusverslun.

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

HAHAHAHA ég er í kasti, þetta er bráðfyndin saga, ég ekki hissa á að þú hafir unnið!!

Til hamingju elsku frænka og haltu þessum skrifum endilega áfram! Ég vil fá bók eftir þig í jólagjöf jólin 2010!

knús, Fríða

Nafnlaus sagði...

ávallt skemmtileg hef beðið síðan í fyrsta blogginu að þú kæmir með eitthvað svona. glæsilegt hjá þér til hamingju..


kv þessi rosa stóri

Anna Pála sagði...

FRÁBÆRT! Til hamingju! En sniðug keppni og hrikalega skemmtileg sagan þín!

Nafnlaus sagði...

hahahah.... bjargaðir deginum :)
Takk fyrir að vera til <3

Þóra Marteins sagði...

Snilld. Til hamingju sæta :D

Ólöf sagði...

Bara snilld eins og þú :)

Siggan sagði...

Flott saga eins og þín er von og vísa. Knús frá Siggu liggu lá

Brynja sagði...

Þú ert svo mikill snillingur! Til hamingju með að hafa látið slag standa og með verðskulduð verðlaun. Ég hlakka til að lesa meira :-)
Knús og kossar frá London

Nafnlaus sagði...

Ótrúlega ánægð með þig (eins og alltaf í sjálfu sér!). Hlakka til að sjá hvernig þetta þróast :)

kv,
Hildur

Eydís sagði...

Til hamingju!! Þetta er gaman að heyra! Ég segi eins og aðrir hér, þú átt þetta svo sannarlega skilið.

Og skrifin þín fá mig yfirleitt (ef ekki alltaf...) til að brosa og gleyma mér í grámyglu hversdagsins!

Sólrún sagði...

Takk takk takk elsku besta yndislega fólk! Væri samt alveg til í að fá nafn á fallegu nafnlausu kommentin... hey þessi rosa stóri... ertu kannski skyldur mér? :)