26. jún. 2010

Líffæra-lambada

Hjartað, heilinn, maginn og munnurinn eru fjögur skemmtileg líffæri sem búa saman inni í mér, en síður en svo í sátt og samlyndi. Svo virðist sem litla (eða stóra, eftir því hvernig á það er litið) hjartað mitt sé með gullfiskaminni. Þrátt fyrir hjartasorgir, grát og gnístran tanna er hjartað ótrúlega fljótt að gleyma því að það eru nokkrir menn á bannlista. Heilinn er aftur á móti mun minnugri (skiljanlega) og minnir hjartað reglulega á að A, B og C séu á bannlistanum af góðum ástæðum. Heilinn bendir hjartanu jafnframt á skynsamlegri kosti eins og X, Y og Z. Hjartað spyr magann þá ráða og þar sem X, Y og Z vekja ekki upp neinn magafiðring segir hjartað yfirleitt nei, sökum fyrri reynslu af mönnum sem vekja ekki upp téðan fiðring. Munnurinn greyið er viljalaust verkfæri sem fær misvísandi skilaboð og endar yfirleitt á því að segja (eða stundum sem verra er, kyssa) eitthvað út í bláinn við ranga menn á röngum tíma.

Um daginn hitti ég mann sem var efstur á bannlista og búinn að vera þar um nokkurt skeið. Hafði ekki hitt hann lengi og var búin að hugsa fram og til baka hvað ég ætlaði að segja ef ég myndi rekast á hann. En viti menn, hjartað tók kipp, maginn fór í arabastökk, heilinn fékk engu ráðið og ég endaði á því að stama út úr mér einhverri vitleysu sem var mjög langt frá því að vera kúl á því (reyndi seinna að bæta kúl-missinn upp með því að standa við hlið hans við barinn og þykjast ekki þekkja hann, mæli ekki með því).

Ég hitti hann nokkrum sinnum eftir þetta og þóttist ekki sjá viðvörunarljósin, sírenurnar og stopp-merkin sem aumingja heilinn reyndi að veifa fyrir framan nefið á mér. Maginn og munnurinn voru í góðu partýi og engin ástæða til að binda endi á það. Sem betur fer tókst að þessu sinni að koma í veg fyrir að hjartað dytti fram af bjargbrún án fallhlífar en það hruflaði sig samt aðeins eftir þessa törn. Hef ekki hitt hann í svolítinn tíma núna en á vafalaust eftir að rekast á hann fyrr eða síðar aftur og þá þarf ég helst að vera undirbúin.

Að þessu sinni er ég með sálfræðilega hernaðaráætlun, svokallaða óbeitarskilyrðingu. Ég þarf að reyna að tengja hann við eitthvað slæmt, og þá meina ég líkamlega slæmt, eitthvað sem veldur ógleði til dæmis. Ef ég get fengið magann í lið með mér er stríðið unnið. Veit um vinkonu sem gerði þetta með góðum árangri - hún ímyndaði sér afar sterkt að gæinn sem hún var að reyna að hætta að vera hrifin af væri illa lyktandi og finnur núna alltaf pissulykt þegar hann er nálægt!

Mikið vildi ég samt óska að það væri fleira í lífinu sem er bæði skemmtilegt og gott fyrir mann, hvort sem það er smjör og rjómi eða sætir strákar.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

úff...ég fékk nú eiginlega bara í magann við hugsunina um pissulyktina en það er kannski ágætis leið til að koma sér í "réttan" hugsunargang

kv,
Hildur

SOL sagði...

Já svo fékk ég góðar uppástungur til viðbótar í kjölfar bloggsins. Pissulyktin er kannski extreme en bara, whatever works!