31. mar. 2009

Villupúkinn

Mér þykir spjallþáttakóngurinn (eins og þeir á Skjá Einum kalla hann) Jay Leno yfirleitt frekar leiðinlegur, en hef gaman af headlines innskotinu hans þar sem hann gerir grín að misheppnuðum auglýsingum og óheppilegum prentvillum sem fólk sendir inn. Þess vegna flissaði ég pínulítið yfir auglýsingunni sem ég sá í morgun um skyndihjálparnámskeið þar sem yrði "farið yfir helstu slysabætur á heimilinu" (átti líklega að vera slysahættur). Ekkert sérlega fyndin villa en þetta kveikti samt í einhverjum púka og ég fór að setja út á ýmsa orðanotkun.

Til dæmis í fréttinni um vont veður á Hellisheiðinni þar sem kom fram að fólk ætti ekki að "fara yfir heiðina að óþörfu". Eins og fólk sé mikið að rúnta að gamni sínu um Suðurlandið, sagði púkinn. Hann (púkinn) setti líka út á leiðbeiningar á plástrum sem ég er nýbúin að kaupa, þar sem stendur "seek professional help in medical emergencies". Semsagt ekki setja bara plástur á ef þér er að blæða út. Púkinn lauk lélegum bröndurum sínum á því að setja út á sturtusápuna sem ég keypti nýlega bara af því að hún var með 87% afslætti. Hef aldrei keypt þessa tegund áður en hún var í voða flottum umbúðum. Sá í dag að lyktin sem ég keypti heitir "Cucumber song". Ég hef aldrei óskað mér þess sérstaklega að lykta eins og gúrka, hvað þá syngjandi gúrka. Hvern langar að anga af Smjattpattasafa? sagði púkinn og lauk þar með máli sínu þar sem ég var orðin of sein í saumaklúbbsafgangaboð.

Er annars að raula sumarlög til að reyna að fæla burtu leiðindaveðrið þrátt fyrir að sumir bloggarar séu afskaplega hrifnir af ísköldu roki. Af því tilefni spyr ég, eru halanegrar í uxahryggjahalanegrablómkálssveppasúpu og er hún bara borðuð á sumrin?

30. mar. 2009

Blóðgjöf og bíltúr

Blóðbankahjúkkan hvíslaði að mér að við deildum afmælisdegi og var að ég held extra mjúkhent við mig vegna þess. Síðan hneyksluðumst við saman á fólki sem veit ekki muninn á sumarsólstöðum og Jónsmessu. Á meðan hún batt skærblátt teygjubindi um olnbogann á mér sagði hún mér að þetta hefði verið erfiður vetur hjá þeim, takmarkað framboð vegna flensu og mikil eftirspurn frá spítalanum. Ég var fegin að hún sleppti öllum samlíkingum tengdum bankahruni.

Í kvöld var síðan bíltúr með Tónskáldinu um draumaeignir í vesturbæ Kópavogs sem Reykjavíkurvesturbæjarmeynni fannst bara furðu sjarmerandi. Bíltúrinn kom í stað kaffihúsaferðar þar sem snyrtiveskið mitt var týnt og tröllum gefið eftir helgina og mér fannst ég ekki í standi til að fara út á meðal fólks. Ekki það að ég fari ekki úr húsi ómáluð, geri það nú oft. En það vita allir að ef maður fer ómálaður og ótilhafður í bæjarferðir, að ekki sé talað um Kringluna eða Ikea, rekst maður óhjákvæmilega á einhvern sem maður vill helst ekki hitta þannig. Þetta kemur að minnsta kosti iðulega fyrir mig, eins og þegar ég skaust úr vinnunni (á sambýli) með klístrað hár og matarslettur á jogginggallanum að kaupa sleif í Ikea og rakst á hraðferð minni gegnum smávörudeildina á gamlan kæró (sem ég hafði ekki séð í mörg ár) sem var hönd í hönd að versla nýtt rúm með nýju elskunni sinni.

En eníveis... þetta var góður bíltúr og Tónskáldið minnti mig meðal annars á að sagan af Pílu Pínu endar í rauninni vel þrátt fyrir að allir muni bara eftir sorglega laginu. Hún minnti mig líka á að kventöskur eiga það til að vera með Mary Poppins eiginleika og sagði mér að leita aftur í töskunni að snyrtiveskinu. Sem ég gerði (í þriðja sinn) þegar ég kom heim og sjá, snyrtiveskið fannst. Allt er gott sem endar vel.

Eitt lag enn

Þá er ég komin heim heilu á höldnu eftir árshátíðarskrall í sveitinni. Var ótrúlega hagsýn með do-it-yourself klippingu og plokkun/litun sem heppnaðist bara ágætlega sem betur fer (misheppnun hefði reyndar verið efni í skemmtilegt blogg). Ég skemmti mér alveg ótrúlega vel og þetta var virkilega skemmtilegt kvöld. Matur í rauðu húsi, ball í hvítu húsi og gisting í bláu húsi. Veislustjórinn fékk gesti til að dansa kónga um allt hús og lét þá síðan leika górillur og öskra af öllum lífs og sálar kröftum svo það voru allir búnir að losa vel um hömlurnar áður en fyrsta vínglasið var borið fram. Maturinn var góður, skemmtiatriðin skemmtileg, ræðan (í eintölu sem betur fer) var fyndin og tónlistin við allra hæfi svo þetta gat ekki verið betra.

Reyndar skyggði það á að deitið mitt stakk af löngu fyrir miðnætti án þess að kveðja, en ég átti það líklega skilið eftir að hafa kvartað yfir að hann væri ekki á buffalo skóm (þar sem mér fannst ég gnæfa yfir hann á rauðu ofsaflottu hælunum mínum). Þeir sem voru eftir í hópnum í lok kvöldsins voru ennþá í banastuði svo það var brunað með leigubíl út um alla sveit (það eru tvær leigubílastöðvar á Selfossi) og endað á balli með Stjórninni. Fólk var svona mishrifið af bandinu en ég dansaði og dansaði og dansaði með stjörnur í augum (þarna var ég búin að skipta yfir í flatbotna skó ef ég skyldi rekast aftur á buffalóleysingjann). Stóð á köflum fremst við sviðið í nostalgíukasti, mændi á Siggu og Grétar og emjaði Þau spila yatzi og krakkinn fær sleikjó á meðan samstarfsfólkið horfði forviða á mig.

Ég var nefnilega die-hard aðdáandi Stjórnarinnar á aldrinum 10-12 ára og það sýndi sig að ég kann ennþá alla textana þeirra utanað. Get varla farið með neitt af þessum ættjarðarljóðum sem við vorum látin læra utanað í grunnskóla og þuldum aftur og aftur í íslenskutímum en Stjórnartextarnir eru greinilega vel greyptir í heilafrumurnar. Þetta er sjálfsagt afleiðing af því að ég átti a.m.k. tvær spólur með þeim sem ég tók með á fjölmörgum ferðalögum fjölskyldunnar um landið. Ég lokaði semsagt augunum (var með bílveiki á háu stigi) og hlustaði á vasadiskóið mitt (skemmtilegt orð, vasadiskó) á meðan foreldrar mínir reyndu að sýna okkur systrunum firði og fjöll. Þarf eiginlega nauðsynlega að fara aftur á flesta þessara staða (þar sem þetta fór mikið til framhjá mér á þessum tima) og langar mikið að ferðast eitthvað skemmtilegt innanlands í sumar, jafnvel fara hringinn. Óska bara hér með eftir ferðafélaga.

25. mar. 2009

Vitlaust númer

Ég er með heimasíma sem er afskaplega lítið notaður þar sem ég skil minn heittelskaða Símon sjaldan við mig eftir að hann endurholdgaðist í kjölfar pepsi-max slyssins í fyrra. Heimasímann nota ég aðallega til að tala við litlu sys í Danmörku sem er með svona íslenskt heimasímanúmer og örfáa aðra. Það kom mér þess vegna á óvart þegar það fór að koma inn holskefla af missed calls í byrjun ársins.

Ég fletti upp númerunum á já.is og það var greinilega hitt og þetta fólk að hringja í mig. Flesta kannaðist ég ekkert við, suma kannaðist ég (mjög) lauslega við og enn aðra kannaðist ég við vegna þess að þeir eru þekktir í þjóðfélaginu. Þetta gerðist dag eftir dag en aldrei náði ég reyndar að svara í símann þar sem ég var í vinnunni. Ég hringdi ekki til baka í öll þessi númer en fannst afar gaman að vera svona gífurlega vinsæl, þrátt fyrir að ég hafi nú fljótlega áttað mig á að ekki væri allt með felldu.

Gúglaði heimasímanúmerið mitt og þá kom í ljós að á vefsíðunni fyrir Prisma, nýja diplómanámið á Bifröst, er fólki bent á að hringja í númerið mitt fyrir frekari upplýsingar. Ég hafði samband við þá og benti þeim á þetta og allt í góðu með það. Nú í gær voru nokkur missed calls á símanum aftur og sjá, þeir eru aftur farnir að bjóða upp á þetta nám. Og ekki búnir að breyta númerinu á síðunni. Velti því fyrir mér hvernig aðsóknin hafi verið hjá þeim... nei nei þeir voru með annað númer þarna... en eníveis, ef ykkur finnst þetta nám spennandi og langar að vita meira um það.... ekki hringja í mig!

Þetta minnir mig á það að þegar ég bjó í foreldrahúsum var númerið okkar afskaplega líkt númerinu hjá sólbaðsstofunni Sól og Sælu. Fólk muldraði oft í símann og ég hélt oft að það væri að spyrja eftir mér og/eða mömmu (sem heitir Særún) og var búin að taka niður pöntun í ljósatíma áður en ég vissi af. Eða þegar maður hringdi í Pizza 67 forðum daga, við unglingarnir rugluðumst alltaf (eins og mjög margir aðrir) á þessum sextíuogsjöum (er ekki einu sinni viss um að það hafi verið neitt 67 í númerinu á þessum tíma eins og við héldum). Það var því oft hringt í eitthvað aumingja fólk sem var orðið verulega pirrað á því að vera vakið á nóttunni við óskir um pepp og svepp.

Þar sem það er svo mikið stuð í kommentakerfinu þessa dagana bið ég lesendur endilega að deila vitlaust-númer sögum :)

23. mar. 2009

Kvöldstund með Gogga Bjarnfreðar og fleiri sögur

Súkkulaðikeppnin snerist á endanum meira um að smakka og njóta réttanna því ógerlegt var að bera saman ólíka súkkulaði og á endan um varð hver sigurvegari í sínum flokki. Þannig lít ég svo á að ég hafi fengið gullverðlaun í flokknum Súkkulaðdrykkir. Ég áttaði mig loksins á af hverju uppskriftin að chillivanillukanilsúkkulaðinu miðaðist við hálfa bolla, það var sterkt bragð af drykknum sem var nú meira eins og súkkulaðileðja og ógerðlegt að drekka meira en nokkra sopa, þrátt fyrir að bragðið væri alveg hreint ágætt. Ég var samt búin að setja meiri mjólk en mælt var með í uppskriftina svo ég hugsa að þetta hefði verið nánast í föstu formi annars. En það var a.m.k. nóg fyrir alla svo ég þurfti ekki á súkkulaðilíkneskinu að halda, enda fengust engir sjálfboðaliðar til verksins. Þetta var óskaplega unaðslegt kvöld og ég hlakka til að endurtaka leikinn vonandi seinna í ár.

Kreppan hefur annars margar ófyrirséðar afleiðingar. Ein þeirra er sú að badmintonfélagi er kominn í stjórn Fjármálaeftirlitsins og forfallast því ansi oft. Ég get að minnsta kosti andað rólega yfir því að FME sé að vinna vinnuna sína en verra þykir mér að missa badmintonfélagann. Vinkona mín hljóp í skarðið á laugardaginn var og við skelltum okkur síðan í sund. Í Kópavogslauginni var allt fullt af brjáluðum börnum og að því er virtist útúrtauguðum helgarpöbbum og –mömmum. Yfirleitt er ég nú bara í pottapartýinu í sundi en skaðræðisgripirnir höfðu góð áhrif því við hrökkluðumst í laugina og syntum 500 metra sem var bara hressandi.

Um kvöldið var síðan fundur í tveggja manna menningarklúbbnum og að þessu sinni var það matarmenning sem var tekin fyrir á ítalska staðnum Basil & lime. Þægilegur staður með fallegar innréttingar og góða þjónustu... en maturinn hefði mátt vera betri. Pastað var allt heimagert og samsetningarnar girnilegar en báðir pastaréttirnir voru frekar bragðlausir þrátt fyrir að við hefðum bætt ótæpilegu magni af pipar við þá. Hugsa að ég fari bara á Ítalíu næst þegar ætlunin er að fá sér ítalskt. Svosem bara same old þar en mér finnst maturinn samt alltaf standa fyrir sínu og er á góðu verði. Það er samt gaman að prófa nýja staði og ég elska að fara út að borða, en ég held að minnsta kosti að ég fari eitthvað annað næst.

Menningarklúbburinn hélt síðan í hringborðsumræður á Ölstofunni þar sem við vorum leiðinlega fólkið sem töluðum tvisvar við starfsfólkið til að kvarta undan gestum. Einu sinni var fólkið við hliðina á okkur að reykja vindla og sígarettur og sinnti því ekki þegar við báðum þau um að fara út. Þau voru skömmuð og horfðu á okkur illum augum það sem eftir var kvöldsins. Einnig veittist að okkur miðaldra maður sem virtist vera Georg Bjarnfreðarson wannabe. Hann vildi ólmur ræða við okkur stúlkurnar um hitt og þetta og og tók fram að hann væri með fullt af háskólagráðum. Hann sagðist vera nýkominn af spítalanum þar sem hann hefði hitt fullt af læknum (við vorum svosem ekkert hissa á því). Síðan hafði hann mikinn áhuga á stjórnmálaskoðunum okkar og spurði hvort við settum X við D. Við neituðum að svara og þá fór hann að spyrja okkur hvort við hefðum verið í MR. Georg vildi líka mikið tjá sig um Hannes Hólmstein og hvað hann hefði verið að gera í MR en það verður ekki haft eftir hér. Svo var hann mjög upptekinn af því að deila þeim leyndardómi með okkur að Þetta er allt sexúalt og kallaði það á eftir okkur meðan dyravörðurinn leiddi hann frá borðinu okkar.

Á sunnudaginn fékk ég síðan að halda á fimm daga frænku minni sem brosti svo fallega til mín að ég bráðnaði alveg, og kæri mig ekkert um að heyra að þetta hafi bara verið ósjálfrátt viðbragð við loftlosun. Hún er algjör draumur í dós eins og við var að búast. Ég er ekki jafn hrædd við að halda á svona litlum krílum enda komin í ágætis æfingu eftir fæðingarsprengjur vina og vandamanna á síðustu tveimur árum. Það urðu nefnilega ansi mörg börn til í góðærinu, árið 2008 fæddust 4.835 börn hérlendis. Það eru 275 fleiri börn en ári áður og aðeins tvisvar í sögu Íslands hafa fleiri lifandi fædd börn komið í heiminn á einu ári, árin 1960 og 1959. Það verður áhugavert að fylgjast með hvernig þróunin verður á þessu ári og næsta.

19. mar. 2009

Confessions of a Chocoholic

Á morgun tek ég þátt í súkkulaðikeppni. Þessi staðhæfing framkallar alla jafna glampa í augu þeirra sem ég segi frá, þar til ég útskýri að þetta sé keppni í að búa til súkkulaðirétti en ekki í því hver geti borðað mesta súkkulaðið. Ég fæ samt vatn í munninn við tilhugsunina. Ég tek keppnishlutann ekki svo alvarlega heldur ætlaði að bjóða upp á forláta súkkulaðidrykk, sem ég hugðist búa til úr framandi og freistandi súkkulaðispónum sem ég fékk í jólagjöf. Nema hvað að þegar ég var að lesa lýsinguna á pakkanum áðan sá ég að það eru ekki nema fimm skammtar hverjum pakka - við verðum tíu og ég á bara einn pakka. Nú þá fá allir bara hálfan bolla hugsaði ég, þar til ég sá að upphaflega skammtastærðin miðaðist við fimm demi-tasse bolla, þ.e.a.s. hálfa bolla.

Mér féllust eiginlega hendur svo ég ákvað að dreifa huganum og gluggaði í danskt kvennablað. Þar rakst ég á ansi skondið ráð fyrir konur sem eiga t.d. maka sem eru lítið heima eða sem hafa minni löngun til ástaratlota en þær sjálfar. Lausnin var að föndra eigið hjálpartæki ástarlífsins með Clone-a-willy, og búa til gúmmíafsteypu af djásni makans. Ráðleggingarnar virtust settar fram í fúlustu alvöru og mér fannst þetta svo fyndið að ég ákvað að fletta síðunni upp á netinu.

Haldiði að ég hafi ekki uppgötvað nýjastu handverkshugmyndina í þessum efnum, sem er að það er hægt að klóna karlmennskuna ekki bara úr gúmmí heldur úr súkkulaði! Þetta er kannski lausnin, að mæta með svona í súkkulaðikeppnina!



Nú er bara að finna einhvern til að vera góð fyrirmynd...

18. mar. 2009

Stundum er stutt á milli nýs lífs og ljóss sem slokknar. Ég er léleg í jarðarförum. Ég græt alltaf ótæpilega, nánast sama hversu náin ég var hinum látna eða hvort viðkomandi hafi látist fyrir aldur fram eða ekki. Ég veit ekki hverjum ég á að heilsa, hvernig eða hvenær, finnst ég aldrei geta sagt neitt en samt er heldur ekki hægt að segja ekki neitt. Hvað um það. Hver vill svosem vera góður í því að fara í jarðarfarir.

17. mar. 2009

Annarra manna blogg

Nú eru svo margir farnir að taka við sér í bloggunum að ég verð að reyna að standa mig. Hér eru helstu nýju keppinautarnir:

Barnið er farið að keppa við mig í bloggi en hún er þrátt fyrir að vera bara barn (látum það vera að hún er móðir og á 26. aldursári) algjör snillingur og er að gera lokaverkefni í byggingarverkfræði um rýmingartíma á leikskólum í sambandi við brunavarnir.

Blaðran pæjuvinkona mín er oft með mjög skemmtilegar pælingar um samskipti kynjanna. Hún skrifaði síðast vangaveltur um hvort allir væru að leita sér að hugsanlegum maka á djamminu, og færði rök fyrir því að svo væri.

Blaðrarinn sem vinnur með mér er síðan farinn að vera duglegri að blogga. Hann er Vestfirðingur með áhuga á fiskum og gömlum saumavélum og er ótrúlega skemmtilegur karakter. Í dag giskaði ég réttilega á að Hemmi Gunn væri að verða 63 ára og hann skuldar mér því einn löns (þ.e.a.s. vinnufélaginn, ekki Hemmi).

17. mars

Í dag eignaðist ég loksins loksins litla frænku þegar Freyjunni minni fæddist dóttir.
Í dag á Guðrún æskubestavinkona mín og meðlimur í leynifélaginu Jarún þrítugsafmæli.
Í dag hefði langamma mín orðið 97 ára.
Í dag er dagur heilags Patreks.
Í dag er góður dagur.

Nú er bara að vona að 10 ára afmæli litlu frænku stangist ekki á við fertugsafmæli vinkonunnar árið 2019 (Kallast þetta kannski að hafa óþarfa áhyggjur?).

Feita Nína

Poppdívurnar Madonna og Björney Spjót komu báðar við sögu í lífi mínu í gær. Mig dreymdi afar undarlegan draum þar sem ég var sálfræðingur Madonnu. Í gær áttaði mig líka á því að Britney syngur í raun og veru just like a circus í nýja laginu sínu þegar mér hefur heyrst hún vera að syngja just like a surrogate. (einhvers konar staðgengill). Ég misskil/misheyri reyndar nokkuð oft texta og skoða stundum síðuna kissthisguy þar sem fólk sendir inn á hvaða hátt það hefur heyrt lagatexta vitlaust. Eins og til dæmis gaurinn sem heyrði Michael Stipe syngja "Let's pee in the corner" en ekki "That's me in the corner" í R.E.M. laginu Losing my religion.Þessi íslenska síða er eiginlega fyndnari, en ekki með jafn margar misheyrnir ef svo má að orði komast. En af íslensku lögunum sem dæmi má nefna Sálarlagið þar sem textinn "Ég þekki þig, og þínar langanir..." kemur fyrir, en einhver heyrði það sem "Ég þekki þig, og þína langömmu.." Annars ég get komið því að hér, þótt það sé ekki mér til framdráttar, að ég hélt lengi vel að búðin Eco Decor héti Egg og Dekur.

13. mar. 2009

Tvífarar #1




Fyrr á árinu fór ég að sjá nýjustu Woody Allen myndina Vicki Cristina Barcelona sem var ósköp góð skemmtun. Flestir (þar á meðal ég) könnuðust við leikarann á kvikmyndaplakatinu hér að ofan og töldu að þarna væri kominn hinn ógleymanlegi Denny Duquette úr Grey's Anatomy, leikinn af Jeffrey Dean Morgan.
Hér má sjá mynd af Jeffrey loverboy:



Það fóru þó að renna á mig tvær grímur eftir að ég hafði séð sýnishorn úr myndinni og ég komst að því að leikarinn í VCB er raunar allt annar og óskyldur ofangreindum dreng, nefnilega Javier Bardem (sem lék m.a. í No country for old men).
Glaumgosinn Javier er hér:



Ég er ekki sú fyrsta til að sjá svip með þessum tvífarafolum og koma upp ófáar leitarniðurstöður ef maður slær inn nöfn þeirra beggja í Google, þrátt fyrir að þeir hafi aldrei leikið saman í mynd svo ég viti til.
Skelli inn einni mynd af þeim saman:




En eins sjarmerandi og þeir eru þá dæmir maður nú oft svona leikara út frá karakterunum sem maður þekkir þá best af. Þannig þekki ég Javier best sem óforbetranlegan flagara en Jeffrey sem afturgöngu og því get ég ómögulega valið á milli þessara tveggja hjartaknúsara (æ jú ok mér finnst Denny sætari :) )

Ég er ekki berdreymin

Mig dreymdi að ólétta bestavinkonufrænkan og ég færum á kaffihús og hún missti vatnið í þann mund sem við vorum að fara. Þar sem hún var í gær komin 9 daga framyfir orðin óþolinmóð að bíða eftir barninu, stakk ég upp á að við færum á kaffihús svona til að athuga hvort ég væri berdreymin. Við fórum á Babalú og eftir kaffi/tedrykkju og langar samningaviðræður við bumbuna stóðum við upp - en ekkert gerðist. Ákváðum að sleppa því að fara á öll kaffihús í borginni heldur fórum í smá bíltúr . Þú þarft ekkert að hægja á þér við hraðahindranir heyrðist í vinkonunni og við keyrðum út á Seltjarnarnes og fórum á ógnarhraða yfir hverja hraðahindrunina á eftir annarri þar til við vorum báðar komnar með snert af heilahristingi.

9. mar. 2009

Að læra meira og meira, meira í dag en í gær...

Ég var með strengi alla helgina eftir lúsífersku líkamsræktina og var eiginlega búin að gleyma að harðsperrur geta stundum verið verri þarnæsta dag eftir æfingar. En það svar svosem ágætt að endurlæra þessa lexíu, enda lærði ég ýmislegt nýtt um helgina - og ýmislegt sem ég vissi en var búin að gleyma. Sem dæmi má nefna...

Að Þjóðmenningarhúsið er húsið við hliðina á Þjóðleikhúsinu (þessu komst ég reyndar að á Vetrarhátíð en var eiginlega búin að gleyma því).
Að gatan Mosabarð er í Hafnarfirði (ég rata meira að segja þangað!).
Að það er hægt að fá oreo-kex út í bragðaref (og það bragðast vel).
Að Steve Martin og Sigourney Weaver leika í kvikmyndinni Baby Mama (sem er ágætis skemmtun á köflum).
Að kvikmyndin The Core er óendanlega fyrirsjáanleg (en Aaron Eckhart er hot).
Að humarveislan á Tapas barnum er mun betri en patatas bravas hjá þeim (ég pantaði hvorgugt- og já hey Sangriað hjá þeim er gott).
Að það er allt í lagi að bíða eftir mat í meira en klukkutíma í góðum félagsskap en það væri afar erfitt að vera á lélegu deiti í sömu aðstæðum (þá er bara að hafa plan B).
Að skemmtilegi saumaklúbburinn minn (sem heitir ekki The Holograms eða Uptown Girls) gæti heitið einu nafni Ásdís Ósk Helgadóttir (við heitum allar einu af þessum nöfnum).
Að dugga er annað orð yfir stelpa samkvæmt íslenskri samheitaorðabók (sem hljómar eins og guggunýyrðið hans Ólafs Ragnars, nema bara aðeins sjóaralegra).
Að þrátt fyrir að ég sé búin að fara vikulega í heilt ár en hann tvisvar á síðustu tuttugu árum er pabbi minn betri en ég í badminton (hann vann þrjá leiki um helgina, ég einn).
Að Þóra Marteinsdóttir er frábært tónskáld (ok ég meina þetta vissi ég þannig séð fyrir en heyrði það ekki sjálf fyrr en um helgina. Ekki spillir fyrir hvað hún er sæt og skemmtileg).
Að það er ekki komið vor í mars (hvernig gat ég gleymt þessu!).

Á mánudaginn lærði ég síðan hvernig eru teknar röntgenmyndir af nefkoki (meðal annars með því að horfa upp, styðja hökunni við vegg og opna munninn).

Pæling dagsins í dag er svo að silfurskotta er í raun ótrúlega krúttlegt nafn á frekar viðbjóðslegu fyrirbæri.

Hver þarf að vera í skóla þegar lífið kennir manni svona margt ;)

5. mar. 2009

Boxað þar til blá í framan með Hlýrabola-Hitler

Ég varð fyrir pyntingum í dag í annað sinn í vikunni, nema að þessu sinni í leikfimisal en ekki tannlæknastól. Álpaðist inn í boxtíma þar sem voru fyrir nokkrar pæjur sem voru greinilega fastagestir í þessum tíma sem var ekkert eitthvað smá spark út í loftið heldur herþjálfunaræfingar með öskrum eins og"10 í viðbót, í hvert sinn sem einhver stoppar verða allir að byrja upp á nýtt" . Ég vildi nú vera team player svo ég píndi mig áfram og var skjálfandi á beinunum á eftir, hjartað sló svo hratt að ég hélt að það myndi taka á sig stökk, hlaupa út um munninn og fara í sturtu á undan mér. Gaurinn sem kennir þetta er mjög sérstakur, sítt hár í tagli og sólgleraugu og oftast í allt of flegnum hlýrabol. Í kvöld var hann í snjóþvegnum gallabuxum með karlmannakameltá sem ég var að reyna að gera mitt besta til að stara ekki á. Hann var nú samt að reyna að vera almennilegur inn á milli pyntinganna, kannski um of því hann heimtaði að fá að ræða við mig eftir tímann og bað um nafn og símanúmer svo hann gæti hringt í mig um helgina og boðið mér á einhvern fund sem hann er að halda í næstu viku. Held að hann sé að reyna að selja mér einhverja vitleysu og hefði venjulega spurt eitthvað meira út í þetta en þarna hafði ég orðið fyrir súrefnisskorti í heila vegna oföndunar og stundi út úr mér (réttu) símanúmeri mér sjálfri að óvörum. Annars þooooli ég ekki þessa tegund af líkamsrækt (þótt það hafi alveg varið gaman að boxa aðeins) og er miklu meira fyrir að vera góð við sjálfa mig - en nó pain, nó gain.

4. mar. 2009

Bolabrella

Ég sendi Útlendingnum (sem er búsettur í London) smá pakka um daginn í tilefni stórafmælisins. Reyndar var ég næstum búin að gleyma afmælinu svo ég lét Amazon senda til hans bol í snatri með áletrun úr Lost þáttunum sem eru í miklu uppáhaldi hjá honum. Smá einkahúmor, var viss um að hann myndi fatta um leið að þetta væri frá mér þótt ég hefði ekki sett kort með. Viku seinna var ég ekkert búin að heyra í honum svo ég hringdi í hann til að athuga hvort sendingin hefði borist. Hann kannaðist ekki við að hafa fengið pakka frá mér sem mér fannst frekar leiðinlegt og lýsti bolnum sem ég taldi mig hafa látið senda til hans. Já bolurinn, sagði hann, var hann frá þér? Ég hélt að þetta væri bara sniðug markaðsbrella frá Sky sjónvarpsstöðinni sem sýnir þættina, þetta kom um leið og nýjasti kynningarbæklingurinn þeirra. Hann hélt semsagt að pakkinn hefði verið frítt kynningarefni. Var ekkert að pæla í því hvað það væri heppilegt að bolurinn skyldi vera í réttri stærð eða að pakkningin bæri þess merki að hann hefði verið pantaður af netinu.
Note to self: Karlmenn eru ekki móttækilegir fyrir hugsanaflutningi. Ekki frekar en konur.

Skin og skúrir

Dagurinn byrjaði vel og endaði illa. Ég dottaði í strætó á leið í vinnuna eins og svo oft en vaknaði við bjarta og hlýja sólargeisla á andlitinu sem komu mér í hoppandi skoppandi gott skap eins og allir vorboðar gera. Átti góðar stundir í kvöld í Kópavogslaug og á Klapparstíg en fékk síðan tvö símtöl í röð með afar slæmum fréttum og var reyndar búin að fá slæmar fréttir í morgun líka. Ekki sem snerta mig persónulega en það er alltaf vont þegar fólkið sem manni þykir vænt um á um sárt að binda.

Segðu aaaaaa

Í dag borgaði ég myndarlegum manni fyrir að pynta mig með ýmsum tækjum og tólum þar til ég varð helaum en hamingjusöm. Fór semsagt til tannsa. Engar skemmdir en ein tönn löguð svo það þurfti aðeins að bora. Ég er ekki með tannlækna- sprautu- eða blóðfælni svo finnst þetta ekkert erfitt (bara vont) en veit samt aldrei hvernig ég á að haga mér í stólnum. Á ég að vera með augun opin eða lokuð og ef ég er með þau opin, hvert á ég þá að horfa? Á ég að svara tannlækninum þegar hann spyr mig að einhverju meðan hann er með höndina hálfa uppi í munninum á mér?

Mamma og pabbi fóru síðan með frumburðinn (mig) í bíó, þótt ég vilji nú frekar meina að ég hafi farið með þau. Slumdog Millionaire varð fyrir valinu og það kom engum á óvart að hún var alveg frábær, þótt ég hefði reyndar frekar viljað fara í bíó með engar væntingar til myndarinnar. Er alveg hissa (en ánægð) á sjálfri mér að hafa farið í bíó tvö þriðjudagskvöld í röð. Einu sinni var ég reyndar alltaf í bíó og montaði mig oft af því að vera búin að sjá næstum allar myndirnar á topp 20 listanum sem var alltaf aftast í tímaritinu Myndbönd mánaðarins (a.m.k. meira en helming). Sem heitir víst núna Myndir mánaðarins og samkvæmt nýjasta topp 20 listanum þeirra er ég bara búin að sjá eina mynd, meistaraverkið High School Musical 3.

3. mar. 2009

Your girl is lovely, Hubbell

Golden oldies kvikmyndaklúbburinn hélt fund í kvöld þar sem var horft á kvikmyndina The way we were frá 1973 (Robert Redford og Barbra Streisand í aðalhlutverkum, Sidney Pollack leikstýrði). Ég var extra stressuð að keyra í hálkunni og snjónum á vídjóleiguna þar sem ég var með kasólétta (9 mán mínus einn dagur) bestuvinkonu og hund í bílnum og var hrædd um að koma fæðingunni af stað ef ég færi of harkalega yfir hraðahindrun. En það hafðist á endanum og allir komust örugglega á leiðarenda. Erum reyndar búnar að vera að taka aðeins eldri myndir en þessa en ákváðum að færa mörkin í að myndin þyrfti að hafa komið út áður en við fæddumst. En það er ekkert grín að vera í svona klúbbi, hinn ofurskipulagði meðstofnandi kvikmyndaklúbbsins skráði samviskusamlega upplýsingar um myndina niður, ætlar að búa til möppu og síðan verður farið yfir spurningar úr myndinni næst þegar við hittumst. Myndin var annars góð - það kannast örugglega margir SATC aðdáendur við að þær stöllur ræddu um þessa mynd í þætti þar sem Carrie líkti aðalpersónunum við sig og Mr. Big. Fyrir þá sem ekki vita er myndin um samband karls og konu sem gengur brösuglega af því að þau eru svo ólík. Ekki ólík eins og í Grease eða eitthvað klisjukennt "hún er prinsessa og hann er í rokkhljómsveit", heldur með ólík viðhorf, lífssýn og pólitískar skoðanir svo eitthvað sé nefnt. Þetta var bara eitthvað svo raunsætt og Barbra Streisand er alveg frábær í henni. Hún er svo pínlega ástfangin að við vorum farnar að halda fyrir augun og tala við sjónvarpið "Nei nei ekki hringja í hann!". Mér fannst Robert Redford ekkert sérlega sannfærandi að leika tvítugan háskólanema (myndin spannar reyndar langt tímabil) enda er hann amk 36 ára þegar myndin er tekin upp. Engin tölvugrafík til að má burtu hrukkurnar þarna.

1. mar. 2009

Sölutrix

Þótt ég eigi á köflum erfitt með að segja nei fell ég ekki oft fyrir gylliboðum í símasölu eða í stórmörkuðum. Fór í matvörubúð fyrir helgi þar sem var verið að leyfa manni að bragða alls konar girnilegt en ég var svosem með það á hreinu í huganum hvað ég ætlaði að kaupa. Þar sem ég kaupi nú ekki alltaf það sem ég ætla mér ákvað ég að smakka ekki einu sinni kormasósuna eða hitt gúmmelaðið sem var verið að kynna. Nema hvað, að svo staldraði ég aðeins við kexrekkann og var að leita að ákveðinni vöru. Þá vindur sér að mér hávaxinn unglingsstrákur sem starfaði greinilega í versluninni. Hann greip ákveðið einn kexpakka (tegund sem ég hafði aldrei séð áður og hefði ekki keypt sjálf) og hvíslaði í eyrað á mér "Þetta er ógeðslega gott kex".
Eins og í leiðslu greip ég annan kexpakka af sömu tegund - ég meina ég gat ekki sleppt því að smakka! Það reyndist síðan ekkert brjálæðislega gott á bragðið, en þetta var gott sölutrix. Velti því fyrir mér hvort drengurinn sé á sölubónus fyrir að hvísla nöfn á vörutegundum í eyrun á ungum konum að versla...

Ljúfur laugardagur

Eftir svefnleysi vikunnar ákvað ég að taka því rólega og hafa það notalegt á föstudagskvöldið. Ég tók því aðeins of rólega og sofnaði klukkan sjö. Og þá er ég ekki að meina á laugardagsmorguninn. Aftur á móti vaknaði ég ofurhress eftir fjórtán tíma svefn og átti indælisdag með endalausum kaffihúsaferðum og vinahittingum. Fór í sund og á kaffihús með einni vinkonu og í badminton með annarri. Síðan var smá pása heima sem fór í að hanga og lesa blöðin, þvo þvott, leika við kanínuna og vinna verkefni í tölvunni. Um kvöldið var það út að borða, göngutúr, kaffihús og bókabúð með platkærastanum. Heimsókn til foreldranna og svo aftur út að hitta tvær vinkonur og kærastana þeirra. Önnur er komin 9 mánuði á leið (mínus tveir dagar), síðasti séns að kíkja út á lífið í bili svo við röltum á nokkra staði (hún er hressasta ólétta kona sem ég veit um). Settumst niður í kakódrykkju og spjall og svo náði ég að smella kossi á tvær skvísur á Ölstofunni á leiðinni heim. Fékk þar smá ábendingu um bloggvesenið á mér að vera alltaf að byrja og hætta, svo ég fór beinustu leið heim að blogga... Humm ég ætlaði reyndar að blogga um eitthvað allt annað en bara Kæra dagbók, í dag... en ég geri það bara á morgun, enda orðin svona gífurlega afkastamikill bloggari.