23. mar. 2009

Kvöldstund með Gogga Bjarnfreðar og fleiri sögur

Súkkulaðikeppnin snerist á endanum meira um að smakka og njóta réttanna því ógerlegt var að bera saman ólíka súkkulaði og á endan um varð hver sigurvegari í sínum flokki. Þannig lít ég svo á að ég hafi fengið gullverðlaun í flokknum Súkkulaðdrykkir. Ég áttaði mig loksins á af hverju uppskriftin að chillivanillukanilsúkkulaðinu miðaðist við hálfa bolla, það var sterkt bragð af drykknum sem var nú meira eins og súkkulaðileðja og ógerðlegt að drekka meira en nokkra sopa, þrátt fyrir að bragðið væri alveg hreint ágætt. Ég var samt búin að setja meiri mjólk en mælt var með í uppskriftina svo ég hugsa að þetta hefði verið nánast í föstu formi annars. En það var a.m.k. nóg fyrir alla svo ég þurfti ekki á súkkulaðilíkneskinu að halda, enda fengust engir sjálfboðaliðar til verksins. Þetta var óskaplega unaðslegt kvöld og ég hlakka til að endurtaka leikinn vonandi seinna í ár.

Kreppan hefur annars margar ófyrirséðar afleiðingar. Ein þeirra er sú að badmintonfélagi er kominn í stjórn Fjármálaeftirlitsins og forfallast því ansi oft. Ég get að minnsta kosti andað rólega yfir því að FME sé að vinna vinnuna sína en verra þykir mér að missa badmintonfélagann. Vinkona mín hljóp í skarðið á laugardaginn var og við skelltum okkur síðan í sund. Í Kópavogslauginni var allt fullt af brjáluðum börnum og að því er virtist útúrtauguðum helgarpöbbum og –mömmum. Yfirleitt er ég nú bara í pottapartýinu í sundi en skaðræðisgripirnir höfðu góð áhrif því við hrökkluðumst í laugina og syntum 500 metra sem var bara hressandi.

Um kvöldið var síðan fundur í tveggja manna menningarklúbbnum og að þessu sinni var það matarmenning sem var tekin fyrir á ítalska staðnum Basil & lime. Þægilegur staður með fallegar innréttingar og góða þjónustu... en maturinn hefði mátt vera betri. Pastað var allt heimagert og samsetningarnar girnilegar en báðir pastaréttirnir voru frekar bragðlausir þrátt fyrir að við hefðum bætt ótæpilegu magni af pipar við þá. Hugsa að ég fari bara á Ítalíu næst þegar ætlunin er að fá sér ítalskt. Svosem bara same old þar en mér finnst maturinn samt alltaf standa fyrir sínu og er á góðu verði. Það er samt gaman að prófa nýja staði og ég elska að fara út að borða, en ég held að minnsta kosti að ég fari eitthvað annað næst.

Menningarklúbburinn hélt síðan í hringborðsumræður á Ölstofunni þar sem við vorum leiðinlega fólkið sem töluðum tvisvar við starfsfólkið til að kvarta undan gestum. Einu sinni var fólkið við hliðina á okkur að reykja vindla og sígarettur og sinnti því ekki þegar við báðum þau um að fara út. Þau voru skömmuð og horfðu á okkur illum augum það sem eftir var kvöldsins. Einnig veittist að okkur miðaldra maður sem virtist vera Georg Bjarnfreðarson wannabe. Hann vildi ólmur ræða við okkur stúlkurnar um hitt og þetta og og tók fram að hann væri með fullt af háskólagráðum. Hann sagðist vera nýkominn af spítalanum þar sem hann hefði hitt fullt af læknum (við vorum svosem ekkert hissa á því). Síðan hafði hann mikinn áhuga á stjórnmálaskoðunum okkar og spurði hvort við settum X við D. Við neituðum að svara og þá fór hann að spyrja okkur hvort við hefðum verið í MR. Georg vildi líka mikið tjá sig um Hannes Hólmstein og hvað hann hefði verið að gera í MR en það verður ekki haft eftir hér. Svo var hann mjög upptekinn af því að deila þeim leyndardómi með okkur að Þetta er allt sexúalt og kallaði það á eftir okkur meðan dyravörðurinn leiddi hann frá borðinu okkar.

Á sunnudaginn fékk ég síðan að halda á fimm daga frænku minni sem brosti svo fallega til mín að ég bráðnaði alveg, og kæri mig ekkert um að heyra að þetta hafi bara verið ósjálfrátt viðbragð við loftlosun. Hún er algjör draumur í dós eins og við var að búast. Ég er ekki jafn hrædd við að halda á svona litlum krílum enda komin í ágætis æfingu eftir fæðingarsprengjur vina og vandamanna á síðustu tveimur árum. Það urðu nefnilega ansi mörg börn til í góðærinu, árið 2008 fæddust 4.835 börn hérlendis. Það eru 275 fleiri börn en ári áður og aðeins tvisvar í sögu Íslands hafa fleiri lifandi fædd börn komið í heiminn á einu ári, árin 1960 og 1959. Það verður áhugavert að fylgjast með hvernig þróunin verður á þessu ári og næsta.

6 ummæli:

Aldís Rún sagði...

Þú hefðir nú bara átt að fara að telja upp þínar háskólagráður... ;)

Nafnlaus sagði...

Mundi fyrst ekki afhverju í ósköpunum við hefðum farið tvisvar sinnum að kvarta yfir gestunum á næsta borði. Var búin að steingleyma reykingarmönnunum, enda snéri ég í þá baki og sá ekki the evil eye.

Annars er nú verið að spá því að á árinu 2009 verði sett met í barneignum því sagan segir að margar klárar konur hafi orðið ófrískar í haust til að fá ekki uppsagnarbréf. Ég var því miður ekki svona klár...hefði átt að verða ófrísk í október eins og við töluðum um þarna yfir bjórnum. Það væri þó auðvitað lítið um bjór með þér ef svo væri svo ég ætla að líta á jákvæðu hliðarnar :)

kv,
Hildur

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir síðast Sólrún, brilliant kvöld og súkkulaðikanildrykkurinn þinn var ÆÐI :-) Klárlega gull þar!

En omg ég held ég viti hver hann Georg þinn er... ehm... sprenglærði maðurinn er mágur vinkonu minnar (aumingja hún) og snargeðveikur. Ég móðga fólk ekki að gamni mínu en móðgaði GB alveg skelfilega á Ölstofunni um daginn - allir urðu afar fegnir því maðurinn lét sig hverfa hehehehe...

Knús og kossar
Soffía

Nafnlaus sagði...

...og þessi maður er Facebook vinur minn!

kv. Ingibjörg

Nafnlaus sagði...

He he Aldís ég held að það hefði bara leitt til frekari rökræðna... hans háskólagráður voru á mjög svipuðu sviði og mínar (svo þarf ég auðvitað að fara í doktorsnám til að toppa listann).

Ó mæ, maður á auðvitað að fara varlega í að vera með lýsingar á skrýtnu fólki svona á opnum vef, maður veit aldrei hver gæti þekkt viðkomandi... en hann var svosem alveg skemmtilegur karakter þótt hann hafi verið farinn að trufla okkur.

og já Hildur það hefði kannski ekki verið jafn gaman hjá okkur um helgina ef þú hefðir verið komin 6 mánuði á leið... annars ef þú vilt verða ólétt þá held ég að það sé ekkert verra að hanga á Ölstofunni en annars staðar...næst getum við tekið út hverjir þér finnst vera góðir til undaneldis ;)

Nafnlaus sagði...

hhmmm já það er kannski vísir að nýjum og skemmtilegum leik.

Annars held að hann myndi ekki breytast mikið frá þeim upphaflega þar sem efnaskiptin hjá mér eru þau sömu. Maður dregst að þeim sem náttúran telur mann eiga góða samleið með (genalega séð það er).

Hef annars ekkert að gera með að verða ólétt núna svo við skulum bara halda okkur við þetta gamla góða ;)

kv,
Hildur