Ferðafélagarnir voru ekki af verri endanum og þar sem ég var sjálfskipaður skemmtanastjóri styttum við okkur stundir á leiðinni með því að hlusta á '90s tónlist og fara í spurningaleiki. Ég pissaði síðan næstum (næstum!) í mig af hlátri þegar við keyrðum inn í Hvalfjarðargöngin og bílstjórinn fór að panikka yfir að sjá ekki neitt út af því það væri svo dimmt... þar til það heyrðist úr framsætinu Taktu af þér sólgleraugun! Annars var planið að segja Hveragerði? með bjöguðum hreim við lúguna þar sem maður borgar fyrir göngin en í staðinn sögðum við Three tickets please sem afgreiðslukonunni fannst ekki fyndið.
Þegar við komum í Stykkishólm fórum við beint í siglingu um Breiðafjörðinn sem var ótrúlega skemmtileg, yndislegt veður og skipstjórinn (ung kona) var með þýðustu rödd í manna minnum og sagði okkur frá eyjunum í kring og fuglalífinu og svona. Við komum að máli við hana eftir siglinguna og sögðum henni í fúlustu alvöru að hún ætti að spá í að lesa inn á hugleiðsluteip sem aukadjobb og skildum ekkert í því að hún virtist ekki taka okkur alvarlega. En þetta var í alvörunni mögnuð rödd og við heyrðum fleiri gesti tala um hana.
Í miðri siglingu var síðan ýmis konar sjávarfang skrapað upp af botninum og okkur leyft að smakka! Ferskara gerist það nú ekki. Svo gat maður keypt hvítvín með svona til að marinera þetta smá. Ég smakkaði flest það sem var í boði held ég, hörpuskel, krabbahrogn og ígulker sem á víst að vera kynörvandi að sögn eins starfsmannsins. Umræddum starfsmanni var reyndar mikið í mun að reyna að ota þessu "Viagra náttúrunnar" að okkur og sagði að við hefðum gott af þessu, veit ekki hvort honum fannst við svona pipraðar eða hvort hann hafi haldið að við yrðum óðar í hann á stundinni.
Seinni hluti ferðasögunnar er væntanlegur!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli