30. nóv. 2009

Dramatíska barnið

Vil byrja á því að þakka fyrir góðar kveðjur og hvatningu varðandi síðasta blogg. Nú gildir ekkert annað en að hugsa stórt ef takmarkið er að verða the queen of chick-lit hérlendis, þ.e. Dömubindadrottning Íslands. Langar mest að flytja í fjallaþorp eða til einhverrar fallegrar borgar af passlegri stærð í suður-Evrópu og sitja á kaffihúsum með latté og laptop að skrifa í nokkra mánuði – bara svona til að prófa og vita hvort ég geti það eða ekki. Það er eitt að skrifa blogg, annað að skrifa skáldsögu.

Vegna fyrri yfirlýsinga um að það þurfi ekki öll skrif að vera dimm og drungaleg og að ég sé sko ekki í þannig skrifum þá hló ég pínulítið þegar ég var að taka til í vikunni og fann gömlu ljóðabókina mína frá mjög svo kreatívu tímabili sem ég tók á bilinu 10-14 ára. Hér kemur brot úr einu ljóði:

Ég var ein
ein í heiminum
og einmanaleikinn huldi mig
eins og svört dula
í myrkrinu.

Þá komst þú
eins og gat á dulunni
eins og ljós í myrkrinu
það varst þú.


Dásamlega dramatískt – nema hvað að þetta ljóð er skrifað 30. mars 1992 þegar ég er ekki nema ELLEFU ára og níu mánaða. Og hin ljóðin eru öll í þessum dúr! Las auðvitað Rauðu ástarsögurnar og Ísfólkið allt of snemma (vildi lesa þetta 9 ára en mömmu tókst að tefja þetta um svona tvö-þrjú ár, las Ísfólksseríuna einmitt sumarið 1992). Svo skrifaði ég nokkrar sögur á svipuðum aldri, man eftir einni afar tragískri um stelpu sem týndist uppi á jökli og dó á jólanótt rétt áður en hún kom til byggða. Og önnur um stelpu sem var myrt af pabba vinkonu sinnar sem var afbrýðisamur af því að dóttir hans vildi frekar vera með vinkonu sinni heldur en að hitta hann á pabbahelgum (mjög raunhæft, minnir að morðvopnið hafi verið sláttuvél eða traktor). Skil ekki alveg hvaðan allt þetta drama kom, hef örugglega verið undir áhrifum af e-u sem ég hef lesið eða séð, enda hef ég alla tíð lifað mig hrikalega mikið inn í bækur og bíómyndir.

Annars finnst mér pínu erfitt að blogga af því að það sem ég hef helst þörf fyrir að tjá mig um er ekki sniðugt að tjá sig um svona opinberlega.... ohhhh.... Væri samt alveg til í að láta þessi höft bara lönd og leið, breyta bara nöfnum og fara frjálslega með staðreyndir og hella úr skálum huga og hjarta... enda las ég frétt í dag um að þeir sem bældu niður tilfinningar ættu frekar á hættu að fá hjartaáfall... :)

17. nóv. 2009

Draumar og dömubindi

Mig hefur alltaf langað til að verða rithöfundur hvíslaði ég aðfaranótt laugardags að vini mínum þar sem við sátum saman á löngu trúnói á köldum bekk hjá Hlemmi. Hann spurði hvort ég væri skúffuskáld og ég neyddist til að játa að þótt það væri vissulega eitthvað í skúffunum fengi ég helst útrás fyrir skrifþörfina á blogginu mínu. Hann viðurkenndi að hafa lesið umrætt blogg og ég hálfskammaðist mín fyrir opinberun rithöfundadraumanna enda bloggið ekki í ætt við þær fagurbókmenntir sem vinurinn er vanur að lesa. En mig hefur reyndar aldrei langað til að skrifa fagurbókmenntir eða vinna bókmenntaverðlaun. Hins vegar hefur mig lengi langað að skrifa sögur sem fá fólk til að brosa og gleyma sér stutta stund í grámyglu hverdagsins.

Það var síðan á sunnudaginn sem ég sá auglýst að Salka bókaútgáfa stæði fyrir chick-lit örsögukeppni. Chick-lit er enska orðið yfir léttar kvennabókmenntir á borð við Dagbók Bridget Jones og Draumaveröld kaupalkans. Reynt hefur verið að íslenska orðið sem skvísuskruddur sem mér þykir nokkuð vel heppnað. Að minnsta kosti skárra en dömubindi, sem er þó bráðfyndið. Þar sem ég hef lesið töluvert af skvísuskruddu afþreyingarbókmenntum þekki ég stílinn vel. Enda er bloggið svosem lítið annað en eitt stórt dömubindi. Maxi-pad.

Mig langaði að taka þátt en átti enga almennilega sögu sem ég var tilbúin að láta frá mér. Þetta hefur iðulega verið vandamálið, mig skortir kjarkinn til að láta skriftirnar líta dagsins ljós. Kannski óttinn við gagnrýni, að láta ókunnugt fólk dæma eitthvað sem maður hefur skrifað frá hjartanu. Ótti við að fá það blákalt í höfuðið að maður eigi að gefa rithöfundadraumana upp á bátinn. Þurfa svo kannski að fá sér nýjan draum.

En það greip mig eitthvað kæruleysi á mánudagsmorguninn á leið í vinnuna og ég hugsaði með mér að nú skyldi ég láta slag standa. Þótt efniviðurinn væri ekki í skúffunum þá væru margar sögur á blogginu sem gætu með smá lagni staðið sjálfar sem örsögur. Ég ákvað að borða hádegismat við tölvuna og skellti saman tveimur bloggum, breytti og bætti eins og tími var til en meginuppistaðan var sagan um Bónusferðina góðu sem ég skrifaði um í ágúst undir yfirskriftinni Draugur í Bónus sem dyggir lesendur muna eftir.

Eftir að hafa sent inn söguna á síðustu stundu fékk ég hnút í magann, ég átti eftir að fínpússa og laga og lesa yfir og þetta var bara alls ekki nógu gott. Varð þó að endingu bara ánægð með að hafa stokkið en ekki hrokkið. Fyrsta skrefið hlýtur að vera að taka þátt. Vera með þótt maður vinni ekki. Fékk póst frá Sölku með þökk fyrir þátttökuna. Þar stóð að það hefðu borist 20 frambærilegar sögur í keppnina og hefði verið úr vöndu að velja en það yrði hringt í vinningshafann von bráðar. Sendi bókaforlaginu póst og afsakaði hvað sagan mín væri hroðvirknislega unnin um leið og ég þakkaði fyrir frábært framtak.

Til að gera langa sögu stutta þá var mér tilkynnt klukkan 17 í dag að ég hefði unnið keppnina (vann þrjár bækur og 15 þúsund króna gjafabréf í íslenskri hönnunarlínu) og ég beðin um að lesa upp hluta sögunnar á Sölkukvöldi í Iðu. Sem betur fer var þetta stuttur fyrirvari því ég hafði varla tíma til að vera stressuð. Hljóp þó um íbúðina eins og hauslaus hæna með dúndrandi hjartslátt að leita að viðeigandi klæðnaði fyrir fyrsta upplesturinn. Því þetta er vonandi bara fyrsti af mörgum ;) Verðlaunin eru í það minnsta hvatning til þess að hætta að hugsa og fara að framkvæma. Þú verður ekki bakari ef þú býrð ekki til brauðið.

Formálinn varð aðeins lengri en hann átti að verða. En hér kemur chick-lit sagan mín. Ber kannski ekki titilinn örsaga með réttu en fellur þó innan skilgreiningarinnar. Alls ekki dagsönn en þó líklega meira satt en logið.

--------------------------------------------------------------------

Ég hef oft hugsað að ef ég byggi yfir einhvers konar yfirnáttúrulegum hæfileikum væri afar gagnlegt að geta stjórnað því hvenær maður rekst á fólk. Í borg á stærð við Reykjavík leynast draugar fortíðar víða og maður er í sífelldri hættu á að rekast á manneskjur sem maður óskar þess helst að byggju á hinum enda hnattarins. Gsm síminn hefur þó reynst mörgum bjargvættur eftir að hann kom til sögunnar enda mun auðveldara að þykjast vera niðursokkin í að senda sms heldur en að horfa út í loftið og þykjast ekki sjá viðkomandi. Til að vera aðeins kurteisari er hægt að bera símann upp að eyranu, þykjast vera í miðju mikilvægu símtali og rétt nikka og brosa. Þetta virkar vel að því gefnu að síminn hringi ekki rétt á meðan.

Að sama skapi er afskaplega tímafrekt að reyna að rekast á það fólk sem mann virkilega langar til að hitta án þess þó að vilja beinlínis stinga upp á stefnumóti. Eitt sumarið fór ég nánast daglega í ísbúðina á Hagamel í von um að rekast aftur á myndarlega manninn sem brosti svo fallega til mín eitt kvöldið. Það gekk ekki eftir en aftur á móti rákust um það bil fimm stykki aukakíló á mig. Að hringsóla fyrir utan heimili einhvers kostar síðan bæði tíma og eldsneyti og er sérlega óhentugt ef viðkomandi býr í botnlanga.

Nei, ég bý víst ekki yfir þeim yfirnáttúrlegu hæfileikum að geta stýrt því hvenær ég rekst á fólk. Því að þá hefði ég aldrei, aldrei valið að fara í Bónus í Grafarvogi þann 14. október síðastliðinn klukkan 16:32.

Þetta hefði ef til vill gengið betur ef ég hefði fengið smá fyrirvara. Ég hefði undirbúið mig undir hvað ég ætlaði að segja, í hverju ég ætlaði að vera og hvernig ég myndi haga mér. Ég hefði að sjálfsögðu verið óaðfinnanlega klædd, á háum hælum, með varalit og haft einungis lífrænt ræktaðar vörur í innkaupakörfunni. Í staðinn var ég á hlaupum, sveitt og þreytt í lopapeysu og joggingbuxum og verst af öllu Crocs skóm sem ég viðurkenni að ég nota í vinnunni en bara af því að þeir eru svo óskaplega þægilegir. Ég ætlaði jú bara rétt að skjótast inn í Bónus.

Þess vegna langaði mig mest til að hverfa ofan í jörðina þegar ég fann kunnuleg kaffibrún augu stara á mig í mjólkurkælinum. Augu sem ég leit síðast í fyrir fimmtán árum síðan, á fyrsta ári í menntó. Ennþá jafn sætur. Húðflúrið á sínum stað. Ég fann gamalkunnug fiðrildi blaka vængjunum neðarlega í maganum. Það var of seint að þykjast taka upp símann og ég sannfærði sjálfa mig á örskotstundu að fiðrildin væru garnagaul og að ég væri að rekast á gamlan vin, ekkert meira.

Við heilsuðumst innilega og þegar ég kom nær honum sá ég að hann var ekki einn, heldur var hann með lifandi eftirmynd sína meðferðis, lítinn brúneygðan snáða á að giska tveggja ára. Ég sá líka að hann var með hring á fingri og andvarpaði lágt. Skimaði í kring eftir konunni hans en hún var hvergi sjáanleg. Við spjölluðum aðeins kurteislega í þessum hvað er að frétta af þér dúr eins og venja er. Á meðan hann talaði reyndi ég að bjarga því sem bjargað varð. Fálmaði í handtöskunni eftir glossi, reyndi að henda nokkrum skyrdollum yfir 1944 kjötbollurnar mínar og laumaði súkkulaðistykki varlega upp úr körfunni og stakk því undir kotasæludollu á næstu hillu.

En þú, hvað segirðu enginn maður og engin börn? ...Hvernig stendur á því? spurði hann glottandi og af einhverjum óútskýranlegum ástæðum áttaði ég mig ekki á því að þetta var ein af þessum spurningum sem þarf ekki að svara.

Tja… það er góð spurning svaraði ég, sem var í sjálfu sér ágætis svar við asnalegri spurningu.

Hann horfði samt ennþá á mig spyrjandi og mér fannst ég þurfa að að réttlæta það af hverju ég hefði ekki enn uppfyllt kröfu samfélagsins um að finna mér lífsförunaut og búa til nýta þjóðfélagsþegna. Svona ef ske kynni að hann héldi að ég væri svo gölluð að það vildi mig enginn. Og þá hófst alveg skelfilegt samtal þar sem sá hluti heilans sem var enn að starfa eðlilega öskraði á mig að halda kjafti en ég hélt samt áfram að sökkva dýpra og tala og tala og tala...

Já sko ég var í sambandi mjög lengi með útlendingi... (hér kom löng útlistun á síðasta sambandi mínu) ... og já svo hættum við saman og ég bara hef ekki kynnst neinum almennilegum síðan. Þarna hefði verið gott tækifæri til að láta staðar numið og skynsemisröddin reyndi að tjá mér að þetta kæmi manninum ekkert við. En ég hlustaði ekki á skynsemina þar ég var of upptekin af því að hugsa um hvað það væri langt síðan að ég hefði átt kærasta og hvort að það væri rétt sem þær segja í Beðmál í borginni að það taki helming þess tíma sem samband stendur yfir að jafna sig á því.

Jahá sagði hann og horfði undarlega á mig, sem ég skildi þannig að þetta hefði ekki verið sannfærandi útskýring á makaleysinu.

Eða þú veist ég hitti alveg almennilega menn auðvitað, þeir eru bara oftast giftir. Á þessum tímapunkti var skynsemisröddin orðin mjög hávær - HÆTTU AÐ TALA!

Aha sagði hann og mér datt í hug að hann héldi kannski að ég væri að reyna við sig þar sem hann virtist vera giftur. Fannst ég þurfa að útskýra að ég væri ekki á höttunum eftir mönnum annarra kvenna og væri ekkert sérstaklega þurfi svona almennt.

En sko það er samt alveg margt í gangi, ég meina ég fór heim með manni síðustu helgi! Skynsemisröddin var þarna farin að kjökra af örvæntingu.

Það kom vandræðaleg þögn og aumingja maðurinn virtist ekki vita hvort hann ætti að skellihlæja eða taka til fótanna. Litli snáðinn missti snuðið sitt í gólfið og hljóðið rauf þögnina. Um leið virtist fyrir eitthvað kraftaverk rofa til í höfðinu á mér og óp skynseminnar náði í gegn.

Heyrðu mér er orðið svo kalt tautaði ég, sem honum hefur líklega þótt ólíklegt þar sem ég var vel dúðuð í lopapeysunni með trefil og vettlinga að auki. Ég kvaddi með handabandi og gekk hröðum skrefum út úr mjólkurkælinum, greip súkkulaðistykkið undan kotasæludollunni og henti því aftur ofan í körfuna.

Ég þarf víst að finna mér nýja Bónusverslun.

Uppáhalds

Ástin hefur hýrar brár
en hendur sundurleitar:
Ein er mjúk en önnur sár
en þó báðar heitar.

28. okt. 2009

Blabla

Ég er eitthvað andlaus þessa dagana enda fara helstu skriftirnar í leyniverkefnið sem er ekki svo mikið leyni enda er generalprufan að fara að hefjast. Erum að ganga frá pappírum sem þýðir að ég er að fara að verða stjórnarformaður einkahlutafélags sem mér finnst afar fullorðins. Það er helst að maður geti skrifað hér um daginn og veginn sem mér finnst samt frekar óspennandi. En kannski betra en ekki neitt.

Ég heimsæki foreldra mína fast tvisvar í viku. Á sunnudagskvöldum en þá horfi ég í leiðinni á Fangavaktina og á miðvikudagskvöldum þegar ég horfi í leiðinni á Ástríði (það gefur að skilja að þau eru með Stöð 2 en ekki ég). Mjög hentugt. Minnir mig á þegar ég átti kærasta sem bjó langt í burtu (í næsta sveitarfélagi - mér fannst það langt þá!) og heimsóknir til hans voru iðulega á laugardagskvöldum (Friends) og miðvikudagskvöldum (Ally MacBeal).

Talandi um það þá er maður hvergi óhultur fyrir draugum fortíðar. Fékk pínu sting í magann þegar ég var merkt á gamalli mynd á facebook með Útlendingnum. Sem býr í öðru landi (engin hætta á að rekast á hann á joggingbuxunum í 10-11) og er ekki á fésbókinni þannig að ég átti ekki von á því að hann myndi dúkka upp svona. Við erum svosem voðalega góðir vinir og engin ástæða til að vera eitthvað sorrý yfir þeim sambandsslitum lengur en ég er það nú samt stundum. Efnahagsástandið hefur samt hjálpað til, ég verð svo fjúkandi vond og fegin að vera laus við hann þegar hann byrjar að tjá sig um icesave og hvað Íslendingar séu sjálfselskandi hálvitar sem væli yfir því að hafa þurft að skipta úr Benz yfir á Yaris.

Af hverju er annars talað um að karlmenn séu miklir gleðimenn? Ekki þykir það jafn jákvætt ef konur eru miklar gleðikonur...

15. okt. 2009

Rúllið ríður rækjum

Fyrir mörgum árum síðan gaf sig á tal við mig myndarlegur strákur þar sem ég var stödd í Austurstræti síðla kvölds. Eftir stutt spjall hallaði hann sér að mér og hvíslaði: Viltu kannski koma og rúlla með mér?
Ha, rúlla? sagði ég og hváði.
sagði hann brosandi, heima hjá mér.
Bíddu hvernig þá rúlla, hugsaði ég og sá strax fyrir mér einhvers konar bakstur, rúllutertu eða í það minnsta eitthvað sem krefðist kökukeflis. Nema að hann væri að vísa í rúlluskauta eða línuskauta eða eitthvað þess háttar, sem gæti nú verið fjör svona á íslenskri sumarnóttu. Þriðji möguleikinn var síðan að þetta væri eitthvað slangur sem hefði fest sig í sessi en ég hefði óvart misst af. Ég vildi síður afhjúpa vankunnáttu mína í þessum efnum og ákvað að reyna að fá þetta á hreint áður en ég svaraði af eða á.
Rúlla...tja...ummm... hvernig förum við að því?
Það kom skrýtinn svipur á strákinn en í því kom vinur hans aðvífandi og leiðir okkar skildu. Stuttu seinna kviknaði á perunni (svona aðeins of seint eins og hjá Joey vini mínum úr Friends) og ég fattað að auðvitað hefði hann ekki sagt rúlla heldur lúlla. Skipti svosem ekki öllu máli, ég hefði afþakkað boðið. En mikið hefði nú verið skemmtilegt að lenda óvænt í rómantískum rúllutertubakstri um miðja nótt.

17. sep. 2009

Bíó og fordómar

Mér finnst rosalega gaman að fara í bíó og þá á alls konar myndir nema kannski helst hryllings- og stríðsmyndir. Hef farið minna síðustu ár heldur en árin á undan en er búin að taka smá bíó-tímabil síðustu tvo mánuði eða svo. Fór að sjá Karlar sem hata konur (mjög góð), My sister's keeper (sorgleg), Hangover (sæmilega fyndin), Ghosts of girlfriends past (óendanlega léleg) Public Enemies (ágæt en langdregin) og Inglourious Basterds (frábær en ógeðsleg). Síðustu helgi fór ég síðan tvisvar í bíó. Sá norsku myndina Norður (Nord) sem var tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs, hún kom skemmtilega á óvart og var mjög góð. Svo skemmtum við systurnar okkur yfir The Proposal um miðjan dag á sunnudeginum. Vona svo að ég nái að sjá eitthvað á RIFF :)

Eftir bíóið á laugardagskvöldinu fórum við Ásdís vinkona á pöbbinn í spjall og skemmtilegheit. Á meðan hún brá sér afsíðis settist plebbalegur (svona tíglapeysutrefill) strákur/maður mér við hlið og vildi endilega tala við mig. Sem var svosem allt í lagi, þangað til hann hellti bjórnum sínum yfir mig alla. Hann var voðalega sorrý yfir þessu og vildi endilega bjóða mér í glas sem ég afþakkaði pent, enda vorum við að fara og ég farin að velta fyrir mér hvort þetta væri einhver pikk-up strategía a-la" Ég á heima hérna rétt hjá, þú getur farið úr þessum blautu fötum þar". En jæja, ég hef svosem hellt óvart yfir fólk sjálf. Eitt af því fyrsta sem hann spurði mig var hvar við hefðum verið fyrr um kvöldið og ég sagði eins og satt var að við hefðum verið í bíó. Hann spurði á hvaða mynd og ég sagði honum það, að við hefðum verið á Norður. Þá kom skrýtinn svipur á hann og hann sagðist ekki trúa mér! Hann sagðist einmitt vera á leiðinni á hana daginn eftir en að það kæmi sér mjög á óvart að ég hefði verið á þessari mynd. Þegar ég gekk á hann sagðist hann vera "með fordóma fyrir fólki eins og þér". Og útskýrði það ekkert meir. Nú var ég ekki búin að segja honum neitt um mig nema nafn og póstnúmer, ég var ósköp venjulega klædd og skil þess vegna ekki alveg hvað hann átti við. Veit ekki hvort hann var bara að reyna að stuða mig en þetta pirraði mig eitthvað voðalega. En þar sem ég er ekkert sérstaklega góð í að svara fyrir mig og koma með flott kommbökk (fyrr en auðvitað eftirá), frussaði ég bara að hann væri í hallærislegri peysu og fór. Kannski hefur hann bara skynjað að ég var með fordóma fyrir honum og verið að hefna sín...

13. sep. 2009

Aldrei aftur eróbikk

Á föstudaginn síðasta ákvað ég að prófa eitthvað nýtt og fara með nokkrum stelpum úr vinnunni í góðgerðarþolfimitíma í World Class Laugum þar sem Páll Óskar átti að þeyta skífum. Ég gerði ráð fyrir að þetta væri smá tjútt og trall fyrir gott málefni og bjóst við að allir myndu dilla mjöðmum í takt og syngja saman Allt fyrir ástina og svo framvegis. Þegar salurinn fylltist síðan af þolfimifólki og -kennurum fóru hins vegar að renna á mig tvær grímur. Palli spilaði techno tónlist og það voru kvikmyndatökumaður og ljósmyndarar í salnum. Great. Ég var mætt í rauða Reykjavíkurmaraþonbolnum mínum sem var nú ansi lítill á mig fyrir og hafði greinilega hlaupið í þvotti. Innan um Nike spandex beiburnar var ég þess vegna eins og kyrktur kettlingur með muffin top. Þarna voru samankomnir kennarar frá öllum heimshornum og tóku 10 mín syrpur hver. Þeir gerðu greinilega ráð fyrir því að þátttakendur væru vanir og kynnu svona þessi helstu spor. Ég hafði ekki farið í eróbikktíma í svona 10 ár, og er þar að auki með afar ósamhæfðar hreyfingar eins og frægt er orðið, svo ég var ekkert sérstaklega fljót að ná sporunum. "Og einn, og tveir, hliðar saman hliðar" ... Fínt hugsaði ég, enda lofaði upphitunin góðu og ég orðin sveitt á fyrstu mínútunum. "Og svo mambó, mambó, hægri snú, krossa yfir, chasse, snúa sér í hring, cha cha cha. Allir með?". Ummm.. NEI! Þetta endaði með því að ég snerist bara í hringi og var alltaf að rekast á fólk, var svo að hlaupa um fram og til baka aftast í salnum til að reyna að forðast myndavélarnar á meðan ég gerði ámátlegar tilraunir til að fylgja sporunum. Svona svolítið eins og Phoebe í Friends í danstímanum, nema hvað hún var að fíla sig aðeins betur en ég.

Skelltum okkur svo í sund á eftir í Laugardalslauginni og prófuðum nýju rennibrautina. Ég fór fyrst og þar sem ég er með mjög lágan adrenalínþröskuld fannst mér þetta alveg svaðalegt og brá brjálæðislega þegar það varð allt svart og öskraði úr mér lungun á leiðinni niður. Nema hvað að þessi rennibrautargöng magna greinilega upp allt hljóð, frétti eftirá að öskrin í mér hefðu bergmálað um alla laugina og fólkið í heitu pottunum stóð upp til að kanna hvað væri eiginlega í gangi. Svo var hópur af fólki hlæjandi þegar ég kom út. En ég lét það ekki á mig fá og skellti mér aftur. Ópin höfðu líka þau áhrif að fullorðna fólkið í lauginni gerði ráð fyrir að þetta væri spennandi og flykktist í rennibrautina. Varð mjög ánægð að sjá það, enda eru rennibrautir ekki bara fyrir börn, fullorðnir hljóta líka að mega leika sér.

10. sep. 2009

Sögur af frumskógi á fæti, ástarbréfum og klúbbastarfi

Ég uppgötvaði á miðjum fundi í vinnunni (í kvartbuxum, berleggjuð og með krosslagðar lappir) að ég hefði gleymt að raka á mér aðra löppina. Nema að ég hafi rakað sömu löppina tvisvar, sem kæmi mér ekki á óvart þar sem ég er afar utan við mig á köflum. Getur svosem vel verið að enginn hafi tekið eftir þessu (enda svo heppin að vera með frekar ljós og fíngerð líkamshár) en ég fór í hálfgerða kleinu og reyndi að setjast með eðlilegum hætti á loðna legginn sem gekk vægast sagt illa (held hins vegar að allir hafi tekið eftir því).

Síðan þar sem ég kynntist brjóstahaldaraklæddum sálufélaga mínum er endalaus uppspretta skemmtiefnis. Hef fengið nokkur stórskemmtileg bréf. Hér eru nokkur bréfabrot (frá mismunandi mönnum).

- I am honset looking for honset wome for good famli.
- It would be honour if u include me in the circle of friendship. Wishing you prosperity, peace and harmony in life
- Dont worry,I am not pervert and I am not searching a woman for cyber sex or other things.I want to have chat and I want to be friend only.

En til að gera nú ekki bara grín að sjálfri mér verð ég að segja að haustið leggst annars bara ótrúlega vel í mig, elska þessa kósíkertaljósateppa stemningu sem árstíminn hefur í för með sér. Systir mín elskulega uppáhaldið mitt er að koma til landsins á morgun og verður í heilar þrjár vikur sem er algjört æði. Það verður síðan nóg að gera í félagslífinu í vetur, work hard play hard stemningin held ég bara. Fyrir utan venjulegu vina/fjölskylduhittingana og sund/skokk/djamm/pöbb quiz/kaffihús skemmtilegheitin er "klúbbastarfið" að fara á fullt. Menningarklúbburinn hefur fest kaup á kortum í Borgarleikhúsið og því verður farið minnst fjórum sinnum í leikhús í vetur, byrjum á Djúpinu í lok sept. Kvikmyndaklúbburinn Golden Oldies er aftur kominn á fullt skrið og erum við nýbúnar að horfa á Last Tango in Paris (sem var undurfurðuleg en svosem cult must-see). Næst á dagskrá hjá okkur er Rebel without a cause. Svo er súkkulaðiklúbburinn að fara að hittast í október, heilsuklúbburinn hittist vikulega, saumaklúbbshittingar verða vonandi reglulegir og svo framvegis. Bara gaman :)

7. sep. 2009

Truntan og Transylvania

Ég fór aftur að fá missed calls frá síðhærða, appelsínugula og ágenga einkaþjálfaranum sem ég bloggaði um fyrir einhverju síðan. Eins og glöggir lesendur muna var ég nær dauða en lífi eftir tímann hans þegar hann kríaði út símanúmerið mitt - í söluhugleiðingum aðallega, svo það sé nú tekið fram. Hann vofir stöðugt yfir á líkamsræktarstöðinni, sem er of lítil til að ég nái að forðast hann með góðu móti. Ég reyni yfirleitt að vera ofsalega einbeitt með iPodinn á hlaupabrettinu ef hann nálgast og var um daginn að hugsa um hvort ég ætti ekki bara að segjast hafa týnt símanum ef hann myndi spyrja mig af hverju ég væri ekki að svara honum. Eftirá að hyggja hef ég þarna líklega kallað símaóhappið yfir mig sjálf, svona út frá andlegum pælingum a la Secret um að hugsanir manns sendi skilaboð út í alheiminn og verði að veruleika. Sem ég trúi reyndar takmarkað á, þótt ég trúi reyndar á mátt þess að hugsa jákvætt.

Ég skráði mig á erlenda deiting síðu um daginn, aðallega í tengslum við annað utanvinnuverkefni sem ég tengist aðeins. En jú jú líka til að skoða sætu útlensku strákana og hugsanlega til að kynnast nýju fólki þótt ég sé nú ekki í því enn sem komið er að senda neinum skilaboð. Síðan er með skemmtileg sjálfspróf og er ágætis tímaþjófur þegar maður er kominn með leið á facebook. Er svona að pæla í ýmsum fídusum þarna, þar á meðal matchinu, en síðan "mælir með" hinum og þessum kandídötum fyrir mann. Nema hvað að þarna birtist skyndilega maður sem passaði við mig upp á rúm níutíu prósent og það var ekkert Computer says no heldur sagði tölvan þvert á móti að þarna væri hann lifandi kominn sálufélagi minn. Meintur sálufélagi fékk greinilega líka þessa meldingu, lýsti yfir áhuga og bíður nú eftir að ég svari sér. Hann er hávaxinn, þrjátíuogeitthvað, ógiftur, gagnkynhneigður og virkar bara nokkuð skemmtilegur og áhugaverður. Það er bara eitt sem stuðar mig svo um munar, sem er að hann er klæðskiptingur. Sem ég veit ekki alveg hvað mér finnst um, enda hef ég bara aldrei pælt í því hvort það sé deal breaker. Ekki það að ég sé að fara að hitta þennan mann, hvað þá að deita hann, er bara að spá í hvort ég eigi að svara meilinu hans. Hummm... En svona á almennum nótum, þá spyr ég þig kæri lesandi (og nú á ég aðallega við gagnkynhneigðu stelpurnar). Myndi það trufla þig að deila fataskáp með þínum heittelskaða?

6. sep. 2009

Yfirnáttúrlegir hæfileikar og Amazon kúrinn

Ég hef oft hugsað að ef ég byggi yfir einhvers konar yfirnáttúrulegum hæfileikum væri afar gagnlegt að geta stjórnað því hvenær maður rekst á fólk. Í stað þess að vera stundum að rekast á fólk sem maður vill ekkert endilega rekast á (að minnsta kosti ekki á þeim tíma sem maður rekst á það) og rekast aldrei á fólk sem maður vill rekast á. En þar sem það er afar ólíklegt að mér muni takast að þróa þessa hæfileika með mér, hef ég ákveðið að hætta að eltast við að reyna að rekast á ákveðið fólk (og leyfa örlaganornunum að vinna óáreittum) og reyna líka að hegða mér eins eðlilega og ég mögulega get þegar ég rekst á fólk sem ég á ekki von á að hitta... samanber síðasta blogg um Bónusferðina góðu. Sem var (því miður) að mestu leyti sönn saga fyrir utan það að ég sleppti því að segja frá því þegar ég í fáti mínu lagðist í gólfið í miðju samtali og skreið undir hrásalatsrekkann að sækja snuðið sem barnið hans hafði misst. Þrátt fyrir þessar göfugu fyrirætlanir brá mér þvílíkt þegar ég sá Bónusmanninn AFTUR nokkrum dögum seinna þegar ég var að keyra niður Laugaveginn. Sýndist hann sjá mig og mín fyrstu ósjálfráðu viðbrögð voru að beygja mig niður (og keyra næstum á staur í kjölfarið). Gengur bara betur næst.

Í jákvæðari fréttum get ég nefnt að leyniverkefnið mitt, sem ég er búin að vera að vinna að í rúmt ár ásamt samstarfskonu minni, er loksins komið í startholurnar í kjölfar kynningarstarfs okkar. Vil ekki segja mikið núna en við erum að fara að stofna lítið sprotafyrirtæki með göfugt markmið og stóra drauma... Er ótrúlega spennt og hlakka til að sjá hvað gerist á næstu mánuðum.

Ég missti ástkæran símann minn í jörðina og hann dó, aðeins 10 mánuðum eftir að síðasti sími hafði látið lífið eftir að hafa verið óvart drekkt í Pepsi-Max. Nú er ég þess vegna komin með ódýrustu týpuna af Nokia síma, engin flottheit og ekkert rugl og er hæstánægð. Strákurinn í búðinni sagði reyndar að hann væri alveg jafn líklegur að skemmast ef ég myndi grýta honum í jörðina og hinir símarnir, en ég myndi þá sjá minna á eftir þessum. Kom meira að segja út í plús þar sem síminn kostaði 6.990 og með honum fylgdi 1000 kr inneign á mánuði í 12 mánuði. Ætti samt kannski bara að splæsa í svona höggþéttan, vatnsheldan iðnaðarmannasíma sem endist lengur en ár.

Nú svo dreymdi vinkonu mína að ég væri orðin ægilega mjó í kjölfar einhvers Amazon kúrs sem ég hafði verið á og væri farin að miðla af megrunarvisku minni til annarra. Hún kannast ekki við að vera berdreymin en það má alltaf vona. Gúglaði reyndar Amazon kúrinn og viti menn, hann er til, en felst aðallega því að panta einhverjar pillur af netinu fyrir offjár sem mér líst ekki nógu vel á. Er reyndar í "átaki" jæja eða við skulum segja aðhaldi, vigtun einu sinni í viku, frjáls aðferð. Tuttugu manns og peningaverðlaun fyrir sigurvegarann. Ég hef nú reyndar borðað súkkulaði á hverjum degi (gera þeir það ekki líka í Brasilíu? Þetta er kannski hinn raunverulegi Amazon kúr a la Sól!) en hef svosem gert breytingar líka og borða hafragraut á morgnana og svona og það gengur bara vel (reyndar bara búnar tvær vikur af tólf en só far só gúd). Bara verst að ég er orðin of gömul til að taka þátt í ANTM... ;)

26. ágú. 2009

Draugur í Bónus

Ætla að hoppa aðeins yfir sumarfrísblogg og halda áfram í rauðu seríu stemningunni.

Fyrsta árið mitt í menntaskóla var ég ógurlega hrifin af strák sem var með mér í leikfélaginu. Hann var brúneygður með húðflúr, gekk í hvítum buxum og átti bíl og ég kiknaði alltaf pínulítið í hnjánum þegar ég sá hann. Við hittumst af og til í einhverja mánuði en það var aldrei neitt alvarlegt. Hef hugsað til hans öðru hvoru en hann er einn af þessum fortíðardraugum sem ég rekst aldrei á, þrátt fyrir að við búum í sama póstnúmeri.

Þessi drengur dúkkaði skyndilega upp í mjólkurkælinum í Bónus í dag ásamt voða sæta barninu sínu, konan hans reyndar ekki með honum. Jafn sætur og fyrir þrettán árum síðan. Við heilsuðumst innilega og ég hugsaði með mér hvað ég væri ótrúlega fegin að vera í pilsi og með gloss og ekkert vandræðalegt í körfunni enda nýkomin úr grænmetisdeildinni. Hefði einhvern veginn fundist verra að vera með snakkpoka og 1944. Mér fannst voðalega gaman að sjá hann og spjölluðum aðeins í þessum kurteisa "hvað er að frétta af þér" dúr eins og venja er.

Nema hvað að svo fer hann að spyrja hvort ég eigi ekki börn og mann, spyr meira að segja ítrekað og ég neita því og hann svona spyr hvernig standi nú á því. Ég gæti reyndar verið að búa þetta síðasta til en mér fannst hann horfa svo spyrjandi á mig að mér fannst ég einhvern veginn þurfa að afsaka mig, ef ske kynni að hann héldi að ég væri svo gölluð að það vildi mig enginn. Og þá hófst alveg skelfilegt samtal þar sem sá hluti heilans sem var enn að starfa eðlilega öskraði á mig að halda kjafti en ég hélt samt áfram að sökkva dýpra og tala og tala og tala...


Já sko ég var þú veist í sambandi mjög lengi með eldri manni... (hér kom löng útlisting á síðasta sambandi mínu og skynsemisröddin reyndi að tjá mér að þetta kæmi manninum ekkert við) ... og já svo hættum við saman og ég bara hef ekki kynnst neinum almennilegum síðan. Þarna hefði verið gott tækifæri til að láta staðar numið. En ég hlustaði ekki á skynsemina þar ég var of upptekin af því að hugsa um hvað það væri langt síðan að ég hefði átt kærasta og hvort að það væri rétt sem þær segja í Beðmál í borginni að það tæki helming þess tíma sem samband stendur yfir að jafna sig á því).

Jahá sagði hann og horfði undarlega á mig, sem ég skildi þannig að þetta hefði ekki verið sannfærandi útskýring á kærastaleysinu.

Eða sko ég hitti alveg almennilega menn auðvitað, þeir eru bara oftast giftir (þarna var skynsemisröddin orðin mjög hávær - HÆTTU AÐ TALA!)

Aha sagði hann og mér datt í hug og að hann héldi kannski að ég væri að reyna við sig þar sem hann er jú giftur. Fannst ég þurfa að útskýra að ég væri ekki á höttunum eftir mönnum annarra kvenna og væri ekkert sérstaklega desperat.

En sko það er samt alveg margt í gangi, ég meina ég fékk ástarjátningu í dag! (skynsemisröddin var þarna farin að kjökra af örvæntingu).

Aumingja maðurinn vissi greinilega ekki hvort hann ætti að hlæja eða taka til fótanna og þá fyrir eitthvað kraftaverk náði óp skynseminnar í gegn og ég sagði að mér væri orðið kalt (sem var augljóslega ekki satt, ég var í úlpu en ekki hann) og þyrfti að fara.

Ég þarf klárlega að finna mér nýja Bónusverslun.

17. ágú. 2009

Það gengur erfiðlega að komast í blogg-gírinn eftir sumarfrí. Bara svona að láta ykkur vita...

14. júl. 2009

Tvífarar #3

Þá er enn og aftur komið að tvíförum en mér finnst voða gaman að pæla í því hver sé líkur hverjum þótt ég sé reyndar alveg vonlaus í að spá í hvoru foreldrinu ungabörn líkjast. Þeir sem þekkja mig vita að ég er unglingur í hjarta og hef verið örugglega síðan áður en ég varð unglingur sjálf. Fylgist svona aðeins með nýjustu unglingaþáttum, myndum og stjörnum þótt ég horfi ekki á hvaða drasl sem er. Tvífarar dagsins eru einmitt tvær sætar snótir sem hafa skotist upp á stjörnuhimininn síðustu tvö ár eða svo fyrir leik sinn í bandarískum unglingaþáttum. Annars vegar er það Leighton Meester ( fædd '86) sem leikur í hinum vinsælu Gossip Girl þáttum sem ég reyndar hef sáralítið séð af. Hins vegar er það Minka Kelly sem leikur í hinum margverðlaunuðu Friday Night Lights sem SkjárEinn hefur sýnt, sá fyrstu seríuna af þeim. Hún er einmitt nákvæmlega jafngömul mér upp á dag sem ég er gífurlega ánægð með sökum fyrri yfirlýsinga um að deila ekki afmælisdegi með neinum Hollívúddstjörnum. Ég hélt lengi vel að þarna væri um eina og sömu leikkonuna að ræða og ég held að það lái mér það enginn. Leighton er til vinstri og Minka til hægri á myndunum fyrir neðan.




13. júl. 2009

Ást við stofuhita

Ég vil enga helvítis hráfæðisást! sagði ég við vinkonu mína meðan við vorum eins og svo oft áður að ræða lífið og tilveruna. Við vorum að ræða karlmenn sem eru svona “lukewarm”, sem er alveg óþolandi hitastig. Svona eins og bað sem þú ert búin að liggja í of lengi og er löngu hætt að hlýja þér en þú nennir ekki að koma þér upp úr. Það er nánast ekkert sem mér leiðist meira en áhugaleysi þegar kemur að samskiptum við hitt kynið. Hvort sem það er áhugaleysi af minni hálfu eða öfugt.

Nú geri ég mér grein fyrir því að tilfinningar breytast í tímans rás og maður er ekki alltaf með fiðrildi í maganum í ástríðufullum tangó, en það hlýtur samt að vera alltaf smá líf í glæðunum svona nóg til að kynda upp húsið (kannski komið nóg af myndlíkingum í bili). Í það minnsta finnst mér algjört skilyrði að það neisti vel í byrjun sambands og að báðir aðilar hafi einlægan áhuga á hinum aðilanum.

Ég átti einu sinni kærasta sem var svona hálfvolgur og það var alveg að gera mig vitlausa. Hann virtist ekki hafa neinn voðalegan áhuga á mér eða okkur sem pari. Hann virtist samt heldur ekki vera að leika "ég ætla að vera ógeðslega leiðinlegur svo að hún hætti með mér", alls ekki. Hann var alveg ágætlega indæll og kyssti mig ef ég bað hann um að kyssa mig og játti því þegar ég spurði hann hvort hann elskaði mig og svo framvegis. Ég náði þessu samt ekki alveg, ef hann var ekkert spenntur af hverju var hann þá að þessu? Viltu að við séum saman? spurði ég. Já já, alveg eins, var svarið. Verst auðvitað að mér var ekki sama. Illt er að leggja ást við þann sem enga kann á móti.

Nú er ég ekki að segja að fólk þurfi bókstaflega að vaða eld og brennistein fyrir hvort annað í “Ain’t no mountain high enough” fíling en ég held að fólk verði að vera tilbúið að leggja eitthvað á sig. Hafði á tilfinningunni stundum að þessi maður hefði ekki svo mikið sem stigið í poll. Þetta hefur kannski valdið því að ég á mjög erfitt með að hafa þolinmæði í svona “jú þú ert ágæt/ágætur” fíling. Svo geta auðvitað ástarsambönd þróast, fólk þarf að kynnast og auðvitað getur það tekið smá tíma að hitna í kolunum. En ég þegar allt kemur til alls vil ég ástina mína eldheita og grillaða í gegn.

9. júl. 2009

Í essinu mínu

Fyrir nokkru síðan lýsti ég því yfir í geðvonskukasti að ég myndi aldrei framar svo mikið sem líta á karlmann sem bæri starfstitil sem hæfist á S, það kynni ekki góðri lukku að stýra. Þarna var ég sérstaklega með í huga smiði, sölumenn, sálfræðinga, sagnfræðinga, söngvara og slökkviliðsmenn. Vinkona mín sem var viðstödd benti mér á að þetta væri varasöm yfirlýsing, þarna væri ég farin að útiloka ansi stóran hóp. Í þessum hópi eru nefnilega líka stærðfræðingar, sjómenn, skúringamenn, skólaliðar, stuðningsfulltrúar og stjörnufræðingar (og væntanlega stórstjörnur þá líka!). Einnig má segja að undir þetta féllu sérfræðingar og sjálfstætt starfandi, það er hægt að fella ótrúlega mörg störf undir þá flokka. Svo fórum við að láta okkur detta í hug ýmis fleiri atvinnuheiti sem væru útilokuð með þessari reglu. Samúræjar, skorsteinssóparar, salernishreinsarar, sælgætisframleiðendur, samlokugerðarmenn, strandverðir, skógarhöggsmenn, salsakennarar og skúnkaveiðarar. Að lokum var svo komið að mér datt varla starfsheiti í hug sem byrjaði ekki á S. Nú veit ég, sagði ég meðan við gengum framhjá Lækjargötunni. Ég get deitað leigubílstjóra! Nei það gengur ekki, sagði vinkonan. Hann er sjálfrennireiðarstjóri...

8. júl. 2009

Strangers in the night

Undanfarið hef ég fengið nokkra innilega pósta frá einum fésbókarvini mínum. Hann hefur reyndar alltaf verið ósköp indæll við mig eins og Bretar eru, þeir nota mikið love og xxx sem tók mig smá tíma að venjast í fyrstu að fá frá fólki sem ég þekkti lítið. En semsagt, þessi vinur minn er tiltölulega nýskilinn og er þess vegna kannski bara flexing the flirt muscle við feisbúkk vinkonur sínar, sendi mér voða sæta afmæliskveðju um daginn og svo annan póst núna í dag, bara gaman að því. Hann skrifar mér alltaf eins og við séum aldavinir og hefur lýst því nákvæmlega þegar við kynntumst fyrst, segist alltaf muna eftir mér úr afmæli sem var haldið hjá sameiginlegum vini okkar á pöbb í Bretlandi. Sagðist meðal annars muna sérstaklega eftir því að að ég var með tösku sem var í laginu eins og fiskur.

Málið er það.... að ég man ekkert eftir þessum manni! Ég var reyndar í þessu afmæli sem hann talar um en man ekki eftir að hafa hitt hann og kannast mjög óljóst við hann af myndum af honum (er búin að skoða þær svo oft núna að það er ekkert að marka, ég er farin að kannast við hann af þeim!). Ekki man ég eftir að hafa hitt hann neins staðar annars staðar og mér sýnist við ekki geta hafa verið saman í skólanum miðað við upplýsingar á prófílnum hans. En ég þorði ekki að segja honum það á sínum tíma og samþykkti hann sem vin og ekki get ég sagt honum það núna, tveimur árum seinna! Fyrir utan það að ég á enga tösku sem er í laginu eins og fiskur! Ég á reyndar tösku sem er í laginu eins og köttur, hann gæti ef til vill hafi ruglast á því. Nema að hann hafi farið mannavillt frá byrjun og ég sé með þessum lygavef að hamla því að hann finni sína sönnu ást, fiskatöskustúlkuna...

5. júl. 2009

Töfratalan

Síðustu helgi sat ég á spjalli við vinkonu mína á Ölstofunni eins og svo oft áður og tókst að plata sætan strák sem ég kannaðist lítillega við til að veita okkur félagsskap. Ég byrjaði strax að bauna á hann spurningum eins og hvaða ávöxtur hann væri og hvar hann myndi fela lík en honum til hróss lét hann ekki slá sig út af laginu og kom með nokkuð góð svör. Svo spurðum við hann hverju hann myndi sjálfur spyrja að á þriggja mínútna speed date-i og hann nefndi spurninguna Hvað hefurðu sofið hjá mörgum? Sem myndi örugglega hafa sömu áhrif á suma og ef maður spyrði þá hvar væri heppilegast að fela lík.

Mér datt í hug þessi æðislega sena úr mynd sem ég held mikið upp á, Four weddings and a funeral, þar sem Hugh Grant spyr Andie MacDowell að þessu (og sér örugglega eftir því þegar hún telur upp bólfélagana), sjá hér. Svo man ég eftir að hafa séð í annarri og öllu lélegri mynd, American Pie 2 að ef maður óskaði eftir svari við þessari spurningu ætti alltaf að deila með 3 fyrir konur og margfalda með 3 fyrir karlmenn. En það átti auðvitað kannski aðallega við um bandaríska háskólakrakka svo veit ekki hvort það sé mark takandi á því svona almennt. Ég var þó einu sinni að hitta strák sem laug því ítrekað (að vinum sínum, ekki að mér) að hann hefði sofið hjá töluvert fleiri stelpum en raunin var og það fór alltaf svolítið í taugarnar á mér. En honum til varnar er langt, langt síðan.

Í kynfræðslu og forvarnarvinnu í sambandi við kynsjúkdóma er svolítið lagt upp úr því að þetta skipti máli, að þekkja kynferðislega sögu viðkomandi upp á áhættumat, því þú sért í raun að sofa hjá öllum sem bólfélaginn hafi sofið hjá, og öllum sem þeir hafi sofið hjá osfr. Veit nú ekki alveg með þessa framsetningu þótt ég skilji svosem pælinguna varðandi kynsjúkdómasmit og annað. Þetta hafði að minnsta kosti áhrif á okkur vinkonurnar og við pældum mikið í því svona um tvítugt hvenær ætti að spyrja um Töluna, ekki of seint og ekki of snemma, rétt eins og hvenær væri rétti tíminn til að segjast elska einhvern. Svo var pælt í því hver væru mörkin, þá var átt við efri mörkin, það er að segja myndum við segja nei ef viðkomandi segðist hafa sofið hjá X mörgum. Auðvitað pældum við líka í mörkunum fyrir stelpur, hvað væri ásættanlegt að hafa (eða segjast hafa) sængað hjá mörgum. Þá var líka mikið í umræðunni hvað teldist með. Veit um einhverjar sem voru með allt á hreinu og settu upp í Excel skjali til að hafa nákvæmt yfirlit yfir fjölda, skipti og síðast en ekki síst stjörnugjöf...

En svo með árunum hætti þetta að skipta máli enda getur svo ótal margt verið á bak við einhverja tölu sem segir í raun voða lítið í sjálfu sér. Man bara eftir einu skipti þar sem mér fannst þetta skipta máli, en þá neitaði ég að fara á stefnumót með (tæplega þrítugum) strák sem tilkynnti mér í óspurðum fréttum að hann hefði bókstaflega aldrei verið við kvenmann kenndur. Hálfskammast mín nú samt fyrir það og er nokkuð viss um að það hafi ekki verið aðalástæðan fyrir því að ég hafi neitað. Fjölmargar vinkonur mínar segjast ekki hafa hugmynd um hverjum eða hve mörgum kærastarnir eða eiginmennirnir hafi verið með og að þær langi ekkert að vita það. Er sjálf ekkert viss um að ég myndi spyrja - að minnsta kosti ekki á fyrstu þremur mínútunum í samtalinu :)

24. jún. 2009

Jónsmessubarnið

Þá er komið að því - afmælisdeginum árlega og ég er í banastuði byrjuð að halda upp á hann með því að smakka á gömlum (útrunnum) sinnepsbrúsum síðan í afmælinu í fyrra. Niðurstaðan er sú að aðeins eitt af fjórum sinnepum er ætt. Í ár verður nefnilega leikurinn endurtekinn með grilli í Hljómskálagarðinum, stefni á að hafa það árlegan viðburð hér eftir. Nema kannski á næsta ári en þá er ég með þemapartý planað. Það ætti kannski ekki að koma á óvart að ég elska afmæli, öll afmæli og líka mitt eigið :) Ég fæddist semsagt á Jónsmessunótt en hef reyndar mjög sjaldan notað tækifærið og velt mér upp úr dögginni á afmælisnóttina. Fór reyndar í miðnæturhlaupið í gær og fór í sund á eftir, ég var þá að minnsta kosti að velta mér upp úr vatni. Man bara eftir einu skipti í sumarbústað þar sem ég var að rúlla mér allsber upp úr grasinu í panikk kasti yfir að fólkið í næsta bústað myndi sjá mig, enda ekki beint hægt að gera þetta í skjóli nætur á þessum tíma sumars. En þrátt fyrir að ég sé mjög ánægð með að hafa fæðst á þeirri merku nóttu hefur afskaplega lítið annað gerst merkilegt þennan dag, ég á ekki afmæli sama dag og neinn frægur og ef flett er upp á merkisatburðum sem hafa átt sér stað 24. júní koma upp atriði eins og...

1994 Sally Field sækir um skilnað frá eiginmanni nr. 2
1976 Rocky Horror myndin er tekin til sýninga í Þýskalandi (hún kom fyrst út 1975)
1963 Fyrsta heimavídjókameran kynnt til sögunnar í höfuðstöðvum BBC í London
1894 Ákveðið að halda Ólympíuleikana í þeirri mynd sem við þekkjum þá á fjögurra ára fresti
1817 Fyrstu kaffiplantan sett niður í Hawaii
1540 Hinrik áttundi skilur við fjórðu eiginkonu sína


Svo er ekki úr vegi að minnast á það að í dag eru akkúrat 6 mánuðir í jólin þannig að um að gera fyrir hagsýna að byrja að föndra jólakortin :)

Er búin að vera með tremma yfir veðurspánni sem hefur breyst frá einni klukkustund til annarar síðustu viku liggur við, er búin að skoða íslenskar, bandarískar og breskar spár fyrir Reykjavík og þeim hefur engan veginn borið saman. Setti Veðurfréttaskvísuna í málið og hún rýndi í líkön fyrir mig og samkvæmt nýjustu spám á að vera sól og blíða! Svo bauð ég líka háttsettum manni hjá Veðurstofu Íslands í afmælið, hann hlýtur að geta togað í einhverja spotta svo að góða veðrið haldist.

Sendi ást og gleði og fallegar hugsanir út í heiminn og til þín. Sjáumst í Hljómskálagarðinum! Þótt ekki sé nema bara í anda :)

22. jún. 2009

Helgarstiklur og vinir af gagnstæðu kyni

Hárgreiðslukonan sem ég hafði aldrei farið til áður var með mjög ákveðnar skoðanir og hélt því fram að liturinn sem ég vildi myndi ekki fara mér og að klippingin sem ég vildi væri gamaldags. Þreytt eftir daginn leyfði ég því sérfræðingnum að gera það sem hún vildi og eftir þrjá tíma í stólnum gekk ég út fimmtánþúsund krónum fátækari - eiginlega nákvæmlega eins og ég var þegar ég gekk inn.

Pöbb quizið á Grand var óvenju leiðinlegt, sérstaklega þar sem ég er illa að mér í póstnúmerum landsins og veit eiginlega ekkert um fótbolta þar sem ég gaf þá íþrótt upp á bátinn eftir að hafa verið lögð í íþróttaeinelti í kjölfar sjálfsmarks sem ég skoraði í sex ára bekk. Umræður á Santa Maria í kjölfarið voru sérdeilis hressandi þar sem við dáðumst að mexíkönskum glímuköppum og kepptumst um að velja okkur nöfn ef við skyldum einhvern tíman taka þátt í slíkri glímu.

Á laugardeginum tók ég þátt í kvennahlaupinu í fyrsta sinn svo að ég muni eftir og missti mig svo mikið í gleðinni að Blaðran hálfskammaðist sín. Tróð mér í bolinn utanyfir peysuna, setti á mig VÍS Sjóvá buffið, skrifaði undir fría líftryggingu í meðvirkniskasti (en ég meina ég fékk frítt gloss!) og gerði kellingaleikfimisæfingar á undan.

Um kvöldið var skemmtilegt fimmtu háskólagráðu útskriftarpartý og svo hélt ég í bæinn. Á einum staðnum var ofurfagur íslenskur handboltakappi, guðs gjöf til kvenna sem ekki var hægt annað en bara að stara á og dást að. Þótt stelpurnar hafi næstum allar sem ein gefið honum auga var miklu fyndara að fylgjast með karlmönnunum sem fengu stjörnur í augun. Menn föðmuðu hann og vildu ekki sleppa, grátbáðu um að bjóða honum í glas, þreifa á vöðvunum og láta taka myndir af sér með honum. Var alveg hissa á hvað strákurinn lét sér þetta í léttu rúmi liggja.

En ég fór semsagt í bæinn aðallega til að hitta einn besta strákavin minn sem ég hafði ekki hitt í háa herrans tíð þar sem hann er komin með kærustu. Hann tilkynnti mér það síðan á barnum að hann væri að fara að hefja sambúð og ég fékk svona smá My Best Friends Wedding sting í magann þrátt fyrir að ég samgleðjist honum auðvitað mjög. Á milli okkar ríkir innileg platónsk ást og við vorum sérstaklega mikið saman síðasta sumar að þvælast, borða saman og fara í bíltúra á trúnó. Ég sé fram að þetta hljóti að breytast núna og sagði honum það en hann varð voða sár, sérstaklega þegar hann fór heim (til kærustunnar) og ég hóf leit að rebound vini. Settist hjá strák sem ég kannast aðeins við og rakti raunir mínar en hann var líka ósammála og sagðist eiga fullt af stelpuvinkonum sem hann hefði haldið mjög góðu sambandi við þrátt fyrir sambönd. Sagði reyndar að kærusturnar hefðu orðið brjálaðar en sér væri bara alveg sama... Við ræddum þetta svolitla stund þangað til ég áttaði mig á að hann var að leita að einhverju öðru en vinskap þetta kvöld og væri þess vegna líklega ekki heppilegur kandídat í My New Best Friend.

En ég spyr ykkur... hin aldagamla spurning - ekki bara geta stelpur og strákar verið vinir því ég efast svosem ekkert um það. En er hægt að eiga góðan, gagnkynhneigðan vin af gagnstæðu kyni þegar annar hvor aðilinn er í sambandi? Eða öfugt, myndi það trufla þig að maki þinn færi á vídjókvöld með vini sínum ef vinurinn væri af gagnstæðu kyni?

19. jún. 2009

Skyndistefnumót

Yndislegur breskur vinur minn sem er búinn að vera lengi á lausu (fyrir utan ímyndað ástarsamband hans við Kylie Minogue) ákvað um daginn að prófa eitthvað nýtt og fara á speed dating kvöld. Hann er svona frekar afslöppuð týpa og hélt að þetta yrði bara tækifæri til að kynnast fólki, pínku fyndið og skemmtilega vandræðalegt enda ekki á hverjum degi sem maður á stefnumót við 30 konur sama kvöldið. Hann bjóst hins vegar ekki við því sem hann fékk - þrjátíu uppstrílaðar skvísur, vel undirbúnar með spurningalista, með eitt takmark: Að finna sér eiginmann. Ein spurði hann Ef þú værir ávöxtur, hvaða ávöxtur værirðu? Hann hváði og sagðist ekki vita hvernig hann ætti að svara þessu. Hann spurði hana sömu einkennilegu spurningarinnar á móti. Ég væri auðvitað ástaraldin (passion fruit), af því að ég er svo ástríðufull sagði hún og hló og fannst hún greinilega ofsalega sniðug. Hann sagði mér eftirá að sér hefði liðið eins og hann hefði fallið á prófi.

Mér finnst hugmyndin um skyndistefnumót ekkert sérstaklega aðlaðandi en hef stundum velt því fyrir mér að hverju ég myndi spyrja ef ég færi á svona kvöld. Ég kaupi það alveg að first impressions skipti máli og rannsóknir hafa sýnt að mat þitt á ókunnugum er ósköp svipað hvort sem þú eyðir 3 mínútum með þeim eða klukkutíma. Sem er auðvitað hugmyndin á bak við speed dating, að spara tíma. Mér finnst spurningin "hvað gerirðu" alveg brjálæðislega leiðinleg eins og ég hef áður sagt en það er samt algeng opnunarlína og auðvitað getur það sagt heilmikið um viðkomandi. Á Íslandi fer fólk síðan oftast út í "í hvaða skóla varstu/hverfi býrðu/þekkirðu þennan eða hinn?" En þarna er samt komið kjörið tækifæri til að vera pínulítið frumlegur. Mér fyndist t.d. gaman að spyrja "Ef þú dræpir mann, hvar myndirðu fela líkið?". Bara svona að sjá hvort viðkomandi færi að hlæja eða kæmist úr jafnvægi. Nú eða kæmi með eitthvað frumlegt svar...

Á netinu er að finna ýmsar hugmyndir að spurningum sem er mælt með að spyrja á svona stefnumótum. Sumar þeirra finnst mér afspyrnu lélegar eins og:

- Hvenær var síðasta samband þitt og hversu lengi varði það? (er þetta rétti tíminn til að ræða um fyrrverandi kærustur? )
- Trúirðu á ást við fyrstu sýn? (kannski rómantískt en mér finnst þetta pínu yfirþyrmandi spurning)
- Hvar sérðu þig eftir fimm ár? (mjög atvinnuviðtalslegt)
- Langar þig til að eignast (fleiri) börn? (jú mikilvæg spurning en kannski ekki málið að ræða barneignir á fyrstu þremur mínútunum)
- Hverju sérðu mest eftir í lífinu? (langar þig til að vita svarið? og værir þú tilbúin/nn til að deila þínu svari með ókunnugum?)

Mér fannst þessar betri:

- Hver er uppáhalds árstíminn þinn?
- Hvaða hlut sem þú átt heldurðu mest upp á?
- Lýstu fullkomnu sumarfríi.
- Hvaða geisladisk keyptirðu síðast?
- Hvað myndirðu gera við peningana ef þú ynnir í lottó?
- Ertu morgunhani eða nátthrafn? (kannski ekki mikill umræðugrundvöllur en fáránlega miklvægt)
- Hvernig myndu vinir þínir lýsa þér?

Það er samt þvílíkt erfitt að svara svona spurningum upp úr þurru og reyna að koma með eitthvað spennandi svar (mitt helsta vandamál er að í svona streituvekjandi aðstæðum er mjög hávær rödd innra með mér sem öskrar SEGÐU EITTHVAÐ SNIÐUGT á meðan það er vandræðaleg þögn þangað til ég segi eitthvað mjög svo ósniðugt bara til að segja eitthvað). Þannig að kannski væri bara best að halda sig við "seif" spurningar eins og "hvað gerirðu í frístundum?" Ég held bara að ég myndi alltaf kjósa að spyrja einn mann þrjátíu spurninga frekar en að spyrja þrjátíu menn einnar fullkominnar spurningar. Veit þó um einn karlkyns (íslenskan) vin sem væri þessu pottþétt ósammála, enda heldur hann því statt og stöðugt fram að allir karlmenn myndu velja eina nótt með hundrað konum framyfir hundrað nætur með einni konu. En það er önnur saga.

15. jún. 2009

Tvífarar #2

Eftir misheppnaða ferð á hina klisjukenndu og ótrúverðugu Ghosts of girlfriends past á föstudagskvöldið skemmti ég mér konunglega á Grease á laugardagskvöldið. Það hjálpaði reyndar ekki með bíómyndina hvað mér finnst Matthew McConaughey alltaf leiðinlegur, alveg sama hversu sætur hann er ber að ofan með Colgate brosið sitt (er hins vegar Söndru Bullock fan sem kemur málinu ekki við nema hvað það eru margir sem þola hana ekki og mér datt það allt í einu í hug). Anyway...já með Grease - Fór einmitt líka á sýninguna fyrir 10 árum síðan þegar Selma lék Sandy en nú var hún að leikstýra. Af leikurunum bar Unnur Ösp af sem Rizzo en annars var ég svosem ekki mikið að pæla í uppfærslunni heldur bara að njóta þess að hlusta og horfa á söng- og dansatriðin.

Ég er ekki-svo-leyndur aðdáandi unglingamynda og -þátta og hef verið síðustu 20 árin, held að ég sé ekkert að fara að vaxa upp úr því á næstunni. Ég tók smá unglinga sci-fi syrpu um daginn og horfði m.a. á nokkra þætti af Kyle XY sem fjalla um unglingsstrák með yfirnáttúrulega hæfileika sem er ekki með nafla... afar dularfullt og spennandi. Nema hvað (og nú er ég loksins að koma að kjarna þessarar bloggfærslu) að ég kannaðist svo við stelpuna sem leikur fóstursystur hans í þáttunum. Fletti henni upp og leikkonan heitir April Matson, sem hringdi svosem engum bjöllum. Þetta truflaði mig samt allan tíman sem ég horfði á þættina þar til það rann loks upp fyrir mér ljós hverri hún líktist - leikkonunni sem leikur Rizzo í Grease myndinni (sem heitir víst Stockard Channing). Fann reyndar ekki alveg nógu góðar tvífaramyndir af þeim þar sem Stockhard er 37 árum eldri en April og ég fann engar almennilegar myndir af henni frá Grease tímabilinu... en þær líta a.m.k. út fyrir að vera mæðgur!













Hmm... þær eru nú ekki jafn líkar og mig minnti nú þegar ég er að setja inn þessar myndir :)


Þótt það hafi verið gaman á Grease þá ræddum við Freyja eftir sýninguna að skilaboðin sem hún sendir eru ekkert æðisleg... saklausa góða stelpan (sem reykir ekki, drekkur ekki og neitar að kela) fær leið á að það sé gert grín að sér, fer í latexbuxur, breytist í foxy gellu sem er til í tuskið, nær í gæjann og verður aðalskvísan í skólanum. Vorum svona að spá í þessu út frá öllum litlu stelpunum sem voru á sýningunni og fannst hún æði, eins og okkur fannst myndin æðisleg þegar við vorum litlar. Svo fannst okkur við vera algjörar kellingar að vera að pæla í þessu. Þvælist allt of mikið fyrir manni þessi gagnrýna hugsun stundum, til dæmis er ég hætt að geta horft á Pretty Woman án þess að hugsa að Richard Gere sé kannski ekki draumaprinsinn heldur bara hundleiðinlegur perri.

14. jún. 2009

Karlmenn sem kjötstykki

Ég er svo heppin að eiga töluvert mikið af stórkostlegum vinkonum og þótt við ræðum reyndar um allt milli himins og jarðar (og stundum um geiminn) berst talið oft að karlmönnum. Vissulega er talað um tilfinningar og nákvæmlega hver sagði hvað hvenær og hvað hann var raunverulega að meina þegar hann sagði "sjáumst seinna" eða eitthvað álíka sem er alveg banalt að velta sér upp úr. En við höfum líka stundum þann slæma (en afar skemmtilega) ósið að hlutgera karlmenn. Úff þetta hljómar eiginlega alveg skelfilega þegar ég byrja að skrifa þetta enda yrðum við örugglega brjálaðar ef það væri talað svona um okkur... en þetta er allt í gamni gert og dómarnir sem falla eru yfirleitt ekki eingöngu byggðir á ummáli framhandleggsvöðva eða öðrum ytri einkennum. Og svona til að fyrirbyggja misskilning verð ég að taka það fram að þetta er allt auðvitað í gamni gert. Jæja, here goes...

Til dæmis er það íslenski listinn sem er ekki ósvipaður íslenska tónlistanum þar sem menn detta út og inn af topp tíu miskunnarlaust. Svo er auðvitað hástökkvari vikunnar/mánaðarins/ársins eftir því hvað listinn er uppfærður oft. Tekið skal fram að listinn er gerður á einstaklingsgrundvelli og hver og einn ákveður eigin kríteríu. Það er til langur listi af reglum um listagerð en það yrði of pínlegt að birta þær hér, enda byrjaði þetta sem einkahúmor fyrir löngu síðan þegar því var haldið fram að sjórinn væri tómur af fiskum.

Svo eru það ýmsir leikir eins og "X, Y og Z, hverjum myndirðu henda fram af kletti/giftast/sænga hjá". Þessi er frekar brútal og hægt að skipta út "henda fram af kletti" fyrir "fara á kaffihús með". Ein sem ég þekki kann afar illa að meta þennan leik og vildi henda öllum fram af kletti eða þá sjálfri sér ef það væri ekki hægt.

Síðan er það eitthvað sem ég þekki reyndar ekki mikið en það er að dæma karlmenn eftir árgöngum, ekki ósvipað vínum. Þekki eina sem mælir t.d. mikið með '73 árgangnum og hrósar honum í hástert. Sjálf hef ég haldið mig við svona '76 -'82 árgerðirnar en hef aldrei svo mikið sem verið hrifin af (svo ég muni eftir) einhverjum fæddum '70-'75 þótt ég þekki síðan ágætlega til sextíuogeitthvað rekkans. Mér var svo bent á um daginn að strákar svona í kringum tuttugogþriggjaaldurinn væru óplægður akur. Veit ekki hvort þessar pælingar tengist eitthvað kínversku stjörnumerkjunum, það er spurning.

Ég gæti nefnt fleiri atriði en ætla að sleppa því hér. Auðvitað er þetta svo eins og áður sagði allt í nösunum á okkur og þótt einhver lýsi draumaprinsinum sem hávöxnum dökkhærðum græneygðum hægrisinnuðum stjórnmálafræðingi fæddum 1973 með tungl í sporðdreka er hún allt eins líkleg til að enda með litlum rauðhærðum jafnaðarmanni fæddum 1984 því ástin er hverful, diskó, blindfull og ófyrirsjáanleg. Sem betur fer.

11. jún. 2009

Brúðarmær á balli

Þegar ég var lítil stúlka óskaði ég þess afar heitt að verða brúðarmær. Af einhverjum ástæðum fannst mér það afskaplega heillandi hlutverk og fylgdist grannt með ástarmálum frænda og frænkna, líklegra kandídata sem gætu valið mig til verksins. En allt kom fyrir ekki og á unglingsárunum sætti ég mig við að brúðarmeyjardraumurinn yrði sennilega aldrei að veruleika.

Eftir ársdvöl í Kanada tók nýr draumur við. Að fara á prom, amerískt lokaball. Ég las endalaust af unglingablöðum sem fjölluðu um þennan að því er virtist hápunkt unglingsáranna í vesturheimi. Íslenskar árshátíðir stóðust ekki samanburðinn og ég lét mig dreyma um síðan ballkjól og uppsett hár og limósínu og deit til að labba inn á ballið með. Það var ekki fyrr en um tvítugt að ég sætti mig við að því hefði ekki verið ætlað að verða.

Það var síðan í byrjun árs 2007 að bandarísk stelpa sem ég kynntist í Brighton hafði samband við mig og óskaði eftir að ég yrði brúðarmær í brúðkaupinu hennar í mars í New York. Hún var komin með þrjár, systur sína, frænku og loks bestu vinkonu og langaði að hafa eina vinkonu enn sem væri þarna "fyrir Bretlands hönd" þar sem unnustinn var breskur og þau höfðu kynnst þar. Ég sló til og þetta var algjör draumur í dós. Bæði innra barnið og unglingurinn voru himinlifandi með pínulítið hallærislega en ofsafína kjólinn (sem tók reyndar forever að fá úr Tollinum, var sendur hingað í mátun), púffhárgreiðsluna (ekki að eigin vali) og brúðarsveininn sem ég fékk sem deit (var reyndar með mitt eigið deit í veislunni en labbaði með brúðarsveininum inn og út kirkjugólfið).

Ég hef ofsalega lítið samband við þessi frábæru brúðhjón í dag en þessi upplifun var bara eitthvað svo óvænt og skemmtileg og öðruvísi. Rakst á myndir úr veislunni í gær og mundi eftir þessu og langaði að skrifa smá um þetta til að rifja upp góðar stundir. Hér er mynd sem er tekin í limmónum með brúðarmeyjum og -sveinum, nýbúið að opna kampavínið. Ekkert sérstök mynd en lýsir stemningunni vel. Það sést í mig þarna í móðu aftast skælbrosandi. Viðeigandi, enda er minningin hálf móðukennd.




Mér finnst gaman að ímynda mér að það sé einhver þarna úti sem hjálpi okkur stundum við að uppfylla hversdagslegar óskir og þrár. Hvort sem það er einhver örlaganorn eða töfradís eins og í ævintýrunum, karmalöggan eða guð sjálfur að sortera tölvupósta eins og í myndinni Bruce Almighty. Skildi reyndar ekki alveg af hverju hann gat ekki ráðið einhverja verkefnisstjóra til að aðstoða sig, varla nenna allir að spila á hörpu eða blása í lúðra. En jæja, ég er semsagt ekki að meina þessar "stóru" óskir eða bænir eins og um heimsfrið, lækningar eða icesave. Vona samt að það sé einhver að hlusta á þær líka :)

10. jún. 2009

Gamalt drasl og góð ráð við ástarsorg

Ég á alveg ótrúlega erfitt með að henda hlutum og á það til að safna í kringum mig drasli sem

a)ég nota aldrei og veit jafnvel ekki alveg hvað er en tel mig einhvern tíman mögulega geta haft not fyrir (í þennan flokk falla t.d. ýmis hleðslutæki og snúrur, skrúfur og tölur sem ég veit ekki alveg hvað passa við)

eða

b)ég hef bundist tilfinningaböndum eða er bundið einhverri (mis)óljósri nostalgíu (í þennan flokk falla t.d. gamlir bíómiðar, kvittanir og blaðsneplar af ýmsu tagi).

Skattholið sem ég keypti fyrir fermingarpeningana mína hefur að mestu að geyma alls konar smádrasl sem hefur safnast þar fyrir gegnum árin. Einstöku sinnum ákveð ég að fara í gegnum dótið og henda en enda alltaf með að sökkva í einhverja fortíðarvímu við það að skoða dótið og kemst lítið áfram í tiltektinni. Inn á milli draslsins eru nefnilega algjörir gimsteinar sem mér þykir vænt um.

Í skattholinu eru þrjár stórar skúffur og fjórar pínulitlar. Skoðum nú sýnishorn af innihaldi einnar af smærri skúffunum sem hefur ekki verið opnuð í nokkur ár.

-Inneignarnóta upp á kr. 1.299 í búðinni Oxford Faxafeni síðan í júní 2000.
-Kvittun fyrir úttekt úr hraðbanka 1995 (fer þetta ekki að hafa sögulegt gildi? Var búin að gleyma að úttektarmiðarnir litu svona út).
-Mynd af kanadískum frænda mínum sem mér fannst hrikalega sætur en skammaðist mín fyrir (af því að hann var frændi minn).
-Ómerkt neonarmband líklega af útihátíð eða tónleikum sem myndi sjálfsagt hafa tilfinningalegt gildi ef ég myndi muna hvaðan það kom.
-Blá plastísskeið (sama og að ofan, örugglega úr einhverjum mikilvægum ísbíltúr sem ég man ekki eftir. Hendi henni núna).
-Hálfsköllótt lítil barbídúkka með gallaða fætur sem ég var búin að líma aftur á (þessari átti að henda en var naumlega bjargað á sínum tíma).
- Miði með símanúmeri, en engu nafni. Spurning um að hringja bara?


Gullmolinn í skúffunni eru tvímælalaust ráðleggingar sem yndisleg vinkona mín skrifaði fyrir mig í fyrstu ástarsorginni, sumarið eftir 9. bekk. Verð eiginlega bara að deila þeim hér.

Ráðleggingar fyrir ástarsorg

1. Láta hann sjá eftir því að hafa sagt þér upp með því að vera glöð og sæt og alltaf fjör í kringum þig. Alltaf fullt að gera.
2. Ekki ganga á eftir honum!!! Mjög áríðandi. Be cool.
3. Samt ekki vera vond við hann. Ég meina sko, vertu skemmtileg og góð við hann þegar þú hittir hann.
4. Ef hann svo sýnir þér áhuga og þú vilt eitthvað með hann hafa skalt þú á einn eða annan hátt láta hann via að þú sért ennþá volg fyrir honum. ANNARS EKKI!
5. Ekki liggja heima í ástarsorg og hugsa um fyrri tíma þegar allt var svo gott og yndislegt. Because nothing lasts forever and the future is now.
6. Hafa nóg við tímann að gera, fá áhuga á einhverju. Vera með vinum og láta þér aldrei leiðast.
7. Hætta að hugsa um stráka, þeir eru heimskir, vitlausir og óþroskaðir. Láttu þá eiga sig. Bíddu þar til þeir koma til þín.
8. Njóttu lífsins. Hættu að hafa áhyggjur af fortíðinni því þá nærðu ekki að njóta augnabliksins. Því lífið er núna og ef þú nýtur ekki núna þá nýtur þú ekki lífsins og það er slæmt.
9. Brostu og líttu á björtu hliðarnar.

6. jún. 2009

Heimsókn til ömmu

Fór í kaffi til samstarfskonu minnar eftir vinnu í dag á Selfossi og þegar ég var að keyra þaðan datt mér í hug að það gæti verið gaman að kíkja aðeins til ömmu minnar sem býr á Stokkseyri. Bara 10 mín. akstur frá vinnunni en ég fer allt of sjaldan, á alveg stórkostlega ömmu sem gaman er að koma til, en það er önnur saga. Þar sem þetta er leið sem ég þekki vel fannst mér gaman að taka allt í einu eftir nýjum hlutum og bæjum, enda er ég vanalega frekar utan við mig og ekki alltaf að horfa í kringum mig. Fannst ég upplifa umhverfið einhvern veginn á annan hátt en tengdi það bara við góða skapið og hugsaði með mér að ég ætti nú að horfa oftar á þessa fallegu sveitasælu í kringum mig í stað þess að vera svona mikið í eigin heimi. Svo keyrði ég og keyrði og fannst ég reyndar hafa verið svolítið lengi á leiðinni þarna á tímabili en umferðin gekk reyndar hægt. Bensínljósið var farið að blikka svo ég fór að verða pínu stressuð með hvort ég væri ekki að verða komin. Fannst samt skrýtið að sjá í hvorki Stokkseyri né Eyrarbakka, bara fjöll og sveitabæir svo langt sem augað eygði. Hægt og hægt rann upp fyrir mér ljós að ég væri bara á bandvitlausum vegi, semsagt á leiðinni á Hellu. Fór svo á einhvern míní "ó hvað ég er mikil steik" bömmer á staðnum yfir því hvað ég var fáránlega lengi að fatta þetta en jafnaði mig nú fljótt, verð bara að reyna að sætta mig við það hvað ég er mikill skýjahaus og klaufi. Nema hvað að svo upphófst panikk þar sem mér var ekki að takast að snúa við, sá enga hentuga staði og hægði verulega á mér til að reyna að svipast betur um. Bílalestin varð þá óþolinmóð og pirruðu ökumennirnir fóru að taka framúr sem mest þeir máttu og á meðan gat ég ekki beygt neins staðar og ég var að verða bensínlaus (af einhverjum ástæðum óttast ég mjög að verða bensínlaus, já og að fá stöðumælasektir). En þetta hafðist að lokum og mér tókst að snúa við og taka bensín á Selfó. Þá var hins vegar klukkan orðin svo margt að ég hafði engan tíma til að fara til ömmu og brunaði beint í bæinn. Þannig fór um sjóferð (bílferð?) þá...

4. jún. 2009

Sumarbústaðir, skokk og skoppandi kindur

Ég er greinilega ekki alveg með sjálfri mér því ég fékk löngun þess að fara út að hlaupa seint í kvöld. Og fór. Eða svona, kannski ekki út að hlaupa. Út að skokka. Hægt. Mjööög hægt. Fannst það meira að segja ekkert svo leiðinlegt þökk sé killer iPod mixinu sem ég gerði fyrir sumarbústaðarferðina síðustu helgi og hefði sungið með Bobbysocks í La det swinge ef ekki hefði verið fyrir allt fólkið sem var í göngutúr í góða veðrinu (fyrir utan það að ég gat varla andað, hvað þá sungið þegar þarna var komið við sögu). Kenni Ólöfu alfarið um þetta sem vildi endilega fara að skokka í Árbænum í kvöld en ég harðneitaði að koma með. Saumaklúbburinn ætlaði semsagt að bæta upp fyrir syndir helgarinnar en við fórum í fyrsta sinn allar saman í bústað. Ég hló svo mikið að ég er með harðsperrur í kinnunum. Held samt að brandararnir séu meira svona "had to be there" fyndnir svo kannski engin ástæða til að fara að telja þá upp hér. Við bjuggum til mojito og strawberry daiquiri, borðuðum kjúklingaspjót og bruschetta, spiluðum Scrabble (með extra stigum fyrir dónaleg orð), Actionary (það er ótrúlega erfitt að leika orðið mistök) og Partý og co (tapaði stórt). Sungum og dönsuðum, settum á okkur maska, fórum á trúnó og svo voru skemmtiatriði og leikir.

Sumarið byrjar vel því þetta var önnur sumarbústaðarferðin í maí, fór með þremur stelpum í bústað um Júróvisjónhelgina. Þetta átti reyndar ekki að vera stelpuferð, við buðum alls 12 strákum að koma með en þrátt fyrir loforð sumra um bikini í pottinum kom allt fyrir ekki svo það var bara fámennt en góðmennt (fákvennt?). Ég kveikti reyndar næstum því í bústaðnum með grillmeistaratöktum mínum. Síðan slógum við Blaðran pottamet með því að vera sex tíma samfleytt í heita pottinum, stóðum bara upp til að ná okkur í mat (sem við tókum með á pottabakkann) og fara á salernið. Við lásum bara, slökuðum á og kjöftuðum og vorum orðnar ansi bleikar og krumpaðar þegar við stóðum upp úr. Er af þessum sökum orðin óvenju brún miðað við árstíma, verst að freknurnar eru orðnar svo stórar sumar að það er eins og ég sé með súkkulaðiklessur á andlitinu, sérstaklega er ein stór við munnvikið sem truflar mig.

Sé samt núna að það er ekki sniðugt að hreyfa sig svona seint á kvöldin, ég er glaðvakandi, klukkan er hálf þrjú og ég þarf að vakna eftir svona sirka þrjá og hálfan tíma. Búin að reyna að drekka epla og kamillute með fíflahunangi sem Unnar vinnufélagi minn bjó til. Bragðast ljómandi vel, alveg eins og alvöru hunang. Skil samt ekki ennþá hvernig hann gat gert þetta án þess að býflugur kæmu nokkuð við sögu og óttast atvinnuleysi í stórum stíl þeirra á meðal. Spurning samt um að reyna að fara upp í rúm og telja kindur. Mér hefur samt aldrei fundist það róandi að telja ímyndaðar kindur, fer alltaf að pæla of mikið í hvernig kindur þetta séu. Ég meina hvernig eru þær á litinn, eru þær jarmandi, eru hrútar og lömb líka, hvar eru þær og hvernig girðing er þetta eiginlega eða er þetta hlið og er erfitt að hoppa yfir...og af hverju eru þær yfirhöfuð að hoppa, er enginn þarna sem getur hleypt þeim í gegn!?

26. maí 2009

Bringsmalaskottan á bak og burt

Eftir langan vetur sem hefur á köflum valdið þyngslum fyrir brjósti eins og þykkt teppi sem maður nær ekki að lyfta almennilega af sér, virðist vera að rofa til í sálartetrinu. Ekki bara mínu, heldur virðist sem sólskinið og Júróvisjón og vorið hafi blásið mönnum nýtt líf í brjóst og það er talað um sumarfrí og útilegur og garðhúsgögn á kaffistofunum. Grillilmurinn liggur í loftinu og andarungarnir eru komnir á stjá. Loftmyndir af landinu sýna litla hvíta depla (stúdentshúfurnar) og stóra bláa hringi (trampólínin).

Helgin hefði ekki getað verið betri. Margar sundferðir, þar af ein þar sem ég fór með litlu systur í rennibrautina við mikinn fögnuð (okkar, ekki viðstaddra sem horfðu undarlega á okkur - hún er 25 ára og engin börn voru með í för). Vinkonuspjall, barnaknús og tónleikar. Dásamlegur brunch á Nítjándu í Turninum með fjölskyldunni. Menningarferð á Gullöldina í Grafarvoginum þar sem var sungið hástöfum með Bonnie Tyler og horft á körfubolta með bjór í frystu glasi.

Lífið er unaðslegt og allt sumarið er framundan. Góðar stundir.

(Eftir þetta bjartsýnisblogg bjó ég mér til sumarsmoothie með banana, vínberjum, blönduðum ávöxtum og ananasbitum úr frystinum...namminamm...hrasaði svo í stigaganginum, missti brúsann og herlegheitin gusuðust út um allt. En þetta verður samt góður dagur!)

21. maí 2009

Englar og djöflar

Það er gaman að labba heim á nóttunni þegar það er bjart úti. Það var slökkt á ljósastaurunum klukkan þrjú þegar ég var stödd á brúnni yfir Nýju-Hringbraut og þá hríslaðist um mig einhver sumarhamingjutilfinning sem ég var búin að vera að bíða eftir.

Sá engla og djöfla í bíó í kvöld, myndin var alveg ágæt en ógeðsleg á köflum. Ég var reyndar búin að steingleyma plottinu í bókinni sem var bara hið besta mál. Félagsskapurinn þeirra Hildar og Þórdísar var síðan alveg frábær. Sá svo auðvitað engla og djöfla í bænum líka eins og gengur og gerist. Hitti nokkra sem mig langaði mikið til að hitta og aðra sem mig langaði síður að rekast á. Merkilegt hvað ég er fín í kjaftagangi og ófeimin almennt en svo eru sumir sem slá mig algjörlega út af laginu, ég verð alveg eins og asni þegar ég hitti þá, eins og tungan þvælist fyrir mér í munninum og ég veit ekkert hvað ég á að segja. Reyni að hugsa upp eitthvað sniðugt en styn bara upp einhverri ámátlegri kveðju.

Annars er svosem frá ýmsu að segja, en samt ekki. Ferðalaginu. Sumarbústaðarferðinni. En það kann varla góðri lukku að stýra að blogga að nóttu til svo ég segi óver and out þar til kannski bara á morgun.

26. apr. 2009

Blóð, sviti og tár

Það féll blóð, sviti og tár á kjördag, þó ekki vegna dramatískra kosningaúrslita. Svitinn féll í Kópavogslaug þar sem ég eyddi töluverðum tíma í sund og sól og kaus því með rjóðar kinnar og nýjar freknur. Ég var lengi inni í kjörklefanum enda búin að skipta nokkrum sinnum um skoðun á síðustu metrunum, en var vissari þegar ég labbaði út en inn. Blóðið var ekki mitt eigið heldur Rúsínusar sem kipptist við þegar ég var að reyna að klippa á honum klærnar svo ég klippti óvart aðeins of langt. Ég var að fríka út með hann í fanginu í blóðugu handklæði sem varð sífellt rauðara, á meðan var hann svo pollrólegur að ég hélt að honum væri að blæða út. En þetta jafnaði sig fljótlega sem betur fer. Tárin féllu síðan í dramatísku samtali við Útlendinginn sem hélt yfir mér langa ræðu um hvað Íslendingar hefðu verið vitlausir og veruleikafirrtir að taka erlend lán fyrir flottu jeppunum sínum og að þeir gætu bara sjálfum sér um kennt um þessi vandræði. Þetta er kannski einföldun á því sem hann sagði en það endaði að minnsta kosti því miður með því að ég missti stjórn á skapi mínu yfir þessum bresku besserwisser stælum. Þetta var nóta bene strax í kjölfar blóðbaðsins svo ég var þá þegar í uppnámi og endaði með því að öskra og grenja afar ómálefnalega í símann. Okkur tókst samt að verða sammála um að vera ósammála og ákváðum að þetta yrði ekki rætt í næstu viku þegar við hittumst.

21. apr. 2009

Endurfundir og erótíski nuddarinn

Um síðustu helgi var haldið reunion í mínum gamla unglingaskóla sem var á sínum tíma stærstur sinnar tegundar á landinu. Það er eiginlega undurfurðulegt að fara á svona endurfundi. Gaman að hitta skólafélagana, rifja upp gamlar sögur og heyra nýjar. Samt hálfpartinn eins og að vera kominn 15 ár aftur í tímann á skólaball, nema hvað allir unglingarnir eru fastir í ókunnugum fullorðnum líkömum. Allir svona passlega kjánalegir og vandræðalegir. Erfitt að ákveða hvort ætti að kinka kolli eða heilsast innilega.

Eins og í uppskrift að bandarískri unglingamynd hertóku aðalpæjurnar dansgólfið og nördarnir fengu uppreisn æru. Sumir höfðu ekkert breyst og kvörtuðu yfir að vera ennþá spurðir um skilríki, aðrir orðnir miðaldra fyrir aldur fram. Víða heyrðist hvíslað Hver er þetta? Ég náði með aðstoð að komast að því hverjir allir væru nema einn dularfullur svarthærður strákur í leðurjakka sem ég kannaðist bara ekki neitt við. Var búin að ganga á milli og reyna að hlera en enginn vissi hver þetta var. Komst að lokum að því að hann var bara alls ekkert í skólanum heldur var að sækja einhvern...

Svo var slúðrað - hverjir eru að vinna hvar, hverjir eru giftir, fráskildir, frægir, orðnir sköllóttir, búnir að fara í brjóstastækkun, óléttir, komnir með börn, komnir út úr skápnum og þaðan eftir götunum. Ég lenti í töluvert mikið af trúnóum þar sem fólk sagði mér ótrúlegustu hluti og fékk nokkrum sinnum að heyra Þetta hef ég engum sagt en... Hef reyndar mjög gaman af því að tala við fólk sem ég þekki um leyndarmálin í lífinu og tilverunni en hef takmarkaða þolinmæði fyrir að fara á trúnó með ókunnugu fólki utan vinnunnar. Svo finnst mér Hvað gerirðu afskaplega leiðinleg opnunarspurning, man eftir því hvað ég þoldi ekki að vera spurð að þessu þegar ég var atvinnulaus og ekki á þeim stað í lífinu sem ég vildi vera á.

Ég ákvað því að fíflast aðeins og segja við þá sem spurðu og sem ég þekkti lítið að ég starfaði sem erótískur nuddari. Sagði þetta ábyggilega við svona 10 manns, það var alveg ótrúlegt hvað fólk spurði lítið út í það og var fljótt að skipta um umræðuefni. Tveir spurðu reyndar í lágum hljóðum hvort það væri hægt að panta tíma. Bara einn sem áttaði sig á að þetta væri grín og sagðist sjálfur vera ljónatemjari. Tek það fram að ég leiðrétti þetta við viðmælendur að lokum :) Allt fór þetta samt vel fram þótt eitthvað hefði verið um uppgjör og tár eins og fylgir svona samkomum, þótt ekki hafi ég lent í því sjálf. Verður áhugavert að hitta sama fólk eftir eins og 10 ár eða svo...

19. apr. 2009

Fjarlægðin gerir fjöllin blá (og folana fagra)

Vegna þess mikla meðbyrs sem ég hef fundið fyrir meðal kjósenda heldur rauðu seríu bloggið áfram enn um sinn.

Ég hafði smá áhyggjur þegar ég heyrði ekki til baka frá skandínavíska doktornum og velti því fyrir mér hvort ég hefði virst of áhugasöm. Hugsanlega (ég sagði hugsanlega) var hægt að lesa það úr svarbréfi mínu að ég væri að bjóða honum gistingu og í fjölskyldumatarboð á páskadag. Sem væri allt í lagi ef ekki væri fyrir þá staðreynd að við höfðum ekki sést í sjö ár og aðeins átt í afar takmörkuðum rafrænum fésbókarsamskiptum síðustu ár.

En hann hafði samband að lokum og féllst á kynningu á næturlífi Reykjavíkur með nokkrum íslenskum yngismeyjum laugardaginn fyrir páska. Hann reyndist síðan jafnvel skemmtilegri (og myndarlegri) en mig minnti og við hittumst nokkrum sinnum í viðbót áður en hann hvarf af landi brott. Þótt hann hafi verið afskaplega indæll verður að hafa í huga að hann býr í landi sem er ekki einu sinni beint flug til frá KEF. Því tel ég óráðlegt að spá meira í hann sökum langrar og leiðinlegrar reynslu af fjarsamböndum.

Lenti einmitt á spjalli við kunningja um helgina um að hann væri ekki farinn að búa með kærustunni þrátt fyrir nokkurra ára samband. Hann býr á Seltjarnarnesi en hún í vesturbænum (í Reykjavík). Það er nú ekki svo slæmt sagði ég, stutt að fara á milli og svona. Já þetta gengi aldrei ef hún byggi til dæmis í Grafarvoginum sagði hann. Klárlega ekki að grínast. Ég varð frekar pirruð.

Þeir karlmenn sem ég hef hrifist af undanfarna mánuði hafa reyndar allir haft ákveðna galla sem er erfitt að líta framhjá. Kannski er ég bara svona vandlát, en það hefur truflað mig að þeir hafa ýmist verið a)Giftir b)Hrifnir af öðrum konum c)Samkynhneigðir d)Getulausir. Þannig að það er spurning hvort flokkurinn e)Búsettir erlendis til frambúðar sé nokkuð verri en hinir.

11. apr. 2009

Pólitík, erótík og tíkin sem skildi við Mel

Ég er í smá blogg-tilvistarkreppu sem felst í því að ég er í hálfgerðum mínus vegna lágmenningarlegs blogginnihalds. Hvert sem litið er eru bloggpennar að skrifa af eldmóð um efnahagsástandið, spillingu stjórnmálaflokka og Draumalandið. Þeir nýta tækifærið til að láta rödd sína heyrast og eru að leggja sitt af mörkum í þjóðfélagsumræðuna. Ekki það að ég hafi ekki skoðun á málinu, verð bara stundum svo þreytt á þessu öllu saman að ég horfi og hlusta helst ekki á fréttir nema þær tengist einhverju alls ótengdu pólitík eins og hvort Belgi í haldi lögreglu sé búinn að hafa hægðir eður ei. Heyrði t.d. samstarfskonu mína segja í hádeginu fyrir helgi Krónan er bara að hrynja. Ég hváði og varð mjög æst yfir þessum fréttum, spurði hvar hún hefði heyrt það. Ja, þetta er bara í öllum fréttum sagði hún undrandi. Tók mig smástund að átta mig á að hún var að meina íslensku krónuna í efnahagslegum skilningi. Ég hafði skilið það þannig að húsið sem hýsir nýju Krónuverslunina beint á móti vinnustaðnum væri að hrynja....

Aðrir bloggarar skrifa hámenningarlega leikhúsgagnrýni, girnileg erótísk matarblogg eða krúttlegar lýsingar á nýjustu afrekum erfingjanna. Ég sé ekki alveg fyrir mér að ég fari út í slíkar pælingar. Það glampaði á gullinbrúna flatbökusneiðina í örbylgjuofninum og olían draup af snarkandi pepperóníinu á meðan sneiðin snerist hring eftir hring...

Þannig að ég er bara að hugsa um að halda áfram að vera með plebbablogg enda unglingur í anda og barn í hjarta. Mun því enn um sinn blogga um ástir og örlög. Ég get til dæmis sagt ykkur að ég er niðurbrotin eftir að hafa lesið um skilnað Mel Gibsons við konuna sína til 28 ára (eiga 7 börn saman!). Hvar er ástin? Hvor er livet? Hvor er veskan mín!

6. apr. 2009

Vonbiðill og veislur, kristallar og knús

Held að fyrsta apríl "gabbið" mitt um norska lækninn hljóti bara að hafa verið fyrirboði. Að minnsta kosti fékk ég tölvupóst í dag frá afar myndarlegum, hávöxnum, ljóshærðum, skandínavískum doktor sem ég hef ekki hitt eða talað við í fjölda ára. Hann verður á Íslandi um páskana vegna vinnu og stakk upp á að við hittumst í drykk. Alltaf gaman að fá óvænta, skemmtilega tölvupósta :)

Annars leið helgin hratt, byrjaði á tónleikum á Nasa þar sem færeyski söngfuglinn þandi sína ótrúlegu rödd, þvílíkt vald og tækni. Hef ekkert hlustað á hana að ráði en líst vel á nýju plötuna sem hún var að kynna. Laugardagurinn hófst á ofur-flottri fermingarveislu á Hótel Borg og endaði í mögnuðu þrítugsafmæli sem skartaði meðal annars töframanni, trúbador og casinohorni. Sunnudagurinn var Kolaport og kaffihús með litlu systur en við lentum svo í skemmtilegri uppákomu á Austurvelli á leiðinni heim. Þar rákumst við á dásamlegan tvífara Línu langsokks á hjóli sem gaf okkur hvorri sinn kristallinn til "hreinsunar". Minn hefur reyndar ekki ennþá þrifið heima hjá mér sama hvað ég nöldra.

En já, Barnið og co komu semsagt til landsins og ég reyni að nota hvert tækifæri til að knúsa liðið, enda sé ég þau allt of sjaldan. Var svo þreytt í dag að fór í bað og svo beint í náttfötin fyrir kvöldmat. Langaði samt aðeins að hitta þau þannig að ég fór í heimsókn til þeirra (heim til ma og pa) og vann þar keppnina um hver sofnaði síðastur yfir myndinni Golden Compass. Var letidýr og fór semsagt í heimsókn á náttfötunum, sem eru græn silkináttföt nokkrum númerum of stór. Pabbi vildi ekki móðga mig svo spurði varlega hvort ég væri í einhverjum nýjum fötum. Sýndist hann vera feginn á svipinn þegar ég sagði honum að þetta væru náttföt en ekki nýjasta tískan.

Svo er það bara páskafrí eftir 40 klukkustundir...

2. apr. 2009

Afrískur arfur

Ég fékk bréf í dag gegnum fésbókina frá vestur-afrískum lögfræðingi nokkrum sem vildi endilega aðstoða mig við að innheimta arf. Hann sagði mér sorgarsögu af karlmanninum J. B. Lárusdóttur (sem hann taldi næsta víst að væri fjarskyldur ættingi minn þar sem við bærum sama eftirnafn) sem vann hjá Shell en dó ásamt konu sinni og einkadóttur í bílslysi í borginni Lome Togo. Íslenska sendiráðið í V-Afríku (?) neitar víst að aðstoða hann við að finna ættingja mannsins til að geta greitt út umræddan arf sem er riiiiisastór. Nú hefur aumingja lögfræðingurinn (hann James Desouza) leitað ættingjanna í þrjú ár og bankinn hótar að hirða peningana ef hann finnur ekki erfingjana strax! Hann ætlar þess vegna að segja bankanum að ég sé nánasti ættingi og láta mig fá peningana, hann kannski tekur eitthvað smá sjálfur. Þetta er víst allt löglegt og allt í lagi samkvæmt elsku James. Ég þarf bara að senda honum email með öllum upplýsingum um mig og svo verðum við í bandi. Stórkostlegt! Ég er að verða rík!

1. apr. 2009

Fréttir

Jæja góðir gestir.

Þá er víst tímabært að upplýsa ykkur um það að mér hefur boðist starf í Noregi og mun ég flytja þangað þegar nær dregur sumri. Ég hef fengið frábæra vinnu á heilsugæslunni í Tromsø og líst bara ótrúlega vel á þetta. Húsnæðismál eru að skýrast, líklegast fer ég að leigja hjá yfirlækninum en við höfum verið að spjalla saman á netinu síðan um áramótin. Þetta bar allt mjög skjótt að, samband okkar hefur verið að þróast smátt og smátt en í síðustu viku sprakk allt og konan hans fór frá honum. Þau voru því miður líka að vinna saman, hún er nú flutt til mömmu sinnar í Lillehammer og þetta er semsagt hennar starf sem ég er að fara í.

Djók. Ég gerði ekkert fyrsta apríl gabb enda með eindæmum lélegur lygari þótt mér finnist mjög gaman að prakkarast. Hló samt að ýmsu plati í fjölmiðlum. Langaði ótrúlega mikið til þess að gera eitthvað sniðugt en var alveg tóm, þrátt fyrir mikla umhugsun. Á Íslandi a.m.k. er líka málið að láta fólk hlaupa apríl en ekki bara að plata. Samstarfskona mín reyndi reyndar að stríða mér, hringdi í mig og bað mig um að koma niður til sín en þá var ég blaut í gegn af slabbi og sagðist ekki geta komið fyrr en skórnir og sokkarnir hefðu þornað á ofninum. Þannig að ég hljóp ekki neitt. Það eina sem ég lét gabbast af var frétt á sunnlenskum vef um að bæjarstjórinn væri að fara í námsleyfi. Við vorum nokkur sem fórum í panikk yfir því að hafa misst af starfsmannafundi eða ekki tekið nógu vel eftir, en svo reyndist þetta bara vera gabb. Þá fannst mér nú fréttin betri um skákeinvígi fyrrverandi og núverandi Seðlabankastjóra.

En... það kemur fyrsti apríl eftir þennan. Og kannski bara um að gera að byrja að skipuleggja grín næsta árs.

31. mar. 2009

Villupúkinn

Mér þykir spjallþáttakóngurinn (eins og þeir á Skjá Einum kalla hann) Jay Leno yfirleitt frekar leiðinlegur, en hef gaman af headlines innskotinu hans þar sem hann gerir grín að misheppnuðum auglýsingum og óheppilegum prentvillum sem fólk sendir inn. Þess vegna flissaði ég pínulítið yfir auglýsingunni sem ég sá í morgun um skyndihjálparnámskeið þar sem yrði "farið yfir helstu slysabætur á heimilinu" (átti líklega að vera slysahættur). Ekkert sérlega fyndin villa en þetta kveikti samt í einhverjum púka og ég fór að setja út á ýmsa orðanotkun.

Til dæmis í fréttinni um vont veður á Hellisheiðinni þar sem kom fram að fólk ætti ekki að "fara yfir heiðina að óþörfu". Eins og fólk sé mikið að rúnta að gamni sínu um Suðurlandið, sagði púkinn. Hann (púkinn) setti líka út á leiðbeiningar á plástrum sem ég er nýbúin að kaupa, þar sem stendur "seek professional help in medical emergencies". Semsagt ekki setja bara plástur á ef þér er að blæða út. Púkinn lauk lélegum bröndurum sínum á því að setja út á sturtusápuna sem ég keypti nýlega bara af því að hún var með 87% afslætti. Hef aldrei keypt þessa tegund áður en hún var í voða flottum umbúðum. Sá í dag að lyktin sem ég keypti heitir "Cucumber song". Ég hef aldrei óskað mér þess sérstaklega að lykta eins og gúrka, hvað þá syngjandi gúrka. Hvern langar að anga af Smjattpattasafa? sagði púkinn og lauk þar með máli sínu þar sem ég var orðin of sein í saumaklúbbsafgangaboð.

Er annars að raula sumarlög til að reyna að fæla burtu leiðindaveðrið þrátt fyrir að sumir bloggarar séu afskaplega hrifnir af ísköldu roki. Af því tilefni spyr ég, eru halanegrar í uxahryggjahalanegrablómkálssveppasúpu og er hún bara borðuð á sumrin?

30. mar. 2009

Blóðgjöf og bíltúr

Blóðbankahjúkkan hvíslaði að mér að við deildum afmælisdegi og var að ég held extra mjúkhent við mig vegna þess. Síðan hneyksluðumst við saman á fólki sem veit ekki muninn á sumarsólstöðum og Jónsmessu. Á meðan hún batt skærblátt teygjubindi um olnbogann á mér sagði hún mér að þetta hefði verið erfiður vetur hjá þeim, takmarkað framboð vegna flensu og mikil eftirspurn frá spítalanum. Ég var fegin að hún sleppti öllum samlíkingum tengdum bankahruni.

Í kvöld var síðan bíltúr með Tónskáldinu um draumaeignir í vesturbæ Kópavogs sem Reykjavíkurvesturbæjarmeynni fannst bara furðu sjarmerandi. Bíltúrinn kom í stað kaffihúsaferðar þar sem snyrtiveskið mitt var týnt og tröllum gefið eftir helgina og mér fannst ég ekki í standi til að fara út á meðal fólks. Ekki það að ég fari ekki úr húsi ómáluð, geri það nú oft. En það vita allir að ef maður fer ómálaður og ótilhafður í bæjarferðir, að ekki sé talað um Kringluna eða Ikea, rekst maður óhjákvæmilega á einhvern sem maður vill helst ekki hitta þannig. Þetta kemur að minnsta kosti iðulega fyrir mig, eins og þegar ég skaust úr vinnunni (á sambýli) með klístrað hár og matarslettur á jogginggallanum að kaupa sleif í Ikea og rakst á hraðferð minni gegnum smávörudeildina á gamlan kæró (sem ég hafði ekki séð í mörg ár) sem var hönd í hönd að versla nýtt rúm með nýju elskunni sinni.

En eníveis... þetta var góður bíltúr og Tónskáldið minnti mig meðal annars á að sagan af Pílu Pínu endar í rauninni vel þrátt fyrir að allir muni bara eftir sorglega laginu. Hún minnti mig líka á að kventöskur eiga það til að vera með Mary Poppins eiginleika og sagði mér að leita aftur í töskunni að snyrtiveskinu. Sem ég gerði (í þriðja sinn) þegar ég kom heim og sjá, snyrtiveskið fannst. Allt er gott sem endar vel.

Eitt lag enn

Þá er ég komin heim heilu á höldnu eftir árshátíðarskrall í sveitinni. Var ótrúlega hagsýn með do-it-yourself klippingu og plokkun/litun sem heppnaðist bara ágætlega sem betur fer (misheppnun hefði reyndar verið efni í skemmtilegt blogg). Ég skemmti mér alveg ótrúlega vel og þetta var virkilega skemmtilegt kvöld. Matur í rauðu húsi, ball í hvítu húsi og gisting í bláu húsi. Veislustjórinn fékk gesti til að dansa kónga um allt hús og lét þá síðan leika górillur og öskra af öllum lífs og sálar kröftum svo það voru allir búnir að losa vel um hömlurnar áður en fyrsta vínglasið var borið fram. Maturinn var góður, skemmtiatriðin skemmtileg, ræðan (í eintölu sem betur fer) var fyndin og tónlistin við allra hæfi svo þetta gat ekki verið betra.

Reyndar skyggði það á að deitið mitt stakk af löngu fyrir miðnætti án þess að kveðja, en ég átti það líklega skilið eftir að hafa kvartað yfir að hann væri ekki á buffalo skóm (þar sem mér fannst ég gnæfa yfir hann á rauðu ofsaflottu hælunum mínum). Þeir sem voru eftir í hópnum í lok kvöldsins voru ennþá í banastuði svo það var brunað með leigubíl út um alla sveit (það eru tvær leigubílastöðvar á Selfossi) og endað á balli með Stjórninni. Fólk var svona mishrifið af bandinu en ég dansaði og dansaði og dansaði með stjörnur í augum (þarna var ég búin að skipta yfir í flatbotna skó ef ég skyldi rekast aftur á buffalóleysingjann). Stóð á köflum fremst við sviðið í nostalgíukasti, mændi á Siggu og Grétar og emjaði Þau spila yatzi og krakkinn fær sleikjó á meðan samstarfsfólkið horfði forviða á mig.

Ég var nefnilega die-hard aðdáandi Stjórnarinnar á aldrinum 10-12 ára og það sýndi sig að ég kann ennþá alla textana þeirra utanað. Get varla farið með neitt af þessum ættjarðarljóðum sem við vorum látin læra utanað í grunnskóla og þuldum aftur og aftur í íslenskutímum en Stjórnartextarnir eru greinilega vel greyptir í heilafrumurnar. Þetta er sjálfsagt afleiðing af því að ég átti a.m.k. tvær spólur með þeim sem ég tók með á fjölmörgum ferðalögum fjölskyldunnar um landið. Ég lokaði semsagt augunum (var með bílveiki á háu stigi) og hlustaði á vasadiskóið mitt (skemmtilegt orð, vasadiskó) á meðan foreldrar mínir reyndu að sýna okkur systrunum firði og fjöll. Þarf eiginlega nauðsynlega að fara aftur á flesta þessara staða (þar sem þetta fór mikið til framhjá mér á þessum tima) og langar mikið að ferðast eitthvað skemmtilegt innanlands í sumar, jafnvel fara hringinn. Óska bara hér með eftir ferðafélaga.

25. mar. 2009

Vitlaust númer

Ég er með heimasíma sem er afskaplega lítið notaður þar sem ég skil minn heittelskaða Símon sjaldan við mig eftir að hann endurholdgaðist í kjölfar pepsi-max slyssins í fyrra. Heimasímann nota ég aðallega til að tala við litlu sys í Danmörku sem er með svona íslenskt heimasímanúmer og örfáa aðra. Það kom mér þess vegna á óvart þegar það fór að koma inn holskefla af missed calls í byrjun ársins.

Ég fletti upp númerunum á já.is og það var greinilega hitt og þetta fólk að hringja í mig. Flesta kannaðist ég ekkert við, suma kannaðist ég (mjög) lauslega við og enn aðra kannaðist ég við vegna þess að þeir eru þekktir í þjóðfélaginu. Þetta gerðist dag eftir dag en aldrei náði ég reyndar að svara í símann þar sem ég var í vinnunni. Ég hringdi ekki til baka í öll þessi númer en fannst afar gaman að vera svona gífurlega vinsæl, þrátt fyrir að ég hafi nú fljótlega áttað mig á að ekki væri allt með felldu.

Gúglaði heimasímanúmerið mitt og þá kom í ljós að á vefsíðunni fyrir Prisma, nýja diplómanámið á Bifröst, er fólki bent á að hringja í númerið mitt fyrir frekari upplýsingar. Ég hafði samband við þá og benti þeim á þetta og allt í góðu með það. Nú í gær voru nokkur missed calls á símanum aftur og sjá, þeir eru aftur farnir að bjóða upp á þetta nám. Og ekki búnir að breyta númerinu á síðunni. Velti því fyrir mér hvernig aðsóknin hafi verið hjá þeim... nei nei þeir voru með annað númer þarna... en eníveis, ef ykkur finnst þetta nám spennandi og langar að vita meira um það.... ekki hringja í mig!

Þetta minnir mig á það að þegar ég bjó í foreldrahúsum var númerið okkar afskaplega líkt númerinu hjá sólbaðsstofunni Sól og Sælu. Fólk muldraði oft í símann og ég hélt oft að það væri að spyrja eftir mér og/eða mömmu (sem heitir Særún) og var búin að taka niður pöntun í ljósatíma áður en ég vissi af. Eða þegar maður hringdi í Pizza 67 forðum daga, við unglingarnir rugluðumst alltaf (eins og mjög margir aðrir) á þessum sextíuogsjöum (er ekki einu sinni viss um að það hafi verið neitt 67 í númerinu á þessum tíma eins og við héldum). Það var því oft hringt í eitthvað aumingja fólk sem var orðið verulega pirrað á því að vera vakið á nóttunni við óskir um pepp og svepp.

Þar sem það er svo mikið stuð í kommentakerfinu þessa dagana bið ég lesendur endilega að deila vitlaust-númer sögum :)

23. mar. 2009

Kvöldstund með Gogga Bjarnfreðar og fleiri sögur

Súkkulaðikeppnin snerist á endanum meira um að smakka og njóta réttanna því ógerlegt var að bera saman ólíka súkkulaði og á endan um varð hver sigurvegari í sínum flokki. Þannig lít ég svo á að ég hafi fengið gullverðlaun í flokknum Súkkulaðdrykkir. Ég áttaði mig loksins á af hverju uppskriftin að chillivanillukanilsúkkulaðinu miðaðist við hálfa bolla, það var sterkt bragð af drykknum sem var nú meira eins og súkkulaðileðja og ógerðlegt að drekka meira en nokkra sopa, þrátt fyrir að bragðið væri alveg hreint ágætt. Ég var samt búin að setja meiri mjólk en mælt var með í uppskriftina svo ég hugsa að þetta hefði verið nánast í föstu formi annars. En það var a.m.k. nóg fyrir alla svo ég þurfti ekki á súkkulaðilíkneskinu að halda, enda fengust engir sjálfboðaliðar til verksins. Þetta var óskaplega unaðslegt kvöld og ég hlakka til að endurtaka leikinn vonandi seinna í ár.

Kreppan hefur annars margar ófyrirséðar afleiðingar. Ein þeirra er sú að badmintonfélagi er kominn í stjórn Fjármálaeftirlitsins og forfallast því ansi oft. Ég get að minnsta kosti andað rólega yfir því að FME sé að vinna vinnuna sína en verra þykir mér að missa badmintonfélagann. Vinkona mín hljóp í skarðið á laugardaginn var og við skelltum okkur síðan í sund. Í Kópavogslauginni var allt fullt af brjáluðum börnum og að því er virtist útúrtauguðum helgarpöbbum og –mömmum. Yfirleitt er ég nú bara í pottapartýinu í sundi en skaðræðisgripirnir höfðu góð áhrif því við hrökkluðumst í laugina og syntum 500 metra sem var bara hressandi.

Um kvöldið var síðan fundur í tveggja manna menningarklúbbnum og að þessu sinni var það matarmenning sem var tekin fyrir á ítalska staðnum Basil & lime. Þægilegur staður með fallegar innréttingar og góða þjónustu... en maturinn hefði mátt vera betri. Pastað var allt heimagert og samsetningarnar girnilegar en báðir pastaréttirnir voru frekar bragðlausir þrátt fyrir að við hefðum bætt ótæpilegu magni af pipar við þá. Hugsa að ég fari bara á Ítalíu næst þegar ætlunin er að fá sér ítalskt. Svosem bara same old þar en mér finnst maturinn samt alltaf standa fyrir sínu og er á góðu verði. Það er samt gaman að prófa nýja staði og ég elska að fara út að borða, en ég held að minnsta kosti að ég fari eitthvað annað næst.

Menningarklúbburinn hélt síðan í hringborðsumræður á Ölstofunni þar sem við vorum leiðinlega fólkið sem töluðum tvisvar við starfsfólkið til að kvarta undan gestum. Einu sinni var fólkið við hliðina á okkur að reykja vindla og sígarettur og sinnti því ekki þegar við báðum þau um að fara út. Þau voru skömmuð og horfðu á okkur illum augum það sem eftir var kvöldsins. Einnig veittist að okkur miðaldra maður sem virtist vera Georg Bjarnfreðarson wannabe. Hann vildi ólmur ræða við okkur stúlkurnar um hitt og þetta og og tók fram að hann væri með fullt af háskólagráðum. Hann sagðist vera nýkominn af spítalanum þar sem hann hefði hitt fullt af læknum (við vorum svosem ekkert hissa á því). Síðan hafði hann mikinn áhuga á stjórnmálaskoðunum okkar og spurði hvort við settum X við D. Við neituðum að svara og þá fór hann að spyrja okkur hvort við hefðum verið í MR. Georg vildi líka mikið tjá sig um Hannes Hólmstein og hvað hann hefði verið að gera í MR en það verður ekki haft eftir hér. Svo var hann mjög upptekinn af því að deila þeim leyndardómi með okkur að Þetta er allt sexúalt og kallaði það á eftir okkur meðan dyravörðurinn leiddi hann frá borðinu okkar.

Á sunnudaginn fékk ég síðan að halda á fimm daga frænku minni sem brosti svo fallega til mín að ég bráðnaði alveg, og kæri mig ekkert um að heyra að þetta hafi bara verið ósjálfrátt viðbragð við loftlosun. Hún er algjör draumur í dós eins og við var að búast. Ég er ekki jafn hrædd við að halda á svona litlum krílum enda komin í ágætis æfingu eftir fæðingarsprengjur vina og vandamanna á síðustu tveimur árum. Það urðu nefnilega ansi mörg börn til í góðærinu, árið 2008 fæddust 4.835 börn hérlendis. Það eru 275 fleiri börn en ári áður og aðeins tvisvar í sögu Íslands hafa fleiri lifandi fædd börn komið í heiminn á einu ári, árin 1960 og 1959. Það verður áhugavert að fylgjast með hvernig þróunin verður á þessu ári og næsta.