Ég var búin að ákveða það fyrir löngu að ég ætlaði að þrífa bílinn í sumarfríinu. Það átti upphaflega að vera fyrsta verk á dagskrá en svo bara... dróst það og ég ákvað að bíða eftir að andinn kæmi yfir mig. Og viti menn – það gerðist einn daginn, þegar ég var að keyra heim úr fjölskylduboði í blíðskaparveðri að ég fékk óstjórnlega þörf til að þrífa bílinn. Dreif mig á næstu bensínstöð og byrjaði að ryksuga og spúla. Var í sparifötunum, pilsi og sandölum en það þýddi ekki að fást um það, þegar hin sjaldséða þrifnaðarþrá lætur á sér kræla er best að nota tækifærið. Nema hvað að það varð fljótt ljóst að vatn eitt og sér var ekki að duga á uppsafnað ryklag á bílnum. Svo ég ákvað að nota bílasápu og svamp og tók til við að nudda bílinn hátt og lágt. Fannst ég einstaklega ósexý og skil ekki alveg hvað það er sem kemur karlmönnum til við að horfa á stelpur á sundfötum þrífa bíla. En jæja, allt kom fyrir ekki svo ég endaði með því að kaupa extra sterkan tjöruhreinsi og þá fór eitthvað að rofa til. Voilá, eftir tæplega tveggja tíma vinnu varð bíllinn kannski ekki alveg hreinn en það sást samt töluverður munur. Hann var að minnsta kosti ekki lengur skítugur!
Daginn eftir fór ég að hitta vinkonu mína í hádeginu og keyrði í vinnuna til hennar. Hún þekkir bílaþrifsraunir mínar svo ég var ægilega glöð og stolt og um leið og hún labbaði út um dyrnar á vinnustaðnum kallaði ég til hennar Sjáðu bílinn, sjáðu bílinn og lét hana koma og dást að afreki mínu (sem hún gerði möglunarlaust, enda frábær vinkona),
Nei nei, hún var bara að þrífa hann sagði vinkonan. Samstarfskona hennar umlaði eitthvað og brosti vorkunnarlega, hefur líklega haldið að ég væri eitthvað tæp í þroska enda bíllinn ekki tandurhreinn, fullur af drasli og ég skælbrosandi að dást að bílnum. En mér er alveg sama, næst stefni ég á að bóna bílinn og þá verður kátt í höllinni!
2 ummæli:
Farðu með bílinn í Löður (svona tæki sem þrífur bílinn og þú situr inn í bílnum á meðan. Tekur 5 mínútur). Það geri ég alltaf :-)
Eða bara koma í heimsókn til okkar og nota allar græjurnar í bílskúrnum. :)
Skrifa ummæli