30. mar. 2009

Eitt lag enn

Þá er ég komin heim heilu á höldnu eftir árshátíðarskrall í sveitinni. Var ótrúlega hagsýn með do-it-yourself klippingu og plokkun/litun sem heppnaðist bara ágætlega sem betur fer (misheppnun hefði reyndar verið efni í skemmtilegt blogg). Ég skemmti mér alveg ótrúlega vel og þetta var virkilega skemmtilegt kvöld. Matur í rauðu húsi, ball í hvítu húsi og gisting í bláu húsi. Veislustjórinn fékk gesti til að dansa kónga um allt hús og lét þá síðan leika górillur og öskra af öllum lífs og sálar kröftum svo það voru allir búnir að losa vel um hömlurnar áður en fyrsta vínglasið var borið fram. Maturinn var góður, skemmtiatriðin skemmtileg, ræðan (í eintölu sem betur fer) var fyndin og tónlistin við allra hæfi svo þetta gat ekki verið betra.

Reyndar skyggði það á að deitið mitt stakk af löngu fyrir miðnætti án þess að kveðja, en ég átti það líklega skilið eftir að hafa kvartað yfir að hann væri ekki á buffalo skóm (þar sem mér fannst ég gnæfa yfir hann á rauðu ofsaflottu hælunum mínum). Þeir sem voru eftir í hópnum í lok kvöldsins voru ennþá í banastuði svo það var brunað með leigubíl út um alla sveit (það eru tvær leigubílastöðvar á Selfossi) og endað á balli með Stjórninni. Fólk var svona mishrifið af bandinu en ég dansaði og dansaði og dansaði með stjörnur í augum (þarna var ég búin að skipta yfir í flatbotna skó ef ég skyldi rekast aftur á buffalóleysingjann). Stóð á köflum fremst við sviðið í nostalgíukasti, mændi á Siggu og Grétar og emjaði Þau spila yatzi og krakkinn fær sleikjó á meðan samstarfsfólkið horfði forviða á mig.

Ég var nefnilega die-hard aðdáandi Stjórnarinnar á aldrinum 10-12 ára og það sýndi sig að ég kann ennþá alla textana þeirra utanað. Get varla farið með neitt af þessum ættjarðarljóðum sem við vorum látin læra utanað í grunnskóla og þuldum aftur og aftur í íslenskutímum en Stjórnartextarnir eru greinilega vel greyptir í heilafrumurnar. Þetta er sjálfsagt afleiðing af því að ég átti a.m.k. tvær spólur með þeim sem ég tók með á fjölmörgum ferðalögum fjölskyldunnar um landið. Ég lokaði semsagt augunum (var með bílveiki á háu stigi) og hlustaði á vasadiskóið mitt (skemmtilegt orð, vasadiskó) á meðan foreldrar mínir reyndu að sýna okkur systrunum firði og fjöll. Þarf eiginlega nauðsynlega að fara aftur á flesta þessara staða (þar sem þetta fór mikið til framhjá mér á þessum tima) og langar mikið að ferðast eitthvað skemmtilegt innanlands í sumar, jafnvel fara hringinn. Óska bara hér með eftir ferðafélaga.

4 ummæli:

Þóra Marteins sagði...

æææææ..... flúði hann? (í pínu flissandi tón). Þú verður að stríða honum minna næst :-p

Aldís Rún sagði...

Þú gleymdir að minnast á að þú áttir það til að kaupa svart og hvítt vélmenni sem segir já og nei, fyrir peninginn sem frúin í Hamborg gaf þér...hehe..sem sagt þegar ég spurði þig á ferðalögunum um Ísland ;)

Nafnlaus sagði...

Var þetta árshátíð í vinnuni?! Voðalega er gaman hjá félagsmálayfirvöldum á Selfossi.

Hlakka til að hitta þig á morgun og fá að vita meira um Buffalo-drenginn sem flúði. Held að þú hafir nú ekki verið mjög ósátt enda Grétar Örvarsson svo miiiiklu betri en allir aðrir sem til eru í öllum heiminum sko.

Ég skal svo koma með þér hringinn í sumar, þar sem ég hef aldrei keyrt hann og vel komin á tíma að kynnast landi og þjóð.

kv,
Hildur

Sólrún sagði...

Já hann bókstaflega flúði! hann hlýtur bara að hafa fattað að ég var að fíflast, en er samt farin að efast eftir hnakkaumræðurnar okkar í kvöld.

Aldís nú er ég komin með samviskubit, ég var auðvitað með gelgjuna á háu stigi og sé mikið eftir að hafa verið leiðinleg við litlu systur. Ég skal fara í frúin í Hamborg við þig hvenær sem þú vilt dúllan mín!

Hildur þetta var sameiginleg árshátíð hjá nokkrum hópum, alveg 80 manns :) Hlakka til að sjá þig á morgun, þá færðu óritskoðuðu útgáfuna ;) Veit annars ekki alveg með Grétar þótt hann sé nú ágætur sko...og já, hringurinn er örugglega skemmtilegur, a.m.k. ef það er stoppað :)