8. des. 2006

Forboðna eplið

Jæja þá er komið að annarri dæmisögu.

Ég fór í 10-11 í morgun og keypti sitt lítið af hverju í nesti. Labbaði út og uppgötvaði stuttu seinna að ég hefði gleymt að borga fyrir eplið sem ég hélt á.

Nú voru góð ráð dýr. Átti ég að fara til baka og leiðrétta mistökin eða ekki? Mér finnst 10-11 vera algjör okurbúlla sem hefur eignast allt of mikið af peningunum mínum (eða af peniningum bankans það er að segja). Mér finnst matvöruverð vera of hátt á Íslandi og sérstaklega af ávöxtum og grænmeti. Ég er ekkert löghlýðnari en gengur og gerist og er yfirleitt ekkert að leiðrétta það ef ég fæ of mikið til baka í matvöruverslunum (það gerist reyndar oftar að ég borga of mikið). Það tók enginn eftir þessu og starfsmanninum var örugglega nákvæmlega sama.

Svo var þetta bara eitt epli, óviljaverk og ég komin út úr búðinni. Eplið var stórt og fallegt og safaríkt og það hafði tekið mig langan tíma að velja það og ég var hvort eð er ekki með klink til að borga fyrir það ef ég færi til baka.

Hins vegar er það bara þannig að það er ljótt að stela. Sama hversu lítið það er. Litli engillinn og púkinn rökræddu þarna á öxlinni á mér og úr varð að ég fór til baka og skilaði eplinu.

Held að mér hafi fundist samlíkingin við ákveðna Biblíusögu aðeins of sterk. Er kannski ekkert sérlega trúrækin en það eru að koma jól og svona. Og þá á maður að vera góður. Mig langar nefnilega ekkert í kartöflu í skóinn. Mig langar í epli.

Engin ummæli: