30. jan. 2005

Helgin

Fín helgi. Hló svo mikið að mér varð illt í kinnunum. Stelpurnar mættu með gjafir og alles og svo var blenderinn nýttur til að búa til dýrindis kokkteila sem við drukkum yfir Actionary. Svo fórum við í baðherbergispartý sem eru miklu skemmtilegri en eldhúspartý og komumst að því að það er auðveldara að koma fjórum stelpum ofaní baðkar heldur en uppúr.



Las í DV að einhver Kolla væri eyðslukló. Kolla er semsagt þýðing á Colleen McHugh, kærustunni hans Rooney fótboltakappa. Hélt samt að blaðamenn væru hættir að þýða erlend nöfn, nema auðvitað kóngafólksnöfnin, við tölum um Elísabetu, Karl, Margréti og Játvarð og svona. En við getum svosem byrjað á þessu aftur, hver segir að mannanafnanefnd geti ekki bætt við sig smá vinnu. Við verðum að minnsta kosti að reyna að finna hljómfögur og þjóðleg nöfn á "Íslandsvinina" okkar. Það er helst að eftirnöfnin reynist erfið en kannski óþarfi að kenna alla við föður og móður, eins lengi og nöfnin hljóma vel á ástkæra ylhýra. Konráð Suðurland, Dóra Músarleg, Davíð Aðalbjörn, Jósef Jakason, Eiríkur Klapparstígur og fleiri verða örugglega sátt við nýju nöfnin. Heita þessar stórstjörnur hvort eð er nokkuð sínum upprunalegu nöfnum?

27. jan. 2005

Nýtt líf, dalalíf

Jæja þá er nýja lífið byrjað. Ný vinna, nýtt húsnæði, ný brauðrist (vantaði þriðja atriðið sko). Og kannski kominn tími á nýtt blogg. Ég hugsa samt oft til Bakarastrætis. Fékk einmitt póst frá Hobbitanum á gamlárs. Var ekki búin að heyra frá honum í háa herrans tíð. Dúllídúll.



Íbúðin mín er æææðisleg. Á þessum líka fína stað. Er búin að segja við útlendingana sem vilja senda mér bréf : " Just address it to Reykjavik Road, 101 Reykjavik and it will be no problem you know". Og nei, ég bý ekki í Hafnarfirði.



Vinnan er fín. Börnin eru dásamleg. Semsagt börnin í vinnunni. Unglinarnir. Fullorðna fólkið. Mér finnst brjálæðislega gaman að kenna sem er eiginlega vandamál. Kennarabarnið var auðvitað búið að ákveða að verða EKKI kennari. Æ þið vitið... öll læknabörnin sem verða læknar...



Þeim finnst samt ekki jafn gaman í skólanum og mér í vinnunni. Var með undirbúning fyrir próf í dag og var með seinni hlutann af tímanum í spurningar og sjálfsnám og svoleiðis. Þau máttu vera í tímanum og spurja út úr, fá upplýsingar um aðalatriði o.s.frv. En ég sagði að þau sem kynnu námsefnið upp á tíu mættu fara, annars mælti ég með að þau yrðu eftir og spöruðu sér vinnu um helgina. En nei. Það urðu tveir eftir í hvorum hópnum. Mamma mía. Ég þarf þá kannski að vera óspör á tíurnar? Svo hlógu bara hinir kennararnir að mér og spurðu hvort það væri ekki stutt síðan ég hefði verið í MH. Unglingar eru nefnilega með skerta skynjun. Ef þau heyra "þið megið fara" þá blokkast allt annað út...