31. maí 2006

Meet the parents

Í fyrradag hitti ég móður Útlendingsins í fyrsta sinn. Var óvenju stressuð og svaf illa nóttina áður, því ekkert mátti fara úrskeiðis í mínum huga. Nú skyldi skrúfað frá sjarmanum af fullum krafti. Var nokkrum dögum áður búin að ákveða að velja pils og laxableikan blúndubol sem mér fannst vera kvenlegur og klæðilegur, svona (ísl)ensk blómarós fílíngur. Svo varð allt að vera í stíl, bleikir sokkar, bleikur augnskuggi, bleikur varalitur, bleikt naglalakk og bleikt sjal. Blés á mér hárið (sem ég geri mjöööög sjaldan), setti upp glossið og var nokkuð sátt við árangurinn tveimur og hálfri mínútu í brottför.

“Ta-da!” sagði ég við Útlendinginn sem varð hálf hissa á svipinn þegar hann sá mig.
“ Þú... þú varst svo sæt í þessu þarna... græna.... sem þú varst í í gær” stamaði hann. “Viltu ekki máta það?” Gat verið! Maðurinn sem skiptir sér aldrei af því í hverju ég er er allt í einu með skoðanir, hugsaði ég. Svo fór allt á stað í kollinum á mér. Ætli ég sé feit í þessu bleika? Ætli mamma hans þoli ekki bleikt? Það er ekki eins og lautarferðaroutfittið hafi verið svona hot. Sá mér loks bregða fyrir í stofuspeglinum og áttaði mig á því að blómarósin var orðin ein stór tyggjóklessa með kandífloss. Þannig að ég skipti um bol og sokka og klessti á mig grænum augnskugga sem var reyndar ekki gott múv. Púff.

Við rétt náðum lestinni og þá varð ég fyrst stressuð. Var búin að gera dauðaleit að handbók um enskar kurteisisvenjur við svona aðstæður án árangurs (það ætti einhver að gefa út “The Idiot´s Guide to meeting English Parents”). Á maður að heilsa með handarbandi, kyssa (og þá á aðra kinn eða báðar) eða faðma? Þúun eða þérun? Skírnarnafn, eftirnafn eða “mamma og pabbi”? Hjálp!

En að sjálfsögðu var mamman indæl (enda er Útlendingurinn vel heppnaður og þekkt að fjórðungi bregður til fósturs). Ég sagði plís, þeink jú og lovlí í öðru hvoru orði og brosti svo mikið að mér er ennþá illt í kinnunum. Notaði hvert tækifæri til að vera sammála og láta í ljós sameiginleg áhugamál og skoðanir (Harry Potter, sálfræði, andúð á háum hælum) og þagði ef ég var ósammála (um Jung, sápuóperur, te og kaffi). Hún hringdi í mig daginn eftir til að ræða um heima og geima þannig að ég held að þetta hafi bara gengið vel. Nú er ég bara hrædd um að ég hafi spilað þetta aðeins of vel og að ég geti aldrei sýnt mitt rétta andlit án þess að hún verði fyrir vonbrigðum. Þá er bara um að gera að fara að þjálfa herðatréð í munninum...

29. maí 2006

Lautarferð

Fór í lautarferð í gær með tveimur fjölskyldum þar sem einn þriggja ára tilkynnti mér að hann ætlaði að eignast alvöru byssu og skjóta allar stelpur í heiminum því þær væru svo leiðinlegar. Hlustaði líka á deilur tveggja mæðra um hvernig væri best að koma börnum í heiminn.

Mamma A – Ég trúi því staðfastlega að börn sem fæðast venjulega séu miklu sterkari en börn sem eru tekin með keisaraskurði. Ferðalag þeirra gegnum leggöngin gerir þeim betur kleift að takast á við mótstöðu í lífinu.

Mamma B – Ég er ósammála og tel það miklu betra fyrir börn að vera tekin með keisaraskurði. Venjuleg fæðing er mjög traumatísk og þessar slæmu minningar barnsins geta haft skaðleg áhrif.

Sólrún – Meira hvítvín?

27. maí 2006

Skin og skúrir

Það var sól og sumarylur í einn dag. Ég lá í Hyde Park með bók og las og las og las og horfði á mannlífið. Fannst skrýtið að horfa á konur klæddar svörtum kufli frá toppi til táar (svona sem sést bara í augun - hvað heitir það aftur?) reyna að blása sápukúlur. Þótti líka undarlegt að fara í korta- og gjafabúð og sjá hvað það eru til mörg kort í tilefni af 100 ára afmælum. Greinilega margir að reyna að ná til þessa tiltölulega nýja markhóps. Í gær og í dag hefur síðan bara rignt og rignt og rignt. Ég hef meira að segja neyðst til að nota regnhlíf! Var auðvitað svo bjartsýn að pakka aðallega hlýrabolum, bíð eftirvæntingarfull eftir að fá að nota þá...

24. maí 2006

Náttfatapartý

Mín ákvað að taka lærdóminn föstum tökum í dag og fara ekki út fyrr en ég væri búin með skýrslu sem ég átti bara smááááá eftir af. Needless to say, þá var ég ennþá í náttfötunum klukkan 19. Horfði með öðru auganu á tónlistarmyndbönd í sjónvarpinu þar sem óþolandi-en-færð-það-samt-á-heilann Nylon lagið kom tvisvar á Chart hits stöðinni. Í bæði skiptin helltist yfir mig gífurleg heimþrá og ættjarðarást. Mér fannst það full langt gengið eftir aðeins 4 daga þannig að um átta leytið ákvað ég að klæða mig og spássara um hina dásamlegu London. Sem var bara aldeilis ágætt, nema hvað það rigndi og rigndi og rigndi... En ég var bara sátt við það, er mjög hrifin af svona næstum trópikal hlýrri og vindlausri rigningi. Þetta fer eiginlega saman, hrifning mín á rigninu og andúð á regnhlífum en ég er haldinn þeim (hugsanlega órökrétta) ótta að vera stungin í augað/á hol (eða að stinga einhvern sjálf) óafvitandi með regnhlíf. Þannig að ég naut þess í botn að labba hægt um og vökvast í rigningunni og raulaði Nylon lagið á meðan vegfarendur bölvuðu veðrinu og horfðu forviða á mig undan skjóli regnhlífa sinna.

23. maí 2006

Kaffihúsadraumurinn

Í morgun ákvað ég að láta langþráðan draum rætast, að fara á Starbucks í Borders bókabúðinni með Lappann. Þannig að mín fór í pils og strandskó og valhoppaði niður Oxford Stræti. Nema hvað sumarið er ekki komið í London frekar en í Reykjavík og það byrjaði að hellirigna á leiðinni. Ég kom því rennblaut á leiðarenda, en auðvitað datt öllum hinum í hug að fara inn og fá sér kaffi og bíða eftir að rigningin hætti þannig að það var troðfullt (ég var auðvitað hálffúl því ég var löngu búin að ákveða að fara, áður en það byrjaði að rigna). Ég gat samt ekki hætt við og farið eitthvað annað þannig að ég ráfaði um að bíða eftir borðai. Sá ekki að einhver hafði hellt niður kaffi, missti jafnvægið og hefði skollið í gólfið hefði ég ekki gripið þéttingsfast í næsta mann. Sem glotti bara og hélt augljóslega að þetta væri eitthvað plott hjá mér til að fá að káfa á honum. Ég fékk síðan sæti – eina lausa sætið sem var beint á móti gæjanum. Þannig að hann heldur að ég sé stalker og er að horfa á mig til að athuga hvort ég sé að horfa á hann. Og ég horfi á hann til að athuga hvort hann sé hættur að horfa á mig. Og þá heldur hann að ég sé að horfa á hann og heldur áfram að horfa á mig. Og svo framvegis....Óþolandi. Ok. Af hverju fer hann ekki bara? Þetta er orðið frekar creepy. FARÐU!!! JESSS!!!

22. maí 2006

Lent í London

Þá er ég komin í hjarta Lundúnaborgar þar sem ég mun dvelja næstu vikur. Og þá meina ég hjarta... næsta "sjoppa" er Selfridges á Oxford Stræti. Vei! Það er ýmislegt á döfinni næstu vikur og ég er bara rétt farin að átta mig á því að þetta er aðeins lengra en helgarferð. Held að ég byrji á því að taka upp úr töskunum og fara kannski aðeins út að spóka mig.

Annars verð ég að segja frá einu sem pirraði mig óstjórnlega á flugvellinum. Eins og ég skrifaði um daginn bað Útlendingurinn mig um að kaupa handa sér íslenskar súkkulaðirúsínur. Þær voru því miður uppseldar í tveimur búðum (þar sem þær áttu að kosta 200 kr) en viti menn, þær voru til í okurbúllunni við hliðina á á 469 kr! Þannig að munið, ekki versla nammi í búðinni sem er beint á móti passatékkinu og Eymundsson eins og er heldur athugið fyrst hvort það sé meira en helmingi ódýrara við hliðina á.

Kveðja, önug húsmóðir úr vesturbænum.

p.s. stefnan er að vera dugleg að skrifa frá Londonlífinu...

13. maí 2006

Gamlar gulrætur

Jæja þá er prófamanían búin að þessu sinni. Nokkur verkefni eftir og púff... London beibí! Held að hámark geðveikinnar hafi verið í náð í fyrradag þegar ég, úfin og ósofin, tók kast á starfsfólk 10-11 yfir gömlum gulrótum. Það stóð á pakkningunni að þær hefðu runnið út júní 2002 og mér stóð ekki á sama. Bæði hvað þær væru gamlar og hvers konar ógeðslegu rotvarnar- og gervi-efnum væri eiginlega sprautað. Eftir að hafa þusað um erfðabreytt matvæli í smástund var mér góðfúslega bent á að síðasti söludagur gulrótapakkans(sem á stóð JUN 02) væri 2. júní. Á þessu ári. Hemm...

11. maí 2006

Mygluostailmvatn

Mörgum (þar með talið mér) finnst góð lykt hafa mikið aðdráttarafl og að sama skapi þykir sterk líkamslykt vera fráhrindandi. Síðustu árin hafa ilmvatns- og rakspíralyktir orðið fjölbreyttari. Einhverra hluta vegna datt fólki í hug að það væri samasem merki milli þess sem væri gott á bragðið og góð lykt af. Ávaxtailmvötn eru til dæmis mjög vinsæl svo og alls konar vanillu ilmir og jafnvel lykt af súkkulaði og kanel og ég veit ekki hvað. Bretar ákváðu að taka þetta enn lengra og hafa nú sett á markaðinn mygluostailmvatn.Namm eða hvað? Næst er bara að virkja íslenskan útflutning á harðfisk og hákarla rakspíra. Þetta er reyndar kannski ekki eins slæm hugmynd og það hljómar. Er ekki frá því að ég myndi halla mér upp að einhverjum sem lyktaði af einni með öllu svona síðla kvölds í bænum...

7. maí 2006

Hvernig útlendingar biðja um greiða...

Ein furðuleg saga sem ég má til með að segja af fjarbýlismanni mínum... svona af því að hann er útlendingur og getur ekki lesið bloggið mitt (ætti þetta ekki að hvetja hann til að læra íslensku?) ;)

Fékk myndskeið frá honum í tölvupósti um daginn sem hann hafði tekið upp á símann sinn. Hann birtist á skjánum mjög alvarlegur á svipinn og segir að svolítið hræðilegt hafi komið fyrir. Hjartað í mér tekur auðvitað kipp og svo heyri ég hann segja að hann ætli að sýna mér vandamálið. Myndavélin færist og ég sé að hann er í eldhúsinu heima hjá sér. Myndin stöðvast á kassa af íslenskum súkkulaðirúsínum. Mér dettur strax í hug að það hafi verið eitthvað ógeðslegt ofan í kassanum. Síðan sést að hann er tómur. Þá kallar útlendingurinn upp yfir sig: "Oh no! I have finished all the chocolate raisins!". Mjög dramatískt. Beinir síðan myndavélinni aftur að sér og minnir mig á að kaupa súkkulaðirúsínur handa sér þegar ég kem til hans (eftir tvær vikur). Sumir hringja, aðrir senda tölvupóst... og enn aðrir búa til stuttmynd.

Ég fór til Rómar og tíndi orm

Þá er maður í miðjum prófum. Fyrstu prófin síðan vorið 2001. Engin próf, "bara" verkefni í mastersnáminu og svo líka núna um jólin. Ég er þess vegna komin úr æfingu við að leggja atriði á minnið og læra utanað. Er að reyna að notfæra mér alls konar minnistækni, semja lög, rappa textann, búa til skammstafanir, myndlíkingar og svo framvegis um það sem ég þarf að læra. Ég fann til dæmis út úr því áðan að ég gat raðað fyrstu stöfunum í nokkrum punktum sem ég þarf að læra í orðin RÓM og ORM. Þannig að ég er búin að sjá fyrir mér að ég hafi farið til Rómar og tína orm. Minnistæknisérfræðingar segja að það sé gott ef ímyndirnar sem maður býr sér til eru skrýtnar og eftirminnilegar. Hingað til hef ég hins vegar munað ímyndirnar betur en það sem þær standa fyrir. Er viss um að í prófinu á þriðjudaginn á ég eftir að muna vel eftir ormatínsluferðinni til Rómar en hafa ekki hugmynd um hvað liggur að baki. Ó vell...