11. júl. 2010

Desert

Um leið og ég frétti að besta/versta súkkulaðikakan væri komin aftur í bakaríið byrjaði garnagaulið. Þú verður að fá þér eina sneið... Svona eins og þegar Karíus og Baktus kölluðu Við viljum franskbrauð á aumingja Jens.

Ég vissi fyrir að þrátt fyrir girnilegt útlit og einstakt bragð væri þessi kaloríubomba sérstaklega slæm fyrir mig. Fyrir utan það hún var dýr og ég átti ekki fyrir henni. Ég var búin að eyða vikum saman í að reyna að sannfæra mig (að því að ég taldi með góðum árangri) um að þessi kaka væri ekkert sérstök og var raunar farin að líta hafraklattana girndaraugum. En það skipti engum togum, um leið og kökuna bar fyrir sjónir varð ég að fá hana og gleypti hana alla í mig á nóinu. Þegar síðasti bitinn hafði runnið ljúflega niður runnu á mig tvær grímur. Kakan var þung í maga en innihaldslausar kaloríurnar gátu ekki seðjað hið raunverulega hungur. Auk þess truflaði það mig að geta ekki namminammast að vild, ég var svo mikið að passa mig að kakan vissi ekki hvað mér þætti hún dásamleg. Líklega var kökunni þó sama á hvorn veginn sem var, því kökur eiga sér sjaldnast uppáhalds kaupanda þótt kaupendur eigi sér uppáhalds kökur. Stóð því uppi með tómt veski og ennþá svöng.

P.s. Mögulega er þetta blogg ekki um súkkulaðikökur.
P.p.s. Vonandi lesa engar súkkulaðikökur þetta blogg.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

;)

kv,
Hildur

Nafnlaus sagði...

Hahaha... já, helv súkkulaðikökurnar. Nautn meðan á því stendur en skilja lítið eftir nema feitan rass og samviskubit :)

Knús og kossar
Soffía

Anna Pála sagði...

Þetta er hugsanlega flottasta myndlíking EVER!

Áður en ég las endinn var ég samt orðin rosa spennt og ætlaði að fara að spyrja hvernig súkkulaðikaka þetta væri eiginlega og í hvaða bakaríi maður gæti keypt hana :)

Anna Pála sagði...

..já eða myndhverfing. Rétt skal vera rétt :)