30. apr. 2002

Ahhh...... þá er ég komin í vinnuna og búin að ná úr mér leiðindunum sem hafa einkennt síðastliðinn mánuð. Þess vegna hef ég ekkert bloggað sjáiði til. Ég mun hafa þjáðst af post-Salamanca-depressive disorder og þrátt fyrir að hafa verið í "fríi" í tæpan mánuð afkastaði ég svo sem afar litlu. En koma tímar og koma ráð. Margt gleðilegt hefur gerst að undanförnu. Fyrst byrjaði ég að vinna sem spyrill á Félagsvísindastofnun á kvöldin sem var bara ágætt og kynntist meira að segja skemmtilegu fólki sem ég gat bætt inn í símaskránna í símanum mínum..... þið vitið það að símaskráin er mælikvarði á vinsældir og hér með upplýsist að ég er með nákvæmlega 175 símanúmer í minninu á gemsanum. Það að ég þekki ekki sum nöfnin lengur og hringi ekki í nema um 10% númerana skiptir að sjálfsögðu ekki máli :) Smá útúrdúr..... anyway, ég byrjaði semsagt að vinna og sjá, skyndilega var mér boðin tímabundin vinna á mínum gamla vinnustað, Barnaverndarstofu. Þar sé ég um undirbúning ársskýrslugerðar og er aftur komin með kúl skrifstofu og bunka af möppum sem ég veit ekki alveg hvað ég á að gera við. Ég er barasta búin að sakna þess að vera hérna og þar að auki hittist svo vel á að það er árshátíð í kvöld, gaman gaman. Ég er sumsé ekki lengur atvinnulaus og er þar að auki komin með vinnu í sumar á meðferðarheimilinu Háholti í Skagafirði. Allir í sveitaferð til mín í sumar :) Svo er ég búin að fá inngöngu í 3 skóla, er enn að bíða eftir svari frá einum en held samt að ég sé næstum því búin að ákveða mig.... allt stefnir í það að ég sé að fara í nám í Brighton sem er víst afar skemmtileg borg, í University of Sussex. Námið heitir MSc in Human-Centred Computer Systems, HCCS, ógeeeðslega kúl þannig að það er glaumur og gleði og fullt af stærðfræðiforritun sem ég kann ekki næsta vetur. Ólöf og Ásdís eru vinsamlegast beðnar um að taka mig í fjarkennslu í sumar. Fyrir utan þessar gleðifréttir hef ég verið að rækta líkama og sál fyrir andlegt jafnvægi þar sem skapsveiflur mínar ganga stundum úr hófi fram..... í gær fór ég í skvass og á eftir er það jóga með Jóhönnu skutlu, svo er ég búin að lesa Önnu í Grænuhlíðarbækurnar aftur og er núna að lesa afar heimspekilega bók sem ég man ekki hvað heitir. Líkami minn er hins vegar ekki vanur því að ég hreyfi á mér rassgatið þannig að hann bregst við eins og í hungursneyð og hefur kallað á fæðu á fimm mínútna fresti í allan dag. Ég ætla að svara þessu neyðarkalli núna.

3. apr. 2002

Jæja, þá er maður víst kominn heim, *snökt* í kuldann og þunglyndið.... nei bara smá.... :) Flugvélin fór ekki af stað fyrr en klukkan 17:30 á endanum og ég var orðin stjörf eftir 40 tíma vöku þegar ég fór loksins að sofa. Síðan tóku við gleðidagar af súkkulaðiáti og rúmlegu um páskana. Stórskemmtilegt. Ég fann þó ískyggilega fyrir því að ég er að verða gömul........ ekki nóg með það að það var BRÚÐARSTRYMPA á páskaegginu mínu heldur fékk ég tvo skemmtilega málshætti: Betur draga tveir fuglar til hreiðurs en einn og Barnalán er betra en fé. Skuggaleg tilviljun. Geisp.... ég held að ég sé samt ennþá þreytt. Get ekki skrifað meira í bili.