24. jún. 2010

Afmæli XXX

Þeir sem þekkja mig vita að ég elska afmæli. Öll afmæli og ekki síst mitt eigið, ég meina hvað er stórkostlegra en að hafa heilan dag þar sem fólk óskar þér til hamingju bara fyrir að vera til! Vinir koma í heimsókn, kaka, pakkar og blöðrur... what's not to like?

Þótt ég fagni þessum degi árlega var ég sérstaklega búin að hlakka til dagsins í dag þar sem það er stórafmæli og þeim hef ég ávallt (tvisvar áður) fagnað með húllumhæi. Er búin að fagna og fylgjast með meirihluta vina og kunningja ná þessum áfanga á undanförnum árum og loksins er röðin komin að mér.

Það kom mér þess vegna að óvörum þegar ég fór að verða pínulítið blúsuð þegar þrítugsafmælið nálgaðist. Gat samt ekki sett fingur á hvers vegna. Velti því fyrir mér hvort það sé af því að einkahagir mínir séu ekki þeir sem ég spáði fyrir um fyrir tíu árum síðan. Fór í kokteilboð í fyrradag þar sem kona á sjötugsaldri sem ég kannast við spurði hvort ég ætti mann og börn. Nei, svaraði ég glaðlega og ég sá að hún varð hissa. Já já, það er líka allt í lagi sagði hún. En hún sagði þetta nú samt eins og það væri bara alls ekkert í lagi. Ég forðaði mér úr boðinu og velti því fyrir mér hvort ég væri eitthvað að misskilja, hvort það væri ekki í góðu lagi að vera einhleyp og barnlaus "komin á þennan aldur" . Því vissulega var þetta á to-do listanum fyrir þrítugt. Ásamt ýmsu öðru sem hefur ekki gengið eftir eins og að kaupa íbúð, skrifa bók og hefja doktorsnám. En ýmislegt annað hef ég þó afrekað, bæði sem var á to-do listanum og því sem var alls ekki á to-do listanum - og það seinna var eiginlega miklu áhugaverðara og ánægjulegra :)

Held þó að þrítugsblúsinn sé miklu meira tengdur einhverjum Peter-Pan fantasíum (nei ekki kynferðislegum!), að langa ekki til að verða stór. Og þegar maður er þrítugur, kominn á fertugsaldur þá hlýtur maður opinberlega að vera orðinn fullorðinn. Andvarp. Þegar ég velti þessu fyrir mér þá man ég óljóst eftir mjög svipaðri pælingu og tilfinningu í kringum tvítugsafmælið mitt. Ég var ekki lengur táningur, ég var fullorðin. En viti menn, mér hefur ekki fundist ég vera sérstaklega fullorðin síðustu tíu árin. Og finnst ég ekkert sérstaklega breytt í dag.

Vinur minn benti mér á um daginn að tæknilega hæfist ekki næsti áratugur lífs míns fyrr en ég væri orðin 31, alveg eins og nýtt árþúsund hófst ekki fyrr en um áramótin 2000/2001 samkvæmt pabba stærðfræðingi og öðrum fróðum mönnum. Þetta ár er því ákveðið limbó. Ég hef ákveðið að dokúmentera (hvað er fallegt íslenskt orð yfir það? skrásetja?) þetta ár vel og vandlega. Stefnan er að blogga eitthvað daglega næsta árið. Það kemur þá í ljós hvort ég fullorðnist (ég gæti til dæmis lært að prjóna eins og allir virðast kunna þessa dagana) eða hverfi aftur til táningsáranna (ég gæti til dæmis látið húðflúra á mér eyrað eins og Miley Cyrus).

Þetta verður ekki lengra að sinni, enda þarf ég að undirbúa sjóræningjaveislu og er ekki enn búin að finna mér páfagauk til að hafa á öxlinni.

Til hamingju ég! Megi næsta ár verða örlagaríkt og ævintýralegt - þá er svo miklu skemmtilegra að blogga :)

6 ummæli:

Anna Pála sagði...

Velkomin aftur á bloggið kæra Sól á fertugsaldri!

Þessa frænku og aðra sem eru að setja fólk í kategóríur skalt þú ignorera algjörlega!

Síðan sem kona með reynslu :) skal ég upplýsa þig um það að konur in their thirties eru mikið sjálfsöruggari, láta ekki vaða yfir sig (nema algjörlega þeim að óvörum), gera það sem ÞÆR vilja en ekki aðrir (foreldar, kærastar etc.) og VITA hvað þær vilja og þekkja sjálfa sig skrilljón sinnum betur því þær hafa lært af mistökum tvítugsárannna! Og það besta er: þær eru útaf þessu öllu hundrað sinnum meira sexí :)

knús sætamús, aps sem ætti kannski að semja sjálfshjálparbók fyrir konur á fertugsaldrinum :)

Anna Pála sagði...

JÆKS! Vil endilega koma á framfæri að þetta var vel marinerað komment þar sem ég var nýkomin heim úr fertugsafmæli (það er einmitt smá aldurs súrrealískt að vera búin að fara í fjögur svoleiðis á árinu:)

Úff Best að athuga hvort maður hafi nokkuð bloggað eða bullað eitthvað á fb :/

Fer samt alls ekki ofan af því að thirties eru betri en twenties, en þá er ég eiginlega bara að tala um 20-25 þegar maður (a.m.k. ég) var ennþá smávegis fljótfær, óörugg og svolítið impúlsívur vitleysingur ennþá.

Svo máttu búast við fleiri svona skemmtilegum afskiptasemisathugasemdum hjá fólki þegar þú hefur hitt "manninn" eins og "jæja, á ekki bara að fara að ganga uppað altarinu bráðum, ha?", "er ekki bara tími til kominn að fara að skella í eitt lítið?" og fleira og fleira. Er voða viðkvæm fyrir svona ókurteisri afskiptasemi og varð alveg strax reið þegar las þetta frænkukomment í blogginu þínu.

Hef líka heyrt dæmi um svona svipaða athugasemd og þína, sem endaði svona "Jiiiii og þú svona myndarleg og frambærileg stúlka!?!" Magnað :)

Hei og núna er ég búin að skrifa heilt blogg í kommentakerfið þitt! Voðaleg tjáningarþörf er þetta!

Valla sagði...

Vuhú! Ég fylgist spennt með skrifum þínum enda ertu verðlauna höfundur, ekki gleyma því :)

Nafnlaus sagði...

Frábært að þú ert komin aftur á skrið í bloggheiminum. Núna get ég notið síðunnar þinnar í stað þess að nota hana sem gátt inn á aðrar síður ;)

Til hamingju með daginn aftur!

kv,
Hildur R.

SOL sagði...

Anna Pála maríneraðar athugasemdir eru bestar ;) og já takk þetta var frekar pirrandi komment en maður á svosem ekki að láta það á sig fá. Á mikið af fabúlöss vinkonum in their thirties svo er alveg óhrædd við fertugsaldurinn (sem mér finnst ljótt orð, þrátt fyrir að finnast 40 heldur ekkert skelfilegur aldur miðað við allar helstu Hollywood skvísurnar sem eru orðnar 40+).

Og takk Valla, ég myndi samt ekki búast við verðlaunaskrifum á blogginu ;) þetta verður ekki mjög útpælt ef ég ætla að skrifa daglega!

Takk líka Hildur, ég er búin að vera í svo langri pásu að mér finnst eiginlega bara gott að hugsa mér að það séu bara örfáir sem muni ramba inn á síðuna, þá get ég verið óhefluð í skrifunum ;)

Þóra Marteins sagði...

VEI:D:D:D:D:D Daglegt blogg í heilt ár. Þú ert stórkostleg :-*