30. júl. 2002

Í morgun þegar ég var að vaska upp sá ég að það var gamall maður í hvítum galla að gera Falun Gong æfingar fyrir utan eldhúsgluggann hjá mér. Miðað við að húsið er in the middle of nowhere var þetta frekar furðulegt. Hann var í för með bandarískum fornleifafræðingum sem eru búnir að vera að sniglast fyrir utan húsið. Stuttu seinna var hann kominn með kúrekahatt og spýtu og sýndi bardagalistir. Þegar Óli kom heim var hann svo í hugleiðslu á pallinum beint fyrir framan hurðina. Segið svo ekki að það sé ekki alltaf eitthvað um að vera í sveitinni!
Smá viðvörun/saga út af vírus/ormi sem komst í tölvuna núna um helgina:
Ég var semsagt í tölvunni hans Óla míns að skoða póstinn minn á hotmail sem ég nota sjaldan. Ég fékk bréf á spænsku frá einhverjum strák að sögn. Þar stóð eitthvað "hérna er mynd af mér" bla bla bla og svo var viðhengi. Ég kannaðist ekki við nafnið á stráknum, né formattið á myndinni og vildi helst eyða þessu. Kærastanum fannst þetta frekar grunsamlegt miðað við nýlega dvöl mína á Spáni. Hélt að þetta væri viðhaldið að senda nektarmyndir af sér og krafðist þess að ég opnaði skjalið. Ég gerði það og sjá, þetta var einhver mass mailing ormur sem festi sig á fullt af skrám sem hann þurfti svo að eyða. Svo var mér kennt um þetta! Hnuss.....

29. júl. 2002

Helgin búin og hversdagsleiki mánudagsins tekinn við.... en það er allt í lagi því að ég er komin í næstum viku frí dömur mínar og herrar! Helgin var fín, bróðir hans Óla var í heimsókn og við fórum á Sauðárkrók á föstudagskvöldið og gistum hjá vinafólki. Stoppuðum stutt á barnum og fórum snemma heim að spila Monopoly :) Ég var svo að vinna laugardag og sunnudag. Þetta var mikið spilahelgi því í vinnunni var Verðbréfaspilið spilað frá kl. 17-23 á sunnudag án þess þó að ná að klárast. Við vorum ekki með leikreglurnar og ég held að þetta hafi eitthvað klikkað því að spilið hélt bara áfram og áfram og áfram. Ég held að ég yrði ekki góð á Wall Street miðað við frammistöðu mína í þessu spili. Ég er annars að fara að koma í stutt stopp til Reykjavíkur núna á morgun fram á fimmtudag, vei vei! Fjölskyldan verður ekki heima þannig að ég ætla bara eitthvað að útrétta og hitta fólk. Verslunarmannahelgin er enn í vinnslu, hugsa að ég notfæri mér bara að vera úti á landi og fari á ball í Miðgarði á föstudag, Síldarævintýri eða Skagaströnd á laugardag og Halló Akureyri á sunnudag. Gaman gaman.

26. júl. 2002

Mamma og pabbi komu í heimsókn í dag. Það var alveg frábært að sjá þau, við fórum saman út að borða, á kaffihús, að versla og spjölluðum. Vantaði bara litlu systur sem er upptekin við að sigra heiminn um þessar mundir. Ég bakaði köku(r) í gær svona meðal annars vegna þess að þau ætluðu að koma. Þetta var svona smá svindl, Betty Crocker botn en heimatilbúið krem. Ég var í smá tilraunamennsku með kremið og gerði óhóflegt magn af því. Ég vissi að ef það yrði mikið krem afgangs myndi ég háma það í mig á stundinni þannig að sem fyrirbyggjandi aðgerð ákvað ég að reyna að koma sem mestu af því á kökurnar tvær. Það gekk ágætlega og í svona hálfa mínútu leit þetta vel út. Þá byrjaði kremið að leka (enda kökurnar kannski ekki aaalveg sléttar)..... og leka og leka og leka. Þetta var eins og jökulhlaup, gjörsamlega óstöðvandi. Ef ég hefði verið strumpur þá hefði ég drukknað í súkkulaðinu eins og aumingja strákurinn í útlöndum sem vann í súkkulaðiverksmiðju og datt í súkkulaðið og drukknaði (var það ekki í fréttunum um daginn?). Þetta reddaðist nú allt að lokum, ég náði á endanum að þrífa súkkulaðidrullumallið og mætti útötuð í vinnuna. Hugsa að ég kaupi bara Betty Crocker krem næst :)

24. júl. 2002

Ég er ekki sátt við niðurstöðuna mína í þessu skítaprófi sem allir eru að taka. Brynjan var eldkúkur og Skvísan einhver kúkur sem er alltaf verið að hringja í. Svo er ég bara einhver asnalegur niðurgangur. Ég ætla að hætta að taka þessi próf.
i am



href="http://www.ummhmm.net/index.shtml">what poo are you?


Viðbjóðslegt. En ég borða samt mikið af trefjum.

23. júl. 2002

Mikið er ég ánægð með að Ásdís er komin aftur frá Ísó og byrjuð að blogga aftur.... það gleður mitt litla hjarta. Brynja klikkar heldur aldrei :)
Ég þarf bara að fara að drííífa mig í vinnuna. Það er gjörsamlega ekkert að frétta. Systir mín er að fara til útlanda og á að keyra bílaleigubíl í Svíþjóð í nótt og mamma er að fara á taugum enda hún ekki nema átján (systa ekki mamma). Tengdó komu í heimsókn í gær. Tuskurnar voru skítugar og blómin dauð þannig að ég held að ég hafi ekki fengið plús í kladdann (ég var ekki heima). Ég reyndi svo mikið að drepa ekki blómin þannig að það endaði með því að ég ofvökvaði þau. Tótal feiljör.

22. júl. 2002

Ég keypti mér bland í poka fyrir hundraðkall á föstudegi. Nú er mánudagur og pokinn er ekki enn tómur. Þetta kann að hljóma eins og kraftaverk og það er það sannarlega en af öðrum ástæðum en þið haldið. Nammigrís eins og ég hefði auðvitað klárað venjulegan hundraðkallspoka á innan við 10 mínútum. Þetta er hins vegar nammið endalausa. Í Skagafirði er engin vigt og ekki talið ofan í pokana. Í sjoppunni vinna stelpur sem eru gjafmildar eins og geiturnar en eru held ég aðallega að reyna að komast á séns. Ég var búin að sjá þetta út, stelpur sem eru ekki vinkonur fá svona sæmilegt (en samt ríflegt) magn í pokann en strákar á aldrinum 15-25 fá troðfullan poka. Strákarnir í Háholti eru allir svona 15-17, á sama aldri og þær þannig að þeir þurfa bara að kaupa fyrir fimmtíukall. Ég lét Óla kaupa fyrir mig, hann er aðeins eldri og ekki eins líklegur til árangurs þess vegna. Hann fékk fullan poka fyrir hundraðkall. Karíus og Baktur dansa af kæti í kjaftinum á mér.
Annars varð ég í fyrsta skipti vitni að átökum í vinnunni minni í gær. Ég varð svolítið hrædd. En þetta er svona, maður leggur sig í lífshættu fyrir hagsmuni þjóðarinnar :)

21. júl. 2002

Stórkostlegt kvöld! Við Óli skruppum á Krókinn til að upplifa sveitadjammstemninguna. Við komumst að því að það var rétt sem okkur hafði verið sagt, átján til þrjátíu djamma á föstudögum, börn og sérstaklega eldra fólk á laugardögum. Við horfðum á skemmtilega furðulega flugeldasýningu á miðnætti og röltum svo um bæinn. Settumst inn á Kaffi Krók, fengum okkur einn drykk hvort en urðum að fara vegna sjónmengunar. Á borðinu á móti okkur (sem sneri einmitt að mér) voru þrjár skutlur að tala við einhvern útlendingagæja. Hann var ekkert ómyndarlegur svosem og þær virtust vera frekar heitar fyrir honum. Greyið strákurinn var bara því miður með gallabuxurnar á mjöðmunum og í stuttum bol og enn styttri leðurjakka. Þar að auki var stóllinn ekki með baki nema bara svona smá, eins og skóla- og eldhússtólar. Rassskoran var þess vegna eins og á ég veit ekki hverjum og svo sýnileg að allir á staðnum (sérstaklega hópur af drukknum ósmekklegum konum á borðinu við hliðina á okkar) voru farnir að flissa og benda á manninn. Það voru um 30 cm frá boru og upp á bak og liðið var að leita að myndavél til að geta sent "mómentið" í Séð og Heyrt. Snilld. Annars hitti ég systur vinkonu minnar á sama stað, hún býr þarna í bænum í sumar! Þetta er þriðja manneskjan sem ég hitti þarna svona by surprise og gleður það mitt litla hjarta. Hápunktur kvöldsins nr. 3 var svo þegar við Óli fórum á videoleiguna að spila þythokkí. Leikar fóru 9-1 (sorglegt) og 7-5 (jess). Gleði gleði.

19. júl. 2002

Ég get ekki sagt að það hafi neitt stórkostlega merkilegt gerst síðan í gær. Ég er búin að fara í sund tvisvar, vei vei. Í dag var smá sólskin og ég skellti mér í laugina í bikiniinu sem ég tók með í síðustu Reykjavíkurferð. Ég var hins vegar búin að gleyma því að það var ástæða fyrir því að ég tók gripinn ekki með upphaflega. Það er nebblega hvítt og orðið algegnsætt af illri meðferð í síðustu sólarlandaferð. Sem betur fer var enginn í sundi, kosturinn við að búa úti á landi og ég hefði þess vegna getað verið ber.
Mig dreymdi reyndar þrjá furðulega drauma í nótt. Fyrri part nætur dreymdi mig að ég væri með blöðrubólgu. Ég var á ferðalagi og þurfti alltaf að pissa á missmekklegum klósettum. Þetta var frekar ógeðslegt og leiðinlegt þannig að ég varð mjög fegin þegar ég vaknaði og fattaði að ég þurfti í alvörunni desperately á klósettið. Þannig leystist það. Síðan dreymdi mig að ég þyrfti að vera í hvítum fötum en ég átti bara læknaslopp með grænni rönd. Þegar ég málaði röndina hvíta varð allur sloppurinn blár! Þetta er greininlega einhver djúpstæður ágreiningur innra með mér sem veldur þessu og ég óska eftir litaþerapista til að leysa þetta, he he he. Síðasti draumurinn átti sér stað um borð í risastórri snekkju sem var eiginlega eins og Smáralind. Þetta var svona plat-skip sem Íslendingar höfðu búið til svo að maður gæti ímyndað sér að maður væri í skemmtiferð (þetta var semsagt á þurru landi). Þetta var frekar hallærislegt en það var fullt af frægu fólki þarna, þar á meðal Leonardo Di Caprio sem var að biðja alla Íslendingana um eiginhandaráritun. Ég sagði brandara sem honum fannst ekkert fyndinn.
I need help....

18. júl. 2002

Síðasti frídagurinn minn er í dag. Hjálp!
Ég ákvað þess vegna að fara í bæjarferð (á Krókinn) og kaupa mér eins og eitt innantómt blað á okurverði. Ég var farin að þrá speki Kosmó og Marí Kler fram yfir Séð og Heyrt sem ég get lesið ókeypis á bókasafninu. Í Kaupfélaginu var ekkert að finna utan prjónablaða frekar en venjulega. Ég keypti reyndar blað þar í byrjun júní, það var það eina sem var til og annað hefur ekki sést síðan. Ég fór á báðar bensínstöðvarnar og í bókabúðina án árangurs. Þetta er alvarlegt mál ef ekki er hægt að fá eitt "dömublað" í Skagafirði þar sem búa um fimmþúsund manns!
Annars fór ég að heimsækja Sólveigu vinkonu mína úr Menntó í morgun. Ég sá myndir af mér síðan ég var 16 ára, í rauðum hlýrabol, allt of stuttu pilsi og glansandi húðlituðum sokkabuxum. Skelfilegt. Maður yrði nú helvíti rúllupylsulegur í þessum klæðnaði núna. Those were the days.....

17. júl. 2002

Ég er ekki sátt við að það sé nær alltaf skítaveður í Skagafirði en hitabylgja í Reykjavík. Þetta er samt alltaf svona. Þegar ég fór til Rimini árið 1998 þá hafði ekkert rignt allt sumarið og hitabylgjan var sú mesta í 200 ár. Tveimur dögum eftir að ég kom byrjaði að rigna. Bændurnir voru glaðir, bikiniið ekki. Aðrar utanlandsferðir hafa verið svipaðar, veðrið er svona sæmilegt yfirleitt, með rigningarskúrum og skýjum í bland en þegar ég kem heim fæ ég að heyra að ég missti af besta veðri sumarsins.
Ég fór annars á mbl.is áðan til að athuga hverju ég væri að missa af. Ég les ekki blöð og horfi ekki á sjónvarp þannig að mér finnst ég hafa misst svolítið tengsl við umheiminn. Bjóst við að heyra stórkostlegar fréttir, nýjar uppfinningar, hryðjuverk, náttúruhamfarir eða pólitísk hneyksli eins og gengur og gerist.
Stærsta forsíðufréttin fjallaði um það að verst lyktandi blóm í heimi væri að blómstra í Kaliforníu. Næsta frétt var um að Herjólfur hefði bilað og þess vegna falla ferðir niður í dag. Að lokum var frétt um að Búlgari sem styður fótboltafélagið Manchester United hefði fengið leyfi til að breyta nafni sínu í einmitt Manchester United.
Ég er kannski ekki að missa af neinu þegar allt kemur til alls :)

15. júl. 2002

Nú er ég komin heim í heiðardalinn....... the hiiiills are alive....with the sound of muuuusic...... og svo framvegis.
Helgin í bænum var samt alveg frábær.
Á föstudagskveldið fór ég á kaffihús með nokkrum háskólaskutlum en fór svo heim að taka mig til fyrir sleepover hjá Guðrúnu vinkonu. Ekta sleepover! Eins og þegar við vorum litlar :) Það var reyndar svo gaman að kjafta að við fórum ekki í bæinn fyrr en klukkan þrjú. Við fórum á Kaffibar og Kaupfélag og hittum Maju sem ætlaði að gista með okkur (fjórar fræknu, æskuvinkonurnar). Við erum í félaginu JARÚN (freyJA, maJA, guðRÚN, sólRÚN og höfum brallaði ýmislegt saman gegnum árin. Við skemmtum okkur bara vel í bænum og hittum mikið af gömlum bekkjarfélögum. Þegar ljósin kviknuðu á Kaupfélaginu um fimmleytið settist ég út í horn þar sem stelpurnar höfðu setið að tala við einhverja stráka og náði í dótið mitt. Strákurinn sem sat við hliðina á mér fór eitthvað að tala við mig um hvernig hann ætti að fara að því að ná sér í stelpu. Ég hélt að þetta væri vinur stelpnanna þannig að ég bullaði eitthvað í honum þrátt fyrir að umræðuefnið væri frekar skrýtið. Stelpurnar komu svo og héldu að þetta væri vinur minn og við löbbum öll saman út, við fjórar og strákurinn og tveir vinir hans. Þeir segjast eiga heima í vesturbænum eins og við og húkka stóran leigubíl þannig að við samþykkjum að verða samferða. Þeir fara út með okkur á Grímshaganum sem okkur fannst reyndar frekar furðulegt en héldum bara að þeir ætluðu að labba. Létu okkur borga leigubílinn og allt! Einhvernveginn voru þeir svo komnir inn með okkur, við vorum ekkert að skipta okkur af þeim en ég spyr reyndar í forstofunni hvort þeir séu ekki örugglega vinir hennar Guðrúnar. Þeir játa því og ég muldra eitthvað um að ég hlyti að hafa hitt þá í partýi hjá henni og skammaðist mín eiginlega fyrir að kannast ekki við þá. Þegar við erum búnar að draga dýnurnar fram á gólf og þeir eru ennþá þarna fara að renna á okkur tvær grímur.... Í ljós kemur að þetta eru bláókunnugir menn! Þetta voru tölvunarfræðinemar úr Grafavogi sem engin okkar hafði séð fyrr! Enda litu þeir ekki út eins og vesturbæingar :) Við reyndum kurteislega að gefa til kynna að þeir væru ekkert sérstaklega velkomnir þarna og væru ekki að fara að fá drátt. Reyndar upphófst einhver trúnó leikur þar sem kom í ljós að þessir menn voru meira og minna furðulegir. Mitt framlag til trúnó leiksins var að játa á mig fjöldamorð á flugum í sveitinni (sjá síðustu færslu) þannig að ég slapp nú vel frá þessu. Einn drengurinn fór að segja okkur langa langa langa sögu um einhverja hóru sem hann keypti sér í Rússlandi. Aaaafar spennandi. Þegar þeir fóru svo að tala um hvað stelpur væru feitar í gallapilsum og kommenta á líkamsvöxt okkar og hvernig við yrðum í gallapilsum þá fengum við alveg nóg (ein var í gallapilsi) og sögðum þeim pent að drulla sér. Þeir fóru að lokum greyin og við pöntuðum pitsu. Við sofnuðum reyndar og ég var sú eina sem vaknaði við bank á hurðina klukkan hálf átta um morguninn..... pitsan komin einum og hálfum tíma seinna.
Á laugardaginn horfði ég á video og kjaftaði við Dísu skvísu og svo var það næturvakt í sveitinni í gær.
Eitt að lokum: Sápukúlur eru stórkostlega vanmetið fyrirbæri. Mæli með að þið festið kaup á sápukúlugerðargrip í sumar.

12. júl. 2002

Hæ hæ og hó hó
Er loksins komin aftur vegna fjölda áskoranna :D Já Ásdís mín ég kannast svo sannarlega við lata unglinga með ofvirka munnvatnsframleiðslu. Við verðum að fara að hittast og bera saman bækur okkar. Getum kannski stofnað klúbbinn LETI, Leiðbeinendur gegn Erfiðum Táningum Innanlands.
Ég er búin að vera..... punktur. Ég er búin að vera á vakt frá fjögur á daginn til fjögur á nóttunni alla vikuna og hef sofið að mestu í frítímanum. Ég vakna um hádegi, horfi á einn Friends þátt yfir hádegismatnum, fer í sturtu og þá er bara kominn tími til að fara í vinnuna. Svakalegt. En ég er að fara í bæinn um helgina, vei vei vei og svo er frí fram á föstudag fyrir utan eina næturvakt.
Fréttir úr sveitinni já....
Ég fór í veiðiferð en veiddi ekki neitt og festi öngulinn alltaf í botninum. Svo bakaði ég brauð í brauðvél, eyðilagði næstum því þvottavél og fékk flugu í augað. Ég keypti mér flugnasprey og eitraði og eitraði en gleymdi að fara út úr íbúðinni og var næstum því búin að eitra fyrir sjálfri mér. Var skömmuð fyrir að vera að leika mér í rennibrautinni í sundlauginni á Akureyri. Eignaðist klósettbursta sem er í laginu eins og svín. Er orðin "ein af strákunum" í vinnunni og hef smitast af umgengni við unglingana. Er semsagt ofbeldisfull og kjaftfor, raula léleg effemmlög og segi "tjill" og "heavy" í öðru hverju orði.
En það er gleði gleði sem endranær, ég verð að fara að pakka saman, sjáumst á djamminu :D

4. júl. 2002

Er flutt inn á meðferðarheimilið. Líður eins og vandræðabarni. Ekkert net (stalst í það núna í 5 mín), enginn gsm og frá og með morgundeginum enginn bíll og enginn Óli. Ég var svona by the way ekki lögð inn vegna vandræða heldur vegna hestamannamótsins, það mun vera bankastjóri sem leigði húsið mitt á okurprís. Hann fær að nota nýja bylgjuofninn og vona ég að hann fari vel með hann.
Jæja, en örvæntið ekki kæru lesendur (ef það eru lesendur). Beljubloggið kemst á fullt strax eftir helgi. Lengi lifi beljurnar!

1. júl. 2002

Ættarmót ættarmót gaman gaman, fótbolti, matur, söngur, tjald, gítar, bjór, ættartengslin styrkt. Svo á ég ættingja á Sauðárkróki sem ég vissi ekki um og get heilsað nokkrum nýjum þegar ég fer í kaupfélagið :)
Fór á næturvakt þegar heim var komið og kláraði púslið, vei!! Svaf í þrjá tíma og ætla núna að sækja Guðrúnu vinkonu sem er að koma með rútunni. Freyja og kærastinn koma seinna og við ætlum í ferðalag þannig að smá bloggpása er væntanleg. Ég missi líka húsnæðið og þar með netið fram á næsta mánudag. Svakalegt. Ég vildi annars að Maja gæti komið líka, við erum sko fjórar æskuvinkonur, en hún er með Dassa sínum á interrailferðalagi. Er núna í Berlín en kemur heim í vikunni...... ohh hvað ég öfunda hana. Hún átti afmæli í gær og er aftur orðin ári eldri en ég en við erum jafngamlar í sex daga á hverju ári. Skemmtilegt. Til hamingju Maja mín :)