5. okt. 2012

Meistaramánuður - dagur 4

Langt snús að vanda (mig langar ekki einu sinni að hætta því!) en tókst samt að vakna á nóinu og mæta í vinnunna 8:55 - tékk!

Var boðið upp á hnetusmjörssúkkulaði og bjór í heimsókn hjá dásamlegri vinkonu í kvöld en neitaði! Afrek dagsins nammibindindislega séð átti þó sér stað í kennslustund fyrr í dag eftir að ég bað nemendur um að giska á fjölda Skittles sem ég hafði sett í sultukrukku. Giskið þjónaði þó leyndum tilgangi og það var mikið svekkelsi þegar ég upplýsti um það að ég hefði ekki hugmynd um nammifjöldann. Þannig að ég reyndi að bæta upp fyrir það með því að telja - 318 Skittles (þrisvar) upp úr krús án þess að stinga einu einasta upp í mig.

Það sem tókst sérlega meistaralega vel í dag var að bakka í stæði svona samsíða - tvisvar! Hægri bakk og vinstri bakk þar að auki.

Það sem tókst sérlega ómeistaralega var eiginlega það að ég horfði á hinn skelfilega, skelfilega þátt Bridalplasty seint um kvöld í gær. Reyndi að bæta það upp með að horfa á hinn fallega og heilsteypta þátt Everwood í kvöld. Er algjör sökker fyrir svona small-town drama þáttum, Gilmore Girls, Hart of Dixie, Men in Trees og svona.

Svo er það bara draumalandið... sjáum hvaða freistingar fyrsta októberhelgin hefur í för með sér!

4. okt. 2012

Meistaramánuður - dagur 3

Jæja þetta fer að verða svolítið þreytt, er ekkert sérstaklega spennt fyrir að skrifa endalaust um svefnvenjur og mataræði. En þetta er ágætis dokjúmentasjón auðvitað. Og þjálfar skrifvöðvana!

Snúsaði vel og lengi, er búin að skipta snúshljóðinu í engisprettu- og hörpuhljóð og þetta er bara yndislegt að vera svona milli svefns og vöku, úff. Náði nú samt að fara á fætur 7:45 og mæta 8:45 sem er samkvæmt markmiði.

Búst í morgunmat, fiskur í hádeginu og kjúklingur í kvöldmat. Er reyndar ostsjúk (betra en ástsjúk?) og missti mig aðeins í parma- og fetaostinum en hey, ekkert nammi! Tókst meira að segja að meðhöndla, bera á borð og sitja fyrir framan súkkulaði og súkkulaðikex án þess að fá mér. Árangur! Fann samt fyrir nammilöngun í dag í fyrsta sinn í mánuðinum (ok það eru bara liðnir þrír dagar en samt...).

Smá vonbrigði á sviði ástarinnar sem voru samt liklega fyrir bestu. Já og Myndarlegi maðurinn reykir sem er eiginlega deal-breaker þannig að ég ætla bara að horfa á hann úr (lengri en þef-) fjarlægð.




2. okt. 2012

Meistaramánuður - dagur 2

Úff hvað ég vaknaði ómeistaraleg í morgun. Á degi tvö takk fyrir! Á maður kannski bara að gefast upp strax?  Snúsaði frá 7:30 til 8:45 takk fyrir og mætti í vinnuna 9:15. FAIL! En mér til varnar var ég að vinna frameftir og gat svo ekki sofnað fyrr en kl. 3. 

Mataræðið var svona skítsæmilegt þannig séð, að minnsta kosti enginn skyndibiti eða nammi eða gotterí. Vigtin segir upp á gramm (já eða hundrað grömm) það sama og fyrir tveimur vikum síðan. Var svo búin að bóka fundi í vinnunni á þann hátt að ég komst ekki í hádegisjóga. Er sextíu mínútum af hreyfingu í mínus. 

Það sem var yndislegt og ástríkt var að hitta ma og pa, litlu systur og yndislegu systurbörnin í mat, já og símtal frá Freyju minni í kvöld. Það var hins vegar ekki jafn skemmtilegt að bíða í að því er virtist óendanlega lengi í símabiðröð hjá Arion banka, Símanum og Tollinum til að reyna að borga reikninga sem birtust ekki í heimabankanum. Hversu lengi getur maður eiginlega verið númer 8 í röðinni? Hefði átt að skipta þessum hringingum niður á fleiri daga. 

Svo er ég sannfærð um að Myndarlegi maðurinn sem veit ekki einu sinni hvað ég heiti sé hrifinn af (lofaðri) kunningjakonu minni. Er kannski að lesa of mikið í líkamstjáningu og augnsamband. En ég meina ég hefði líka horft í augun á henni frekar en á mér í dag, er með augnsýkingu og hálf zombie-vampírulúkkið er kannski ekkert sérstaklega sexý ef maður er ekki að leika í Twilight mynd. 

Jæja þá er blogg - markmiðið uppfyllt fyrir dag tvö. Tékk! 

Meistaramánuður

Jæja, ég hef ákveðið eins og skrilljón manns að vera með í meistaramánuði! Dagur eitt, tékk!
Markmiðin mín (sem eru kannski ekki alveg jafn tilbúin og vel skilgreind og þau ættu að vera á þessu stigi máls) eru eftirfarandi:

- Vakna fyrr, snúsa minna og mæta fyrir kl. 9 í vinnuna... (ég er voða gjörn á að snúza til 8:45 og mæta 9:15).
- Borða ekkert nammi... skilgreiningin á því hvað telst sem nammi er í nefnd. Yoyo ís með ávöxtum er leyfður svo og lítið popp í bíó! Svo ætla ég að fá mér köku í fimm ára afmæli 27. október.
- Hreyfing að meðaltali hálftíma á dag eða í þrjá og hálfan tíma á viku...þarf ekki að vera á hverjum degi semsagt, þetta er uppsafnað yfir vikuna. Vikan telst frá mánudegi til sunnudags! (á miðnætti). Sé fyrir mér lannga göngutúra á sunnudagseftirmiðdögum...
- Ekkert áfengi... Þetta er að mér skilst partur af programmet. Er samt að spá í að hafa þetta með undantekningum þar sem mig langar ægilega mikið að fá mér kokteil á föstudagskvöldið næstkomandi og bjór á Airwaves 31 okt. (kannski bara eftir miðnætti?) En þetta ætti annars að vera auðvelt og auðveldar að minnsta kosti hollt mataræði, ég er ekki svo góð í að borða hollt svona daginn eftir kvöldið áður.
- Ákveða efni fyrir lokaritgerð... ég hef verulegar áhyggjur af því að ég nái ekki að standa við þetta en ég er á nákvæmlega sama stað í þessari ritgerð og fyrir ári þannig að here goes.
- Finna ástina... þetta er vísvitandi óljóst markmið... love is all around!
- ooog að lokum: Blogga daglega um meistaramánuð! Þetta markmið er í rauninni dulbúið þar sem raunverulegur tilgangur er að æfa dagleg skrif sem eru ekki vinnu- eða námstengd. Í nóvember er svo NaNoWriMo og þá ætla ég að taka góðan slurk í tilvonandi metsölubókinni minni (*hóst*).
- Mögulega bætast við einhver markmið en þetta er svosem alveg nóg í bili. Svo er planið bara að lifa eins og meistari almennt!

1. okt - hvernig gekk? 
Vakna: Stillti klukkuna á sex en snúsaði til 7:30. Fór í langt og meistaragott bað og var mætt í vinnuna 8:45... greinilega mjög óvenjulegt því samstarfsfólkinu varð mikið um, fékk tvö Ert þú MÆTT? (á fjögurra manna vinnustað með mér meðtalinni).
Borða: Ekkert nammi, vei! Svosem engar sérstakar freistingar en frekar einhæft mataræði -tvö búst og tvisvar kjúklingur.  Hádegiskjúllinn á Ali Baba var reyndar fáránlega góður. Mmmmm.
Hreyfing: Til og frá bílnum. Glatað. Bæti úr því á morgun. Eða hinn!
Áfengi: Er ekki mánudagsrauðvínssullstýpan (ekki það að það sé neitt að því!) þannig að ég sé ekki að þetta sé að fara að trufla mig á næstunni. Enda var september að mestu sin-alco.
Lokaritgerð: Ég var reyndar aðeins í skólanum að vinna (ekki að læra) og hitti nokkrar skólastelpur og ræddi nokkrar lokaritgerðishugmyndir. Mundi þá að ég er með nokkrar hugmyndir í kollinum, þarf bara að pæla og velja á milli. Er sumsé ekki alveg blankó. Sem er gott!
Ástin - Ekkert rosalega mikil ást í loftinu í dag. Jú gott símasamtal við mömmu, ég elska hana nú alveg heilan helling!
Blogg - tékk!

Það sem gekk meistaralega vel í dag: Náði afar góðri vinnutörn og einbeitingu -fyrst í vinnu eitt, svo í vinnu tvö, svo í smá verkefnavinnu og svo aftur í vinnu eitt (já það er aðeins of  mikið að gera).

Það sem gekk ekki meistaralega vel: Í miðju meistarabloggskafi hringdi mamma og spurði hvort ég hefði gleymt að sækja frænku mína í vinnuna... sem ég hafði gert! Hljóp bókstaflega út á stuttermabolnum og skildi sjónvarpið og tölvuna eftir á fullu, öll ljós kveikt og Rúsínus Maximus í freestyle í chilli á sófanum. Sem betur fer slapp þetta fyrir horn og bæði sófinn og IKEA teppið stóðust nagskoðun við heimkomu.

Já og það sem gekk heldur ekki meistaralega vel er svefntíminn! Klukkan er 2:10 og ég ekki ennþá farin að sofa. Veit ekki hvernig snúsíð gengur í fyrramálið Kemur í ljós.
Óver and át!