Það var fullt af túristum í Stykkishólmi og öll borð á veitingastaðnum sem við ætluðum á voru fullbókuð. Ekki einu sinni hægt að bíða - það þurfti að vera búinn að panta fyrirfrarm! Svo við fórum á hinn staðinn, Fimm fiska, sem var bara fínn. Skemmtum okkur konunglega við það að veðja um aldurinn á sæta en afar unglega þjóninum okkar (ég vann - hann var 19!) og pæla í tæplega sextugu fólkinu á næsta borði sem virkaði mjög ólíklegt par (fengum hugljómun seinna að sennilega væru þau systkini).
Færðum okkur síðan aftur yfir á hinn veitingastaðinn sem var nú meira í kaffihúsafíling og opið frameftir. Hittum rafvirkja frá Seattle sem bað þjónustustúlkuna um borð með þremur fallegum konum, mjög smooth eða þannig. Hann heillaðist af einni vinkonunni og var mikið að dást að tanngarði hennar og hári þar til við bentum honum á að þetta væri ekki hrossasýning. Spjölluðum aðeins við hann en báðum hann svo vinsamlegast um að leyfa okkur að kjafta í friði. Hann var ágætur samt greyið. Við rákumst síðan aftur á hann fyrir algjöra tilviljun í Hljómskálagarðinum á útitónleikum með Hjálmum þremur dögum seinna!!!
En þótt rafvirkinn hafi ekki vakið neinar kenndir lyftist heldur betur á okkur brúnin þegar við sáum hvorki fleiri né færri en sex myndarlega menn á nálægu borði! Töldum okkur aldeilis hafa dottið í lukkupottinn þar. Heyrðum að þarna voru Þjóðverjar á ferð og vorum rétt að byrja að slípa þýskukunnáttuna því þeir virkuðu eitthvað svo hlýlegir og skemmtilegir og innilegir - þegar við áttuðum okkur á því að þarna voru þrjú pör á ferðinni. Gat verið.
Ég varð allt í einu mjög upptekin af því að hafa ekki komið með bók meðferðis (veit ekki hvenær ég ætlaði að hafa tíma til að lesa) svo ég skundaði á einu bensínstöðina rétt áður en stelpurnar lögðu af stað aftur á farfuglaheimilið og náttstaðinn. Var svolitla stund en náði rétt fyrir lokun að kaupa mér kilju, eitthvað svona ekta nordisk krimi. Á bakaleiðinni ákvað ég að stytta mér leið en lenti í ógöngum þar sem það voru engir stígar þar sem ég hélt að væru stígar og ég var farin að klífa eitthvað moldarflagð milli húsa fyrr en varði. Leist ekkert á blikuna og gekk í smá hring - hver villist í Stykkishólmi?! Var orðin ísköld þegar ég loksins kom á farfuglaheimilið en var hissa á því að herbergið væri læst. Ég heyrði í þeim fyrir innan og bankaði en þær svöruðu ekki og tóku bara í húninn innanfrá án þess að opna. Eftir smástund og bank var mér farið að finnast þetta frekar lélegur brandari, hélt fyrst að þær væru að hátta eða eitthvað, en var nánast farin að velta fyrir mér hvort þetta væri eitthvað kvikindislegt eðli sem ég hefði ekki kynnst áður! Síðan datt mér í hug hvort þær héldu kannski að ég væri einhver ókunnugur eða hvort þær héldu að rafvirkinn væri búinn að elta þær uppi. Stelpur hleypið mér inn, þetta er ekkert fyndið! Þetta er ÉG! gjammaði ég og vakti eflaust einhverja aðra gesti, enda mjög hljóðbært í húsinu. Ákvað að hringja í þær - og sá þá loksins sms-ið Erum enn á kaffihúsinu. Það hafði ekki einu sinni hvarflað að mér! Raddirnar sem ég heyrði voru úr næsta herbergi og vindurinn hafði verið að toga í hurðina gegnum opinn gluggann...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli