24. maí 2002

Það er svo gaaaaaaman í vinnunni á föstudögum. Í dag var vínsmökkunardagur..... ein gellan kom með rauðvín og hvítvín (hún þekkir innflytjendurna) og við sátum og spjölluðum og smökkuðum og smjöttuðum. Æði. Ég var samt alveg merkilega pródúktív, kannski af því að þetta er næstsíðasta vikan mín og er núna ein eftir í vinnunni. Þar að auki getur enginn sótt mig þannig að ég þarf líklega að labba heim úr Borgartúninu. Vantar klink til að fara í strætó, spurning um að reyna að redda því. Ekki það að það sé ekki fínt að labba sko, ég er bara á peysu og opnum skóm og pínulítil kuldaskræfa í ofanálag. Annars held ég að þetta verði skemmtileg skemmtileg helgi. Júróvisjón og partý og kosningar og kaffiboð. Ég er að fara að kjósa í borgarstjórnarkosningum í fyrsta sinn og er samt orðin næstum því 22 ára. Ég er eiginlega nýbúin að fatta þetta, fannst eins og ég hefði kosið síðast en það var misskilningur. Ég á nefnilega ekki afmæli fyrr en í júní og var þess vegna 17 og ellefu mánaða síðast. Nú er bara að vanda valið....
Stundum kem ég sjálfri mér á óvart með heimsku minni, jafnvel þótt ég haldi að ég viti manna best hvað ég get verið vitlaus :) Tökum dæmi. Aðfaranótt miðvikudagsins, kl. , var ég að keyra heim eftir að hafa verið að stússast aðeins fram á nótt. Ég var með beltin spennt, á löglegum hraða, ekki að tala í símann og á góðri Toyotu en ekki ljóslausu mözdu druslunni minni sem ég er yfirleitt á. Allt í einu tek ég eftir að það er stór bíll með blikkandi ljós fyrir aftan mig. Mér dettur fyrst í hug að þetta sé sjúkrabíll og hægi á mér og reyni að fara út í kant. Bíllinn heldur áfram að vera fyrir aftan mig. Ég skildi ekkert í þessu, af hverju bíllinn fór ekki fram úr mér og sé svo að þetta er lögreglubíll. Mér fannst mjög leiðinlegt að vera fyrir honum þannig að ég held áfram að keyra úti í kanti. Löggan heldur áfram að vera alveg upp við bílinn, með blikkandi ljós þannig að mér fannst þetta mjög skrýtið. Datt samt auðvitað ekki í hug að þeir væru að reyna að stoppa mig. Þar að auki fannst mér asnalegt að vera að stoppa á miðjum veginum þannig að ég beygði inn í hliðargötu og lagði og ákvað að sjá hvort þessi löggubíll færi ekki framhjá eða hvað væri eiginlega í gangi. Ég hafði a.m.k. aldrei séð neinn stoppaðan svona í bíómyndunum. Þarna var engin sírena og enginn sem kallaði í svona tæki "Stop the car and get out of the vehicle" eða eitthvað svoleiðis. Þegar ég loksins stoppaði æddi ungur og æstur lögreglumaður út úr bílnum, hundfúll og spyr hvort ég hafi aldrei verið stoppuð af lögreglunni áður. Ég sagði nei, sem var satt en leið eins og versta afbrotamanni. Ég fór eitthvað að reyna að útskýra að ég hafi ekki fattað hvað væri að gerast og hann predikaði aðeins um að ég ætti að stoppa strax o.s.frv. Svo upphófst smá stress þegar ég var að leita að ökuskírteininu sem var skoðað vel og vandlega og ég margbaðst afsökunar. Ég var ekki beðin um að blása í blöðru eða neitt svoleiðis enda leit ég ekki beint út fyrir að vera nýkomin af djamminu. Þetta var auðvitað bara svona routine check sko en mér fannst þetta skelfileg lífsreynsla og hringdi strax í Óla og skammaði hann fyrir að hafa verið í slagtogi með þessum kvikindum (2 ár í sumarlöggunni). Ég er enn að jafna mig. Spurningin er samt, ef ég þoli ekki einn Löggu-Lása án þess að brotna niður, hvernig á mér þá eftir að ganga í vinnunni í sumar? :)

17. maí 2002

Ég fékk FJÖGUR bréf í dag!!! Ég sem fæ aldrei póst! Fyrst var það reyndar auglýsingabæklingur frá ungum sjálfstæðismönnum, afskaplega flottur með fullt af myndum og skemmtilegum setningum á borð við " Málið er einfalt: Vinstri menn hafa aldrei kunnað að fara með peninga". Mér fannst þetta allt saman frekar hallærislegt í ljósi þess að ég gat ekki einu sinni fundið stefnuskrá eða helstu stefnumál í þessum þó nokkuð þykka bæklingi.... ekki einu sinni frekari upplýsingar á xd.is eða eitthvað álíka...... En maður hefur víst ekki áhuga á svoleiðis þegar maður er undir þrítugu og vill bara sjá flottar myndir og slagorð. Aftan á er svo alveg svakalega kúl mynd af kalli að henda erri (R) í ruslafötu. Ég fell alltaf fyrir svoleiðis.
En nóg um þetta. Hin bréfin voru bara gleði gleði.... ávísun frá Háskólanum fyrir vinnu mína í apríl, formlegt bréf um að ég hafi komist inn í University of Bath og kort frá Emmu vinkonu sem ég kynntist í Salamanca! Gleði gleði......

16. maí 2002

Fréttir dagsins eru þær að ég held að ég hafi óvart drepið kónguló og Brynja á afmæli. Síðarnefndu fréttirnar eru þó merkilegri, ekki síst í ljósi þess að það er ekki einu sinni víst að hún hafi dáið heldur fauk hún af vefnum sínum á bílnum mínum þegar ég var að keyra (kóngulóin, ekki Brynja). Semsagt, innilega til hamingju með tvítugsafmælið Brynja mín ;)

15. maí 2002

Þvílík gleði fyrir súkkulaðigrís eins og mig að fá að háma í mig Jóa Fel kökur á launum eins og gerðist í gær :) Ekki síðra að fara svo með Guðrúnu vinkonu á Beautiful mind sem ég hafði ekki enn séð, og þar að auki var þetta fína þriðjudagstilboð. Ég veit ekki alveg hvort að bíóhúsin séu að græða meira á þessum tilboðum en ég held það samt.... fólk er a.m.k. farið að taka við sér. Það var næstum fullt á þessa mynd í sal 3 í Bíóborginni í og tjaldið varla stærra en flott heimabíó. Jæja en fleiri fréttir af Mansonhárinu góða. Ég er óðum að jafna mig á því að vera ekki lengur spánarljóskan heldur meðlimur Adams fjölskyldunnar. Þetta er þó bara skol og ætti þar af leiðandi að dofna með tímanum. Hárþvottar í tíma og ótíma hafa samt ekki breytt litnum mikið en ætli hann sé þó ekki viðunandi núna. Það sem verra er, er að við litunina (sem fór fram á stofu bæ ðe vei) komu óvart nokkrir litablettir á andlitið á mér sem NÁST EKKI AF!!!! Nú eru liðnir næstum 6 dagar og ég er búin að skrúbba og þvo og beita öllum brögðum en er enn með furðulega rauðbrúna bletti sem eru orðnir að hálfgerðum sárum. Ég er því heldur ósjáleg á að líta og reyni að fela þetta með hinum ýmsu hliðarskiptingum og "hárið fyrir andlitinu" tækni. Síðast í gær reyndi ég húsráð móðursystur minnar, að setja tannkrem á. Ég er ekki frá því að liturinn hafi dofnað en ég er með kolgeit í hárinu sem er lítið skárra. Til að bæta ástandið er ég öll blá á höndunum (og annars staðar) a la Kate Winslet í sjónum í Titanic vegna þess að nýju bláu gallabuxurnar mínar lita svo svakalega mikið. Bjarta hliðin á þessu öllu saman er sú að það er mikil litagleði í baðvatninu þegar ég fer í sturtu... blátt og rautt.......
Foreldrar mínir fóru annars til Parísar í dag, second honnímún þið vitið á silfurbrúðkaupsafmælinu. Ég og systa erum einar heima í viku, svo fer bara bráðum að líða að því að ég flytji að heiman í annað sinn. Ætli það verði ekkert skrýtið að búa uppi í sveit? Það eru svo margir sem ég ætlaði að hitta og djamma með áður en ég fer, þótt ég komi auðvitað í borgina í sumar. Reyni að bæta eitthvað úr því um helgina. Annars minnir mig að mín ástkæra Þórdís Elva komi heim í dag, vei vei vei! Hún er búin að vera í USA að gellast í heilt ár þannig að það verður gaman að hitta hana aftur.

14. maí 2002

Jæja þá er ég búin að fá boðskort í ammilið hennar Bryn, vííííí!!! Svo er fimmtugsafmælissurprisekaffi í vinnunni núna eftir nákvæmlega fimm mínútur...ég var í undirbúningsnefndinni sko og gerði þetta fína kort. Vildi samt að ég kynni á þetta helv. Photoshop forrit, ef einhver sjálfboðaliði vill kenna mér má hann endilega hafa samband :)
Annars er það merkilegt hvað maður verður dofinn af því að sitja fyrir framan tölvu allan daginn.......
hei gestirnir eru komnir, leiter!

12. maí 2002

Var að koma heim af djamminu...... ahhhhh.......gaman......þreytt........ Elduðum hjá Jóhönnu, indverskt og skemmtilegt, síðan var það Kaffibarinn sem ég hef ekki farið á síðan á Þorláksmessu og nánast aldrei fyrir þann tíma..... þar hittum við vinkonur Jóhönnu þær Ingu Rún og Ester sem voru bara í góðu stuði. Þarna voru ýmsir, margir sem ég kannaðist við en afar fáir sem ég þekkti. Síðan varð alveg ægilega troðið og öllum fannst það voða gaman en mér líður ekkert æðislega vel þegar rassar og brjóst og aðrir líkamspartar ókunnugs fólk þrýstast að mér í meira en tíu mínútur í senn.... ég verð því seint alvöru Kaffibarsrotta. Verst að Þóra Huld gella fór heim snemma og kom ekki út með okkur. Sumsé.... ég fór ein út og hugðist halda heim en heyrði aðeins í Matthildi vinkonu sem var orðin alein á Gauknum. Ég hitti hana og við rugluðum eitthvað saman, sendi hana svo í leigubíl, fór í pulsuvagninn og af einhverjum óskiljanlegum ástæðum þá skokkaði ég heim...í gegnum allar NATÓ girðingarnar sem er búið að setja upp í vesturbænum af öryggisástæðum, vona að ég verði ekki sprengd upp í næstu viku. Mæli annars ekki með skokki eftir rauðvínsdrykkju og pulsuát, einkum ekki klukkan fimm um morguninn.
Hei já alveg rétt, ég fór á útskrifarsýningu Listaháskólanema í dag og það var alveg æðislega gaman. Fullt af flottum verkum og skemmtilegu fólki, skemmtilegastur var þó hann Þórarinn Hugleikur Dagsson með heimildarmyndina sína um role-play. Hann var líka með svo flott bindi sko. Ég eignaðist líka í dag tvö pör af X-18 skóm og tvo boli úr Zöru. Góð helgi :)

11. maí 2002

Guð minn góður hvað hef ég gert!!!!!! Við nánari skoðun kemur í ljós að hárið er svar-fjólubleikt og helst í anda Manson/Morticiu Adams/Hexiu de Trix. Sem er kannski í sjálfu sér ekkert athugavert og fer mörgum vel en ég er ekki þessi týpa..... mér a.m.k. líður eins og ég sé að horfa á einhverja ókunnuga manneskju þegar ég lít í spegil, eða að ég sé með hárkollu. Viðbrögð annarra hafa verið misjöfn. Ég þvoði hárið samt tvisvar í gær, setti smá brúnkukremsklessu á mig og gerði tilraun til að lita á mér augabrúnirnar með þriggja ára gamalli litatúpu og tannbursta. Þetta hefur því skánað og ég stefni ótrauð á það að láta sjá mig á almannafæri í dag. Svo er líka bara svolítið gaman að vera svona ólíkur sjálfum sér :)
Brynja sæta á annars afmæli í næstu viku. Ég er farin að sakna hennar og Ásdísar, Erlenar, Írisar og Ólafar þannig að ég vona að hún bjóði mér í afmælið :) Ég krossa bara fingur...... :)

10. maí 2002

Ég blogga svo sjaldan núna að loksins þegar ég kem mér að því er ég löööngu búin að gleyma öllu því (mis)merkilega sem ég ætlaði að segja frá. Það verður markmið sumarsins að skrifa oftar og minna. Í dag er fallegur föstudagur og það er meira að segja sól, guði sé lof þannig að ég ætla ekki að koma með neinar heimspekilegar vangaveltur í þetta sinn.... það verður spennandi að sjá hvort ég geri það einhvern tíma....hmmmm......
Nú jæja en sumsé, ég fór í Skagafjörðinn á miðvikudaginn að skoða nýja vinnustaðinn, sem er milli Varmahlíðar og Sauðárkróks. Mér leist bara vel á staðinn og fólkið, líka á litla sæta húsið þar sem ég kem til með að búa en það er reyndar hannað sem skólahúsnæði. Þið sem eigið leið í Skagafjörðinn í sumar heimsækið mig!!! Ég er í fríi aðra hverja viku :)
Helgarplanið: Ég ætla að fara að djamma djamma djamma með nokkrum góðvinkonum mínum sem eiga það sameiginlegt með mér að vera ekki í prófum. Þetta mun eiga sér stað á laugardagskveldið en þá um daginn ætla ég einmitt líka að kíka á útskriftarsýningu Listaháskólanema en hann Hulli vinur minn ku vera að útskrifast. Í kvöld ætla ég síðan að jafna mig á því að hafa litað á mér hárið í dag, já ég er orðin dökkhærð dömur mínar og herrar. Veit ekki alveg hvað mér finnst um það. Held að það sé betra. Er samt ekki alveg viss.
Góða helgi :)