27. okt. 2010

Drama-free

Ég sit núna á uppáhaldskaffihúsinu mínu (Babalú) á miðjum degi (einn af fáum kostum þess að vera námsmær), að borða himneska gulrótarköku og bonda við nýju tölvuna. Besta vinkonan á næsta borði með sæta hundinn sinn og par á öðru borði virðist vera á sínu fyrsta stefnumóti og dóninn ég hlusta með athygli á samræðurnar þeirra. Stundum er lífið bara aldeilis ágætt :)

Krullhærða krúttlega fullkomna systurdóttir mín er þriggja ára í dag og mér finnst óskaplega leiðinlegt að geta ekki haldið upp á daginn með henni. Ofurkonan systir mín bauð öllum leikskólabörnunum á deildinni heim til þeirra í hádegismat í tilefni dagsins (búa í göngufæri frá leikskólanum). Það urðu aðeins fleiri en hún bjóst við... fékk sumsé 21 barn og 2 leikskólakennara í heimsókn í hádeginu!

Ekkert drama í þessari færslu. Magnað!

20. okt. 2010

Bömmer yfir Bretum og fleiru

Feisbúkk folinn dularfulli sem ég hitti loksins í sumar og sem gerðist ágengur í hótelkjallaranum er á leiðinni til Íslands. Ég hef ákveðið að þiggja boð þitt skrifaði hann mér og ég skildi ekki neitt í neinu þar til mig rámaði í að hafa sagt eftir nokkra sænska perudrykki á Skandínavíska barnum í Brighton  Þú verður eeeenndilega að koma til Íslands! En ég meina hver segir það ekki?! Ég hef örugglega boðið næstum öllum útlendingum sem ég hef hitt til Íslands - þrír hafa komið, kærasti, mjög góð vinkona og góður vinur. Hann er búinn að bóka flug og alles, ég veit ekki hvort ég á að bjóða honum gistingu eða hvernig þetta verður allt saman. Vonandi bara gaman. Held að hann hafi meiri áhuga á næturlífinu heldur en náttúrufegurð svo ég veit ekki hvort ég geti hent honum upp í rútu í heilsdagsferð um Suðurlandið til að fá pásu eins og ég gerði með síðasta gest sem ég fékk nóg af. 

Folinn er ekkert ósvipaður Útlendingum, hávaxinn, dökkhærður og brúneygður Breti. Ég hefði mátt vita að Útlendingurinn yrði ekki ánægður með þessa tilhögun en datt svosem ekki í hug að spyrja hann leyfis. Síðan kemur í ljós að hann var búinn að bóka flug hingað að mér forspurðri - akkúrat sömu helgi og ég var búin að bóka flug til systur minnar. Hver bókar flug til einhvers án þess að spyrja hvort tímasetningin henti?! Þú ert velkominn hvenær sem er nema þessa helgi sagði ég, já og ekki helgina sem vinur minn M (folinn) er að koma í heimsókn. Hver er það spurði Útlendingurinn og ég varð hálfvandræðaleg sem hann auðvitað pikkaði strax upp og ásakaði mig um að fara á bak við sig. Síðan upphófust mjög undarlegar samræður sem enduðu með því að hann dömpaði mér! Og ætlar nú aldrei að koma til Íslands aftur. Sem hefði mögulega ekki verið skrýtið ef ég hefði ekki hætt með honum fyrir mörgum árum síðan. 

Fyrir utan Bretabömmerinn er ég að auki á bömmer yfir ónýtum hörðum diski svo mig vantar öll gögn síðan í maí 2009, þar á meðal tilvonandi metsölubókina mína og allar skólaglósur plús myndir sumarsins. J

Samt er margt frábært að gerast, er bara búin að vera með smá skammdegisblús, eins og haustið er samt yfirleitt uppáhalds árstíminn minn. Ætla að skrifa um eitthvað af þessu skemmtilega næst! 


10. sep. 2010

Tell me more, tell me more, like does he have a car?

Nei það var sko enginn sumarást með Danny Zuch á síðustu árstíð. Engu að síður var sumarið stútfullt af áhugaverðum persónum og leikendum...

Súkkulaðikakan 
Hvað gerist þegar þú ákveður að hugsa ekki um fjólubláa fíla? Þú hugsar um fjólubláa fíla! Þess vegna gat ég að sjálfsögðu með engu móti haldið mig frá Súkkulaðikökunni frægu og lenti aftur í eldheitum tilfinningarússíbana - sleikjandi súkkulaði út á kinn og illt í maganum til skiptis. Er samt sem áður komin aftur í sjálfskipað súkkulaðikökubann og reyni að forðast tiltekin bakarí í 101. 

Krullhausinn
Var komin í faðmlög í ljúfum dansi á myrkvuðu dansgólfi í miðbæ Reykjavíkur þegar ég áttaði mig á því dansfélaginn var klæddur svolítið öðruvísi en flestir karlmenn sem ég þekki. Sá svo í diskóljósinu glitta almennilega í andlitið bak við krúttlegu krullurnar hans og varð allt í einu brjálæðislega paranoid. Skrækti Hvað ertu gamall, hvað ertu gamall?! í eyrað á drengnum, sem neitaði að segja mér það svo ég hrakti hann samstundis á brott. 

Sjómaðurinn 
Kynntist sætum sjóara á sveitaballi sem hældi (ekki ældi!) mér svo mikið að mig langaði að taka hann upp á segulband og nota sem sjálfshjálparteip í bílnum. Við vinkonurnar vorum á smá flippi og ég sagði honum að ég væri 25 ára afgreiðslustúlka í tískuvörubúð í Hveragerði. Sá seinna eftir því að hafa logið, ákvað að yfirvinna sjómannafordómana (þeir eru alltaf svo lengi í burtu!) og ætlaði að hafa samband við hann. Komst að því að hann væri ekki sjómaður heldur viðskiptafræðingur -  og giftur þriggja barna faðir. Jæja, mér var svosem nær, what goes around, comes around. 

Stripparinn
Vinur sem dúkkar upp með reglulegu millibili, núna síðast í sumar eftir nokkuð hlé. Keyrði bókstaflega næstum á hann í Lækjargötu og í kjölfarið fórum við í bíltúr og sund og hittumst síðan í afmæli hjá sameiginlegum vini. Þar var hann greinilega töluvert í glasi og stakk upp á að við myndum gista saman þá um nóttina. Þegar ég tók ekki vel í það horfði hann djúpt í augun á mér og sagðist elska mig - og að þessi nótt yrði bara byrjunin á lífi okkar saman! Ég lét ekki sannfærast og þá var gripið til örþrifaráða, að fara úr að ofan og vera með eggjandi hreyfingar. Smá misskilningur varðandi hvað kemur konum til - það er ekki endilega það sama og kemur karlmönnum til! Að lokum var gripið til lögmálsins um framboð og eftirspurn og hann kallaði á eftir mér að ef ég vildi hann ekki ætlaði hann reyna við aðra stelpu í partýinu... ég sneri ekki við. 

1. sep. 2010

Gömul vinna og ný

Nú er allt að gerast í einu. Ein vinna að klárast, önnur hafin og skólinn byrjar á morgun. Ég á voðalega erfitt með að kveðja allt yndislega fólkið í vinnunni og er búin að eiga nokkra síðustu daga. Það er að segja, í dag er síðasti dagurinn í vinnunni. Það var líka síðasti dagurinn í gær... og líka á föstudaginn í síðustu viku. Þarf víst að sætta mig við að ég næ ekki að gera allt áður en ég hætti. Sé fyrir mér að ég endi eins og gaurinn í Office Space í kjallaranum, fyrir þá sem hafa séð þá mynd.
 
En semsagt, eins og ég hef stundum kvartað yfir löngu ferðalagi í vinnuna þá finnst mér greinilega mun erfiðara að hætta en ég hélt. Sem bitnaði til dæmis á aumingja tölvumanninum sem kom hingað áðan. Hann bjó sig undir að kveðja mig með handabandi en ég misskildi aðeins hreyfinguna og gaf honum rembingskoss á kinnina og faðmaði hann innilega. Fattaði svo að þetta var ekki alveg það sem hann átti við og að sjúklega vandræðalegt móment væri í uppsiglingu en reyndi að bjarga þessu, lét eins og ekkert væri og þakkaði fyrir samstarfið. Ja við unnum nú eiginlega ekkert saman sagði hann rauður í framan og hrökklaðist út af skrifstofunni.
Kannski ég ætti bara að láta þetta verða síðasta síðasta daginn.

19. ágú. 2010

Kynþokkafull kvöldstund

Eins og ég kom að þá reyndist dularfulli breski feisbúkkfolinn vera hinn ágætasti. Þetta var reyndar svolítið skrýtið, að mæla sér mót við einhvern strák sem ég mundi ekkert eftir að hafa hitt áður.  Sem betur fer var vinkona mín með og við ákváðum að hittast á skandínavískum pöbb. Þar var mikið fjör, finnskur eigandi sem seldi sænskan sæder og var með íslenska fánann og norsk gönguskíði upp á vegg. Ég varð svolítið fegin að sjá að þrátt fyrir innilegheitin í bréfasendingunum var hann greinilega stresssaður að hitta okkur og svitinn perlaði af honum svona fyrsta klukkutímann eða svo. Ég spurði hann varlega hvort það væri ekki rétt hjá mér að við þekktumst ekkert voðalega mikið og hann staðfesti mér til léttis að það hefði bara verið þetta eina skipti sem við hittumst í afmælinu þarna fyrir átta árum síðan eða svo. Sem betur fer var auðvelt og skemmtilegt að tala við hann og við vinkonurnar lékum á alls oddi. Folanum fannst svo gaman að hann ákvað med det samme að koma til Íslands sem fyrst – og þegar við spurðum hann hvað hann vildi gera á Íslandi sagði hann ÞETTA! Semsagt að sitja á bar og kjafta við okkur. Sagðist ekki hafa skemmt sér svona vel eða hlegið svona mikið í langan, langan tíma.

 

Þarna var alls konar fólk samankomið, meðal annars aðeins of drukkinn herramaður sem settist hjá okkur og vældi yfir því að hann hefði verið að hætta með kærustunni sinni. Hann lýsti því síðan yfir í óspurðum fréttum (sirka 5 mín eftir að við kynntumst honum) að hann hefði miklar áhyggjur af frammistöðu sinni þar sem tvær síðustu kærustur sínar hefðu ekki getað fengið fullnægingu en hjá öööllum hinum hefði þetta ekki verið neitt mál. -Engar áhyggjur, hinar voru bara að feika'ða!" sögðum við sem vakti ekki mikla lukku hjá herramanninum.

 

Folanum fannst mjög merkilegt að íslensku skvísurnar væru á nó tæm komnar í kynlífsumræður við samlanda sinn sem eru nú þekktir fyrir að vera frekar þurrir á manninn. Umræðurnar héldu síðan áfram á svipuðum nótum þar sem við fórum að ræða hvaða tónlist væri best að hafa undir þegar kæmi að neðanbeltisgamani. Ein vinkona mín lenti nefnilega í því fyrir nokkrum árum að vera komin í kósí hot-heit með strák þegar hann spyr hana hvaða tónlist hún vilji hafa sem undirspil ástríðunnar. Hún stóð alveg á gati (hann valdi Bob Marley) en síðan þá hef ég velt því fyrir mér hvað sé gott svar við þessari spurningu. Hvað segja lesendur?

 

Til að gera langa sögu stutta þá held ég að þetta sexítal hafi kannski valdið smá misskilningi. Kvöldið endaði með því að við Folinn fórum í leiðangur um kjallaraganga hótelsins sem við vinkonurnar gistum á. Þegar við vorum komin  í mannlaust hol þar sem voru bara stólastaflar og skítugir borðdúkar kom í ljós að hugmyndir okkar um happy ending á kvöldinu voru aðeins ólíkar. Sá kafli sögunnar er reyndar mjög fyndinn og endar ekkert illa, enda folinn meinlaus, en verður samt sem áður ritskoðaður hér – maður verður að hafa eitthvað til að segja frá í saumaklúbbnum ;)

Flugur

 
Í síðustu viku las ég yfir bréf fyrir dásamlega samstarfskonu mína sem var að skipuleggja ráðstefnu.
- Af hverju koma sumir gestirnir á undan hinum? spurði ég meðan ég skoðaði dagskrána.
 
- Æ bara, út af flugum og svona.
 
- Flugum?! spurði ég hissa. Voru þetta áhugamenn um íslensku húsfluguna? Ætluðu ferðalangarnir að heimsækja Mývatn? Eða voru þeir að forðast geitungafaraldur í heimalandi sínu? 
-Hvernig flugum?
 
Samstarfskonan horfði skringilega á mig.
-Þú veist, þeir taka ekki allir sama flug. Ég er að tala um flugVÉLAR
 

-Jaaaá….

 

Svo hlógum við eins og vitleysingar og rifjuðum upp þegar hún sendi mjög virðulegan og formlegan tölvupóst á sínum tíma með fyrirsögninni Graðúrgangur. Það er svo gott að vita að maður sé ekki einn um að ruglast aðeins stundum J

17. ágú. 2010

Lesbíski einmana trúbadorinn frá miðöldum snýr aftur...

Já ég veit, ég skulda milljón blogg sem skýrist meira af almennum netleiða en andleysi enda er ég með hundrað blogg í hausnum á mér, það er bara þetta með að vera stundum meiri thinker en doer:) 

Ástarævintýrin bíða betri tíma en ég verð að koma frá mér sögu um heimsókn til spákonu sem átti sér í Englandsferðalaginu um verslunarmannahelgina. 
Spákonan var alveg eins og alvöru nornir eiga að vera, með blátt hár og vörtu. Hún titlaði sig reyndar sjáanda en ekki spákonu og notaði kristalkúlu og tarotspil.

Það kom hvert slæma spilið upp á eftir öðru hjá mér í byrjun. Áhyggjur, sorg, dauði, fífl. Eitthvað með sól og tungl líka, ég skildi þetta ekki alveg.

-          Ert þú fórnarlamb ofbeldis? Heimilisofbeldis?
sagði nornin áhyggjufull og ég velti fyrir mér hvort maskarinn hefði lekið og ég liti út fyrir að vera með glóðarauga.

-          Nei nei, ekkert svoleiðis
svaraði ég en fannst þetta samt svona frekar skrýtin spurning því ef þetta væri rétt hefði ég líklega ekki farið að  segja bláókunnugri manneskju það svona á fyrstu mínútunum.

-          Hmmm. En ertu söngkona?
heyrðist frá henni eftir að hún hafði þráspurt mig út í ýmis konar líkamlegt og andlegt ofbeldi sem ég kannaðist ekkert við að hafa orðið fyrir.

-          Nei það er ég ekki
svaraði ég enda fannst mér frekar langsótt að hún væri að vísa í sviðsframkomu mína frá árinu '91 í Rokklingaskólanum þegar ég söng "Er ég kem heim í Búðardal" í kúrekadressinu.

-          Hmmm
sagði nornin aftur og var orðin frekar pirruð á mér. Hún spurði mig út í ýmislegt annað en ekkert virtist passa.

Ég sá á henni að hún var orðin bæði þreytt og stressuð enda var liðið á kvöldið þarna og hún var búin að segja mér að hún hafði ætlað að ná síðustu lestinni heim til sín. Það virtist þó ekki trufla tenginguna við andaheiminn að farsíminn hennar hringdi tvisvar á meðan á spánni stóð. Hún geispaði mikið enda líklega þreytt eftir daginn, en afsakaði sig í hvert skipti með að hún fyndi fyrir skyndilegri "orkusugu".  Ljóti reykingahóstinn hennar var sömuleiðis "neikvæð orka í lungunum".

Þar sem ég vildi lítið kannast við flest það sem hún var að segja var þetta að stefna í eitt allsherjar klúður en þá virtist renna upp fyrir henni ljós.

-          Já nú skil ég, þetta er í sambandi við fyrri líf!
sagði sjáandinn brosandi og hélt áfram að útskýra.

-          Þú varst trúbador á miðöldum. Einmana trúbador, þú áttir ekki mann, hefur líklega  bara verið lesbía. En þú varst farandtrúbador á meginlandi Evrópu. Og þú ferðaðist með…Brúðuleikhúsi! Sem sýndi leikritið Punch og Judy (vinsælt enskt brúðuleikrit ætlað fyrir fullorðna sem fjallar einmitt um mann sem lemur allt og alla, þar á meðal konuna sína). Já já þaðan kemur sýnin um ofbeldið, og sönginn. Þetta situr greinilega svona sterkt í þér ennþá.  (Fyrir áhugasama má lesa nánar hér http://en.wikipedia.org/wiki/Punch_and_Judy um brúðuleikritið).

Síðan bætti hún því við að ég hafi í öðru fyrra lífi fyrir nokkur hundruð árum verið karlmaður sem barnaði unga stúlku og fór illa með hana – og ég væri enn með mikið samviskubit yfir því og þyrfti að leita mér aðstoðar þess vegna. Ég þarf samkvæmt henni nauðsynlega að leysa úr þeirri flækju áður en ég eignast sjálf barn svo barnið verði ekki með einhver "andleg vandamál". Mjög upplífgandi allt saman.

Ég var orðinn þreytt á þessum niðurdrepandi sýnum og spurði hvort hún sæi ekki eins og einn kærasta í lífi mínu á næstunni.

-          Látum okkur sjá sagði vörtusvínið og dró eitt spil að lokum.

Spilið sem hún dró var… Djöfullinn sjálfur, með horn og hala.

-          Nei sagði hún og hristi hausinn. -Ekki næstu þrjú árin að minnsta kosti.

Þegar ég var á leiðinni út birtist henni ein lokasýn í kristalskúlunni.

-          Ég sé rabbarbara!
sagði hún glöð, eflaust ánægð með að sjá eitthvað annað en mörg hundruð ára gamla eymd í kúlunni þetta kvöldið.

-          Þetta gæti þýtt það að þú ættir að borða meira af ávöxtum og grænmeti?

Það þarf nú ekki neina yfirskilvitlega hæfileika til að segja mér það! hugsaði ég með mér - en óskaði þess seinna að ég hefði sagt það upphátt.

Ég kvaddi og skundaði á stefnumót með dularfulla fb vininum (sá fyrri færslu) sem reyndist vera hávaxinn, myndarlegur og mjög ó-raðmorðingjalegur. Síðan var daðrað fram á rauða nótt…


21. júl. 2010

Svífur yfir Esjunni sólroðið ský...

Ég er búin að ætla að ganga á Esjuna í mörg ár. Í fyrra fór ég smá spotta upp sem var fínt og ætlaði alltaf að fara alla leið seinna um sumarið en af því varð ekki. Síðan ákváðum við pabbi fyrir löngu, ætli það hafi ekki bara verið um áramótin, að fara saman í sumar, hann hafði aldrei farið heldur. Ég ætlaði að undirbúa mig fyrst, fara á nokkur minni fjöll og svona en þegar pabbi stakk upp á því að við prófuðum í þarsíðustu viku ákvað ég að láta slag standa. Ég fékk æðislega gönguskó í afmælisgjöf en þar sem ég vissi að það væri ef til ekki heppilegt að fara í langa göngu á nýjum skóm fór ég beinustu leið í apótekið rétt áður en við áttum að fara og óskaði eftir leiðbeiningum um hvernig ég gæti varist blöðrum á nýjum gönguskóm. Það er ekki hægt, sagði slánalegi lyfjafræðineminn sem afgreiddi mig. Nei, þú verður bara að ganga þá til gaggaði pían sem var að vinna með honum. Mér fannst þetta mjög frústrerandi og hefði auðvitað átt að hringja bara í ofvirku útivistarvinina en sem betur fer var akkúrat einhver ferðagúrugæd staddur í apótekinu sem yfirheyrði samræðurnar og sendi mig heim með sjúkrateip og sagði mér að plástra mig og fara svo í nælonsokka og ullarsokka. Þar sem ég er mjög gjörn á því að fá blöðrur endaði þetta með múmíuvafningi svona til öryggis, ég teipaði hverja einustu tá og nánast báða fætur allan hringinn.

Þetta byrjaði ágætlega en voooðalega verður maður fljótt andstuttur að labba svona upp í móti ef maður er í lélegu formi. Þurfti endalaust að vera að stoppa, við fórum lengri leiðina sem er ekki jafn brött og vorum mjög lengi á leiðinni - tíminn verður ekki gefinn upp!  Ég hélt svo oft að við værum meira en hálfnuð þegar við vorum það bara alls ekki! Eiginlega var bara eins gott að við vissum ekki hvað við vorum komin stutt, því við hefðum kannski ekki nennt alla leið upp annars - við vorum jú alltaf alveg að komast. Ég var samt ekki alveg tilbúin að viðurkenna hvað formið var lélegt svo stoppin voru nú af misgóðum ástæðum - þurfti ansi oft að stoppa til að laga skóna, bæta við plástri, fara í og úr peysu /vettlingum, fá mér vatn og svo framvegis. Held nú að pabbi greyið hafi séð í gegnum þessar afsakanir en hann var voða góður og beið eftir mér, blés ekki úr nös eins og þetta væri bara smá kvöldganga á Ægissíðunni.

Þótt veðrið væri yndislegt var aðeins kaldara en ég hélt eftir því sem ofar dró og ég var fegin að hafa komið með handprjónaða eyrnabandið sem ég keypti í Stykkishólmi (og ætla að þykjast hafa prjónað sjálf - ekki kjafta!). Það voru ótrúlega margir á ferðinni og ég hitti meðal annars gamlan skólafélaga sem var að ég held á deiti. Veit einmitt um nokkra sem hafa gert þetta, gengið Esjuna á deiti en eins rómantískt og frumlegt og það hljómar held ég að þetta sé ekki fyrir mig. Varð eldrauð (og þá meina ég ekki fallega rjóð) í kinnum, sveitt og másandi og blásandi og hefði ekki getað haldið uppi samræðum svo vel ætti að vera. En hver veit að með betra formi (þótt kringlótt sé vissulega fallegt form) og nokkrum fjallgöngum í viðbót geti ég húkkað einhvern með mér á Esjudeit í framtíðinni.

Hef reyndar lengi vitað að það sé hægt að hitta sæta stráka á Esjunni, sé fyrir mér að það gæti gefist vel að vera með límonaðistand við Esjurætur og selja girnilegum göngugörpunum drykk til styrktar góðu málefni.
Þegar við vorum alveg að komast upp á Þverfellshorn og ég orðin ansi lúin hélt ég að ég væri farin að sjá ofsjónir. Mætti nefnilega ægifögru íslensku stórstirni (eða smástirni, fer svona eftir hvern þú spyrð) sem sagði skælbrosandi góðan daginn og gott ef við snertumst ekki örskamma stund meðan hann fikraði sig framhjá mér. Ég fékk að sjálfsögðu aukinn kraft við þetta og viti menn, á toppnum var enn eitt kjútípæið sem tók mynd af okkur feðginunum. Báðir þessir folar voru einir á ferð og greinlega bara að skreppa þetta svona bara sér til heilsubótar. Mjög hvetjandi að hafa þá þarna og mæli með því fyrir fólk í makaleit að gera Esjugöngur að reglulegum viðburði (það gæti samt verið að ég héldi mig bara við límonaðistandinn...).

Fannst síðan ekkert mál að fara niður og var bara nokkuð fljót, bætti aðeins upp fyrir hvað það voru rosalega margir sem fóru framúr okkur með því að fara fram úr nokkrum (börnum og gamalmennum). Það er skemmst frá því að segja að ég fékk ekki eina einustu blöðru, bara pínulítinn vott af hælsæri öðru meginn sem lagaðist á nóinu. Daginn eftir gekk ég hins vegar berfætt í sætum sumarsandölum hálfan dag og fékk tvær stórar vökvafylltar blöðrur á báða fætur. Gat verið!


Er í sjálfu sér fegin núna að hafa bara farið þetta á mínum hraða og getað notið útsýnisins og ferðalagsins, var eki að sprengja mig og leið aldrei mjög illa eða langaði að hætta við. Eða svo ég vitni lagið með pínulítið óþolandi krúttbombunni Miley Cyrus: 

Ain’t about how fast I get there
Ain’t about what’s waiting on the other side
It’s the climb



20. júl. 2010

Býflugnahné

Fyrir um það bil ári síðan bloggaði ég um fésbókarvin minn sem er innilegur úr hófi fram að mínu mati - sérstaklega þar sem ég man ekkert eftir að hafa hitt hann, hvað þá talað við hann. Hann er voða sætur og við spiluðum stundum scrabble á netinu í vetur og kynntumst aðeins þannig (já ég er lúði). Það eina sem ég man úr því spjalli er að hann er oft á einhverju flakki um heiminn að kenna ensku, tekur stundum e-pillur og á barn í Ástralíu. Nú er hann hins vegar staddur í bjútífúl Brighton sem ég er einmitt að fara að heimsækja innan skamms. Svo ég krotaði á feisbúkkvegginn hjá honum að ég yrði í bænum með vinkonu minni ákveðinn dag og hvort hann væri laus í eins og einn drykk.

Það stóð ekki á svarinu og hann sendi mér póst sem hljóðaði nokkurn veginn svona: Drykk? Með þér? Ekki einu sinni stóð villtra hesta gæti stöðvað mig! (og svo símanúmerið hans og xxx). Frekar fyndið - og í takt við annað sem hann skrifar mér - en er hann ekki örugglega að grínast? Þrátt fyrir að kunna vel að meta tilvísunina í eitt uppáhalds Rólling Stónes lagið mitt þá get ég ekki hætt að velta fyrir mér, líkt og fyrir ári síðan, hvort ég sé eitthvað að misskilja. Eða mig að misminna. Mig langar alveg eins að hitta hann, sérstaklega svona fyrir forvitni sakir en þetta hljómar eins og hann eigi von á dramatískum endurfundum þar sem ég hleyp í fangið á honum í sló-mó.  Hann sendi mér einmitt líka póst í apríl upp úr þurru um að ég væri the bee's knees, sem er merkilegt nokk hrós á enska tungu. Nú hef ég ekkert á móti því að vera kölluð býflugnahné, síður en svo - en við þekkjumst ekkert, ekki nógu vel til að líkja hvoru öðru við skordýraútlimi. Smávegis internetfliss út af tvíræðum skrabbl orðum breytir því ekki. Ég man ennþá ekki eftir að hafa hitt hann eða talað við hann en það gæti alveg passað að við höfum hist í afmæli hjá sameiginlegum vini árið 2002 eða 2003. Var að fatta að það verður líklega erfiðara nú þegar við hittumst að feika það að ég muni eftir honum. Vona bara að hann fari ekki að rifja of mikið upp gamla tíma. Eða jú, það væri kannski ágætt, til að rifja það up fyrir mér ef ég skyldi óvart hafa misst tunguna upp í hann án þess að muna eftir því (sem er ekki séns!).

Ég hallast nú samt helst að því að hann sé bara svona smúth týpa sem flörti við allt og alla. Sem er bara skemmtilegt og gaman að láta daðra við sig endrum og eins. Það verður að minnsta kosti spennandi að hitta loksins þennan dularfulla dreng. Ég ætla samt að taka vinkonu mína með mér að hitta hann, svona ef ske kynni að hann væri raðmorðingi.

19. júl. 2010

Snæfellsnes - síðasti hluti

Jóga í kvöldsólinni í Stykkishólmi :)






Brunastigamerkingin á farfuglaheimilinu. Það sést ekki nógu vel en þetta er skrifað með dökkrauðum lit. Mér fannst það svolítið krípí. Kannski ekki nógu krípí til að mynda, en ég gerði það nú samt. 




Táslurnar mínar voru ægilega glaðar í sandinum og sjónum þarna á ströndinni sem ég man ekki hvað heitir. 




Við keyrðum um Snæfellsnesið og sáum ótrúlega margt sniðugt og skemmtilegt. Enduðum á því að skoða Djúpalónssand og Dritvík en þá var batteríið í myndavélinni búið. Mér fannst það stórkostlegir staðir, sögulegir, fallegir, veðrið ótrúlega gott og jökullinn í baksýn. Var ekkert sorrý yfir myndaleysinu, ætla bara að fara aftur fljótlega. Langar líka að fara á nokkra staði sem við náðum ekki að fara á. Fylltist þvílíkri ættjarðarást og gleði í þessari ferð, svona íslensk-náttúra-best-í-heimi stemning. Og hætti að vera sorrý yfir sólarstrandarleysinu.

18. júl. 2010

Stykkishólmur

Það var fullt af túristum í Stykkishólmi og öll borð á veitingastaðnum sem við ætluðum á voru fullbókuð. Ekki einu sinni hægt að bíða - það þurfti að vera búinn að panta fyrirfrarm! Svo við fórum á hinn staðinn, Fimm fiska, sem var bara fínn. Skemmtum okkur konunglega við það að veðja um aldurinn á sæta en afar unglega þjóninum okkar (ég vann - hann var 19!) og pæla í tæplega sextugu fólkinu á næsta borði sem virkaði mjög ólíklegt par (fengum hugljómun seinna að sennilega væru þau systkini). 

Færðum okkur síðan aftur yfir á hinn veitingastaðinn sem var nú meira í kaffihúsafíling og opið frameftir. Hittum   rafvirkja frá Seattle sem bað þjónustustúlkuna um borð með þremur fallegum konum, mjög smooth eða þannig. Hann heillaðist af einni vinkonunni og var mikið að dást að tanngarði hennar og hári þar til við bentum honum á að þetta væri ekki hrossasýning. Spjölluðum aðeins við hann en báðum hann svo vinsamlegast um að leyfa okkur að kjafta í friði. Hann var ágætur samt greyið. Við rákumst síðan aftur á hann fyrir algjöra tilviljun í Hljómskálagarðinum á útitónleikum með Hjálmum þremur dögum seinna!!! 

En þótt rafvirkinn hafi ekki vakið neinar kenndir lyftist heldur betur á okkur brúnin þegar við sáum hvorki fleiri né færri en sex myndarlega menn á nálægu borði! Töldum okkur aldeilis hafa dottið í lukkupottinn þar. Heyrðum að þarna voru Þjóðverjar á ferð og vorum rétt að byrja að slípa þýskukunnáttuna því þeir virkuðu eitthvað svo hlýlegir og skemmtilegir og innilegir - þegar við áttuðum okkur á því að þarna voru þrjú pör á ferðinni. Gat verið. 

Ég varð allt í einu mjög upptekin af því að hafa ekki komið með bók meðferðis (veit ekki hvenær ég ætlaði að hafa tíma til að lesa) svo ég skundaði á einu bensínstöðina rétt áður en stelpurnar lögðu af stað aftur á farfuglaheimilið og náttstaðinn. Var svolitla stund en náði rétt fyrir lokun að kaupa mér kilju, eitthvað svona ekta nordisk krimi. Á bakaleiðinni ákvað ég að stytta mér leið en lenti í ógöngum þar sem það voru engir stígar þar sem ég hélt að væru stígar og ég var farin að klífa eitthvað moldarflagð milli húsa fyrr en varði. Leist ekkert á blikuna og gekk í smá hring - hver villist í Stykkishólmi?! Var orðin ísköld þegar ég loksins kom á farfuglaheimilið en var hissa á því að herbergið væri læst. Ég heyrði í þeim fyrir innan og bankaði en þær svöruðu ekki og tóku bara í húninn innanfrá án þess að opna. Eftir smástund og bank var mér farið að finnast þetta frekar lélegur brandari, hélt fyrst að þær væru að hátta eða eitthvað, en var nánast farin að velta fyrir mér hvort þetta væri eitthvað kvikindislegt eðli sem ég hefði ekki kynnst áður! Síðan datt mér í hug hvort þær héldu kannski að ég væri einhver ókunnugur eða hvort þær héldu að rafvirkinn væri búinn að elta þær uppi. Stelpur hleypið mér inn, þetta er ekkert fyndið! Þetta er ÉG! gjammaði ég og vakti eflaust einhverja aðra gesti, enda mjög hljóðbært í húsinu. Ákvað að hringja í þær - og sá þá loksins sms-ið Erum enn á kaffihúsinu. Það hafði ekki einu sinni hvarflað að mér! Raddirnar sem ég heyrði voru úr næsta herbergi og vindurinn hafði verið að toga í hurðina gegnum opinn gluggann... 

17. júl. 2010

Stórasta land í heimi!

Í síðustu viku fórum við þrjár vinkonur í ferðalag um Snæfellsnesið og gistum eina nótt í Stykkishólmi. Ferðin var ákveðin með stuttum fyrirvara en var dásamlega vel heppnuð.

Ferðafélagarnir voru ekki af verri endanum og þar sem ég var sjálfskipaður skemmtanastjóri styttum við okkur stundir á leiðinni með því að hlusta á '90s tónlist og fara í spurningaleiki. Ég pissaði síðan næstum (næstum!) í mig af hlátri þegar við keyrðum inn í Hvalfjarðargöngin og bílstjórinn fór að panikka yfir að sjá ekki neitt út af því það væri svo dimmt... þar til það heyrðist úr framsætinu  Taktu af þér sólgleraugun! Annars var planið að segja Hveragerði? með bjöguðum hreim við lúguna þar sem maður borgar fyrir göngin en í staðinn sögðum við Three tickets please sem afgreiðslukonunni fannst ekki fyndið.

Þegar við komum í Stykkishólm fórum við beint í siglingu um Breiðafjörðinn sem var ótrúlega skemmtileg, yndislegt veður og skipstjórinn (ung kona) var með þýðustu rödd í manna minnum og sagði okkur frá eyjunum í kring og fuglalífinu og svona. Við komum að máli við hana eftir siglinguna og sögðum henni í fúlustu alvöru að hún ætti að spá í að lesa inn á hugleiðsluteip sem aukadjobb og skildum ekkert í því að hún virtist ekki taka okkur alvarlega. En þetta var í alvörunni mögnuð rödd og við heyrðum fleiri gesti tala um hana.

Í miðri siglingu var síðan ýmis konar sjávarfang skrapað upp af botninum og okkur leyft að smakka! Ferskara gerist það nú ekki. Svo gat maður keypt hvítvín með svona til að marinera þetta smá. Ég smakkaði flest það sem var í boði held ég, hörpuskel, krabbahrogn og ígulker sem á víst að vera kynörvandi að sögn eins starfsmannsins. Umræddum starfsmanni var reyndar mikið í mun að reyna að ota þessu "Viagra náttúrunnar" að okkur og sagði að við hefðum gott af þessu, veit ekki hvort honum fannst við svona pipraðar eða hvort hann hafi haldið að við yrðum óðar í hann á stundinni.


Seinni hluti ferðasögunnar er væntanlegur! 

16. júl. 2010

Bíllinn – Drullan

Ég var búin að ákveða það fyrir löngu að ég ætlaði að þrífa bílinn í sumarfríinu. Það átti upphaflega að vera fyrsta verk á dagskrá en svo bara... dróst það og ég ákvað að bíða eftir að andinn kæmi yfir mig. Og viti menn – það gerðist einn daginn, þegar ég var að keyra heim úr fjölskylduboði í blíðskaparveðri að ég fékk óstjórnlega þörf til að þrífa bílinn. Dreif mig á næstu bensínstöð og byrjaði að ryksuga og spúla. Var í sparifötunum, pilsi og sandölum en það þýddi ekki að fást um það, þegar hin sjaldséða þrifnaðarþrá lætur á sér kræla er best að nota tækifærið. Nema hvað að það varð fljótt ljóst að vatn eitt og sér var ekki að duga á uppsafnað ryklag á bílnum. Svo ég ákvað að nota bílasápu og svamp og tók til við að nudda bílinn hátt og lágt. Fannst ég einstaklega ósexý og skil ekki alveg hvað það er sem kemur karlmönnum til við að horfa á stelpur á sundfötum þrífa bíla. En jæja, allt kom fyrir ekki svo ég endaði með því að kaupa extra sterkan tjöruhreinsi og þá fór eitthvað að rofa til. Voilá, eftir tæplega tveggja tíma vinnu varð bíllinn kannski ekki alveg hreinn en það sást samt töluverður munur. Hann var að minnsta kosti ekki lengur skítugur!

Daginn eftir fór ég að hitta vinkonu mína í hádeginu og keyrði í vinnuna til hennar. Hún þekkir bílaþrifsraunir mínar svo ég var ægilega glöð og stolt og um leið og hún labbaði út um dyrnar á vinnustaðnum kallaði ég til hennar Sjáðu bílinn, sjáðu bílinn og lét hana koma og dást að afreki mínu (sem hún gerði möglunarlaust, enda frábær vinkona), 

Er hún að fara að kaupa sér bíl spurði samstarfskona vinkonunnar sem kom út um sömu dyr stuttu seinna og sá mig hoppandi og skoppandi að benda á bílinn minn.
Nei nei, hún var bara að þrífa hann sagði vinkonan. Samstarfskona hennar umlaði eitthvað og brosti vorkunnarlega, hefur líklega haldið að ég væri eitthvað tæp í þroska enda bíllinn ekki tandurhreinn, fullur af drasli og ég skælbrosandi að dást að bílnum. En mér er alveg sama, næst stefni ég á að bóna bílinn og þá verður kátt í höllinni! 

15. júl. 2010

Bíllinn – Draslið

Stundum óska ég þess að ég væri með þótt ekki væri nema vott af þrifáráttu, svona smá Monicu í Friends fíling. Aumingja bíllinn minn, öðru nafni La Toya (Jackson), er búinn að vera að safna að sér drasli og drullu (skrifaði fyrst óvart druslum, nú jæja) síðustu marga, marga, marga mánuði.  Draslið er svona af ýmsum toga og kemur reyndar og fer, semsagt ekki alltaf sama draslið en oftast drasl. Stundum eitthvað sem gæti komið sér vel að hafa í bílnum en yfirleitt eitthvað sem verður eftir í bílnum af því að ég gleymi að fara með það upp nú eða veit hreinlega ekki hvað ég á að gera við það. Þannig má nefna að ég bjargaði gamalli uppáhaldsdúkku (hún heitir Selma, eftir systur Jóns Odds og Jóns Bjarna) úr bílskúr foreldranna í fyrra sem ég kann ekki við að henda upp á loft en vil nú samt ekki hafa inni hjá mér.  Hún er á við þriggja ára barn og svona frekar life-like nema hvað hún er orðin heldur ósjáleg og það vantar á hana útlimi. Held samt að það sé kominn tími til að setja hana í bað og í aðlögun upp á loft þar sem ég hef tekið eftir augngotum frá þeim sem sjá mig opna bílinn, það gæti litið út fyrir að ég sé með limlest barnslík í skottinu. Heppin að enginn hafi hringt á lögregluna. 

14. júl. 2010

Viva España

Ég hélt með Spánverjum og fagnaði því úrslitaleik HM, hef þó ekki fylgst sérstaklega vel með mótinu. Langar ennþá að fara aftur til Spánar og læra meiri spænsku, eyddi tveimur mánuðum í Salamanca árið 2002 og veit þökk sé internetinu að margir skólafélaga minna þar ílengdust. Komst að því að yndisleg samstarfskona mín var líka í málaskóla í Salamanca svo við stofnuðum spænskuklúbb. Hann felst í því að við tölum stundum bara (mjög bjagaða) spænsku í hádegishléinu, samstarfsfólki okkar til furðu, og sendum hvorri annarri "orð dagsins" í tölvupósti. Veit að það er hægt að vera á svoleiðis póstlista en þetta er miklu skemmtilegra þar sem við sendum yfirleitt orð sem tengist einhverju sem við höfum verið að spjalla um. Nýleg orð eru lluvia (rigning, veðrið á þeim tíma), araña (kónguló, nóg af þeim í gluggunum í vinnunni ) viaje de incertidumbre (óvissuferð og coquetear (daðra, þarf nokkuð að útskýra það?). 


Þegar ljóst varð að Spánverjar voru heimsmeistarar ætlaði ég svoleiðis að óska öllum spænsku vinum mínum á facebook til hamingju með sigurinn. En áttaði mig svo á því að ég á enga spænska vini! Þeir sem voru að læra spænsku með mér eru allra þjóða kvikindi en auðvitað ekki Spánverjar... Sendi þess vegna bara málaskólanum sjálfum fb kveðju. Mundi svo eftir því að Mr Big er auðvitað hálf-spænskur, held að það hafi nú verið pikk-öpp línan hans á sínum tíma, svo ég smellti einu sms-i á hann og óskaði honum til hamingju sem gladdi hann mjög. Að minnsta kosti hálf-gladdi hann, hó hó hó. 

13. júl. 2010

Gírafinn Garfúnkel

Eitt af uppáhalds dýrunum mínum eru gíraffar. Það er eitthvað við þetta mynstur, litlu eyrun, langa hálsinn og fjólubláa tunguna sem mér finnst krúttað og heillandi. Gíraffa-safarí er á to-do listanum, en liggur svosem ekkert á. Ég hef samt ekki sinnt þessum gíraffaáhuga neitt að ráði, fyrir utan það að ég á gíraffavekjaraklukku (venjuleg vekjaraklukka, nema bara pínu loðin með gíraffamynstri og eyrum). Var þess vegna svo glöð þegar mér bauðst að ættleiða þennan megasæta tuskugíraffa sem hefur hlotið nafnið Garfúnkel (fór einu sinni á tónleika með Art Garfunkel í London en það er önnur saga). Hann hefur fengið stað í bílnum og er strax orðinn frábær ferðafélagi, mjög skilningsríkur og umburðarlyndur. Ég er viss um að við eigum eftir að eiga margar góðar stundir saman.

12. júl. 2010

Helgin

  • Ég táraðist þegar ég horfði á Harry og Charlotte byrja aftur saman í SATC þrátt fyrir að hafa horft oft og mörgum sinnum á þennan þátt. 
  • Ég fór í frábært þrítugsafmæli hjá fallegri vinkonu og ræddi muninn á samkvæmisvenjum Bandaríkjamanna og Íslendinga. Samanber að þegar Íslendingar mæta á mannamót passa þeir sig á því að heilsa ekki eða sitja ekki hjá neinum sem þeir þekkja ekki, heldur halda sig við sinn hóp. Að minnsta kosti ekki fyrr en það er aðeins liðið á kvöldið! Geri þetta oft sjálf, er ekki rónni fyrr en er búin að finna "mitt fólk" í partýinu :)
     
  • Ég mætti í hattapartý með sjóræningjahatt meðferðis. Hafði áttað mig aðeins of seint á því að um væri að ræða Ascot hattapartý - svona fansí hattar sem skvísurnar mæta með á veðreiðar. 
  • Hlustaði allt of oft á I'm not ready to make nice með Dixie Chicks. Verð sumsé oft meira leið heldur en reið  - þegar ég vil vera meira reið en leið. Gott að hlusta á reiðar kántrístelpur til að komast í þannig fíling. Annars sagði kunningjakona mín mér að þetta lagaðist með aldrinum :)

     .  

  • Ég ákvað að fara í einnar nætur road trip á Snæfellsnes í vikunni. 
  • Ég ákvað að fara loksins á Esjuna með pabba í vikunni. 
  • Ég ákvað að gera fullt annað í vikunni og áttaði mig á því að líklega myndi ég ekki ná að gera allt sem ég ætlaði að gera í sumarfríinu mínu í síðustu vikunni. En það er allt í lagi af því að alveg eins og vikurnar eru meira en helgarnar (ekki gott þegar maður lifir fyrir þær - geri það stundum) þá er lífið er meira en sumarfrí... 

11. júl. 2010

Desert

Um leið og ég frétti að besta/versta súkkulaðikakan væri komin aftur í bakaríið byrjaði garnagaulið. Þú verður að fá þér eina sneið... Svona eins og þegar Karíus og Baktus kölluðu Við viljum franskbrauð á aumingja Jens.

Ég vissi fyrir að þrátt fyrir girnilegt útlit og einstakt bragð væri þessi kaloríubomba sérstaklega slæm fyrir mig. Fyrir utan það hún var dýr og ég átti ekki fyrir henni. Ég var búin að eyða vikum saman í að reyna að sannfæra mig (að því að ég taldi með góðum árangri) um að þessi kaka væri ekkert sérstök og var raunar farin að líta hafraklattana girndaraugum. En það skipti engum togum, um leið og kökuna bar fyrir sjónir varð ég að fá hana og gleypti hana alla í mig á nóinu. Þegar síðasti bitinn hafði runnið ljúflega niður runnu á mig tvær grímur. Kakan var þung í maga en innihaldslausar kaloríurnar gátu ekki seðjað hið raunverulega hungur. Auk þess truflaði það mig að geta ekki namminammast að vild, ég var svo mikið að passa mig að kakan vissi ekki hvað mér þætti hún dásamleg. Líklega var kökunni þó sama á hvorn veginn sem var, því kökur eiga sér sjaldnast uppáhalds kaupanda þótt kaupendur eigi sér uppáhalds kökur. Stóð því uppi með tómt veski og ennþá svöng.

P.s. Mögulega er þetta blogg ekki um súkkulaðikökur.
P.p.s. Vonandi lesa engar súkkulaðikökur þetta blogg.

8. júl. 2010

Bloggskuld

Hér þarf ég að bæta við bloggum fyrir 7. 8. 9. og 10. júlí - coming up!

6. júl. 2010

Ég ætla upp í sveit og ligga ligga lá...

Andstætt við litlu systur var ég sjálf aldrei í sveit á sumrin. Mér fannst alveg gaman að skoða kusurnar og klappa lömbunum og skoða traktorana og svona. En ég vildi helst sofa út, lesa gamlar bækur, leika mér í hlöðunni og rölta niður að Hópi frekar en að vera á hlaupum hingað og þangað í einhverju aksjón.  

Þess vegna kom það öllum að óvörum að ég skyldi, eins og mamma orðaði það, sýna góða takta í sveitinni á ferðalagi fjölskyldunnar. Þegar við fórum að skoða heimalninga kom í ljós að eitt lambið vantaði og fannst það eftir nokkra leit ofan í skurði. Ég hugsaði mig ekki tvisvar um heldur stökk ofan í skurðinn og tók við að leiða villuráfandi sauðinn meðfram skurðinum og upp á jafnsléttu. Litli mórauði hrúturinn var svo máttfarinn að ég þurfti að bera hann síðasta spölinn sem hann launaði mér með því að kúka fagurgrænni drullu á nýju Cintamani peysuna mína. 

Ég held svei mér þá að við þessa björgunartilraun hafi ég óverdósað á íslenska sveitaloftinu og fengið of mikið súrefni upp í heila. Ég var alveg komin á það að ég ætlaði að flytja upp í sveit og gerast bóndi, nú eða bara bóndafrú. Ég horfði einu sinni á nokkra þætti af danska raunveruleikaþættinum Bóndi leitar brúðar, svona deiting þátt þar sem stúlkur með sveitadrauma keppa um hylli myndarlegra en einmana bænda. Það er synd að það sé  ekki til nein íslensk bóndadeiting síða, því það er nefnilega til dönsk svoleiðis! Spurning um að skrá sig bara þar? Örugglega ekkert verra að moka flór á Fjóni en Fáskrúðsfirði.  



5. júl. 2010

Netsambandslaust

Það er netsamband! gargaði ég uppyfir mig eftir að hafa verið búin að labba með tölvuna í öll skúmaskot sumarbústaðarins á Blönduósi. Enkripsjón diseibled! 35% tenging.... 20%.... 30%... En ekkert gekk að ná sambandi svo ég gekk út með tölvuna í örvæntingarfullri leit að betri tengingu.
Erum við ekki komin hingað í afslöppun? hváðu hinir fjölskyldumeðlimirnir, en ég ætlaði að standa við mitt blogg á dag og einhvers staðar var þetta hot spot! Ég labbaði spölkorn frá bústaðnum með tölvuna opna, út á tjaldstæðið og kippti mér ekkert upp við að öðrum ferðalöngum kynni að hafa fundist þetta furðuleg sjón. Og viti menn, á miðjum leikvelli tjaldstæði Blönduóss virtist vera ágætis samband svo ég settist hríðskjálfandi í róluna með tölvuna. En nei - það þufti vitanlega að greiða fyrir tenginguna og fá lykilorð og ég hafði ekki hugmynd um hvar á svæðinu væri hægt að fjárfesta í internetmínútum. Reyndar gott að fá frí frá erli alnetsins, þótt ekki væri nema eitt kvöld.

(Merki þessa færslu sem 5. júlí, svona til að standa við bloggfjöldann....)

4. júl. 2010

Prumpuperri

Þegar ég var lítil var mér kennt að það væri ljótt að segja prumpa, að leysa vind var hið rétta og kurteisa heiti yfir þessa líkamsstarfsemi. Held að prumpulag Dr. Gunna hafi breytt landslaginu og nú tala örugglega öll lítil börn frjálslega um prump.

Með tilkomu reykingabannsins sem ég fagnaði gríðarlega og geri enn, sköpuðust miklar umræður um aukna prumpufýlu og svitalykt á skemmtistöðum þar sem reykingalyktin væri ekki lengur yfirgnæfandi. Ég get ekki sagt að ég hafi tekið sérstaklega eftir þessu, hef að minnsta kosti aldrei vaknað daginn eftir djamm og þurft að þvo öll fötin mín og koddaverið af því að það var svo mikil prumpulykt af hárinu á mér.

Var stödd með nokkrum vinkonum á skemmtistaðnum Boston um helgina þegar allsvakaleg fýla gaus upp og ekki fór á milli mála um hvers lags lykt væri að ræða. Oft er yfirþyrmandi reykelsisangan á Boston en hún náði að minnsta kosti ekki að yfirgnæfa þennan ófögnuð. Við fitjuðum upp á nefið og horfðum ásakandi hvor á aðra en enginn vildi kannast við að hafa óvart leyst vind. Þegar þetta gerðist í annað sinn var orðið ljóst að sökudólgurinn sæti á borðinu við hliðina en kannski ekki beint hægt að pota í bakið á ókunnugum manni og spyrja Fyrirgefðu, varst þú að prumpa? Í þriðja sinn varð fnykurinn óbærilegur, ég náði varla andanum og flúði út á pall ásamt nokkrum öðrum enda reykingalykt og eiginlega bara öll önnur lykt skárri en þessi.

Vinkonu minni varð nóg boðið og hnippti ásakandi í hinn grunaða. Sagði honum að einhver á borðinu hefði verið að prumpa og líklega hefði það verið hann, nú væri hálft borðið okkar flúið út til að losna undan þessu, þetta væri helber dónaskapur og hvort honum væri eiginlega sama að gera þetta einhvers staðar annars staðar! Veit nú eiginlega ekki hvernig ég hefði sjálf brugðist við svona en það fauk í gaurinn, sem var steggurinn sjálfur í steggjaveislu og notaði hann f-orðið til baka á hana svo hún rauk út á pall til okkar flóttamannanna. Þetta varð til þess nokkrir stólar á borðinu okkar tæmdust og steggjapartýið sá sér leik á borði og færði sig yfir til þeirra stúlkna sem höfðu ekki flúið fýluna (enda sátu þær fjær prumparanum). Steggurinn baðst síðan afsökunar á að hafa móðgað vinkonuna - en ekki á prumpinu, enda má svosem deila um hversu mikla stjórn menn hafa á umræddri aukaafurð.

Til að ljúka þessum prumpupósti get ég sagt frá því að titill færslunnar er vísun í mann sem ég veit að hefur sent tveimur stúlkum nákvæmlega eins póst gegnum deitsíðu. Þar játar hann blæti sitt (fína íslensks orðið yfir fetish) og segist leita að stúlku sem er til í að setjast á andlitið á sér og leysa vind framan í sig. Veit ekki með ykkur, en væri ekki gott ráð ef maður væri með svona... óvenjulegar þarfir í rúminu, að bíða með að segja frá þessu fyrr en eftir, segjum nokkur deit? Eða er bara best að senda svona póst á eins margar stelpur og maður getur, í þeirri von að einhvers staðar segi einhver já?

3. júl. 2010

Þriðja hjólið

Ég þekki talsvert af skemmtilegum pörum og finnst langoftast ekkert mál að vera ein að hitta par eða pör, góðu fólki fylgja góðar stundir. Fæ afar sjaldan þessa smug marrieds tilfinningu sem Bridget Jones talar um. Það er helst að þriðja hjóls tilfinningin geri vart við sig þegar maður er einn með tveimur einstaklingum sem eru í tilhugalífinu - nýbyrjuð að deita, langar til að deita eða voru einu sinni að deita. Í slíkum aðstæðum skiptir tímasetningin öllu máli og helst þarf að vera búið að koma sér saman um boðleiðir ef það er búið að ákveða fyrirfram að þú sért á vængnum. Það þarf að skilja "parið" eftir eitt hæfilega lengi og láta sig hverfa á hárréttum tíma. Til dæmis getur vinkona spurt vængvinkonu hvað er klukkan sem er þá merki um að hún megi/eigi að fara, sbr. vængmanneskjan svarar Heyrðu hún er orðin 3, ja hérna ég verð að fara að drífa mig ég þarf að vakna svo snemma. 

Fór út að hitta gamla vinkonu í gær og komst að því að hún er nýbyrjuð að vinna með strák sem ég var aðeins að skoða eitt sumarið fyrir nokkrum árum. Ekkert alvarlegt og í dag er gagnkvæmt áhugaleysi okkar á milli en ég þekki hann ágætlega og fannst upplagt að koma þeim saman! Svo við tvær hittumst og hittum svo vininn/vinnufélagann og þá vandaðist málið enda var ég ekki búin að segja þeim alveg frá þessari fyrirætlan minni og því engar boðsendingar ákveðnar. Ég hélt mig til baka og þagði meðan þau bonduðu yfir vinnunni en þekkti engan annan á staðnum svo þetta kom frekar asnalega út og þau fóru að hafa áhyggjur af því að mér leiddist. Gat ekki farið strax svo ég tók nokkrar óþarfa klósettferðir og skrapp skyndilega út ein til að taka smá rölt á nærliggjandi staði. Á tímabili leit þetta reyndar illa út þar sem vinkonan var komin í hörkusamræður við einhvern annan áhugaverðan en hún kom þó aftur að lokum og ég gat tekið geisp-takk-bless pakkann og skilið þau eftir tvö í lok kvöldsins. Veit reyndar ekkert hvernig það endaði en sé að ég þarf að æfa væng-taktíkina. 

Er samt orðin töluvert betri heldur en á unglingsárunum þegar samantekin ráð vinkvenna voru órjúfanlegur hluti þess að næla sér í strák. Man þegar bestu vinkonu minni var boðið í bíó en hún vildi ekki fara ein. Tek fram að við vorum mjög ungar! Við ákváðum að hún myndi mæta í bíóið og hitta strákinn og svo kæmi ég aðeins seinna og hitti þau "fyrir tilviljun" í bíóinu. Jæja, hún fer inn og ég bíð fyrir utan. Fannst ég vera búin að bíða heila eilífð þegar ég fór inn á eftir en þá voru þau ennþá aftast í röðinni að fara að kaupa sér miða! Svo úr varð afar vandræðalegur nei hæ þú hér! leikþáttur þar sem hún kynnti mig sem bestu vinkonu sína sem var svo akkúrat að fara EIN í bíó á nákvæmlega sömu mynd... Endaði með því að sitja í röðinni fyrir aftan þau en beint á milli þeirra og ég man að við deildum öll saman poppi sem hann hafði komið með heimapoppað í poka. 

Sama vinkona varð nokkrum árum seinna skotin í strák sem var frekar óframfærinn og hana var farið að lengja eftir fyrsta kossinum. Eftir að hafa kynnt okkur málið í þaula með að lesa unglingaglansblöð ákváðum við að þau þyrftu að vera ein saman uppi í rúmi í myrkvuðu herbergi. Til að það gæti orðið bauð ég honum að koma og horfa á vídjó með okkur eitt kvöldið heima hjá mér. Vídjótækið var frammi í stofu en ég gat notað snúru til að tengja það við fermingarsjónvarpið í herberginu mínu. Hann kom og ég eyddi megninu af kvöldinu frammi að "laga vídjóið". Ég þurfti nefnilega að halda inni einhverjum takka á vídjóinu til að myndin hristist ekki...

2. júl. 2010

Nýtt og notað

Er að narta í hvítsúkkulaðiskyrtertuna sem ég fór með í súkkulaðiklúbbinn í gær (nei hún var ekki svo vond að enginn borðaði hana, það var bara offramboð!). Alveg eins og venjuleg skyrterta nema bara með hvítu súkkulaði blönduðu út í skyrið. Mjög gott bara, en lítið súkkulaðibragð. Uppáhaldið mitt var hvítsúkkulaðimús með lime og möndlum, súkkulaðilegasti rétturinn sem var líka mús en dekkri og með hindberjum var líka mjög góður og ávaxtasúkkulaðifondúið var fullkominn endir. Einfaldasti rétturinn og sá sem við byrjuðum á var snilldin ein, súkkulaðiskafís og baileys saman í blender! Frábær sumardrykkur.

Ég er eitthvað að vandræðast með Englandsferð sem stendur til, get ekki ákveðið mig hvort ég ætla að fara en VERÐ að ákveða mig ekki seinna en á morgun. Langar meira að fara eitthvað nýtt og spennandi og helst í sól en það er ekki í boði eins og er og ég veit ekki hvort eða hvenær ég gæti fundið einhvern til að fara með mér í svoleiðis.  Hef auðvitað búið í Englandi og farið þangað árlega síðustu 8 ár og er kannski komin með smá leið en það er reyndar nýr og skemmtilegur ferðafélagi og það er stundum gott að þekkja áfangastaðinn vel og vita að hverju maður gengur. Og ef ég fer þetta ekki þá fer ég kannski ekki neitt og þá veit ég að ég á eftir að sjá eftir því að hafa ekki farið. Pöbbarölt og H&M er ekkert slæmur díll sko.

Tek fram að þetta er raunverulegt dæmi og ég er ekki að tala undir rós eða vera með myndlíkingu í sambandi við ástarmál eins og stundum :) En þetta er reyndar umhugsunarvert í því sambandi og eitthvað sem margar einhleypar konur hafa örugglega velt fyrir sér -  á að byrja bara aftur með gamla deitinu sem maður er orðinn svolítið þreyttur á en er traustur og notalegur, eða bíða eftir einhverjum nýjum og spennandi draumaprinsi sem fær hjartað til að slá hraðar en gæti birst seint og síðar meir eða alls ekki?

1. júl. 2010

Knús og klór

Kanínan er loksins eftir rúmlega mánaðar sjúkrasögu orðin laus við spelku og plástur og komin í venjulegt búr en má ekki fara út nema bara lítið og stutt í einu. Ég sakna þess að hafa hana ekki skoppandi í kringum mig og fer mjög varlega í öll kanínuknús enda fóturinn ennþá að jafna sig. 

Er þessa dagana með extra mikla knús- og snertiþörf og nota hvert tækifæri til að faðma vini mína og fjölskyldu (afmælið kom að góðum notum um daginn, fékk fullt af faðmi þá). Þessi þörf snýst ekki (bara) um að ég vilji láta knúsa mig - heldur líka öfugt. Mig langar að nudda og klóra og þá er ég alls ekki að meina neitt dónó, finnst það bara gaman og gott. Litla systir er gott fórnarlamb og þarf að sitja undir hársvarðar- og handanuddi þegar tækifæri gefst til og vinkona mín horfði undarlegum augum á mig í gær þegar ég spurði hvort ég mætti nudda á henni fæturnar meðan við horfðum á Sex and the City. 

Er hætt að naga neglur í bili (gerist iðulega þegar ég fer í frí - minna stress) svo klærnar eru tilbúnar að læsast (laust) í bakið á einhverjum. Þú þarft hins vegar að þekkja einhvern ansi vel til að spyrja hvort þú megir klóra viðkomandi á bakinu. Tékka á litlu systur á eftir. Fólk er auðvitað haldið mjög mis-mikilli snertiþörf en þetta gerðum við æskuvinkonurnar nokkuð af sem unglingar, að nudda og klóra hvorri annarri til dæmis í náttfatapartýum.Man að við vorum einhverntíman reknar úr eðlisfræðitíma, kennaranum fannst við minna á apaketti sem lægjum fram á borðið að tína lýs hvor af öðrum. 

Annars var dagurinn í dag fyrirmyndar sumarfrísdagur þótt engin væri sólin. Morgunskokk, sund í Vesturbæjarlauginni, hádegisbeygla á Kaffitár og setið við skriftir í kjölfarið á sama stað. Síðdegisblundur og núna mömmumatur, tilraunaeldamennska og súkkulaðiklúbbur! 

30. jún. 2010

Nei, nei og aftur nei

Í þessari viku er ég búin að segja nei við því að fara á hlaupanámskeið, nei við því að fara á á sjálfsvarnarnámskeið og tvisvar nei við því að fara í hot yoga tíma! Sem er eiginlega frekar glatað fyrir svona wannabe spontaneous já-manneskju. Þarf að reyna að komast yfir þessa jóga-hræðslu, í síðasta jógatíma sem ég fór í festist ég með lappirnar fyrir aftan höfuð og get ekki ímyndað mér að það sé skemmtilegri upplifun í svitabaði. Ég er líka eitthvað hrædd við svona sjálfsvarnarnámskeið, eitthvað við það að láta skella sér í gólfið sem ég meika ekki. Vinkona mín var ekki alveg að kaupa það þegar ég sagðist vera til í að fara á bóklegt námskeið í staðinn. Bíddu ætlarðu þá að biðja árásarmanninn um að hætta að nauðga þér meðan þið ræðið samband hans við mömmu sína

Hef reyndar afsökun fyrir að komast ekki á hlaupanámskeiðið en ég er annað hvort að fara í súkkulaðiklúbb eða á tónleikana hjá Seljalandsfossi. Get reyndar alveg hugsað mér að fara á svona námskeið seinna en las á netinu að hlaupastíllinn manns sé tekinn upp á myndband til að hægt sé að greina hann síðar. Örugglega mjög gagnlegt en ég vona samt að það sé ekki spilað fyrir framan alla, svona ef ég skyldi koma út eins og Phoebe í Friends í þessu atriði  ef einhver man eftir því. 

Annars er sumarþema hjá súkkulaðiklúbbnum en ég hef ekki hugmynd um hvað ég ætla að koma með. Er að spá á að mixa einhvers konar kaldan súkkulaðidrykk eða sjeik. Varaplanið er að kaupa MacDónalds style súkkulaðisjeik hjá Metró, skipta bara um umbúðir og hræra smá súkkulaðispænum saman við, svona til að þetta virki meira ekta... 

29. jún. 2010

Kúkað í Kúlusúkk*

Í kvöld sýndi ég stórkostleg tilþrif í að leika geiturnar þrjár (og tröllið) með tæplega þriggja ára systurdóttur minni. Ég get ekki talið hversu oft ég hef lesið bókina fyrir hana og nú ákváðum við að vera með leikræna útfærslu. Er farin að ná raddblæbrigðum karakteranna ansi vel þótt ég segi sjálf frá og er bara nokkuð ógnvekjandi þegar ég spyr Hver trampar á brúnni minni? Hef reyndar lesið söguna og leikið leikritið fyrir önnur börn gegnum árin og slegið í gegn. Sérstaklega vekur þetta mikla lukku í sundlaugum eins og í Árbæjarlauginni og í Laugardalslauginni þar sem er raunveruleg brú til staðar, en krefst þess að manni takist að útiloka aðra sundlaugargesti úr huga sér til að lifa sig inn í hlutverkin. 

Fór svo og hitti vinkonu á Kaffi París þar sem hún sagði mér frá spennandi ferð sem hún fór í í vor, gangandi 600 km yfir Grænlandsjökul. Sérstaklega voru klósettferðirnar ræddar en hún sagði mér að þetta væri ein algengasta spurningin sem hún fengi um ferðina! Svona til upplýsinga fyrir klósettáhugabloggarann :) mun vera mjög hreinlegt að ganga örna sinna á Grænlandsjökli, notast er við skóflu til að grafa holu, klósettið er eingöngu notað af manni sjálfum og mokað yfir á eftir. Svo pissar maður beint í snjóinn og þarf ekki að hafa áhyggjur af því að neitt fari út fyrir! Eina áhættan er víst að fá frostbit á rassinn.

(*já, já - það eru örugglega klósett í bænum Kulusuk, þetta hljómaði bara betur en kúkað á Grænlandsjökli!)

28. jún. 2010

Medúsa

Ég splæsti í litun og plokkun á stofu fyrir ammó sem ég hafði ekki gert síðan disasterið varð í spa-inu í Laugum síðasta haust. Þá notaði snyrtidaman vax á mig í fyrsta sinn á augabrúnirnar og ég varð öll stokkbólgin og bólótt lengi á eftir. Ræddi þetta við snyrtifræðinginn vinkonu mína sem ég fór til í síðustu viku sem sagði mér að líklega hefði vaxið bara verið svona heitt og þetta ætti ekki að koma fyrir.

Viðvörun: Ekki fyrir viðkvæma/klígjugjarna!

Var svona aðeins rauð á eftir en ekkert til að tala um - hjúkk - nema hvað eftir tvo daga fór ég að springa út af bólum milli augabrúnanna. Ekki bara venjulegum bólum, heldur hvítum bólum! Og ekki bara nokkrum hvítum bólum - heldur heilum helling! Stíflaðar svitaholur í massavís sem litu út eins og það væru litlir ormar að fara að skríða út úr höfðinu á mér. Svona eins og ég væri með njálg milli augnananna! Mér leið eins og ég væri að breytast í ógeðslegra afbrigði af Medúsu - skrímslasysturina úr grísku goðafræðinni sem var með snáka í stað hárs á höfðinu.


Ok - ég er kannski að færa aðeins í stílinn. En þetta var samt ljótt. Ég var ekki með þolinmæði í að bíða og sjá og ekki virtist vera hægt að kreista ormana fram. Ég brá því á það ráð að skrúbba og nudda - sem leiddi til þess að á ennið var komið flakandi sár, sem andstætt við njálginn var ekki hægt að meika yfir.

Frábært.

Ég mátti þó þakka fyrir að vera með topp sem huldi skelfinguna að hluta til en bölvaði því að vera nýbúin að klippa aðeins af honum. Hélt mig því innandyra mestalla helgina.

Held í kvöld svei mér þá að þetta sé að verða farið. Mig er farið að þyrsta í Operation Sumarfrí, sem átti að fara fram að miklu leyti utandyra eða á kaffihúsum miðborgarinnar. Sjáum hvað vikan ber í skauti sér.

27. jún. 2010

Sú íslenska

Ég fékk miða um lúguna á föstudaginn um að það biði mín erlend bréfasending. Er spennt að sækja pakkann á morgun því ég á ekki von á neinu en grunar að það sé mögulega sending frá Mr Big/Útlendingnum/Herra heila. Ætla svosem ekki að gera mér neinar vonir, hann er einmitt á fyrrgreindum bannlista.

Heyrði í honum í gær og þegar hann nefndi Sófí vinkonu sína á nafn í fjórða sinn þá fékk ég hnút í magann - hann er hrifinn af henni, ég finn það á mér. Sófí er tuttugogfimmára, vinnur hjá bókaforlagi, er áhugaleikkona og kemur fram sem uppistandari. Ákvað að segja ekki neitt, en fletti henni upp á facebook og hnúturinn stækkaði bara þegar ég sá hvað hún var sæt. Sem er fáránlegt, því það eru þrjú ÁR síðan við hættum saman, það ÉG sem vil ekki vera með honum (af góðum ástæðum) og mér þykir endalaust vænt um hann og vil að hann sé hamingjusamur.

Án þess að vita neitt um hvað sé á milli þeirra - þetta var bara tilfinning - áttaði ég mig á því að ég væri komin í hlutverk sem mér er mjög illa við. Útlenska fyrrverandi kærastan.

Þegar við vorum saman átti Mr. Big nefnilega í MJÖG góðum samskiptum við fyrrverandi kærusturnar sínar, þótt hann hafi ekki verið (svo ég viti til) að halda framhjá. Þá er ég að tala um sú frá Malasíu hringdi í hann reglulega til að grenja yfir einhverjum tilfinningakrísum (frá Malasíu), hann fór með þeirri þýsku í leikhús (á sýningar sem mig langaði til að sjá) og hann fékk Valentínusarkort frá þeirri kínversku. Þessi ítalska mætti í heimsókn í vinnuna til hans og þessi frá Kólumbíu hringdi full á nóttunni. Sú skoska var eini vinur hans á myspace og hann sagði mér frá undarlegum draumum sem hann átti um þá spænsku og þýsku númer 2. Það var helst sú kanadíska sem lét hann í friði.

Nú er ég ef til vill að verða sú íslenska sem hann sendir pakka á afmælisdaginn. Aumingja Sófí.

26. jún. 2010

Líffæra-lambada

Hjartað, heilinn, maginn og munnurinn eru fjögur skemmtileg líffæri sem búa saman inni í mér, en síður en svo í sátt og samlyndi. Svo virðist sem litla (eða stóra, eftir því hvernig á það er litið) hjartað mitt sé með gullfiskaminni. Þrátt fyrir hjartasorgir, grát og gnístran tanna er hjartað ótrúlega fljótt að gleyma því að það eru nokkrir menn á bannlista. Heilinn er aftur á móti mun minnugri (skiljanlega) og minnir hjartað reglulega á að A, B og C séu á bannlistanum af góðum ástæðum. Heilinn bendir hjartanu jafnframt á skynsamlegri kosti eins og X, Y og Z. Hjartað spyr magann þá ráða og þar sem X, Y og Z vekja ekki upp neinn magafiðring segir hjartað yfirleitt nei, sökum fyrri reynslu af mönnum sem vekja ekki upp téðan fiðring. Munnurinn greyið er viljalaust verkfæri sem fær misvísandi skilaboð og endar yfirleitt á því að segja (eða stundum sem verra er, kyssa) eitthvað út í bláinn við ranga menn á röngum tíma.

Um daginn hitti ég mann sem var efstur á bannlista og búinn að vera þar um nokkurt skeið. Hafði ekki hitt hann lengi og var búin að hugsa fram og til baka hvað ég ætlaði að segja ef ég myndi rekast á hann. En viti menn, hjartað tók kipp, maginn fór í arabastökk, heilinn fékk engu ráðið og ég endaði á því að stama út úr mér einhverri vitleysu sem var mjög langt frá því að vera kúl á því (reyndi seinna að bæta kúl-missinn upp með því að standa við hlið hans við barinn og þykjast ekki þekkja hann, mæli ekki með því).

Ég hitti hann nokkrum sinnum eftir þetta og þóttist ekki sjá viðvörunarljósin, sírenurnar og stopp-merkin sem aumingja heilinn reyndi að veifa fyrir framan nefið á mér. Maginn og munnurinn voru í góðu partýi og engin ástæða til að binda endi á það. Sem betur fer tókst að þessu sinni að koma í veg fyrir að hjartað dytti fram af bjargbrún án fallhlífar en það hruflaði sig samt aðeins eftir þessa törn. Hef ekki hitt hann í svolítinn tíma núna en á vafalaust eftir að rekast á hann fyrr eða síðar aftur og þá þarf ég helst að vera undirbúin.

Að þessu sinni er ég með sálfræðilega hernaðaráætlun, svokallaða óbeitarskilyrðingu. Ég þarf að reyna að tengja hann við eitthvað slæmt, og þá meina ég líkamlega slæmt, eitthvað sem veldur ógleði til dæmis. Ef ég get fengið magann í lið með mér er stríðið unnið. Veit um vinkonu sem gerði þetta með góðum árangri - hún ímyndaði sér afar sterkt að gæinn sem hún var að reyna að hætta að vera hrifin af væri illa lyktandi og finnur núna alltaf pissulykt þegar hann er nálægt!

Mikið vildi ég samt óska að það væri fleira í lífinu sem er bæði skemmtilegt og gott fyrir mann, hvort sem það er smjör og rjómi eða sætir strákar.

25. jún. 2010

Fertugsaldurinn - fyrsti sólarhringurinn

Afmælisdagurinn búinn og annar í afmæli að kvöldi kominn svo það er ekki laust við að það sé aðeins að leka úr manni loftið, sem og úr helíumblöðrunum sem ég keypti fyrir veisluna. Skil nú samt ekki hvernig viðmiðið getur verið að það komist 30 blöðrur í fólksbíl, ég var í stökustu vandræðum með að koma 18 blöðrum inn í bílinn (en vegfarendur skemmtu sér aftur á móti konunglega við aðfarirnar).

Veislan var algjör draumur í dós, grilluð garðveisla með sjóræningjaívafi. Af um 50 fullorðnum og 20 börnum mættu að minnsta kosti 15 sjóræningjar, einn kúreki og einn indíáni :) Ef ég hefði ekki verið svona spennt hefði ég verið hágrátandi allt kvöldið yfir því hvað ég á gjörsamlega ótrúlega yndislega fjölskyldu og vini og hvað ég er ofsa glöð og þakklát fyrir það. Ég held að sambönd mín við Selfoss (Veðurguðirnir), sætustu veðurfréttaskvísuna í bænum og starfsmannastjóra Veðurstofunnar hafi stuðlað að því hvað ég var einstaklega heppin með veður, þetta hefði orðið töluvert öðruvísi dagur í grenjandi rigningu eins og var í dag. En stundum gengur allt upp eins og maður hefði óskað sér og það var svei mér þá svoleiðis dagur í gær.

Bauð nokkrum fyrrverandi flames og kærustum enda allt í góðu og langur tími síðan og lítið land og allt það. Menntaskólakærastinn sendi mér reyndar sms og spurði hvort ég hefði nokkuð boðið sér óvart :) Sem var ekki, ég var glöð að fá hann í veisluna en ég er ekki viss um að ég hefði boðið honum ef ég hefði ekki verið í svona ofsa miklu hamingjustuði þegar ég bauð, var búin að bjóða 130 facebook vinum þegar ég þurfti að hætta... hefði viljað bjóða öllum sem ég þekki en það hefði líklega ekki verið skynsamlegt.

Ég hafði ekki almennilega tíma til að skoða gjafirnar fyrr en í morgun og mér eiginlega brá, þær voru svo flottar. Er núna vel útbúin til ferðalaga í gönguskóm og cintamani peysu, svo fékk ég frábæra blöndu af alls konar frábæru eins og æðislegt skvísudót, gjafabréf, bækur, vín, súkkulaði, kaffi, rúmföt, málverk, inneign í ísbúð og gEggjaðan eggjaskera! svo ég telji nú bara upp sumt.

Í miðri veislunni birtist síðan eldri maður með ofsalega fallegan rósavönd og rétti mér. Gat engan veginn komið honum fyrir mig og fékk flassbakk í ferminguna mína þegar það mætti nokkuð af af eldra fólki sem ég þekkti ekki neitt sem kleip í kinnarnar á mér og óskaði mér til hamingju. Fannst þó skrýtið að mamma og pabbi hefðu boðið einhverjum fjarskyldum frænda í veisluna án þess að láta mig vita. Vildi samt ekki vera dónaleg og heilsaði manninum kumpánlega. Hann rétti mér vöndinn og sagðist hafa átt að koma honum til skila frá Dögg í Hafnarfirði. Ekki var það betra, ég þekki enga einustu Dögg og þekki bara mjög fáa í Hafnarfirði yfirhöfuð. Ætlaði að fara að segja að hann hefði farið mannavillt en því var svo hvíslað að mér að það væri nafnið á blómabúð - þetta var þá frá vini mínum sem komst ekki í veisluna. Varð alveg extra glöð að fá blóm frá karlmanni, veit að það er algjör klisja en mér finnst það samt voða gaman.

Annars held ég að það hafi ekkert breyst við að verða þrítug nema hvað ég var heldur skynsöm svona seinni part kvölds þegar fjör fór að færast í leikinn. Það er ekki alltaf gaman meðan á því stendur en gleðilegra daginn eftir aftur á móti. Mjög fullorðins. Það er því eitt núll fyrir fullorðnu frökeninni á móti hvatvísa táningnum.

24. jún. 2010

Afmæli XXX

Þeir sem þekkja mig vita að ég elska afmæli. Öll afmæli og ekki síst mitt eigið, ég meina hvað er stórkostlegra en að hafa heilan dag þar sem fólk óskar þér til hamingju bara fyrir að vera til! Vinir koma í heimsókn, kaka, pakkar og blöðrur... what's not to like?

Þótt ég fagni þessum degi árlega var ég sérstaklega búin að hlakka til dagsins í dag þar sem það er stórafmæli og þeim hef ég ávallt (tvisvar áður) fagnað með húllumhæi. Er búin að fagna og fylgjast með meirihluta vina og kunningja ná þessum áfanga á undanförnum árum og loksins er röðin komin að mér.

Það kom mér þess vegna að óvörum þegar ég fór að verða pínulítið blúsuð þegar þrítugsafmælið nálgaðist. Gat samt ekki sett fingur á hvers vegna. Velti því fyrir mér hvort það sé af því að einkahagir mínir séu ekki þeir sem ég spáði fyrir um fyrir tíu árum síðan. Fór í kokteilboð í fyrradag þar sem kona á sjötugsaldri sem ég kannast við spurði hvort ég ætti mann og börn. Nei, svaraði ég glaðlega og ég sá að hún varð hissa. Já já, það er líka allt í lagi sagði hún. En hún sagði þetta nú samt eins og það væri bara alls ekkert í lagi. Ég forðaði mér úr boðinu og velti því fyrir mér hvort ég væri eitthvað að misskilja, hvort það væri ekki í góðu lagi að vera einhleyp og barnlaus "komin á þennan aldur" . Því vissulega var þetta á to-do listanum fyrir þrítugt. Ásamt ýmsu öðru sem hefur ekki gengið eftir eins og að kaupa íbúð, skrifa bók og hefja doktorsnám. En ýmislegt annað hef ég þó afrekað, bæði sem var á to-do listanum og því sem var alls ekki á to-do listanum - og það seinna var eiginlega miklu áhugaverðara og ánægjulegra :)

Held þó að þrítugsblúsinn sé miklu meira tengdur einhverjum Peter-Pan fantasíum (nei ekki kynferðislegum!), að langa ekki til að verða stór. Og þegar maður er þrítugur, kominn á fertugsaldur þá hlýtur maður opinberlega að vera orðinn fullorðinn. Andvarp. Þegar ég velti þessu fyrir mér þá man ég óljóst eftir mjög svipaðri pælingu og tilfinningu í kringum tvítugsafmælið mitt. Ég var ekki lengur táningur, ég var fullorðin. En viti menn, mér hefur ekki fundist ég vera sérstaklega fullorðin síðustu tíu árin. Og finnst ég ekkert sérstaklega breytt í dag.

Vinur minn benti mér á um daginn að tæknilega hæfist ekki næsti áratugur lífs míns fyrr en ég væri orðin 31, alveg eins og nýtt árþúsund hófst ekki fyrr en um áramótin 2000/2001 samkvæmt pabba stærðfræðingi og öðrum fróðum mönnum. Þetta ár er því ákveðið limbó. Ég hef ákveðið að dokúmentera (hvað er fallegt íslenskt orð yfir það? skrásetja?) þetta ár vel og vandlega. Stefnan er að blogga eitthvað daglega næsta árið. Það kemur þá í ljós hvort ég fullorðnist (ég gæti til dæmis lært að prjóna eins og allir virðast kunna þessa dagana) eða hverfi aftur til táningsáranna (ég gæti til dæmis látið húðflúra á mér eyrað eins og Miley Cyrus).

Þetta verður ekki lengra að sinni, enda þarf ég að undirbúa sjóræningjaveislu og er ekki enn búin að finna mér páfagauk til að hafa á öxlinni.

Til hamingju ég! Megi næsta ár verða örlagaríkt og ævintýralegt - þá er svo miklu skemmtilegra að blogga :)