Þetta byrjaði ágætlega en voooðalega verður maður fljótt andstuttur að labba svona upp í móti ef maður er í lélegu formi. Þurfti endalaust að vera að stoppa, við fórum lengri leiðina sem er ekki jafn brött og vorum mjög lengi á leiðinni - tíminn verður ekki gefinn upp! Ég hélt svo oft að við værum meira en hálfnuð þegar við vorum það bara alls ekki! Eiginlega var bara eins gott að við vissum ekki hvað við vorum komin stutt, því við hefðum kannski ekki nennt alla leið upp annars - við vorum jú alltaf alveg að komast. Ég var samt ekki alveg tilbúin að viðurkenna hvað formið var lélegt svo stoppin voru nú af misgóðum ástæðum - þurfti ansi oft að stoppa til að laga skóna, bæta við plástri, fara í og úr peysu /vettlingum, fá mér vatn og svo framvegis. Held nú að pabbi greyið hafi séð í gegnum þessar afsakanir en hann var voða góður og beið eftir mér, blés ekki úr nös eins og þetta væri bara smá kvöldganga á Ægissíðunni.
Þótt veðrið væri yndislegt var aðeins kaldara en ég hélt eftir því sem ofar dró og ég var fegin að hafa komið með handprjónaða eyrnabandið sem ég keypti í Stykkishólmi (og ætla að þykjast hafa prjónað sjálf - ekki kjafta!). Það voru ótrúlega margir á ferðinni og ég hitti meðal annars gamlan skólafélaga sem var að ég held á deiti. Veit einmitt um nokkra sem hafa gert þetta, gengið Esjuna á deiti en eins rómantískt og frumlegt og það hljómar held ég að þetta sé ekki fyrir mig. Varð eldrauð (og þá meina ég ekki fallega rjóð) í kinnum, sveitt og másandi og blásandi og hefði ekki getað haldið uppi samræðum svo vel ætti að vera. En hver veit að með betra formi (þótt kringlótt sé vissulega fallegt form) og nokkrum fjallgöngum í viðbót geti ég húkkað einhvern með mér á Esjudeit í framtíðinni.
Hef reyndar lengi vitað að það sé hægt að hitta sæta stráka á Esjunni, sé fyrir mér að það gæti gefist vel að vera með límonaðistand við Esjurætur og selja girnilegum göngugörpunum drykk til styrktar góðu málefni.
Þegar við vorum alveg að komast upp á Þverfellshorn og ég orðin ansi lúin hélt ég að ég væri farin að sjá ofsjónir. Mætti nefnilega ægifögru íslensku stórstirni (eða smástirni, fer svona eftir hvern þú spyrð) sem sagði skælbrosandi góðan daginn og gott ef við snertumst ekki örskamma stund meðan hann fikraði sig framhjá mér. Ég fékk að sjálfsögðu aukinn kraft við þetta og viti menn, á toppnum var enn eitt kjútípæið sem tók mynd af okkur feðginunum. Báðir þessir folar voru einir á ferð og greinlega bara að skreppa þetta svona bara sér til heilsubótar. Mjög hvetjandi að hafa þá þarna og mæli með því fyrir fólk í makaleit að gera Esjugöngur að reglulegum viðburði (það gæti samt verið að ég héldi mig bara við límonaðistandinn...).
Fannst síðan ekkert mál að fara niður og var bara nokkuð fljót, bætti aðeins upp fyrir hvað það voru rosalega margir sem fóru framúr okkur með því að fara fram úr nokkrum (börnum og gamalmennum). Það er skemmst frá því að segja að ég fékk ekki eina einustu blöðru, bara pínulítinn vott af hælsæri öðru meginn sem lagaðist á nóinu. Daginn eftir gekk ég hins vegar berfætt í sætum sumarsandölum hálfan dag og fékk tvær stórar vökvafylltar blöðrur á báða fætur. Gat verið!
Er í sjálfu sér fegin núna að hafa bara farið þetta á mínum hraða og getað notið útsýnisins og ferðalagsins, var eki að sprengja mig og leið aldrei mjög illa eða langaði að hætta við. Eða svo ég vitni lagið með pínulítið óþolandi krúttbombunni Miley Cyrus:
Ain’t about how fast I get there
Ain’t about what’s waiting on the other side
It’s the climb