18. nóv. 2008

Andsetinn sími

Ég á við þann vanda að stríða að eiga erfitt með að henda hlutum, hvort sem það eru gamlir bíómiðar, símanúmer eða ritgerðir. Það hefur aðeins vantað í síuna hjá mér og þessir „minjagripir“ eru auðvitað yfirleitt ekkert nema drasl. Fékk að kenna á því þarsíðustu helgi eftir að síminn minn marineraðist óvænt í pepsi-max um daginn og ég prófaði í símaleysis neyð minni fjóra gamla síma sem ég fann heima hjá mér – enginn af þeim virkaði. Öllu verra voru öll gömlu símanúmerin sem ég hef ekki hent út úr símanum síðastliðin 10 ár. Síminn hefur nefnilega eftir baðið verið haldinn illum öndum og takkarnir á lyklaborðinu virka ekki rétt. Afturábak þýðir áfram og þar fram eftir götunum, nema hvað þetta er frekar breytilegt. Ég reyndi alla nóttina að fá símann til að virka en ekkert gekk og síminn gerði lítið annað en að fletta upp í símaskránni sama hvaða takka ég notaði. Nema hvað þegar ég reyndi svo að komast út úr skjámyndinni hringdi síminn alltaf í það númer sem hann hafði stöðvað á. Daginn eftir komst ég að því að um kl. 4:44 um nóttina hringdi ég meðal annars í alla sem byrja á K í símaskránni, töluvert af fólki sem byrjar á A, nokkur Ó, eitt Æ ofl. Þetta hefði verið allt í lagi ef þetta væri bara fólk sem ég þekkti en nei nei. Ég hringdi í hitt og þetta fólk sem ég myndi ekki heilsa úti á götu, þar á meðal vinnufélaga sem ég hef ekki séð fjölda ára, útlendinga sem við stelpurnar hittum á interaili 2001, konu sem stjórnaði einu sinni gæsaveislu sem ég fór í og síðast en ekki síst, foreldra fyrrverandi kærasta. Ég held reyndar að mér hafði tekist að stöðva megnið af símtölunum á endanum áður en það hringdi (oft) á hinum endanum. En ef ég hringdi í þig og skellti á biðst ég afsökunar. Það er ennþá eitthvað símavesen á mér, fann loksins síma hjá ma og pa sem virkaði. Sá verður reyndar rafhlöðulaus fyrirvaralaust og er ekki með nein símanúmer vistuð. Kannski bara fínt að byrja upp á nýtt, enda ekkert kappsmál að safna símanúmerum eins og glansmyndum í denn. Enda sagðist einn kunningi minn hafa uppgötvað fyrir nokkrum árum að hann væri með fullan síma af símanúmerum – en engan til að hringja í.

6. nóv. 2008

Dude, where's my car?

Fór í Bónus í gær sem er svosem ekkert sérstaklega merkilegt nema að ég fékk hálfgert taugaáfall á bílastæðinu með fjóra poka í höndunum. Ég fann hvergi bílinn! Nú hefur það gerst oftar en einu sinni eða tvisvar að ég get ómögulega munað hvar ég hef lagt en það gerist yfirleitt við verslunarmiðstöðvar eða niðri í bæ eftir hringsól í leit að stæði. En þarna var bílastæðið ekkert rosalega stórt og ég sá bara ekki bílinn! Orðið dimmt að vísu svo ég reyndi að skima eftir númerinu en allt kom fyrir ekki. Ég hélt að ég væri að missa vitið, mundi ekki betur en að ég hefði lagt bara í venjulegri fjarlægð frá búðinni. Þá datt mér auðvitað í hug að bílnum hefði verið stolið og ég hefði jafnvel skilið hann eftir ólæstan og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta var orðið heljarinnar drama og ég alveg við það að fara að hringja í einhvern grenjandi til að láta sækja strandaglópinn.

Sé ég þá ekki í tunglsljósinu glitta í kunnuglegan eiturgrænan lit á einum bílnum, þótt ekki væri það dökkbláa Toyotan sem ég var að leita að. Þá LOKSINS rann það upp fyrir mér að ég var bara alls ekkert á dökkblárri Toyotu, enda var hún í viðgerð, heldur á nýja sæta græna (og afar umhverfisvæna) bílnum hennar mömmu sem ég var með í láni...

5. nóv. 2008

Curiosity killed the cat

Ég get verið gúgl-óð á köflum og gúgla allt og alla enda afar forvitin. Þetta hefur kosti og galla og ég hef heldur farið að hemja mig í seinni tíð enda hef ég komist að því að það er hægt að fá Of Miklar Upplýsingar um fólk á netinu.

Ég hitti til að mynda gamla skólasystur mína í sundi um daginn þar sem hún sagði mér hvað á daga hennar hefði drifið síðan við hittumst síðast. Ég virtist mjög áhugasöm og spurði hvað barnið hennar hét og hvað það væri gamalt og þetta venjulega. Ekki gat ég sagt henni að ég væri búin að fletta þessu öllu upp á netinu fyrir löngu í gömlu-skólafélaga-gúgl-æði og var búin að lesa fæðingarsöguna og skoða myndir úr skírninni.

Að sama skapi fletti ég einu sinni upp stelpu sem vinur minn var að deita og sagði honum gjörsamlega allt um hana - fyrir fyrsta deitið. Hann var ekki ánægður með að ég skyldi hafa aflétt dulúðinni og missti eiginlega áhugann (nú reyni ég að takmarka deit-gúgl við Íslendingabók, svona bara til að tékka hvort um náskyldmenni sé að ræða).

Stundum kemst upp um gúglið eins og um daginn þegar ég var að spjalla við nýjan vinnufélaga minn og minntist á fyndna mynd sem ég hafði séð af honum á facebook. Hann vissi hvaða mynd ég var að tala um - en sagði strax að þessa mynd væri nú ekki að finna þar. Varstu að gúgla mig? ,spurði hann og ég játaði skömmustulega og romsaði út úr mér að ég væri ekki kreisí stalker heldur bara almennt forvitin um fólk sem ég kynnist.

En já, ástæðan fyrir því að ég fór að velta þessu fyrir mér eru samræður sem ég átti síðustu helgi þegar ég rakst á skemmtilega stelpu sem ég hafði ekki hitt lengi.
Nei hæ, gaman að sjá þig sögðum við hvor við aðra. Ég ákvað bara að vera hreinskilin og spurði hana hvort hún hefði ekki verið að gifta sig í fyrra, ég hefði nefnilega séð brúðkaupsmyndirnar á facebook (sá semsagt myndir sem sameiginlegir vinir okkar höfðu sett inn). Óskaði henni til hamingju þótt seint væri og hún þakkaði fyrir sig. Síðan kom vandræðaleg þögn þar sem hún var sjálfsagt að velta fyrir sér hvort hún gæti ekki komið með eitthvað á móti, hvort hún hefðiekki átt að reka augun í beibí/brúðkaups/innflutnings/útskriftar etc. myndir af mér á netinu. Loksins kveikti hún á perunni, brosti til mín og sagði Heyrðu, varst þú ekki að láta taka úr þér endajaxla í fyrra? Ég nefnilega gúglaði "endajaxlataka" og bloggið þitt kom upp...

3. nóv. 2008

Jólafól

Ég fór á tónleika í síðustu viku sem voru frábærir að öllu leyti nema hvað sætið mitt var yst hægra megin í salnum og sætið hennar mömmu yst vinstra megin í salnum röð ofar. Þetta var semsagt rúlla af boðsmiðum og einhver ekki fattað að sæti 4:21 og sæti 5:01 væru ekki hlið við hlið eins og sjálfsagt hefur verið ætlunin...
Kannaðist svo við einn hljóðfæraleikarann, myndarlegan pilt sem stóð sig mjög vel, en mundi ekki alveg hvaðan ég þekkti hann. Fattaði svo allt í einu að um var að ræða strák sem ég kenndi einu sinni, og fannst ég vera orðin algjör kelling (af því að þetta voru sko fullorðinstónleikar, en ekki svona efnileg unglingahljómsveit).


Hef ákveðið að taka jólin snemma í ár og listi yfir topp 5 uppáhalds jólalögin mín birtist því von bráðar. Jólin eru nefnilega í miklu uppáhaldi hjá mér, en mér finnst undirbúningurinn eiginlega skemmtilegri en jólin sjálf (ef til vill meira um það síðar). Finnst um að gera að teygja bara úr tilhlökkuninni. Ég frábið mér þess vegna allt nöldur um að það megi ekki byrja að hlakka til jólanna fyrr en í desember. Það hlýtur að vera mönnum bara í sjálfsvald sett hvort þeir byrja að hlakka til á Jónsmessu eða Þorláksmessu eða einhvers staðar þar á milli. Enda er nóg um tuð yfir hinu og þessu þótt það sé ekki verið að tuða yfir því að fólk sé í of góðu skapi of snemma. Svo er ég víst farin að tuða yfir tuðinu núna. Arg!