1. des. 2006

Hin eina sanna Sólrún?

Var að lesa mjög skemmtilegan tölvupóst á færeysku frá Rósalind nokkurri sem innihélt ferðasögu og myndir frá Kenía. Áttaði mig þó fljótlega á því að pósturinn væri sennilega ætlaður einhverri nöfnu minni.

Mér fannst nefnilega svo sniðugt þegar Gjemeil var að komast á laggirnar að fá mér netfangið solrun (hjá) gmail.com. Að ég væri bara "the one and only" Sólrún, ekkert lengur solrunla eða solrunl eða solrunosk eins og netföngin mín hafa gjarnan verið gegnum tíðina.

Þetta hefur síðan haft þær (ef til vill fyrirsjáanlegu) afleiðingar í för með mér að mér berst póstur ætlaður hinum og þessum Sólrúnum. Og það eru víst Sólrúnir víðar en á Íslandi.

Ég hef fengið ótal áframsenda brandara, fundargerðir og ýmis einkabréf, trúlofunarmyndir frá Noregi, myndir af nýfæddu barni í Danmörku og svona mætti lengi telja. Mjög skemmtilegt.

Ég þakkaði samt Rósalind fyrir kveðjuna. Enda alltaf gaman að fá skemmtileg bréf. Kannski heppin að þessu leyti að heita ekki María (sem mér finnst reyndar mjög fallegt og ein besta vinkona mín ber það nafn) því það er eitt algengasta nafnið á Vesturlöndum, í ýmsum útgáfum reyndar. Sjaldgæfara samt á Íslandi, í 17. sæti. Mary er algengasta kvenmannsnafnið í Bandaríkjunum og bera um 3% kvenna nafnið og tæp 30% spænskra kvenna heita Maria! Ég ætti kannski að senda eins og einn póst á Maria (hjá) gmail. com, bara upp á grín?

Þess má geta að samkvæmt þjóðskrá heita 393 konur Sólrún. Nógu algengt til að ég geti fengið lyklakippur með nafninu mínu á og svona sem mér finnst voða gaman (nei ég á þrjár, þarf ekki fleiri en takk samt). Saknaði þess samt í Bretlandi að heita ekki alþjóðlegra nafni. Ekki framleiddir sleikipinnar eða bolir eða könnur eða barmmerki með nafninu mínu á þar. Onei.

Enda þóttist ég heita Sue Lawrence í nokkra mánuði þarna í dúskadeildinni forðum daga. Auðveldara að panta pitsu og svona. Hundleiðinlegt að heita Sue samt. Þótt það hafi verið auðveldara að finna nafnalyklakippur.

Annars er þetta orðið heldur langt blogg þannig að ég kveð að sinni.

Engin ummæli: