14. júl. 2009

Tvífarar #3

Þá er enn og aftur komið að tvíförum en mér finnst voða gaman að pæla í því hver sé líkur hverjum þótt ég sé reyndar alveg vonlaus í að spá í hvoru foreldrinu ungabörn líkjast. Þeir sem þekkja mig vita að ég er unglingur í hjarta og hef verið örugglega síðan áður en ég varð unglingur sjálf. Fylgist svona aðeins með nýjustu unglingaþáttum, myndum og stjörnum þótt ég horfi ekki á hvaða drasl sem er. Tvífarar dagsins eru einmitt tvær sætar snótir sem hafa skotist upp á stjörnuhimininn síðustu tvö ár eða svo fyrir leik sinn í bandarískum unglingaþáttum. Annars vegar er það Leighton Meester ( fædd '86) sem leikur í hinum vinsælu Gossip Girl þáttum sem ég reyndar hef sáralítið séð af. Hins vegar er það Minka Kelly sem leikur í hinum margverðlaunuðu Friday Night Lights sem SkjárEinn hefur sýnt, sá fyrstu seríuna af þeim. Hún er einmitt nákvæmlega jafngömul mér upp á dag sem ég er gífurlega ánægð með sökum fyrri yfirlýsinga um að deila ekki afmælisdegi með neinum Hollívúddstjörnum. Ég hélt lengi vel að þarna væri um eina og sömu leikkonuna að ræða og ég held að það lái mér það enginn. Leighton er til vinstri og Minka til hægri á myndunum fyrir neðan.




13. júl. 2009

Ást við stofuhita

Ég vil enga helvítis hráfæðisást! sagði ég við vinkonu mína meðan við vorum eins og svo oft áður að ræða lífið og tilveruna. Við vorum að ræða karlmenn sem eru svona “lukewarm”, sem er alveg óþolandi hitastig. Svona eins og bað sem þú ert búin að liggja í of lengi og er löngu hætt að hlýja þér en þú nennir ekki að koma þér upp úr. Það er nánast ekkert sem mér leiðist meira en áhugaleysi þegar kemur að samskiptum við hitt kynið. Hvort sem það er áhugaleysi af minni hálfu eða öfugt.

Nú geri ég mér grein fyrir því að tilfinningar breytast í tímans rás og maður er ekki alltaf með fiðrildi í maganum í ástríðufullum tangó, en það hlýtur samt að vera alltaf smá líf í glæðunum svona nóg til að kynda upp húsið (kannski komið nóg af myndlíkingum í bili). Í það minnsta finnst mér algjört skilyrði að það neisti vel í byrjun sambands og að báðir aðilar hafi einlægan áhuga á hinum aðilanum.

Ég átti einu sinni kærasta sem var svona hálfvolgur og það var alveg að gera mig vitlausa. Hann virtist ekki hafa neinn voðalegan áhuga á mér eða okkur sem pari. Hann virtist samt heldur ekki vera að leika "ég ætla að vera ógeðslega leiðinlegur svo að hún hætti með mér", alls ekki. Hann var alveg ágætlega indæll og kyssti mig ef ég bað hann um að kyssa mig og játti því þegar ég spurði hann hvort hann elskaði mig og svo framvegis. Ég náði þessu samt ekki alveg, ef hann var ekkert spenntur af hverju var hann þá að þessu? Viltu að við séum saman? spurði ég. Já já, alveg eins, var svarið. Verst auðvitað að mér var ekki sama. Illt er að leggja ást við þann sem enga kann á móti.

Nú er ég ekki að segja að fólk þurfi bókstaflega að vaða eld og brennistein fyrir hvort annað í “Ain’t no mountain high enough” fíling en ég held að fólk verði að vera tilbúið að leggja eitthvað á sig. Hafði á tilfinningunni stundum að þessi maður hefði ekki svo mikið sem stigið í poll. Þetta hefur kannski valdið því að ég á mjög erfitt með að hafa þolinmæði í svona “jú þú ert ágæt/ágætur” fíling. Svo geta auðvitað ástarsambönd þróast, fólk þarf að kynnast og auðvitað getur það tekið smá tíma að hitna í kolunum. En ég þegar allt kemur til alls vil ég ástina mína eldheita og grillaða í gegn.

9. júl. 2009

Í essinu mínu

Fyrir nokkru síðan lýsti ég því yfir í geðvonskukasti að ég myndi aldrei framar svo mikið sem líta á karlmann sem bæri starfstitil sem hæfist á S, það kynni ekki góðri lukku að stýra. Þarna var ég sérstaklega með í huga smiði, sölumenn, sálfræðinga, sagnfræðinga, söngvara og slökkviliðsmenn. Vinkona mín sem var viðstödd benti mér á að þetta væri varasöm yfirlýsing, þarna væri ég farin að útiloka ansi stóran hóp. Í þessum hópi eru nefnilega líka stærðfræðingar, sjómenn, skúringamenn, skólaliðar, stuðningsfulltrúar og stjörnufræðingar (og væntanlega stórstjörnur þá líka!). Einnig má segja að undir þetta féllu sérfræðingar og sjálfstætt starfandi, það er hægt að fella ótrúlega mörg störf undir þá flokka. Svo fórum við að láta okkur detta í hug ýmis fleiri atvinnuheiti sem væru útilokuð með þessari reglu. Samúræjar, skorsteinssóparar, salernishreinsarar, sælgætisframleiðendur, samlokugerðarmenn, strandverðir, skógarhöggsmenn, salsakennarar og skúnkaveiðarar. Að lokum var svo komið að mér datt varla starfsheiti í hug sem byrjaði ekki á S. Nú veit ég, sagði ég meðan við gengum framhjá Lækjargötunni. Ég get deitað leigubílstjóra! Nei það gengur ekki, sagði vinkonan. Hann er sjálfrennireiðarstjóri...

8. júl. 2009

Strangers in the night

Undanfarið hef ég fengið nokkra innilega pósta frá einum fésbókarvini mínum. Hann hefur reyndar alltaf verið ósköp indæll við mig eins og Bretar eru, þeir nota mikið love og xxx sem tók mig smá tíma að venjast í fyrstu að fá frá fólki sem ég þekkti lítið. En semsagt, þessi vinur minn er tiltölulega nýskilinn og er þess vegna kannski bara flexing the flirt muscle við feisbúkk vinkonur sínar, sendi mér voða sæta afmæliskveðju um daginn og svo annan póst núna í dag, bara gaman að því. Hann skrifar mér alltaf eins og við séum aldavinir og hefur lýst því nákvæmlega þegar við kynntumst fyrst, segist alltaf muna eftir mér úr afmæli sem var haldið hjá sameiginlegum vini okkar á pöbb í Bretlandi. Sagðist meðal annars muna sérstaklega eftir því að að ég var með tösku sem var í laginu eins og fiskur.

Málið er það.... að ég man ekkert eftir þessum manni! Ég var reyndar í þessu afmæli sem hann talar um en man ekki eftir að hafa hitt hann og kannast mjög óljóst við hann af myndum af honum (er búin að skoða þær svo oft núna að það er ekkert að marka, ég er farin að kannast við hann af þeim!). Ekki man ég eftir að hafa hitt hann neins staðar annars staðar og mér sýnist við ekki geta hafa verið saman í skólanum miðað við upplýsingar á prófílnum hans. En ég þorði ekki að segja honum það á sínum tíma og samþykkti hann sem vin og ekki get ég sagt honum það núna, tveimur árum seinna! Fyrir utan það að ég á enga tösku sem er í laginu eins og fiskur! Ég á reyndar tösku sem er í laginu eins og köttur, hann gæti ef til vill hafi ruglast á því. Nema að hann hafi farið mannavillt frá byrjun og ég sé með þessum lygavef að hamla því að hann finni sína sönnu ást, fiskatöskustúlkuna...

5. júl. 2009

Töfratalan

Síðustu helgi sat ég á spjalli við vinkonu mína á Ölstofunni eins og svo oft áður og tókst að plata sætan strák sem ég kannaðist lítillega við til að veita okkur félagsskap. Ég byrjaði strax að bauna á hann spurningum eins og hvaða ávöxtur hann væri og hvar hann myndi fela lík en honum til hróss lét hann ekki slá sig út af laginu og kom með nokkuð góð svör. Svo spurðum við hann hverju hann myndi sjálfur spyrja að á þriggja mínútna speed date-i og hann nefndi spurninguna Hvað hefurðu sofið hjá mörgum? Sem myndi örugglega hafa sömu áhrif á suma og ef maður spyrði þá hvar væri heppilegast að fela lík.

Mér datt í hug þessi æðislega sena úr mynd sem ég held mikið upp á, Four weddings and a funeral, þar sem Hugh Grant spyr Andie MacDowell að þessu (og sér örugglega eftir því þegar hún telur upp bólfélagana), sjá hér. Svo man ég eftir að hafa séð í annarri og öllu lélegri mynd, American Pie 2 að ef maður óskaði eftir svari við þessari spurningu ætti alltaf að deila með 3 fyrir konur og margfalda með 3 fyrir karlmenn. En það átti auðvitað kannski aðallega við um bandaríska háskólakrakka svo veit ekki hvort það sé mark takandi á því svona almennt. Ég var þó einu sinni að hitta strák sem laug því ítrekað (að vinum sínum, ekki að mér) að hann hefði sofið hjá töluvert fleiri stelpum en raunin var og það fór alltaf svolítið í taugarnar á mér. En honum til varnar er langt, langt síðan.

Í kynfræðslu og forvarnarvinnu í sambandi við kynsjúkdóma er svolítið lagt upp úr því að þetta skipti máli, að þekkja kynferðislega sögu viðkomandi upp á áhættumat, því þú sért í raun að sofa hjá öllum sem bólfélaginn hafi sofið hjá, og öllum sem þeir hafi sofið hjá osfr. Veit nú ekki alveg með þessa framsetningu þótt ég skilji svosem pælinguna varðandi kynsjúkdómasmit og annað. Þetta hafði að minnsta kosti áhrif á okkur vinkonurnar og við pældum mikið í því svona um tvítugt hvenær ætti að spyrja um Töluna, ekki of seint og ekki of snemma, rétt eins og hvenær væri rétti tíminn til að segjast elska einhvern. Svo var pælt í því hver væru mörkin, þá var átt við efri mörkin, það er að segja myndum við segja nei ef viðkomandi segðist hafa sofið hjá X mörgum. Auðvitað pældum við líka í mörkunum fyrir stelpur, hvað væri ásættanlegt að hafa (eða segjast hafa) sængað hjá mörgum. Þá var líka mikið í umræðunni hvað teldist með. Veit um einhverjar sem voru með allt á hreinu og settu upp í Excel skjali til að hafa nákvæmt yfirlit yfir fjölda, skipti og síðast en ekki síst stjörnugjöf...

En svo með árunum hætti þetta að skipta máli enda getur svo ótal margt verið á bak við einhverja tölu sem segir í raun voða lítið í sjálfu sér. Man bara eftir einu skipti þar sem mér fannst þetta skipta máli, en þá neitaði ég að fara á stefnumót með (tæplega þrítugum) strák sem tilkynnti mér í óspurðum fréttum að hann hefði bókstaflega aldrei verið við kvenmann kenndur. Hálfskammast mín nú samt fyrir það og er nokkuð viss um að það hafi ekki verið aðalástæðan fyrir því að ég hafi neitað. Fjölmargar vinkonur mínar segjast ekki hafa hugmynd um hverjum eða hve mörgum kærastarnir eða eiginmennirnir hafi verið með og að þær langi ekkert að vita það. Er sjálf ekkert viss um að ég myndi spyrja - að minnsta kosti ekki á fyrstu þremur mínútunum í samtalinu :)