17. sep. 2009

Bíó og fordómar

Mér finnst rosalega gaman að fara í bíó og þá á alls konar myndir nema kannski helst hryllings- og stríðsmyndir. Hef farið minna síðustu ár heldur en árin á undan en er búin að taka smá bíó-tímabil síðustu tvo mánuði eða svo. Fór að sjá Karlar sem hata konur (mjög góð), My sister's keeper (sorgleg), Hangover (sæmilega fyndin), Ghosts of girlfriends past (óendanlega léleg) Public Enemies (ágæt en langdregin) og Inglourious Basterds (frábær en ógeðsleg). Síðustu helgi fór ég síðan tvisvar í bíó. Sá norsku myndina Norður (Nord) sem var tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs, hún kom skemmtilega á óvart og var mjög góð. Svo skemmtum við systurnar okkur yfir The Proposal um miðjan dag á sunnudeginum. Vona svo að ég nái að sjá eitthvað á RIFF :)

Eftir bíóið á laugardagskvöldinu fórum við Ásdís vinkona á pöbbinn í spjall og skemmtilegheit. Á meðan hún brá sér afsíðis settist plebbalegur (svona tíglapeysutrefill) strákur/maður mér við hlið og vildi endilega tala við mig. Sem var svosem allt í lagi, þangað til hann hellti bjórnum sínum yfir mig alla. Hann var voðalega sorrý yfir þessu og vildi endilega bjóða mér í glas sem ég afþakkaði pent, enda vorum við að fara og ég farin að velta fyrir mér hvort þetta væri einhver pikk-up strategía a-la" Ég á heima hérna rétt hjá, þú getur farið úr þessum blautu fötum þar". En jæja, ég hef svosem hellt óvart yfir fólk sjálf. Eitt af því fyrsta sem hann spurði mig var hvar við hefðum verið fyrr um kvöldið og ég sagði eins og satt var að við hefðum verið í bíó. Hann spurði á hvaða mynd og ég sagði honum það, að við hefðum verið á Norður. Þá kom skrýtinn svipur á hann og hann sagðist ekki trúa mér! Hann sagðist einmitt vera á leiðinni á hana daginn eftir en að það kæmi sér mjög á óvart að ég hefði verið á þessari mynd. Þegar ég gekk á hann sagðist hann vera "með fordóma fyrir fólki eins og þér". Og útskýrði það ekkert meir. Nú var ég ekki búin að segja honum neitt um mig nema nafn og póstnúmer, ég var ósköp venjulega klædd og skil þess vegna ekki alveg hvað hann átti við. Veit ekki hvort hann var bara að reyna að stuða mig en þetta pirraði mig eitthvað voðalega. En þar sem ég er ekkert sérstaklega góð í að svara fyrir mig og koma með flott kommbökk (fyrr en auðvitað eftirá), frussaði ég bara að hann væri í hallærislegri peysu og fór. Kannski hefur hann bara skynjað að ég var með fordóma fyrir honum og verið að hefna sín...

13. sep. 2009

Aldrei aftur eróbikk

Á föstudaginn síðasta ákvað ég að prófa eitthvað nýtt og fara með nokkrum stelpum úr vinnunni í góðgerðarþolfimitíma í World Class Laugum þar sem Páll Óskar átti að þeyta skífum. Ég gerði ráð fyrir að þetta væri smá tjútt og trall fyrir gott málefni og bjóst við að allir myndu dilla mjöðmum í takt og syngja saman Allt fyrir ástina og svo framvegis. Þegar salurinn fylltist síðan af þolfimifólki og -kennurum fóru hins vegar að renna á mig tvær grímur. Palli spilaði techno tónlist og það voru kvikmyndatökumaður og ljósmyndarar í salnum. Great. Ég var mætt í rauða Reykjavíkurmaraþonbolnum mínum sem var nú ansi lítill á mig fyrir og hafði greinilega hlaupið í þvotti. Innan um Nike spandex beiburnar var ég þess vegna eins og kyrktur kettlingur með muffin top. Þarna voru samankomnir kennarar frá öllum heimshornum og tóku 10 mín syrpur hver. Þeir gerðu greinilega ráð fyrir því að þátttakendur væru vanir og kynnu svona þessi helstu spor. Ég hafði ekki farið í eróbikktíma í svona 10 ár, og er þar að auki með afar ósamhæfðar hreyfingar eins og frægt er orðið, svo ég var ekkert sérstaklega fljót að ná sporunum. "Og einn, og tveir, hliðar saman hliðar" ... Fínt hugsaði ég, enda lofaði upphitunin góðu og ég orðin sveitt á fyrstu mínútunum. "Og svo mambó, mambó, hægri snú, krossa yfir, chasse, snúa sér í hring, cha cha cha. Allir með?". Ummm.. NEI! Þetta endaði með því að ég snerist bara í hringi og var alltaf að rekast á fólk, var svo að hlaupa um fram og til baka aftast í salnum til að reyna að forðast myndavélarnar á meðan ég gerði ámátlegar tilraunir til að fylgja sporunum. Svona svolítið eins og Phoebe í Friends í danstímanum, nema hvað hún var að fíla sig aðeins betur en ég.

Skelltum okkur svo í sund á eftir í Laugardalslauginni og prófuðum nýju rennibrautina. Ég fór fyrst og þar sem ég er með mjög lágan adrenalínþröskuld fannst mér þetta alveg svaðalegt og brá brjálæðislega þegar það varð allt svart og öskraði úr mér lungun á leiðinni niður. Nema hvað að þessi rennibrautargöng magna greinilega upp allt hljóð, frétti eftirá að öskrin í mér hefðu bergmálað um alla laugina og fólkið í heitu pottunum stóð upp til að kanna hvað væri eiginlega í gangi. Svo var hópur af fólki hlæjandi þegar ég kom út. En ég lét það ekki á mig fá og skellti mér aftur. Ópin höfðu líka þau áhrif að fullorðna fólkið í lauginni gerði ráð fyrir að þetta væri spennandi og flykktist í rennibrautina. Varð mjög ánægð að sjá það, enda eru rennibrautir ekki bara fyrir börn, fullorðnir hljóta líka að mega leika sér.

10. sep. 2009

Sögur af frumskógi á fæti, ástarbréfum og klúbbastarfi

Ég uppgötvaði á miðjum fundi í vinnunni (í kvartbuxum, berleggjuð og með krosslagðar lappir) að ég hefði gleymt að raka á mér aðra löppina. Nema að ég hafi rakað sömu löppina tvisvar, sem kæmi mér ekki á óvart þar sem ég er afar utan við mig á köflum. Getur svosem vel verið að enginn hafi tekið eftir þessu (enda svo heppin að vera með frekar ljós og fíngerð líkamshár) en ég fór í hálfgerða kleinu og reyndi að setjast með eðlilegum hætti á loðna legginn sem gekk vægast sagt illa (held hins vegar að allir hafi tekið eftir því).

Síðan þar sem ég kynntist brjóstahaldaraklæddum sálufélaga mínum er endalaus uppspretta skemmtiefnis. Hef fengið nokkur stórskemmtileg bréf. Hér eru nokkur bréfabrot (frá mismunandi mönnum).

- I am honset looking for honset wome for good famli.
- It would be honour if u include me in the circle of friendship. Wishing you prosperity, peace and harmony in life
- Dont worry,I am not pervert and I am not searching a woman for cyber sex or other things.I want to have chat and I want to be friend only.

En til að gera nú ekki bara grín að sjálfri mér verð ég að segja að haustið leggst annars bara ótrúlega vel í mig, elska þessa kósíkertaljósateppa stemningu sem árstíminn hefur í för með sér. Systir mín elskulega uppáhaldið mitt er að koma til landsins á morgun og verður í heilar þrjár vikur sem er algjört æði. Það verður síðan nóg að gera í félagslífinu í vetur, work hard play hard stemningin held ég bara. Fyrir utan venjulegu vina/fjölskylduhittingana og sund/skokk/djamm/pöbb quiz/kaffihús skemmtilegheitin er "klúbbastarfið" að fara á fullt. Menningarklúbburinn hefur fest kaup á kortum í Borgarleikhúsið og því verður farið minnst fjórum sinnum í leikhús í vetur, byrjum á Djúpinu í lok sept. Kvikmyndaklúbburinn Golden Oldies er aftur kominn á fullt skrið og erum við nýbúnar að horfa á Last Tango in Paris (sem var undurfurðuleg en svosem cult must-see). Næst á dagskrá hjá okkur er Rebel without a cause. Svo er súkkulaðiklúbburinn að fara að hittast í október, heilsuklúbburinn hittist vikulega, saumaklúbbshittingar verða vonandi reglulegir og svo framvegis. Bara gaman :)

7. sep. 2009

Truntan og Transylvania

Ég fór aftur að fá missed calls frá síðhærða, appelsínugula og ágenga einkaþjálfaranum sem ég bloggaði um fyrir einhverju síðan. Eins og glöggir lesendur muna var ég nær dauða en lífi eftir tímann hans þegar hann kríaði út símanúmerið mitt - í söluhugleiðingum aðallega, svo það sé nú tekið fram. Hann vofir stöðugt yfir á líkamsræktarstöðinni, sem er of lítil til að ég nái að forðast hann með góðu móti. Ég reyni yfirleitt að vera ofsalega einbeitt með iPodinn á hlaupabrettinu ef hann nálgast og var um daginn að hugsa um hvort ég ætti ekki bara að segjast hafa týnt símanum ef hann myndi spyrja mig af hverju ég væri ekki að svara honum. Eftirá að hyggja hef ég þarna líklega kallað símaóhappið yfir mig sjálf, svona út frá andlegum pælingum a la Secret um að hugsanir manns sendi skilaboð út í alheiminn og verði að veruleika. Sem ég trúi reyndar takmarkað á, þótt ég trúi reyndar á mátt þess að hugsa jákvætt.

Ég skráði mig á erlenda deiting síðu um daginn, aðallega í tengslum við annað utanvinnuverkefni sem ég tengist aðeins. En jú jú líka til að skoða sætu útlensku strákana og hugsanlega til að kynnast nýju fólki þótt ég sé nú ekki í því enn sem komið er að senda neinum skilaboð. Síðan er með skemmtileg sjálfspróf og er ágætis tímaþjófur þegar maður er kominn með leið á facebook. Er svona að pæla í ýmsum fídusum þarna, þar á meðal matchinu, en síðan "mælir með" hinum og þessum kandídötum fyrir mann. Nema hvað að þarna birtist skyndilega maður sem passaði við mig upp á rúm níutíu prósent og það var ekkert Computer says no heldur sagði tölvan þvert á móti að þarna væri hann lifandi kominn sálufélagi minn. Meintur sálufélagi fékk greinilega líka þessa meldingu, lýsti yfir áhuga og bíður nú eftir að ég svari sér. Hann er hávaxinn, þrjátíuogeitthvað, ógiftur, gagnkynhneigður og virkar bara nokkuð skemmtilegur og áhugaverður. Það er bara eitt sem stuðar mig svo um munar, sem er að hann er klæðskiptingur. Sem ég veit ekki alveg hvað mér finnst um, enda hef ég bara aldrei pælt í því hvort það sé deal breaker. Ekki það að ég sé að fara að hitta þennan mann, hvað þá að deita hann, er bara að spá í hvort ég eigi að svara meilinu hans. Hummm... En svona á almennum nótum, þá spyr ég þig kæri lesandi (og nú á ég aðallega við gagnkynhneigðu stelpurnar). Myndi það trufla þig að deila fataskáp með þínum heittelskaða?

6. sep. 2009

Yfirnáttúrlegir hæfileikar og Amazon kúrinn

Ég hef oft hugsað að ef ég byggi yfir einhvers konar yfirnáttúrulegum hæfileikum væri afar gagnlegt að geta stjórnað því hvenær maður rekst á fólk. Í stað þess að vera stundum að rekast á fólk sem maður vill ekkert endilega rekast á (að minnsta kosti ekki á þeim tíma sem maður rekst á það) og rekast aldrei á fólk sem maður vill rekast á. En þar sem það er afar ólíklegt að mér muni takast að þróa þessa hæfileika með mér, hef ég ákveðið að hætta að eltast við að reyna að rekast á ákveðið fólk (og leyfa örlaganornunum að vinna óáreittum) og reyna líka að hegða mér eins eðlilega og ég mögulega get þegar ég rekst á fólk sem ég á ekki von á að hitta... samanber síðasta blogg um Bónusferðina góðu. Sem var (því miður) að mestu leyti sönn saga fyrir utan það að ég sleppti því að segja frá því þegar ég í fáti mínu lagðist í gólfið í miðju samtali og skreið undir hrásalatsrekkann að sækja snuðið sem barnið hans hafði misst. Þrátt fyrir þessar göfugu fyrirætlanir brá mér þvílíkt þegar ég sá Bónusmanninn AFTUR nokkrum dögum seinna þegar ég var að keyra niður Laugaveginn. Sýndist hann sjá mig og mín fyrstu ósjálfráðu viðbrögð voru að beygja mig niður (og keyra næstum á staur í kjölfarið). Gengur bara betur næst.

Í jákvæðari fréttum get ég nefnt að leyniverkefnið mitt, sem ég er búin að vera að vinna að í rúmt ár ásamt samstarfskonu minni, er loksins komið í startholurnar í kjölfar kynningarstarfs okkar. Vil ekki segja mikið núna en við erum að fara að stofna lítið sprotafyrirtæki með göfugt markmið og stóra drauma... Er ótrúlega spennt og hlakka til að sjá hvað gerist á næstu mánuðum.

Ég missti ástkæran símann minn í jörðina og hann dó, aðeins 10 mánuðum eftir að síðasti sími hafði látið lífið eftir að hafa verið óvart drekkt í Pepsi-Max. Nú er ég þess vegna komin með ódýrustu týpuna af Nokia síma, engin flottheit og ekkert rugl og er hæstánægð. Strákurinn í búðinni sagði reyndar að hann væri alveg jafn líklegur að skemmast ef ég myndi grýta honum í jörðina og hinir símarnir, en ég myndi þá sjá minna á eftir þessum. Kom meira að segja út í plús þar sem síminn kostaði 6.990 og með honum fylgdi 1000 kr inneign á mánuði í 12 mánuði. Ætti samt kannski bara að splæsa í svona höggþéttan, vatnsheldan iðnaðarmannasíma sem endist lengur en ár.

Nú svo dreymdi vinkonu mína að ég væri orðin ægilega mjó í kjölfar einhvers Amazon kúrs sem ég hafði verið á og væri farin að miðla af megrunarvisku minni til annarra. Hún kannast ekki við að vera berdreymin en það má alltaf vona. Gúglaði reyndar Amazon kúrinn og viti menn, hann er til, en felst aðallega því að panta einhverjar pillur af netinu fyrir offjár sem mér líst ekki nógu vel á. Er reyndar í "átaki" jæja eða við skulum segja aðhaldi, vigtun einu sinni í viku, frjáls aðferð. Tuttugu manns og peningaverðlaun fyrir sigurvegarann. Ég hef nú reyndar borðað súkkulaði á hverjum degi (gera þeir það ekki líka í Brasilíu? Þetta er kannski hinn raunverulegi Amazon kúr a la Sól!) en hef svosem gert breytingar líka og borða hafragraut á morgnana og svona og það gengur bara vel (reyndar bara búnar tvær vikur af tólf en só far só gúd). Bara verst að ég er orðin of gömul til að taka þátt í ANTM... ;)