8. jún. 2011

Ferðablogg frá Ítalíu 1. hluti

Mig langar að skrá niður minningar úr þessari langþráðu Ítalíuferð sem núna stendur yfir. Þess vegna geri ég tímabundið hlé á blogghléinu fyrir ferðablogg. Finnst það betra en að reyna að koma með hnyttna og hnitmiðaðaða feisbúkkstatusa í gríð og erg sem ég finn síðan ekki þegar á að rifja upp hvað gerðist eiginlega í þessari ferð. Því maður er jú svo fljótur að gleyma. Sem betur fer stundum, en það er önnur saga.
---------------------

Ferðinni er heitið í Liguria hérað á norðvesturströnd Ítalíu (svona rétt fyrir neðan hné) til bæjarins La Spezia (íbúafjöldi: 100 þúsund). Það eru tíu ár síðan ég kom síðast (og þá í fyrsta sinn) til Ítalíu og er með sama ferðafélaga, Freyju frænku og vinkonu. Enda er ferðin meðal annars í tilefni þess að tíu ár eru liðin frá bakpokaferðalagi okkar sem byrjaði einmitt á tveggja vikna reisu um Ítalíu.  En í þetta sinn ætlum við ekki að ferðast, við ætlum að skrifa „metsölubækurnar“ okkar, fóðra rithöfundadrauminn sem við göngum báðar með í maganum eins og svo margir Íslendingar. Fyrst og fremst finnst okkur báðum gaman að skrifa þótt hugðarefnin séu ólík og við sjáum fyrir okkur að það sé margfalt skemmtilegra og veiti betri innblástur að sitja við skriftir á ítölskum kaffihúsum en íslenskum.

Okkur langar frekar að vera í litlum bæ en í stórborg, við gúglum og finnum passlega stúdíóíbúð í bæ sem við höfum aldrei heyrt um. Stökkvum á það að bóka og borga vikugistingu en áttum okkur síðan á að það verður hægara sagt en gert að komast á áfangastað. Þetta byrjar álíka óskipulega og síðasta ferðalag en það er allt í lagi. Við fljúgum til Köben og gistum þar í nokkra daga, ég hjá (frábæru og fullkomnu ef þið skylduð ekki vita það) systur minni og hún hjá bróður sínum (og frænda mínum, sem er auðvitað líka frábær). Við eigum yndislega daga í sól og sumaryl og ég knúsa uppáhalds systkinabörnin mín út í eitt. Á Kastrupflugvelli  á leið til Mílanó höfum við góðan tíma og ég hneykslast á fólki sem missir af flugvélinni eftir að það er búið að tékka sig inn. Síðan förum við að vitlausu flughliði og missum næstum sjálfar af flugvélinni. Gott á mig.

Við förum við með rútu á lestarstöðina og síðan tekur við þriggja tíma lestarferð til La Spezia. Í Mílanó eru allir sem við tölum við frekar áhugalausir eða dónalegir, sérstaklega þeir sem vinna við einhvers konar þjónustustörf, við upplýsingagjöf eða í miðasölu.  Mig langar að ræða við þá um kulnun í starfi en ítölskukunnátta mín nær ekki lengra en ciao og grazie Það sama gerist í La Spezia en eftir að ég læri að byrja samtöl á scusi, non parlo italiano verður þetta skárra.

Stúdíóíbúðin okkar er á 8. hæð og hægt að velja um 17x 15 tröppur eða pínulitla lyftu sem höktir og hristist með tilheyrandi kæfandi innilokunarkennd.  Besta lausnin er að taka lyftuna upp en stigann niður.  Þótt íbúðin sé lítil er hún björt með hreinu baðherbergi – alltaf plús. Verst að ég kemst ekki að því hvernig á að stilla heita vatnið á sturtunni fyrr en eftir tvær kaldar sturtur. Það sem gerir íbúðina stórkostlegri en nokkuð hótel eru svalirnar sem eru að minnsta kosti þrisvar sinnum stærri en íbúðin, og þá eru litlu svalirnar út frá baðherberginu ekki meðtaldar!  Á svölunum eru plöntur, borð, stólar og sólhlíf og það er útsýni í allar áttir. Við sjáum skógi vaxnar fjallshlíðar með litríkum húsaþyrpingum,  ítalskar ömmur að hengja þvott út á snúru og það glittir í sjávarsýn.

Túristaskrifstofan er lokuð þegar við komum til La Spezia, við erum ekki með kort og við erum ekki með nettengingu í íbúðina (eins og var reyndar lofað) þannig að við þorum ekki að fara of langt frá nýja heimili okkar fyrsta kvöldið. Beint á móti blokkinni okkar er ferðaskrifstofa og svo snyrtivörubúð á horninu en við finnum hvergi matvörubúð. Við álpumst inn á pizzastað en skiljum ekki matseðilinn. Pöntum eitthvað með pepperoni og skiljum ekkert í því af hverju við fáum grænmetispizzu en það er of flókið að reyna að ræða það við afgreiðslufólkið. Pizzan er samt ótrúlega ljúffeng og meðan við sporðrennum henni munum við allt í einu eftir að hafa lent í því sama fyrir tíu árum síðan... peperoni þýðir paprika á ítölsku og pepperoni er salame. Ég kaupi mér ítalsk-enska orðabók hið snarasta og með hana í farteskinu auk leikrænna tilburða og lélegrar spænsku í bland tekst okkur að gera okkur skiljanlegar á flestum stöðum.

Daginn eftir förum við á túristaskrifstofuna og uppgötvum í leiðinni gamla miðbæinn með sætum göngugötum, litlum kaffihúsum og krúttlegum búðum. Upplýsingafulltrúinn minnir mig óþægilega mikið á strákinn sem ég var allt of skotin í síðasta sumar. Hann lætur okkur hafa kort og merkir inn á það matvörubúð sem við finnum eftir nokkra leit. Við erum nýbyrjaðar að tína til ávexti í körfuna þegar við erum reknar að kassanum, það er siesta og búðin að loka. Á kassanum tínir afgreiðslukonan ávextina úr körfunni hneyksluð og hristir höfuðið, við vorum ekki búnar að vigta þá og nú er enginn tími. Við erum þreyttar og svekktar á að hafa gengið alla þessa leið til nær einskis og löbbum frekar lúpulegar til baka. Seinna um kvöldið sitjum við á svölunum og lesum betur leiðbeiningarnar sem Elisabetta, leigusalinn okkar skildi eftir handa okkur. „The supermarket in front of the house is cheap...“ Það kemur í ljós að ferðaskrifstofan beint á móti er alls ekki ferðaskrifstofa heldur frekar stór matvörubúð. Eiginlega er það alveg ótrúlegt hvernig þetta gat farið framhjá okkur en frekar dæmigert fyrir okkur frænkurnar sem misstum af bæði spænsku tröppunum og sixtínsku kappellunni í Róm fyrir 10 árum.

Freyja fær bit og ég blöðrur en að öðru leyti er lífið yndislegt. Allt sem við smökkum er fáránlega gott á bragðið, kaffið, brauðið,ávextirnir, ostarnir og svo framvegis. Maturinn er myndaður í bak og fyrir sem er nokkuð sem ég hef aldrei gert áður á ferðalagi.  Við kaupum hræódýr hvítvínsglös á markaði og hvítvín sem er bruggað í héraðinu og Freyja eldar heimsins besta pasta með fersku pestó, hráskinku og nýrifnum parmesan osti. Við drekkum kaffi, förum á trúnó og skrifum langt fram á kvöld með hnetur og ólífur í skál en vöknum samt alltaf frekar snemma og fáum okkur jógúrt, múslí og fersk ber á svölunum. Hamingjan er hér.

Meira von bráðar... 

4 ummæli:

Aldís Rún sagði...

Frábært, sendi þér öfundsknús elsku systir. Hlakka til að sjá mynd af "ferðaskrifstofunni"...hehe:)

Anna Pála sagði...

En bara sjúklega skemmtilegt!! Síðasti párrafo-inn er uppáhaldið mitt og matarmyndir eru að sjálfsögðu algjört möst! Engin alvöru ferð er heldur án misskilnings eða ruglings, það er einfaldlega skylda :)

Nafnlaus sagði...

Ég mæli með Cinque Terre.

SÞM

Nafnlaus sagði...

Ooooohhh hvað þetta hlýtur að hafa verið yndislegt. Sammála síðasta ræðumanni, alveg nauðsynlegt að setja inn matarmyndirnar.
Fríða Frænka