25. okt. 2007

Barnið er með barni!

Ég er ekki komin aftur í bloggham en er búin að ætla að skrifa færslu með þessum titli í marga mánuði... og ekki seinna vænna því Barnið á von á sér á morgun! Fæðingin verður að minnsta kosti sett í gang á morgun en þetta getur víst tekið smá tíma. Þar sem ég hef lengi kallað hana (elsku uppáhalds systur mína) Barnið (sem hún er ekki hrifin af) veit ég ekki alveg hvað ég á að kalla barn Barnsins. BarnaBarnið myndi misskiljast því ég er að fara að verða móðursystir en ekki amma. Reyndar hef ég tekið upp á því að kalla Barnið Fósturhýsilinn nú á meðgöngunni en það hefur heldur ekki fallið í góðan jarðveg. Annars líst nér vel á að kalla ungann Krullið svona fyrst um sinn eins og foreldrarnir gera nú enda báðir fagurlega hrokkinhærðir með eindæmum.

Þetta verður semsagt viðburðarrík helgi, fyrir utan Krullfæðinguna er ég að fara að útskrifast enn einu sinni (fjórða útskriftin á sex árum) og pabbi líka. Stuð.

Annars getur vel verið að ég taki upp bloggið aftur, það er ágætt að fá smá útrás öðru hvoru en það er líklegt að ég færi mig aftur á gamla bloggið eða fái mér lokað blogg.

Óver and out í bili.