24. des. 2006

Gleðileg jól!


Gleðileg jól, elsku vinir og óvinir, nær sem fjær. Vona að þið njótið hátíðanna og látið ykkur líða vel. Jólin rúla!

21. des. 2006

Þegar Trölli stal jólunum



Í dag mun ég hefja leit að anda jólanna þar sem hann virðist vera týndur og tröllum gefinn. Ég var komin í afskaplega mikið jólaskap fyrir nokkrum vikum, setti upp jólatré, bakaði sörur með Bryn, fékk síðan kennslu í að gera sörur með mömmu (hefði líklega að vera betra að fá hana fyrst)... En síðan þurfti ég að sökkva mér niður i verkefni og ritgerðir og þótt ég sé í London þá hef ég ekkert gert nema læra!

Í dag verður hins vegar breyting á, enda ekki seinna vænna. Ég ætla út í rauðu kápunni minni að kaupa jólagjafir á Oxford Stræti. Að sjálfsögðu með i-podinn á fullu. Þannig losna ég við allan hávaðann og get ímyndað mér að ég sé Natalie í Love Actually. Það er nefnilega merkilegt hvað tónlist gerir mikið fyrir stemninguna - já ég veit, ekkert sem kemur á óvart en samt. Ég tók eiginlega ekki almennilega eftir þessu fyrr en ég horfði á (stolna) kvikmynd þar sem tónlistina vantaði óvart. Ég var í fyrsta sinn með i-podinn í lestinni í vikunni og það var bara allt önnur stemning. Ég lifði mig bara inn í litlu kvikmyndina mína - og þá var líka svo gaman að horfa á fólkið í lestinni og velja hverjir ættu að vera aukaleikarar. En það var ekki jafn gaman þegar fólk tók eftir að ég var að horfa á það og annað hvort forðaði sér eða starði óhugnalega fast á móti. Úps.

8. des. 2006

Forboðna eplið

Jæja þá er komið að annarri dæmisögu.

Ég fór í 10-11 í morgun og keypti sitt lítið af hverju í nesti. Labbaði út og uppgötvaði stuttu seinna að ég hefði gleymt að borga fyrir eplið sem ég hélt á.

Nú voru góð ráð dýr. Átti ég að fara til baka og leiðrétta mistökin eða ekki? Mér finnst 10-11 vera algjör okurbúlla sem hefur eignast allt of mikið af peningunum mínum (eða af peniningum bankans það er að segja). Mér finnst matvöruverð vera of hátt á Íslandi og sérstaklega af ávöxtum og grænmeti. Ég er ekkert löghlýðnari en gengur og gerist og er yfirleitt ekkert að leiðrétta það ef ég fæ of mikið til baka í matvöruverslunum (það gerist reyndar oftar að ég borga of mikið). Það tók enginn eftir þessu og starfsmanninum var örugglega nákvæmlega sama.

Svo var þetta bara eitt epli, óviljaverk og ég komin út úr búðinni. Eplið var stórt og fallegt og safaríkt og það hafði tekið mig langan tíma að velja það og ég var hvort eð er ekki með klink til að borga fyrir það ef ég færi til baka.

Hins vegar er það bara þannig að það er ljótt að stela. Sama hversu lítið það er. Litli engillinn og púkinn rökræddu þarna á öxlinni á mér og úr varð að ég fór til baka og skilaði eplinu.

Held að mér hafi fundist samlíkingin við ákveðna Biblíusögu aðeins of sterk. Er kannski ekkert sérlega trúrækin en það eru að koma jól og svona. Og þá á maður að vera góður. Mig langar nefnilega ekkert í kartöflu í skóinn. Mig langar í epli.

7. des. 2006

Bakstur og brúðkaup

Sá risastóran nýjan fæðingarblett á bringunni þegar ég var að bursta tennurnar á þriðjudagskvöld. Hörmungarhugsunin fór strax í gang og ég var strax komin í geislameðferð í huganum og farin að velta fyrir mér hvað þetta yrði stórt ör. Nema hvað þegar betur var að gáð þá var þetta Nóa Síríus Konsum suðusúkkulaði... við Brynja vorum nebblega í sörubakstri um kvöldið. Og það fór súkkulaði út um allt. Þær eru ekkert sérlega fallegar greyin, myndi ekki senda þær í America's Next Top Cookie, en alveg ágætar á bragðið. Namminamm.

Annars var verið að bjóða mér í brúðkaup til New York í mars, vei vei vei! Vona að ég geti farið. Það er svo mikið af skemmtilegu fólki í New York. Má samt ekki segja hver er að fara að gifta sig á netinu þannig að það verður bara að vera leyndó. Kannski er ég að fara í leynilegt brúðkaup hjá fræga fólkinu, hver veit.

1. des. 2006

Hin eina sanna Sólrún?

Var að lesa mjög skemmtilegan tölvupóst á færeysku frá Rósalind nokkurri sem innihélt ferðasögu og myndir frá Kenía. Áttaði mig þó fljótlega á því að pósturinn væri sennilega ætlaður einhverri nöfnu minni.

Mér fannst nefnilega svo sniðugt þegar Gjemeil var að komast á laggirnar að fá mér netfangið solrun (hjá) gmail.com. Að ég væri bara "the one and only" Sólrún, ekkert lengur solrunla eða solrunl eða solrunosk eins og netföngin mín hafa gjarnan verið gegnum tíðina.

Þetta hefur síðan haft þær (ef til vill fyrirsjáanlegu) afleiðingar í för með mér að mér berst póstur ætlaður hinum og þessum Sólrúnum. Og það eru víst Sólrúnir víðar en á Íslandi.

Ég hef fengið ótal áframsenda brandara, fundargerðir og ýmis einkabréf, trúlofunarmyndir frá Noregi, myndir af nýfæddu barni í Danmörku og svona mætti lengi telja. Mjög skemmtilegt.

Ég þakkaði samt Rósalind fyrir kveðjuna. Enda alltaf gaman að fá skemmtileg bréf. Kannski heppin að þessu leyti að heita ekki María (sem mér finnst reyndar mjög fallegt og ein besta vinkona mín ber það nafn) því það er eitt algengasta nafnið á Vesturlöndum, í ýmsum útgáfum reyndar. Sjaldgæfara samt á Íslandi, í 17. sæti. Mary er algengasta kvenmannsnafnið í Bandaríkjunum og bera um 3% kvenna nafnið og tæp 30% spænskra kvenna heita Maria! Ég ætti kannski að senda eins og einn póst á Maria (hjá) gmail. com, bara upp á grín?

Þess má geta að samkvæmt þjóðskrá heita 393 konur Sólrún. Nógu algengt til að ég geti fengið lyklakippur með nafninu mínu á og svona sem mér finnst voða gaman (nei ég á þrjár, þarf ekki fleiri en takk samt). Saknaði þess samt í Bretlandi að heita ekki alþjóðlegra nafni. Ekki framleiddir sleikipinnar eða bolir eða könnur eða barmmerki með nafninu mínu á þar. Onei.

Enda þóttist ég heita Sue Lawrence í nokkra mánuði þarna í dúskadeildinni forðum daga. Auðveldara að panta pitsu og svona. Hundleiðinlegt að heita Sue samt. Þótt það hafi verið auðveldara að finna nafnalyklakippur.

Annars er þetta orðið heldur langt blogg þannig að ég kveð að sinni.