23. des. 2003

Ahhh....loksins komin heim í snjóinn og jólaköttinn. Gaman gaman að skrifa jólakort og skreyta piparkökur og hitta alla. Sumt hefur breyst, annað ekki. Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart að lífið heldur áfram þótt að ég sé ekki á svæðinu. Ég virðist ekki vera nafli alheimsins eins og ég hef stundum talið mér trú um.



Ég fann til dæmis ekki fjarstýringuna að sjónvarpinu í gær. Pabbi kom heim seinna og sagði mér að hún væri núna geymd í einhverri skúffu. Mér fannst þetta óþarflega skýrt merki um að ég væri aðkomumaður.



19. des. 2003

Eftir skrilljón leiðangra niður á Oxford Street í jólaæðið held ég að ég sé komin með aðeins betri tilfinningu fyrir nágrenninu.

Ég er nefnilega eins og sumir vita með eindæmum lélég í því að rata. Norður, suður, hægri, vinstri, þetta er allt sama áttin fyrir mér. Helst að maður þekki muninn á upp og niður. Eníveis, þetta er einkum vandamál á verslunargötum eins og Laugaveginum, Oxford Street, Strikinu o.s.frv. Ef ég til dæmis fer yfir götuna og inn í búð get ég ómögulega séð þegar ég kem út í hvaða átt ég var að fara þegar ég kem út aftur. Þá er hægri orðið að vinstri af því að ég er hinu megin við götuna...

Þannig tókst mér að labba Oxford Street í byrjun hausts fram og til baka án þess að komast nokkuð áfram og skildi ekkert í því hvað gatan væri fáránlega löng...

18. des. 2003

Mér var bent pent á það um daginn að bumban væri orðin svolítið bústin. Ég fylltist skelfingu yfir því að fólk myndi halda bjórvömbina annars eðlis og sá fyrir mér hamingjuóskirnar frá kunningjum á Laugaveginum á Þorláksmessu. Arg! Þá er bara að skipta súkkulaðinu út fyrir mandarínur og kaupa Bridget Jones nærbuxur.



Ég kvíði líka fyrir öllu kjaftæðinu sem fylgir því að rekast á fólk almennt heima. Sem gerist víst oftar í Reykjavík en í London og ég er þess vegna komin úr æfingu. Það er alltaf þetta Nei hæ hvað segir þú gott, hvað ert þú að gera núna? Þá er að setja upp feik brosið og segja Allt fínt, bý í London rosa gaman EN ÞÚ og reyna að snúa umræðunni við.

Og svo frá þeim sem þekkja mig betur, Hvernig gengur atvinnuleitin? sem segja það með hallandi höfði og vorkunnarsvip. Þá er að kinka kolli uppörvandi og segja Þetta fer allt að koma. Þetta er auðvitað gert svo að þeim líði betur. Ekki mér. Því það gengur eiginlega ekki að segja Ég er atvinnulaus í London og það gengur illa og ég hef það ekkert sérstaklega gott og er ekkert viss um að það sé neitt að lagast. Þá verður fólk vandræðalegt og veit ekki hvað það á að segja. Svo ég brosi gegnum tárin.

17. des. 2003

JólajólajólajólaJÓLAHVAÐ?

Það er bilun að hætta sér niður á Oxford Street viku fyrir jól. Þess vegna gerði ég það eina sem hægt var að gera í stöðunni... mætti með ferðageislaspilarann og setti spírabræður, Last Christmas og Jólahjólið í botn meðan ég pakkaleitaði. Síðan dansaði ég upp Baker Street á leiðinni til baka og sneri mér meira að segja í nokkra hringi með pokana. Gaman :)

15. des. 2003

Eldamennska Sólrúnar slær enn og aftur í gegn. Er búin að vera í allt kvöld að berjast við að matreiða...dammdarardamm... frosna pitsu. Já ég veit hvað þú ert að hugsa en mér er alveg sama, þetta kallast eldamennska hjá mér! Þetta hefur ekki gengið áfallalaust. Hérna er áfallasagan:



Kl. 16:30 Goodfellas Deep Pan Pizza keypt



Kl. 19:00 Ofninn dettur af örbylgjuofninum



Kl. 19:02 Ofn reistur vid



Kl. 19:30 Ofn hreinsadur



Kl. 20:15 Reynt að kveikja upp í ofni (gas)



Kl. 20:17 Ljóst að ofn er í ólagi



Kl. 20:25 Ofn í lagi eftir smá tilfæringar



Kl. 20:30 Pitsa sett í ofninn



Kl. 20:50 Sólrún verður vör við brunalykt



Kl. 20:52 Ljóst að pitsa er brunnin ad nedan (hitinn kemur að neðan)



Kl. 20:55 Grillið sett í gang (hitun að ofan)



Kl. 21:15 Sólrún finnur brunalykt



Kl. 21:17 Ljóst að pitsa er brunnin að ofan



Kl. 21:20 Ljóst að pitsa er óæt



Kl. 21:25 Sólrún ristar brauð...



14. des. 2003

Fór með Mr. Big og félögum að sjá uppistand hjá Dave Gorman í gær sem var svaaakalega fyndið. Hann talaði í tvo tíma um Googlewhack ævintýri sitt. Mjög gaman. Það var uppselt alls staðar annars staðar en í Croydon (rétt fyrir utan London) sem er einn skelfilegasti staður sem ég hef komið til. Borgin er best þekkt fyrir hringtorgadagatal sem hefur selst furðulega vel...

12. des. 2003

Alveg eins og ég sá næstum því Russell Crowe um daginn þá sá ég næstum því allt Lord Of the Rings liðið í gær. Var á röltinu í bænum með vinkonu minni þegar ég heyrði brjáluð öskur sem gátu ekki gefið neitt annað til kynna en frumsýningu. Ég var voða spennt þangað til ég áttaði mig á að 10.000 manns höfðu komið á undan mér og það var ekki hægt að sjá neitt. Maður heyrði bara á öskrunum hvaða leikarar þetta væru nokkrum metrum framar. Þannig að ég missti af tækifæri til að sjá alvöru Hobbita.



Svona eftirá er ég bara fegin að hafa ekki séð Viggó/Aragorn. Hetjan mín er nefnilega ekki með hetjulúkkið í alvörunni. Sá hann í sjónvarpinu og neitaði að trúa því að þetta væri hann. Snökt. Með einhverja asnalega broddaklippingu og ekkert sverð.



Seinna um kvöldið fór ég á Nordic Bar með íslenskri stelpu til að skoða Skandinavana. Hittum enga aðra Íslendinga en lentum í Kaliforníugæjum sem voru mjög spenntir yfir að hafa rekist á íslenskt lambakjöt og sýndu frábæra takta.



Ég fékk ekki í skóinn í nótt :( Er samt með Kylie Minogue súkkulaðidagatal til að telja niður til jóla... reyndar telur þetta dagatal niður til áramóta sem er hálfskrýtið en hei, það þýðir bara meira súkkulaði fyrir mig :)

10. des. 2003

Hef komist að því að ýmsir dauðir hlutir í íbúðinni virðast hafa sjálfstæðan vilja. Svolítið eins og í Beauty and the Beast nema hvað þau hafa snúist gegn mér. Rétt náði að forða mér undan hvæsandi straujárni sem stökk á mig í gær. Í morgun reyndi svo baðherbergisspegillinn að slá mig í höfuðið.



Ég er komin í svakalegt jólaskap eftir að hafa fengið jólapakka að heiman :) Jólahjólatónlistin komin á fullt og svona. Hlustaði á fölsku trúbadora fjölskylduna syngja Feliz Navidad á Oxford Street og setti upp jólahúfuna.



Það eina í fréttum í Bretlandi virðist vera að hetjur landsins lentu í umferðarslysum. Það munu vera rugby hetjan Johnny Wilkinson og svo auðvitað Ozzy Osbourne. Þeir eru báðir á batavegi greyin.

8. des. 2003

Smá p.s. síðan síðast. Ferðin í búðina var reyndar pínu spennó eins og alltaf. Ódýrasta matvörubúðin nálægt mér er í slömminu þar sem "dyravörðurinn" er mjög scary og með dularfull ör í andlitinu. Þegar ég kom heim sá ég að það var búið að opna appelsínusafann sem ég keypti og fjarlægja innsiglið - samt var fernan full. Ég þorði ekki að drekka hann.



Svo eru strax vandræði í Paradís. Mr. Big getur ekki notað dótið sem Hobbitinn skildi eftir eins og strauborðið. Það er nefnilega í hobbitastærð. Hann hlýtur samt að vera ánægður með eldavélina eftir að ég setti hana ofan á örbylgjuofninn :)
Dagurinn hófst með spennandi ferð í búðina. Ég keypti klósettpappír og sunnudagsblaðið. Þetta er það sem Englendingar gera á sunnudagsmorgnum. Hefði kannski átt að slá garðinn og þvo bílinn eftir hádegi og fá mér fish and chips í kvöldmatinn. En sem betur fer var erill dagsins rofinn af innflutningi Mr. Big í Baker Street kastalann - ég er sko komin með nýjan meðleigjanda :)



7. des. 2003

Vúhú...rosa gaman í afmælinu hjá Rögnu í gær. Nema kannski fyrir Rögnu því að það helltist þrisvar rauðvín yfir teppið. Það var reyndar eitt sjálfsmark - eftir rauðvínsteppahellingu nr. 2 datt Rögnu í hug að sýna hvernig hún hellir stundum óvart niður. Þá helltist auðvitað niður því að demonstreisjón flaskan var hálffull.





Ég fór heim í áframhald af "Sólrún gerir fínt". Gafst loksins upp á að þrífa þessa endalausu drullu út um allt þannig að ég ákvað að mála bara yfir hana. Það gefur svona skemmtilega kornótta áferð þegar maður málar yfir skít (eða ösku fyrrverandi leigjenda). Mjög töff.



Tókst líka loksins að leysa sturtuvandamálið - semsagt að tengja sturtuhaus við baðkar þar sem er ekki gert ráð fyrir sturtu. Eftir nokkrar frumlegar tilraunir tókst mér að láta vatnið renna rétta leið með kennaratyggjói, plastpoka, plastfilmu og ofurlímbandi. Ég ætti eiginlega að hafa samband við BBC og athuga hvort þeir hafi ekki áhuga á að fá mig til að vera með home improvement þætti...

5. des. 2003

Einstaklega óinspírandi dagur þannig að ég segi bara góða helgi :) Brighton í kvöld, innflutningar um helgina og nóg að gera. Meira seinna þegar andinn kemur yfir mig.

4. des. 2003

Til hamingju með afmælið Ms. Garðarsdóttir!.



Mér datt í hug að þrífa fyrir ofan gardínurnar í stofunni áður en ég setti upp skraut. Fann fimm sentimetra þykkt lag af drullu. Giskaði á að þetta hefði bókstaflega aldrei verið þrifið svo ég setti upp gúmmíhanskana og gekk í málið. Var að fíla mig í fornleifafræðingshlutverkinu þangað til ég tók eftir því hvað drullan var öskuleg. Þetta var eins og kolbikasvört aska en ekki drulla sem ég var að koma fyrir kattarnef. Var ég að vanhelga einhverjar jarðneskar leifar sem hafði verið stráð þarna yfir? En hver vill eiginlega hvíla í friði á gardínusyllu? Kannski hefur einhver kálað einhverjum þarna, brennt hann í gasofninum og falið öskuna þarna uppi. Kannski drap Hobbitinn síðasta leigjanda. Kannski er það þess vegna sem ég fæ að leigja þarna svona ódýrt. Kannski...



Note to self: Hætta að hugsa svona mikið :)

2. des. 2003

Frábær lýsing hjá Evu um það hvernig hún heillaði tilvonandi manninn sinn upp úr skónum :)



Ég er búin að leysa þvottavélarvandamálið. Þvottavélin sem ég er búin að panta er 60 sm en plássið fyrir hana var bara 59. Það var svona 2 sm breiður gólflisti sem ég þurfti eiginlega að losna við. Ég fann þess vegna gamlan örbylgjuofn niðri í ruslageymslu og setti ofninn ofan á þannig að hann lyftist yfir listann... er ég að meika sens? Enívei, þá er eldavélin núna hálfum meter ofar og ég þarf að standa uppi á stól til að elda. Líður svolítið eins og dverg eða bara barni sem nær ekki upp á hellurnar. Er reyndar bara ánægð með þetta því mig hefur alltaf langað til að vera lítil og krúttleg. Alveg vonlaust að vera yfir einn og sjötíu. Þetta eru reyndar bara komplexar úr 8. bekk þegar ég var næstum fullvaxin og strákarnir voru flestir hálfvaxnir. Gekk hokin og skakklappaðist einhvern veginn um gangana til að þykjast vera í "réttri stærð". Þarf enn þann dag í dag reglulegar áminningar um að ganga bein í baki og fíla mig ekki á háhæluðum skóm. Núna get ég semsagt ímyndað mér að ég sé lítil og nett þegar ég er að elda á risaeldavélinni minni. Er kannski málið að fá sér allt innbú í extra large?

1. des. 2003

Jóhanna og Ragna gistu hjá mér um helgina. Við fórum saman á Tate Modern í gær að skoða sólina hans Ólafs Elíassonar. Lágum í sólbaði á listasafninu og horfðum dáleiddar á spegilmyndina í loftinu. Hefði getað verið þarna í marga klukkutíma. Svo urðu töfrarnir skyndilega að engu þegar við fórum á næsta pöbb og fengum þann versta og viðbjóðslegasta mat sem ég hef smakkað. Það voru fimm réttir á matseðlinum - þar af var ekki hægt að panta hamborgara eða kjúklingjasalat. Af hinum þremur völdum við fish&chips og grænmetis mousaka - bæði tilbúin á fimm mínútum eftir snögga hitun í örbylgjuofninum. Þetta var svo vont að ég hellti úr fimm litlum piparpokum yfir matinn minn í von um bragðbætingu. Það dugði ekki til þannig að ég bætti við salti, sinnepi og öllum mögulegum sósum sem voru til á staðnum. Neibbs. Enduðum sársvangar á Burger King í lok kvöldins. Áfram BK!