Andstætt við litlu systur var ég sjálf aldrei í sveit á sumrin. Mér fannst alveg gaman að skoða kusurnar og klappa lömbunum og skoða traktorana og svona. En ég vildi helst sofa út, lesa gamlar bækur, leika mér í hlöðunni og rölta niður að Hópi frekar en að vera á hlaupum hingað og þangað í einhverju aksjón.
Þess vegna kom það öllum að óvörum að ég skyldi, eins og mamma orðaði það, sýna góða takta í sveitinni á ferðalagi fjölskyldunnar. Þegar við fórum að skoða heimalninga kom í ljós að eitt lambið vantaði og fannst það eftir nokkra leit ofan í skurði. Ég hugsaði mig ekki tvisvar um heldur stökk ofan í skurðinn og tók við að leiða villuráfandi sauðinn meðfram skurðinum og upp á jafnsléttu. Litli mórauði hrúturinn var svo máttfarinn að ég þurfti að bera hann síðasta spölinn sem hann launaði mér með því að kúka fagurgrænni drullu á nýju Cintamani peysuna mína.
Ég held svei mér þá að við þessa björgunartilraun hafi ég óverdósað á íslenska sveitaloftinu og fengið of mikið súrefni upp í heila. Ég var alveg komin á það að ég ætlaði að flytja upp í sveit og gerast bóndi, nú eða bara bóndafrú. Ég horfði einu sinni á nokkra þætti af danska raunveruleikaþættinum Bóndi leitar brúðar, svona deiting þátt þar sem stúlkur með sveitadrauma keppa um hylli myndarlegra en einmana bænda. Það er synd að það sé ekki til nein íslensk bóndadeiting síða, því það er nefnilega til dönsk svoleiðis! Spurning um að skrá sig bara þar? Örugglega ekkert verra að moka flór á Fjóni en Fáskrúðsfirði.
1 ummæli:
hahaha....já hugmyndin um bóndafrúna er mjög rómantísk. Ekki viss um að sú ímynd haldist þó þegar það er kúkað á þig í hverri viku :)
En annars er þetta kannski atvinnutækifæri fyrir þig Sólrún, að setja upp svona síðu? Þú sálfræðimenntuð gætir farið um sveitir landsins og tekið stöðuna á næstum því hverjum bæ og svo svo komið þeim á netið fyrir borgardömurnar. Það væri meira að segja hægt að gera raunveruleikaþátt um þessa ferð þína (svona eins og um Hamborgarafabríkuna). Íslenska þjóðin myndi gráta úr sér augun þegar þú kæmist að geymdum leyndarmálum í sveitinni sem hömluðu sveitadrengjum að taka þátt og fagna þegar þeir hittu draumadísina úr borginni.
Þetta er þó allt bundið við að myndarlegu drengirnir búi ekki á því 7% landsvæði Íslands sem ekki er nettengt.
kv,
Hildur
Skrifa ummæli