30. jún. 2010

Nei, nei og aftur nei

Í þessari viku er ég búin að segja nei við því að fara á hlaupanámskeið, nei við því að fara á á sjálfsvarnarnámskeið og tvisvar nei við því að fara í hot yoga tíma! Sem er eiginlega frekar glatað fyrir svona wannabe spontaneous já-manneskju. Þarf að reyna að komast yfir þessa jóga-hræðslu, í síðasta jógatíma sem ég fór í festist ég með lappirnar fyrir aftan höfuð og get ekki ímyndað mér að það sé skemmtilegri upplifun í svitabaði. Ég er líka eitthvað hrædd við svona sjálfsvarnarnámskeið, eitthvað við það að láta skella sér í gólfið sem ég meika ekki. Vinkona mín var ekki alveg að kaupa það þegar ég sagðist vera til í að fara á bóklegt námskeið í staðinn. Bíddu ætlarðu þá að biðja árásarmanninn um að hætta að nauðga þér meðan þið ræðið samband hans við mömmu sína

Hef reyndar afsökun fyrir að komast ekki á hlaupanámskeiðið en ég er annað hvort að fara í súkkulaðiklúbb eða á tónleikana hjá Seljalandsfossi. Get reyndar alveg hugsað mér að fara á svona námskeið seinna en las á netinu að hlaupastíllinn manns sé tekinn upp á myndband til að hægt sé að greina hann síðar. Örugglega mjög gagnlegt en ég vona samt að það sé ekki spilað fyrir framan alla, svona ef ég skyldi koma út eins og Phoebe í Friends í þessu atriði  ef einhver man eftir því. 

Annars er sumarþema hjá súkkulaðiklúbbnum en ég hef ekki hugmynd um hvað ég ætla að koma með. Er að spá á að mixa einhvers konar kaldan súkkulaðidrykk eða sjeik. Varaplanið er að kaupa MacDónalds style súkkulaðisjeik hjá Metró, skipta bara um umbúðir og hræra smá súkkulaðispænum saman við, svona til að þetta virki meira ekta... 

29. jún. 2010

Kúkað í Kúlusúkk*

Í kvöld sýndi ég stórkostleg tilþrif í að leika geiturnar þrjár (og tröllið) með tæplega þriggja ára systurdóttur minni. Ég get ekki talið hversu oft ég hef lesið bókina fyrir hana og nú ákváðum við að vera með leikræna útfærslu. Er farin að ná raddblæbrigðum karakteranna ansi vel þótt ég segi sjálf frá og er bara nokkuð ógnvekjandi þegar ég spyr Hver trampar á brúnni minni? Hef reyndar lesið söguna og leikið leikritið fyrir önnur börn gegnum árin og slegið í gegn. Sérstaklega vekur þetta mikla lukku í sundlaugum eins og í Árbæjarlauginni og í Laugardalslauginni þar sem er raunveruleg brú til staðar, en krefst þess að manni takist að útiloka aðra sundlaugargesti úr huga sér til að lifa sig inn í hlutverkin. 

Fór svo og hitti vinkonu á Kaffi París þar sem hún sagði mér frá spennandi ferð sem hún fór í í vor, gangandi 600 km yfir Grænlandsjökul. Sérstaklega voru klósettferðirnar ræddar en hún sagði mér að þetta væri ein algengasta spurningin sem hún fengi um ferðina! Svona til upplýsinga fyrir klósettáhugabloggarann :) mun vera mjög hreinlegt að ganga örna sinna á Grænlandsjökli, notast er við skóflu til að grafa holu, klósettið er eingöngu notað af manni sjálfum og mokað yfir á eftir. Svo pissar maður beint í snjóinn og þarf ekki að hafa áhyggjur af því að neitt fari út fyrir! Eina áhættan er víst að fá frostbit á rassinn.

(*já, já - það eru örugglega klósett í bænum Kulusuk, þetta hljómaði bara betur en kúkað á Grænlandsjökli!)

28. jún. 2010

Medúsa

Ég splæsti í litun og plokkun á stofu fyrir ammó sem ég hafði ekki gert síðan disasterið varð í spa-inu í Laugum síðasta haust. Þá notaði snyrtidaman vax á mig í fyrsta sinn á augabrúnirnar og ég varð öll stokkbólgin og bólótt lengi á eftir. Ræddi þetta við snyrtifræðinginn vinkonu mína sem ég fór til í síðustu viku sem sagði mér að líklega hefði vaxið bara verið svona heitt og þetta ætti ekki að koma fyrir.

Viðvörun: Ekki fyrir viðkvæma/klígjugjarna!

Var svona aðeins rauð á eftir en ekkert til að tala um - hjúkk - nema hvað eftir tvo daga fór ég að springa út af bólum milli augabrúnanna. Ekki bara venjulegum bólum, heldur hvítum bólum! Og ekki bara nokkrum hvítum bólum - heldur heilum helling! Stíflaðar svitaholur í massavís sem litu út eins og það væru litlir ormar að fara að skríða út úr höfðinu á mér. Svona eins og ég væri með njálg milli augnananna! Mér leið eins og ég væri að breytast í ógeðslegra afbrigði af Medúsu - skrímslasysturina úr grísku goðafræðinni sem var með snáka í stað hárs á höfðinu.


Ok - ég er kannski að færa aðeins í stílinn. En þetta var samt ljótt. Ég var ekki með þolinmæði í að bíða og sjá og ekki virtist vera hægt að kreista ormana fram. Ég brá því á það ráð að skrúbba og nudda - sem leiddi til þess að á ennið var komið flakandi sár, sem andstætt við njálginn var ekki hægt að meika yfir.

Frábært.

Ég mátti þó þakka fyrir að vera með topp sem huldi skelfinguna að hluta til en bölvaði því að vera nýbúin að klippa aðeins af honum. Hélt mig því innandyra mestalla helgina.

Held í kvöld svei mér þá að þetta sé að verða farið. Mig er farið að þyrsta í Operation Sumarfrí, sem átti að fara fram að miklu leyti utandyra eða á kaffihúsum miðborgarinnar. Sjáum hvað vikan ber í skauti sér.

27. jún. 2010

Sú íslenska

Ég fékk miða um lúguna á föstudaginn um að það biði mín erlend bréfasending. Er spennt að sækja pakkann á morgun því ég á ekki von á neinu en grunar að það sé mögulega sending frá Mr Big/Útlendingnum/Herra heila. Ætla svosem ekki að gera mér neinar vonir, hann er einmitt á fyrrgreindum bannlista.

Heyrði í honum í gær og þegar hann nefndi Sófí vinkonu sína á nafn í fjórða sinn þá fékk ég hnút í magann - hann er hrifinn af henni, ég finn það á mér. Sófí er tuttugogfimmára, vinnur hjá bókaforlagi, er áhugaleikkona og kemur fram sem uppistandari. Ákvað að segja ekki neitt, en fletti henni upp á facebook og hnúturinn stækkaði bara þegar ég sá hvað hún var sæt. Sem er fáránlegt, því það eru þrjú ÁR síðan við hættum saman, það ÉG sem vil ekki vera með honum (af góðum ástæðum) og mér þykir endalaust vænt um hann og vil að hann sé hamingjusamur.

Án þess að vita neitt um hvað sé á milli þeirra - þetta var bara tilfinning - áttaði ég mig á því að ég væri komin í hlutverk sem mér er mjög illa við. Útlenska fyrrverandi kærastan.

Þegar við vorum saman átti Mr. Big nefnilega í MJÖG góðum samskiptum við fyrrverandi kærusturnar sínar, þótt hann hafi ekki verið (svo ég viti til) að halda framhjá. Þá er ég að tala um sú frá Malasíu hringdi í hann reglulega til að grenja yfir einhverjum tilfinningakrísum (frá Malasíu), hann fór með þeirri þýsku í leikhús (á sýningar sem mig langaði til að sjá) og hann fékk Valentínusarkort frá þeirri kínversku. Þessi ítalska mætti í heimsókn í vinnuna til hans og þessi frá Kólumbíu hringdi full á nóttunni. Sú skoska var eini vinur hans á myspace og hann sagði mér frá undarlegum draumum sem hann átti um þá spænsku og þýsku númer 2. Það var helst sú kanadíska sem lét hann í friði.

Nú er ég ef til vill að verða sú íslenska sem hann sendir pakka á afmælisdaginn. Aumingja Sófí.

26. jún. 2010

Líffæra-lambada

Hjartað, heilinn, maginn og munnurinn eru fjögur skemmtileg líffæri sem búa saman inni í mér, en síður en svo í sátt og samlyndi. Svo virðist sem litla (eða stóra, eftir því hvernig á það er litið) hjartað mitt sé með gullfiskaminni. Þrátt fyrir hjartasorgir, grát og gnístran tanna er hjartað ótrúlega fljótt að gleyma því að það eru nokkrir menn á bannlista. Heilinn er aftur á móti mun minnugri (skiljanlega) og minnir hjartað reglulega á að A, B og C séu á bannlistanum af góðum ástæðum. Heilinn bendir hjartanu jafnframt á skynsamlegri kosti eins og X, Y og Z. Hjartað spyr magann þá ráða og þar sem X, Y og Z vekja ekki upp neinn magafiðring segir hjartað yfirleitt nei, sökum fyrri reynslu af mönnum sem vekja ekki upp téðan fiðring. Munnurinn greyið er viljalaust verkfæri sem fær misvísandi skilaboð og endar yfirleitt á því að segja (eða stundum sem verra er, kyssa) eitthvað út í bláinn við ranga menn á röngum tíma.

Um daginn hitti ég mann sem var efstur á bannlista og búinn að vera þar um nokkurt skeið. Hafði ekki hitt hann lengi og var búin að hugsa fram og til baka hvað ég ætlaði að segja ef ég myndi rekast á hann. En viti menn, hjartað tók kipp, maginn fór í arabastökk, heilinn fékk engu ráðið og ég endaði á því að stama út úr mér einhverri vitleysu sem var mjög langt frá því að vera kúl á því (reyndi seinna að bæta kúl-missinn upp með því að standa við hlið hans við barinn og þykjast ekki þekkja hann, mæli ekki með því).

Ég hitti hann nokkrum sinnum eftir þetta og þóttist ekki sjá viðvörunarljósin, sírenurnar og stopp-merkin sem aumingja heilinn reyndi að veifa fyrir framan nefið á mér. Maginn og munnurinn voru í góðu partýi og engin ástæða til að binda endi á það. Sem betur fer tókst að þessu sinni að koma í veg fyrir að hjartað dytti fram af bjargbrún án fallhlífar en það hruflaði sig samt aðeins eftir þessa törn. Hef ekki hitt hann í svolítinn tíma núna en á vafalaust eftir að rekast á hann fyrr eða síðar aftur og þá þarf ég helst að vera undirbúin.

Að þessu sinni er ég með sálfræðilega hernaðaráætlun, svokallaða óbeitarskilyrðingu. Ég þarf að reyna að tengja hann við eitthvað slæmt, og þá meina ég líkamlega slæmt, eitthvað sem veldur ógleði til dæmis. Ef ég get fengið magann í lið með mér er stríðið unnið. Veit um vinkonu sem gerði þetta með góðum árangri - hún ímyndaði sér afar sterkt að gæinn sem hún var að reyna að hætta að vera hrifin af væri illa lyktandi og finnur núna alltaf pissulykt þegar hann er nálægt!

Mikið vildi ég samt óska að það væri fleira í lífinu sem er bæði skemmtilegt og gott fyrir mann, hvort sem það er smjör og rjómi eða sætir strákar.

25. jún. 2010

Fertugsaldurinn - fyrsti sólarhringurinn

Afmælisdagurinn búinn og annar í afmæli að kvöldi kominn svo það er ekki laust við að það sé aðeins að leka úr manni loftið, sem og úr helíumblöðrunum sem ég keypti fyrir veisluna. Skil nú samt ekki hvernig viðmiðið getur verið að það komist 30 blöðrur í fólksbíl, ég var í stökustu vandræðum með að koma 18 blöðrum inn í bílinn (en vegfarendur skemmtu sér aftur á móti konunglega við aðfarirnar).

Veislan var algjör draumur í dós, grilluð garðveisla með sjóræningjaívafi. Af um 50 fullorðnum og 20 börnum mættu að minnsta kosti 15 sjóræningjar, einn kúreki og einn indíáni :) Ef ég hefði ekki verið svona spennt hefði ég verið hágrátandi allt kvöldið yfir því hvað ég á gjörsamlega ótrúlega yndislega fjölskyldu og vini og hvað ég er ofsa glöð og þakklát fyrir það. Ég held að sambönd mín við Selfoss (Veðurguðirnir), sætustu veðurfréttaskvísuna í bænum og starfsmannastjóra Veðurstofunnar hafi stuðlað að því hvað ég var einstaklega heppin með veður, þetta hefði orðið töluvert öðruvísi dagur í grenjandi rigningu eins og var í dag. En stundum gengur allt upp eins og maður hefði óskað sér og það var svei mér þá svoleiðis dagur í gær.

Bauð nokkrum fyrrverandi flames og kærustum enda allt í góðu og langur tími síðan og lítið land og allt það. Menntaskólakærastinn sendi mér reyndar sms og spurði hvort ég hefði nokkuð boðið sér óvart :) Sem var ekki, ég var glöð að fá hann í veisluna en ég er ekki viss um að ég hefði boðið honum ef ég hefði ekki verið í svona ofsa miklu hamingjustuði þegar ég bauð, var búin að bjóða 130 facebook vinum þegar ég þurfti að hætta... hefði viljað bjóða öllum sem ég þekki en það hefði líklega ekki verið skynsamlegt.

Ég hafði ekki almennilega tíma til að skoða gjafirnar fyrr en í morgun og mér eiginlega brá, þær voru svo flottar. Er núna vel útbúin til ferðalaga í gönguskóm og cintamani peysu, svo fékk ég frábæra blöndu af alls konar frábæru eins og æðislegt skvísudót, gjafabréf, bækur, vín, súkkulaði, kaffi, rúmföt, málverk, inneign í ísbúð og gEggjaðan eggjaskera! svo ég telji nú bara upp sumt.

Í miðri veislunni birtist síðan eldri maður með ofsalega fallegan rósavönd og rétti mér. Gat engan veginn komið honum fyrir mig og fékk flassbakk í ferminguna mína þegar það mætti nokkuð af af eldra fólki sem ég þekkti ekki neitt sem kleip í kinnarnar á mér og óskaði mér til hamingju. Fannst þó skrýtið að mamma og pabbi hefðu boðið einhverjum fjarskyldum frænda í veisluna án þess að láta mig vita. Vildi samt ekki vera dónaleg og heilsaði manninum kumpánlega. Hann rétti mér vöndinn og sagðist hafa átt að koma honum til skila frá Dögg í Hafnarfirði. Ekki var það betra, ég þekki enga einustu Dögg og þekki bara mjög fáa í Hafnarfirði yfirhöfuð. Ætlaði að fara að segja að hann hefði farið mannavillt en því var svo hvíslað að mér að það væri nafnið á blómabúð - þetta var þá frá vini mínum sem komst ekki í veisluna. Varð alveg extra glöð að fá blóm frá karlmanni, veit að það er algjör klisja en mér finnst það samt voða gaman.

Annars held ég að það hafi ekkert breyst við að verða þrítug nema hvað ég var heldur skynsöm svona seinni part kvölds þegar fjör fór að færast í leikinn. Það er ekki alltaf gaman meðan á því stendur en gleðilegra daginn eftir aftur á móti. Mjög fullorðins. Það er því eitt núll fyrir fullorðnu frökeninni á móti hvatvísa táningnum.

24. jún. 2010

Afmæli XXX

Þeir sem þekkja mig vita að ég elska afmæli. Öll afmæli og ekki síst mitt eigið, ég meina hvað er stórkostlegra en að hafa heilan dag þar sem fólk óskar þér til hamingju bara fyrir að vera til! Vinir koma í heimsókn, kaka, pakkar og blöðrur... what's not to like?

Þótt ég fagni þessum degi árlega var ég sérstaklega búin að hlakka til dagsins í dag þar sem það er stórafmæli og þeim hef ég ávallt (tvisvar áður) fagnað með húllumhæi. Er búin að fagna og fylgjast með meirihluta vina og kunningja ná þessum áfanga á undanförnum árum og loksins er röðin komin að mér.

Það kom mér þess vegna að óvörum þegar ég fór að verða pínulítið blúsuð þegar þrítugsafmælið nálgaðist. Gat samt ekki sett fingur á hvers vegna. Velti því fyrir mér hvort það sé af því að einkahagir mínir séu ekki þeir sem ég spáði fyrir um fyrir tíu árum síðan. Fór í kokteilboð í fyrradag þar sem kona á sjötugsaldri sem ég kannast við spurði hvort ég ætti mann og börn. Nei, svaraði ég glaðlega og ég sá að hún varð hissa. Já já, það er líka allt í lagi sagði hún. En hún sagði þetta nú samt eins og það væri bara alls ekkert í lagi. Ég forðaði mér úr boðinu og velti því fyrir mér hvort ég væri eitthvað að misskilja, hvort það væri ekki í góðu lagi að vera einhleyp og barnlaus "komin á þennan aldur" . Því vissulega var þetta á to-do listanum fyrir þrítugt. Ásamt ýmsu öðru sem hefur ekki gengið eftir eins og að kaupa íbúð, skrifa bók og hefja doktorsnám. En ýmislegt annað hef ég þó afrekað, bæði sem var á to-do listanum og því sem var alls ekki á to-do listanum - og það seinna var eiginlega miklu áhugaverðara og ánægjulegra :)

Held þó að þrítugsblúsinn sé miklu meira tengdur einhverjum Peter-Pan fantasíum (nei ekki kynferðislegum!), að langa ekki til að verða stór. Og þegar maður er þrítugur, kominn á fertugsaldur þá hlýtur maður opinberlega að vera orðinn fullorðinn. Andvarp. Þegar ég velti þessu fyrir mér þá man ég óljóst eftir mjög svipaðri pælingu og tilfinningu í kringum tvítugsafmælið mitt. Ég var ekki lengur táningur, ég var fullorðin. En viti menn, mér hefur ekki fundist ég vera sérstaklega fullorðin síðustu tíu árin. Og finnst ég ekkert sérstaklega breytt í dag.

Vinur minn benti mér á um daginn að tæknilega hæfist ekki næsti áratugur lífs míns fyrr en ég væri orðin 31, alveg eins og nýtt árþúsund hófst ekki fyrr en um áramótin 2000/2001 samkvæmt pabba stærðfræðingi og öðrum fróðum mönnum. Þetta ár er því ákveðið limbó. Ég hef ákveðið að dokúmentera (hvað er fallegt íslenskt orð yfir það? skrásetja?) þetta ár vel og vandlega. Stefnan er að blogga eitthvað daglega næsta árið. Það kemur þá í ljós hvort ég fullorðnist (ég gæti til dæmis lært að prjóna eins og allir virðast kunna þessa dagana) eða hverfi aftur til táningsáranna (ég gæti til dæmis látið húðflúra á mér eyrað eins og Miley Cyrus).

Þetta verður ekki lengra að sinni, enda þarf ég að undirbúa sjóræningjaveislu og er ekki enn búin að finna mér páfagauk til að hafa á öxlinni.

Til hamingju ég! Megi næsta ár verða örlagaríkt og ævintýralegt - þá er svo miklu skemmtilegra að blogga :)