3. júl. 2010

Þriðja hjólið

Ég þekki talsvert af skemmtilegum pörum og finnst langoftast ekkert mál að vera ein að hitta par eða pör, góðu fólki fylgja góðar stundir. Fæ afar sjaldan þessa smug marrieds tilfinningu sem Bridget Jones talar um. Það er helst að þriðja hjóls tilfinningin geri vart við sig þegar maður er einn með tveimur einstaklingum sem eru í tilhugalífinu - nýbyrjuð að deita, langar til að deita eða voru einu sinni að deita. Í slíkum aðstæðum skiptir tímasetningin öllu máli og helst þarf að vera búið að koma sér saman um boðleiðir ef það er búið að ákveða fyrirfram að þú sért á vængnum. Það þarf að skilja "parið" eftir eitt hæfilega lengi og láta sig hverfa á hárréttum tíma. Til dæmis getur vinkona spurt vængvinkonu hvað er klukkan sem er þá merki um að hún megi/eigi að fara, sbr. vængmanneskjan svarar Heyrðu hún er orðin 3, ja hérna ég verð að fara að drífa mig ég þarf að vakna svo snemma. 

Fór út að hitta gamla vinkonu í gær og komst að því að hún er nýbyrjuð að vinna með strák sem ég var aðeins að skoða eitt sumarið fyrir nokkrum árum. Ekkert alvarlegt og í dag er gagnkvæmt áhugaleysi okkar á milli en ég þekki hann ágætlega og fannst upplagt að koma þeim saman! Svo við tvær hittumst og hittum svo vininn/vinnufélagann og þá vandaðist málið enda var ég ekki búin að segja þeim alveg frá þessari fyrirætlan minni og því engar boðsendingar ákveðnar. Ég hélt mig til baka og þagði meðan þau bonduðu yfir vinnunni en þekkti engan annan á staðnum svo þetta kom frekar asnalega út og þau fóru að hafa áhyggjur af því að mér leiddist. Gat ekki farið strax svo ég tók nokkrar óþarfa klósettferðir og skrapp skyndilega út ein til að taka smá rölt á nærliggjandi staði. Á tímabili leit þetta reyndar illa út þar sem vinkonan var komin í hörkusamræður við einhvern annan áhugaverðan en hún kom þó aftur að lokum og ég gat tekið geisp-takk-bless pakkann og skilið þau eftir tvö í lok kvöldsins. Veit reyndar ekkert hvernig það endaði en sé að ég þarf að æfa væng-taktíkina. 

Er samt orðin töluvert betri heldur en á unglingsárunum þegar samantekin ráð vinkvenna voru órjúfanlegur hluti þess að næla sér í strák. Man þegar bestu vinkonu minni var boðið í bíó en hún vildi ekki fara ein. Tek fram að við vorum mjög ungar! Við ákváðum að hún myndi mæta í bíóið og hitta strákinn og svo kæmi ég aðeins seinna og hitti þau "fyrir tilviljun" í bíóinu. Jæja, hún fer inn og ég bíð fyrir utan. Fannst ég vera búin að bíða heila eilífð þegar ég fór inn á eftir en þá voru þau ennþá aftast í röðinni að fara að kaupa sér miða! Svo úr varð afar vandræðalegur nei hæ þú hér! leikþáttur þar sem hún kynnti mig sem bestu vinkonu sína sem var svo akkúrat að fara EIN í bíó á nákvæmlega sömu mynd... Endaði með því að sitja í röðinni fyrir aftan þau en beint á milli þeirra og ég man að við deildum öll saman poppi sem hann hafði komið með heimapoppað í poka. 

Sama vinkona varð nokkrum árum seinna skotin í strák sem var frekar óframfærinn og hana var farið að lengja eftir fyrsta kossinum. Eftir að hafa kynnt okkur málið í þaula með að lesa unglingaglansblöð ákváðum við að þau þyrftu að vera ein saman uppi í rúmi í myrkvuðu herbergi. Til að það gæti orðið bauð ég honum að koma og horfa á vídjó með okkur eitt kvöldið heima hjá mér. Vídjótækið var frammi í stofu en ég gat notað snúru til að tengja það við fermingarsjónvarpið í herberginu mínu. Hann kom og ég eyddi megninu af kvöldinu frammi að "laga vídjóið". Ég þurfti nefnilega að halda inni einhverjum takka á vídjóinu til að myndin hristist ekki...

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hvað er það ekki ágæt leið til að leyfa þeim að vera ein inn í svefnherbergi? ..."heyrðu ég ætla að fara aðeins fram að halda inni takkanum - þið bíðið bara"

kv,
Hildur

SOL sagði...

Jú jú, þetta var fín leið og virkaði vel að mig minnir :) veit samt ekki hversu trúlegt þetta var að ég þyrfti að vera frammi og halda inni takkanum. Hef stundum lent í því að cover-sögurnar hafa ekki verið alveg nógu sannfærandi sko.