24. des. 2006

Gleðileg jól!


Gleðileg jól, elsku vinir og óvinir, nær sem fjær. Vona að þið njótið hátíðanna og látið ykkur líða vel. Jólin rúla!

21. des. 2006

Þegar Trölli stal jólunum



Í dag mun ég hefja leit að anda jólanna þar sem hann virðist vera týndur og tröllum gefinn. Ég var komin í afskaplega mikið jólaskap fyrir nokkrum vikum, setti upp jólatré, bakaði sörur með Bryn, fékk síðan kennslu í að gera sörur með mömmu (hefði líklega að vera betra að fá hana fyrst)... En síðan þurfti ég að sökkva mér niður i verkefni og ritgerðir og þótt ég sé í London þá hef ég ekkert gert nema læra!

Í dag verður hins vegar breyting á, enda ekki seinna vænna. Ég ætla út í rauðu kápunni minni að kaupa jólagjafir á Oxford Stræti. Að sjálfsögðu með i-podinn á fullu. Þannig losna ég við allan hávaðann og get ímyndað mér að ég sé Natalie í Love Actually. Það er nefnilega merkilegt hvað tónlist gerir mikið fyrir stemninguna - já ég veit, ekkert sem kemur á óvart en samt. Ég tók eiginlega ekki almennilega eftir þessu fyrr en ég horfði á (stolna) kvikmynd þar sem tónlistina vantaði óvart. Ég var í fyrsta sinn með i-podinn í lestinni í vikunni og það var bara allt önnur stemning. Ég lifði mig bara inn í litlu kvikmyndina mína - og þá var líka svo gaman að horfa á fólkið í lestinni og velja hverjir ættu að vera aukaleikarar. En það var ekki jafn gaman þegar fólk tók eftir að ég var að horfa á það og annað hvort forðaði sér eða starði óhugnalega fast á móti. Úps.

8. des. 2006

Forboðna eplið

Jæja þá er komið að annarri dæmisögu.

Ég fór í 10-11 í morgun og keypti sitt lítið af hverju í nesti. Labbaði út og uppgötvaði stuttu seinna að ég hefði gleymt að borga fyrir eplið sem ég hélt á.

Nú voru góð ráð dýr. Átti ég að fara til baka og leiðrétta mistökin eða ekki? Mér finnst 10-11 vera algjör okurbúlla sem hefur eignast allt of mikið af peningunum mínum (eða af peniningum bankans það er að segja). Mér finnst matvöruverð vera of hátt á Íslandi og sérstaklega af ávöxtum og grænmeti. Ég er ekkert löghlýðnari en gengur og gerist og er yfirleitt ekkert að leiðrétta það ef ég fæ of mikið til baka í matvöruverslunum (það gerist reyndar oftar að ég borga of mikið). Það tók enginn eftir þessu og starfsmanninum var örugglega nákvæmlega sama.

Svo var þetta bara eitt epli, óviljaverk og ég komin út úr búðinni. Eplið var stórt og fallegt og safaríkt og það hafði tekið mig langan tíma að velja það og ég var hvort eð er ekki með klink til að borga fyrir það ef ég færi til baka.

Hins vegar er það bara þannig að það er ljótt að stela. Sama hversu lítið það er. Litli engillinn og púkinn rökræddu þarna á öxlinni á mér og úr varð að ég fór til baka og skilaði eplinu.

Held að mér hafi fundist samlíkingin við ákveðna Biblíusögu aðeins of sterk. Er kannski ekkert sérlega trúrækin en það eru að koma jól og svona. Og þá á maður að vera góður. Mig langar nefnilega ekkert í kartöflu í skóinn. Mig langar í epli.

7. des. 2006

Bakstur og brúðkaup

Sá risastóran nýjan fæðingarblett á bringunni þegar ég var að bursta tennurnar á þriðjudagskvöld. Hörmungarhugsunin fór strax í gang og ég var strax komin í geislameðferð í huganum og farin að velta fyrir mér hvað þetta yrði stórt ör. Nema hvað þegar betur var að gáð þá var þetta Nóa Síríus Konsum suðusúkkulaði... við Brynja vorum nebblega í sörubakstri um kvöldið. Og það fór súkkulaði út um allt. Þær eru ekkert sérlega fallegar greyin, myndi ekki senda þær í America's Next Top Cookie, en alveg ágætar á bragðið. Namminamm.

Annars var verið að bjóða mér í brúðkaup til New York í mars, vei vei vei! Vona að ég geti farið. Það er svo mikið af skemmtilegu fólki í New York. Má samt ekki segja hver er að fara að gifta sig á netinu þannig að það verður bara að vera leyndó. Kannski er ég að fara í leynilegt brúðkaup hjá fræga fólkinu, hver veit.

1. des. 2006

Hin eina sanna Sólrún?

Var að lesa mjög skemmtilegan tölvupóst á færeysku frá Rósalind nokkurri sem innihélt ferðasögu og myndir frá Kenía. Áttaði mig þó fljótlega á því að pósturinn væri sennilega ætlaður einhverri nöfnu minni.

Mér fannst nefnilega svo sniðugt þegar Gjemeil var að komast á laggirnar að fá mér netfangið solrun (hjá) gmail.com. Að ég væri bara "the one and only" Sólrún, ekkert lengur solrunla eða solrunl eða solrunosk eins og netföngin mín hafa gjarnan verið gegnum tíðina.

Þetta hefur síðan haft þær (ef til vill fyrirsjáanlegu) afleiðingar í för með mér að mér berst póstur ætlaður hinum og þessum Sólrúnum. Og það eru víst Sólrúnir víðar en á Íslandi.

Ég hef fengið ótal áframsenda brandara, fundargerðir og ýmis einkabréf, trúlofunarmyndir frá Noregi, myndir af nýfæddu barni í Danmörku og svona mætti lengi telja. Mjög skemmtilegt.

Ég þakkaði samt Rósalind fyrir kveðjuna. Enda alltaf gaman að fá skemmtileg bréf. Kannski heppin að þessu leyti að heita ekki María (sem mér finnst reyndar mjög fallegt og ein besta vinkona mín ber það nafn) því það er eitt algengasta nafnið á Vesturlöndum, í ýmsum útgáfum reyndar. Sjaldgæfara samt á Íslandi, í 17. sæti. Mary er algengasta kvenmannsnafnið í Bandaríkjunum og bera um 3% kvenna nafnið og tæp 30% spænskra kvenna heita Maria! Ég ætti kannski að senda eins og einn póst á Maria (hjá) gmail. com, bara upp á grín?

Þess má geta að samkvæmt þjóðskrá heita 393 konur Sólrún. Nógu algengt til að ég geti fengið lyklakippur með nafninu mínu á og svona sem mér finnst voða gaman (nei ég á þrjár, þarf ekki fleiri en takk samt). Saknaði þess samt í Bretlandi að heita ekki alþjóðlegra nafni. Ekki framleiddir sleikipinnar eða bolir eða könnur eða barmmerki með nafninu mínu á þar. Onei.

Enda þóttist ég heita Sue Lawrence í nokkra mánuði þarna í dúskadeildinni forðum daga. Auðveldara að panta pitsu og svona. Hundleiðinlegt að heita Sue samt. Þótt það hafi verið auðveldara að finna nafnalyklakippur.

Annars er þetta orðið heldur langt blogg þannig að ég kveð að sinni.

24. nóv. 2006

Arg!

Ég hef ekki tíma til að vera veik :(

19. nóv. 2006

Sætasta kanína í heimi




Rúsína er semsagt komin með YouTube síðu . Það er reyndar Útlendingurinn sem stendur á bak við þetta en ekki ég...

Næstsætasta kanína í heimi

Þetta er ótrúlega krúttleg og kelin kanína...

Og það varð ljós

Nú er ég búin að búa á Reykjavíkurveginum í tæp tvö ár. Í sumar lenti ég í því að ljósið í eldhúsinu bilaði. Og nei, það þurfti ekki bara að skipta um peru (ég reyndi það). Ég fékk rafmagnsverkfræðing til að kíkja á þetta og hún sá ekki að neitt væri augljóslega að. Jæja þannig að þegar fór að dimma í haust lenti ég í vandræðum og ákvað að í stað þess að fá rafvirkja væri ódýrara að kaupa lampa í eldhúsið. Svo var eitthvað vesen með það, hvar átti lampinn að vera, hvar gat ég stungið honum í samband, var með vitlausa peru í honum og fleira. Var svo loksins komin með þetta allt á hreint í síðustu viku og nýbúin að kaupa rétta peru í lampann þegar ég rek seríós pakka utan í innréttinguna (svona undir eldhússkápana). Allt í einu kviknar þetta dýrindis ljós! Það er semsagt annað ljós í eldhúsinu mínu, svona eftir innréttingunni endilangri sem er miklu betra heldur en gamla ljósið var sem bilaði. Soldið sein að fatta.

Önnur æsispennandi færsla eða þannig. Ekki skrýtið þótt maður hafi verið í bloggpásu!

16. nóv. 2006

Slef





Þessi grein útlistar nákvæmlega af hverju Josh Holloway/Sawyer er svona hot þannig að ég þarf ekki að gera það. Ahhh....

Kringluferð

Fór í Kringluna í dag í fyrsta sinn í laaangan tíma og það var bara fínt. Fékk útrás fyrir mína innri eyðslukló í Tiger og keypti jóladót og skemmtilegheit fyrir voða lítinn pening. Gekk svo frá ýmsum málum hjá Símanum svona til að reyna að spara pening og keypti batterí í brunaboðann þannig að samviskan er tandurhrein eftir þessa ferð. Eina sem pirraði mig voru hrægammarnir fyrir utan KBbanka sem hrópa á eftir manni einhver slagorð til að reyna að fá mann í viðbótarlífeyrissparnað eða hvað það nú er. Mér finnst það eitthvað svo óþægilegt þannig að ég tók á mig risakrók til að komast úr einum enda kringlunnar yfir í hinn. Frekar hallærislegt.

Mikið var þetta nú spennandi færsla eða þannig.

14. nóv. 2006

Bloggpása hvað?

Er búin að blogga svona milljón sinnum í huganum (kannast ekki einhver við það)? en fékk núna skyndilega yfirþyrmandi löngun til að blogga svona "í alvöru". Samt um ekki neitt. Á maður annars ekki að nýta tækifærið á meðan maður er enn nemi og láta allt flakka á opnu bloggi? Hef reyndar séð nokkur blogg kennara og sálfræðinga og þau eru bara alveg passlega persónuleg og skemmtileg. Annars er fínt að fara í bloggpásu, þá hættir fólk að lesa bloggið og maður getur skrifað bull óáreittur í smá tíma :)

Ég er annars farin að telja niður dagana til jóla. Réttara sagt til 16. desember en þá fer ég til Útlendingsins í heimsókn. Þá verða komnir 105 dagar síðan við sáumst síðast, sem er það lengsta í tveggja ára fjarbúðarsögu okkar (og sem er auðvitað fáránlega langt). En fjarlægðin gerir fjöllin blá og símareikningana háa. Held að málið sé að skype-væðast sem fyrst, auðvitað hneyksli að ég sé ekki með nettengingu heima hjá mér.

Jæja, ætli málið sé ekki að blogga oftar og minna í staðinn fyrir að missa sig alveg í að telja upp allt sem á dagana hefur drifið. Segjum það.

9. júl. 2006

Heima er best?


Nú þarf ég að kveðja Útlendinginn enn á ný eftir heilar sjö vikur í Útlandinu. Og eins og alltaf er svo skrýtið hvað tíminn líður hratt. Er ekki að höndla þessa togstreitu - bæði hlakka ég til að koma heim og knúsa kanínuna (og alla hina :o)) og byrja í sumarvinnunni en mér finnst líka leiðinlegt að fríið (og væntalega sólin) sé búið og auðvitað alveg ömurlegt að verða Útlendingslaus :o(

6. júl. 2006

Fórum á Science Museum



...og sáum alls konar skemmtilegheit, fórum meðal annars í þrívíddarbíó sem ég hef ekki gert síðan ég var lítil (man eftir að hafa séð mynd með Michael Jackson fyrir mööörgun árum síðan). Þessi var reyndar neðansjávar og það var mjög róandi að hafa risaskjaldbökur syndandi í kringum sig þannig að ég sofnaði í smástund...

Europride


...var líka 1. júlí! Við fórum í útileikhús í Regents Park að sjá Skassið tamið (Taming of the Shrew) eftir Shakespeare en það var bara aaaaaallt of heitt svo við fórum út í hléi! Hef aldrei gert það áður :o/ en var bara ekki að meika þetta! Notaði Íslendingaafsökunina svo enginn yrði fúll ("við erum bara ekki vön svona hita") en Útlendingurinn var reyndar bara sáttur því við náðum að sjá England/Portúgal í HM. Reyndar ekki mikil gleði eftir þann leik...

Díana prinsessa hefði orðið 45 ára


... þann 1. júlí, eins og við komumst að þegar við röltum um í Kensington garði og ætluðum að skoða Kensington Palace.

Ragna kom í heimsókn


Vei vei vei! Og nú er hún á grískri eyju að sóla sig....grrr.... ;)

Mamma kom í heimsókn


... og það var æðislegt að hafa hana! Við röltum um, versluðum, skoðuðum en best af öllu var frábær dagsferð til Brighton sem endaði á hinu víðfræga Mongolian Barbeque :)

Ég átti afmæli


...24. júní og varð 26 ára! Við buðum tveimur vinum okkar í heimsókn til að gista, Það er að segja Útlendingurinn bauð vini sínum og ég bauð vinkonu minni - nema hvað þau voru einu sinni par og hættu saman fyrir tæpum tveimur árum og höfðu ekki talað saman síðan! Og það er bara einbreitt rúm í gestaherberginu... Þetta plott okkar, sem var reyndar óvart, gekk því miður ekki alveg upp. Held að hann sé ennþá hrifin af henni en er ekki viss um að það sé endurgoldið. Jæja, en burtséð frá því þá var hápunkturinn Art Garfunkel útitónleikar og piknikk á Hampstead Heath með Sveinu og Hákoni og co., það var yndislega æðislega gaman.

Hvað er búið að gerast síðan ég bloggaði síðast....

23. jún. 2006

Ferðasagan









Það var æðislegt í Köben hjá litlu sis síðustu helgi.
Föstudagur: Komum á föstudagseftirmiðdegi, settum töskurnar í geymslu á Höfuðbanagarðinum og röltum niður á Nyhavn. Fengum okkur rándýran en afar góðan bjór við höfnina og Barnið grillaði fyrir okkur rooosalega góðan mat um kvöldið.
Laugardagur: Fórum á Carlsberg safnið á laugardagsmorgun, síðan á 17. júní hátíðina á Amager, á Ripleys safnið, borðuðum hamborgara í alvöru Sporvagni á Grábræðratorgi og fórum svo í Tívolí, vei! Ég "vann" lyklakippu og keypti mér snuð í tilefni dagsins og var hæstánægð. Síðan gerðum við tilraun til að horfa á mynd um kvöldið, ég var yfirklórari (er sérlega fær í höfuðklóri) og bæði Barnið og Útlendingurinn sofnuðu í fanginu á mér. Voða sætt.
Summudagur: Okkur var boðið í hádegismat hjá Stellu og Kristni sem var alveg frábært, gaman að sjá þau (og Jón og Louisu auðvitað), ljúffengar bollur og ekta pönnsur! við rákumst svo aftur á þau á mánudeginum á Strikinu af tilviljun :) Við Útlendingurinn fórum svo á Löngulínu að skoða litlu hafmeyjuna. Hún var í stuði eins og venjulega, heyrði samt að Íslendingarnir (og örugglega fleiri) á svæðinu voru að vonast eftir einhverju öðru, ég heyrði einhvern gala "Vorum við að labba í þrjá tíma fyrir þetta?!". Síðan röltum við gegnum fullt af görðum og skoðuðum skjaldbökur en gleymdum því miður Amalíuborg. Svo var það Bollusafnið og að lokum ekta danskt á Litla Apótekinu.
Mánudagur: Sváfum endalaust lengi, föttuðum að flest söfn væru lokuð á mánudögum, fengum okkur smurbrauð í bænum og röltum kringum Planetariumið. Flug klukkan sjö, komin heim klukkan 22:00.

Semsagt frábær ferð. Skemmtilegast að keyra með Barninu og Lindu (GPS tækinu) sem sagði til dæmis "turn right in 300 metres", ég er alveg glötuð í að meta svona fjarlægðir! Aldís og Linda stóðu sig ótrúlega vel í ratleiknum um borgina, litla systir er orðin svo fullorðin! Ég tek samt smá forskot á hana á morgun, tuttugogsex takk fyrir...

21. jún. 2006

Fimmtugur


Elsku pabbi minn er 50 ára í dag! Hann verður nákvæmlega helmingi eldri en ég þangað til á laugardaginn en þá fer ég að saxa á hann. Til hamingju pabbi :)

15. jún. 2006

Kópenhagen

Við erum að fara til Köben á morgun að heimsækja Barnið (og hafmeyjuna nottlega) trallararallaraaa....

Ég er búin að taka að mér að skipuleggja ferðina, Útlendingurinn hefur aldrei komið til Danmerkur þannig að mér er mikið í mun að við skoðum sem mest á sem stystum tíma. Er búin að kaupa ferðamannabók og alles og er að nota Google Spreadsheets til að plana helgina frá A til Ö (réttara sagt A-Z þar sem þetta er á ensku).

Hef samt rekið mig á það að ég er alls ekki sammála þessari ferðamannabók! Bókin talar um hin og þessi listasöfn á meðan Ripley's believe it or not er uppáhalds safnið mitt(en fær núll stjörnur í umræddri bók). Ýmsir veitingastaðir eru rómaðir en ég hlakka mest til að fá mér rautt sódavatn og franska pulsu. Farið er fögrum orðum um danska hönnun en ég vil bara fara í H&M á Strikinu og bera saman London vs. Köben! Mín upplifun af Kaupmannahöfn litast kannski af rósrauðum æskuminningum (sérstaklega ferð JARÚNar 1995 :-D ) en ég ætla nú bara samt að skoða það sem ég vil skoða. Þarf bara að passa að Útlendingurinn komist ekki í bókina og heimti að fara í kastalaskoðunarferðir... ;-)

13. jún. 2006

Tvöföld skilaboð

Var að horfa á Opruh í gær þar sem umfjöllunarefnið var sjálfsmynd ungra stúlkna og jafnvel barna. Þarna var verið að sýna stelpur allt niður í þriggja, fjögurra ára sem höfðu áhyggjur af útlitinu og verið að benda á að mömmurnar væru alltaf að tala um hvað þær væru ljótar og feitar fyrir framan börnin. Svo hófust þessar dæmigerðu umræður um áhrif og þrýsting fjölmiðla og hvað væri hægt að gera. Allt í lagi með það nema hvað í auglýsingahléinu var helsta auglýsingin frá fyrirtækinu Transform sem sérhæfir sig í fitusogi og öðrum lýtalækningum sem munu "breyta lífi þínu til hins betra". Síðan komu fleiri spjallþættir sem ég sá með öðru auganu, margir að tala um e-ð svipað, óléttar unglingsstúlkur með lélegt sjálfsálit og þess háttar - og alltaf komu svipaðar auglýsingar, mynd af óánægðri konu sem var svo sýnd brosandi með stærri brjóst. "Feel bad abour yourself? Change your life, have plastic surgery!" Örugglega rétti auglýsingatíminn fyrir þeirra markhóp en mér fannst þetta samt einhvern veginn öfugsnúið og pínu sorglegt. Er ekki á móti lýtaaðgerðum í sjálfu sér en finnst þær ekki endilega vera rétta lausnin við lélegu sjálfsmati, enda voru stelpurnar í þáttunum alveg gullfallegar þótt þær væru grenjandi yfir hvað þær væru ljótar. Þekki reyndar lýtalækni sem heldur því fram að Botox sé langbesta lausnin við þunglyndi en það er önnur saga...

Mér fannst sjálfri hálfskondið um daginn að hlusta á samtal nokkurra múslimakvenna um hvort þær væru feitar eða ekki. "Hún sagði að ég væri feit" sagði ein. "Þú ert sko ekki feit", sagði önnur, "ég myndi segja þér ef þú værir feit". Mér fannst þær vera í svo stórum og víðum kuflum að það væri ekki á nokkurn hátt hægt að segja til um vaxtarlag þeirra. En "feit og ljót" er víst áhyggjuefni kvenna um allan heim.

Ég ákvað í gær að njóta þess að vera nafnlaus í stórborginni og skundaði út í Marks og Spencers að kaupa mjólk rétt fyrir lokun í feituljótu náttfötunum mínum - og var næstum því alveg sama :)

Fótboltamanía



Geri ráð fyrir að HM í fótbolta hafi ekki farið framhjá neinum. Fréttir eins og þessi eru til dæmis algjör snilld.

Þeir eru alveg svakalega æstir yfir þessu Englendingarnir, annar hver bíll með enska fánann út um gluggann, flestir pöbbar og veitingastaðir með HM tilboð og risaskjái og svo virðist sem hver einasta búð selji HM varning - ég keypti Englands derhúfuna mína í bókabúð. Í fréttunum er svo ekki talað um annað en hvort Wayne Rooney verði búinn að jafna sig að meiðslum eða ekki. Í síðustu viku fór allt að helmingur hvers fréttatíma í þess háttar pælingar, viðtöl við alla sem gætu mögulega haft skoðun á málinu, myndir af Rooney þar sem hann var að fara að hitta lækninn og ég veit ekki hvað og hvað. Nú er spurningin víst ekki hvort heldur hvenær hann spilar. Mikið drama.

Okkur var boðið í heimsókn að horfa á fyrsta leik Englendinga á laugardaginn til vinar Útlendingsins. Á leiðinni mátti alls staðar sjá æsta Englendinga með fánaskikkjur, andlitsmálningu og sumir búnir að lita á sér hárið í fánalitunum. Vinurinn bauð um 20 vinum og kunningjum heim til sín að horfa á leikinn á risaskjá með sérstökum innbyggðum hátölurum í lofti og veggjum og ég veit ekki hvað og hvað. Svo er hann nýkominn með HD, high definition skarpari mynd dæmi og gat ekki hætt að dásama kosti þess. Mér fannst bara hálf ógnvekjandi að geta séð hvern einasta svitadropa á enninu á Beckham og held að ég haldi mig bara við 14 tommu fermingjarsjónvarpið mitt í bili.


Ég upplifði hálfgerða íslenska júróvisjónstemningu í þessu fótboltapartýi. Allir svo handvissir um að England muni sigra HM eða að minnsta kosti komast í úrslit. "Við erum laaaangbestir, miklu betri en Þýskaland og getum alveg unnið Brasilíu á góðum degi". Svo átti að "rústa" Paragvæ með "að minnsta kosti 5 mörkum". En þetta eina mark leiksins var sjálfsmark Paragvæ á 4. mínútu og hálfdauft í Englendingunum eftir það. Greyin. En Rooney er markakóngurinn þannig að þeir eiga vonandi eftir að taka sig á.

Sjálf fylgist ég grannt með liði Ítalíu enda er leikmaður 11 (Alberto Gilardino) ansi snotur og snoppufríður eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Hitamál

Í gær var heitasti dagur ársins í London og að mér skilst heitasti 12. júní í sögu hitamælinga í Bretlandi: 32,3 °C

Allt of heitt fyrir mig. Fínt að sitja í skugganum í Hyde Park og lesa en á kvöldin finnst mér hitinn ómögulegur þessa dagana. Get ekki sofnað í svona hita. Við erum reyndar með riiisastóra viftu í svefnherberginu en það er bara svo mikill hávaði í henni. Þannig að ég reyni að hafa kveikt á viftunni þangað til ég er aaalveg að sofna, slekk svo á henni og reyni að sofna áður en hitinn verður aftur óbærilegur - sem gengur ekkert allt of vel.

Hmmm... maður á kannski ekki að vera að kvarta yfir svona? :)

9. jún. 2006

Veggfóður


Það hefur einhver brotist inn í tölvuna mína og skipt út myndinni af Sawyer/Josh Holloway. Útlendingurinn er sterklega grunaður... enda blasir nú við flennistór mynd af honum þegar græjan er ræst :o)

Annars virðast deyfilyfin vera farin að hafa einhver áhrif. Ég lít björtum augum á kjálkapínuna og lít á þetta sem tækifæri... til að prófa allar helstu bragðtegundir Ben&Jerry's.

7. jún. 2006

Læknisráð

Fór til læknisins núna síðdegis sem tókst með herkjum að skoða upp í mig. Horfði beint í augun á mér og sagði ”It’s bad. It’s very bad”. Skrifaði svo upp á tvær tegundir af verkjalyfjum og pensillín. Þvílík hamingja að hitta einhvern sem skilur mig og ætlar að lina þjáningar mínar! Ég varð svo glöð að ég bókstaflega hoppaði í fangið á honum sem var kannski ekkert sérstaklega vinsælt en whatever, nú bíð ég bara spennt eftir að lyfjakokkteillinn geri sitt gagn.

Læknisráð

Fór til læknisins núna síðdegis sem tókst með herkjum að skoða upp í mig. Horfði beint í augun á mér og sagði ”It’s bad. It’s very bad”. Skrifaði svo upp á tvær tegundir af verkjalyfjum og pensillín. Þvílík hamingja að hitta einhvern sem skilur mig og ætlar að lina þjáningar mínar! Ég varð svo glöð að ég bókstaflega hoppaði í fangið á honum sem var kannski ekkert sérstaklega vinsælt en whatever, nú bíð ég bara spennt eftir að lyfjakokkteillinn geri sitt gagn.

Illskeyttir endajaxlar

Ætlaði að skrifa langt blogg um atburði undanfarinna daga en nú kemst ekkert að hjá mér nema tannpína. Ég er nefnilega með seinþroska tennur og endajaxlarnir mínir eru rétt að byrja að koma í ljós. Finnst þeir sjálfri vera eitthvað undarlegir í laginu, þeir vaxa þvers á kruss á hinar tennurnar og mér sýnist bara alls ekki vera pláss fyrir þessar frekjur uppi í mér. Fór til tannlæknis fyrir nokkrum vikum sem tók myndir og fullvissaði mig um að allt væri í lagi og að ég ætti bara að koma aftur eftir ár. Nema hvað nú er ekkert nema kvöl og pína í einum jaxlinum, held að þetta sé allt stokkbólgið, sársauki í kjálka og koki og get ekki opnað munninn nema til hálfs. Hringdi í tannsa og var sagt að taka bólgueyðandi og fúkkalyf ef þetta versnaði. Sem það gerði! Hef aðallega huggað mig við það að lesa á netinu að þetta sé allt saman eðlilegt, það lenda víst margir í þessu, gaman að lesa hvað það hafa margir bloggað um endajaxlana sína. Þetta eru reyndar aðallega hryllingssögur af því þegar þeir eru teknir úr en það er seinni tíma vandamál... Er semsagt búin að vera að bryðja sterkar bólgueyðandi í gríð og erg sem mér finnst lítið hjálpa nema hvað ég er hálfdösuð þannig að ætla til læknis á eftir. Þýðir að ég held lítið að fara til tannlæknis hér, ég get ekki opnað munninn nógu mikið til að hægt sé að sjá neitt! Ætlaði til dæmis að fá mér frostpinna í gær en kom honum ekki upp í mig þannig að var eins og kettlingur að sleikja hanm þangaði til hann bráðnaði allur yfir mig. Þá er bara að lifa á Starbucks frappuchino...mmmmm....

4. jún. 2006

Brighton


Í gær fórum við í dagsferð í gamla heimabæinn Brighton. Í fyrsta sinn í laaaangan tíma var spáð sól og góðu veðri og það gekk eftir. Þannig að við röltum um allar helstu götur bæjarins, dýfðum tánum í sjóinn og fengum okkur lúr í almenningsgarði við furðulegan jazz undileik. Rákumst meira að segja á nokkra vini sem áttu einu sinni heima í Brighton en gera það ekki lengur og voru þarna í svipuðum erindagjörðum.

Á leiðinni heim áttaði ég mig á afleiðingum þess að vera úti í sólinni í heilan dag. Var eitthvað svo sólþyrst... geri alltaf sömu mistökin, gleymi að bera á mig sólarvörn í Norður-Evrópulöndum því "það er ekkert svo heitt". Var orðin eldrauð í framan og á öxlunum svo þaut inn í næsta apótek að kaupa after-sun. Afgreiðslumanninum fannst þetta eitthvað fyndið og gat næstum ekki hætt að hlæja þegar hann afgreiddi mig. Er svona létt humarlituð í dag en bíð spennt eftir að breytast í súkkulaði...

2. jún. 2006

Ástsýki

Ég var spurð að því um daginn hvort ég vissi eitthvað um de Clerambaults heilkenni (sem ég gerði ekki þá - en geri núna!). Þetta var í tengsl við bók og seinna bíómynd sem heita Enduring Love og fjalla um þetta efni.

De Clerembaults heilkenni, öðru nafni Erotomania kallast á íslensku ástsýki og virðist bara vera fínna orð yfir stalker-hegðun. Formlega skilgreining er sú að þetta sé sjaldgæf röskun (og sálfræðinemar ekki byrja með heilkenni/röskun ruglinginn, ég er bara að þýða þetta beint) þar sem viðkomandi er haldinn þeirri ranghugmynd að einhver sé ástfanginn af þeim. Allt er túlkað sem tjáning á þessari leynilegu ást. Kannast sjálf við þetta en neita því að þetta sé ranghugmynd. Ég veit að Josh Holloway er ástfanginn af mér - ég sé hann horfa á mig gegnum sjónvarpið!

1. jún. 2006

Oxford

Gleymdi auðvitað að skýra frá því að neðangreindur hittingur fór fram í Oxford. Ég hafði aldrei komið þangað áður og fannst það virkilega skemmtileg borg. Fórum í útsýnisferð með túristastrætó og hlustuðum á sögu borgarinnar gegnum appelsínugul heyrnatól. Röltum um háskólasvæðið sem var eins og snýtt út úr Harry Potter bók, hefði aldeilis verið til í að læra þar. Best fannst mér samt að koma inn í Blackwells bókabúðina. Virkar ekkert sérstaklega stór þegar maður kemur inn en er eins og hálfgerður risastór hellir að innan! Þar á meðal er Norrington herbergið sem er 10.000 fermetrar og á met í flestum bókum í einu herbergi. Svo má maður skoða allt að vild, hefði getað verið þarna í marga daga....ahhh....

31. maí 2006

Meet the parents

Í fyrradag hitti ég móður Útlendingsins í fyrsta sinn. Var óvenju stressuð og svaf illa nóttina áður, því ekkert mátti fara úrskeiðis í mínum huga. Nú skyldi skrúfað frá sjarmanum af fullum krafti. Var nokkrum dögum áður búin að ákveða að velja pils og laxableikan blúndubol sem mér fannst vera kvenlegur og klæðilegur, svona (ísl)ensk blómarós fílíngur. Svo varð allt að vera í stíl, bleikir sokkar, bleikur augnskuggi, bleikur varalitur, bleikt naglalakk og bleikt sjal. Blés á mér hárið (sem ég geri mjöööög sjaldan), setti upp glossið og var nokkuð sátt við árangurinn tveimur og hálfri mínútu í brottför.

“Ta-da!” sagði ég við Útlendinginn sem varð hálf hissa á svipinn þegar hann sá mig.
“ Þú... þú varst svo sæt í þessu þarna... græna.... sem þú varst í í gær” stamaði hann. “Viltu ekki máta það?” Gat verið! Maðurinn sem skiptir sér aldrei af því í hverju ég er er allt í einu með skoðanir, hugsaði ég. Svo fór allt á stað í kollinum á mér. Ætli ég sé feit í þessu bleika? Ætli mamma hans þoli ekki bleikt? Það er ekki eins og lautarferðaroutfittið hafi verið svona hot. Sá mér loks bregða fyrir í stofuspeglinum og áttaði mig á því að blómarósin var orðin ein stór tyggjóklessa með kandífloss. Þannig að ég skipti um bol og sokka og klessti á mig grænum augnskugga sem var reyndar ekki gott múv. Púff.

Við rétt náðum lestinni og þá varð ég fyrst stressuð. Var búin að gera dauðaleit að handbók um enskar kurteisisvenjur við svona aðstæður án árangurs (það ætti einhver að gefa út “The Idiot´s Guide to meeting English Parents”). Á maður að heilsa með handarbandi, kyssa (og þá á aðra kinn eða báðar) eða faðma? Þúun eða þérun? Skírnarnafn, eftirnafn eða “mamma og pabbi”? Hjálp!

En að sjálfsögðu var mamman indæl (enda er Útlendingurinn vel heppnaður og þekkt að fjórðungi bregður til fósturs). Ég sagði plís, þeink jú og lovlí í öðru hvoru orði og brosti svo mikið að mér er ennþá illt í kinnunum. Notaði hvert tækifæri til að vera sammála og láta í ljós sameiginleg áhugamál og skoðanir (Harry Potter, sálfræði, andúð á háum hælum) og þagði ef ég var ósammála (um Jung, sápuóperur, te og kaffi). Hún hringdi í mig daginn eftir til að ræða um heima og geima þannig að ég held að þetta hafi bara gengið vel. Nú er ég bara hrædd um að ég hafi spilað þetta aðeins of vel og að ég geti aldrei sýnt mitt rétta andlit án þess að hún verði fyrir vonbrigðum. Þá er bara um að gera að fara að þjálfa herðatréð í munninum...

29. maí 2006

Lautarferð

Fór í lautarferð í gær með tveimur fjölskyldum þar sem einn þriggja ára tilkynnti mér að hann ætlaði að eignast alvöru byssu og skjóta allar stelpur í heiminum því þær væru svo leiðinlegar. Hlustaði líka á deilur tveggja mæðra um hvernig væri best að koma börnum í heiminn.

Mamma A – Ég trúi því staðfastlega að börn sem fæðast venjulega séu miklu sterkari en börn sem eru tekin með keisaraskurði. Ferðalag þeirra gegnum leggöngin gerir þeim betur kleift að takast á við mótstöðu í lífinu.

Mamma B – Ég er ósammála og tel það miklu betra fyrir börn að vera tekin með keisaraskurði. Venjuleg fæðing er mjög traumatísk og þessar slæmu minningar barnsins geta haft skaðleg áhrif.

Sólrún – Meira hvítvín?

27. maí 2006

Skin og skúrir

Það var sól og sumarylur í einn dag. Ég lá í Hyde Park með bók og las og las og las og horfði á mannlífið. Fannst skrýtið að horfa á konur klæddar svörtum kufli frá toppi til táar (svona sem sést bara í augun - hvað heitir það aftur?) reyna að blása sápukúlur. Þótti líka undarlegt að fara í korta- og gjafabúð og sjá hvað það eru til mörg kort í tilefni af 100 ára afmælum. Greinilega margir að reyna að ná til þessa tiltölulega nýja markhóps. Í gær og í dag hefur síðan bara rignt og rignt og rignt. Ég hef meira að segja neyðst til að nota regnhlíf! Var auðvitað svo bjartsýn að pakka aðallega hlýrabolum, bíð eftirvæntingarfull eftir að fá að nota þá...

24. maí 2006

Náttfatapartý

Mín ákvað að taka lærdóminn föstum tökum í dag og fara ekki út fyrr en ég væri búin með skýrslu sem ég átti bara smááááá eftir af. Needless to say, þá var ég ennþá í náttfötunum klukkan 19. Horfði með öðru auganu á tónlistarmyndbönd í sjónvarpinu þar sem óþolandi-en-færð-það-samt-á-heilann Nylon lagið kom tvisvar á Chart hits stöðinni. Í bæði skiptin helltist yfir mig gífurleg heimþrá og ættjarðarást. Mér fannst það full langt gengið eftir aðeins 4 daga þannig að um átta leytið ákvað ég að klæða mig og spássara um hina dásamlegu London. Sem var bara aldeilis ágætt, nema hvað það rigndi og rigndi og rigndi... En ég var bara sátt við það, er mjög hrifin af svona næstum trópikal hlýrri og vindlausri rigningi. Þetta fer eiginlega saman, hrifning mín á rigninu og andúð á regnhlífum en ég er haldinn þeim (hugsanlega órökrétta) ótta að vera stungin í augað/á hol (eða að stinga einhvern sjálf) óafvitandi með regnhlíf. Þannig að ég naut þess í botn að labba hægt um og vökvast í rigningunni og raulaði Nylon lagið á meðan vegfarendur bölvuðu veðrinu og horfðu forviða á mig undan skjóli regnhlífa sinna.

23. maí 2006

Kaffihúsadraumurinn

Í morgun ákvað ég að láta langþráðan draum rætast, að fara á Starbucks í Borders bókabúðinni með Lappann. Þannig að mín fór í pils og strandskó og valhoppaði niður Oxford Stræti. Nema hvað sumarið er ekki komið í London frekar en í Reykjavík og það byrjaði að hellirigna á leiðinni. Ég kom því rennblaut á leiðarenda, en auðvitað datt öllum hinum í hug að fara inn og fá sér kaffi og bíða eftir að rigningin hætti þannig að það var troðfullt (ég var auðvitað hálffúl því ég var löngu búin að ákveða að fara, áður en það byrjaði að rigna). Ég gat samt ekki hætt við og farið eitthvað annað þannig að ég ráfaði um að bíða eftir borðai. Sá ekki að einhver hafði hellt niður kaffi, missti jafnvægið og hefði skollið í gólfið hefði ég ekki gripið þéttingsfast í næsta mann. Sem glotti bara og hélt augljóslega að þetta væri eitthvað plott hjá mér til að fá að káfa á honum. Ég fékk síðan sæti – eina lausa sætið sem var beint á móti gæjanum. Þannig að hann heldur að ég sé stalker og er að horfa á mig til að athuga hvort ég sé að horfa á hann. Og ég horfi á hann til að athuga hvort hann sé hættur að horfa á mig. Og þá heldur hann að ég sé að horfa á hann og heldur áfram að horfa á mig. Og svo framvegis....Óþolandi. Ok. Af hverju fer hann ekki bara? Þetta er orðið frekar creepy. FARÐU!!! JESSS!!!

22. maí 2006

Lent í London

Þá er ég komin í hjarta Lundúnaborgar þar sem ég mun dvelja næstu vikur. Og þá meina ég hjarta... næsta "sjoppa" er Selfridges á Oxford Stræti. Vei! Það er ýmislegt á döfinni næstu vikur og ég er bara rétt farin að átta mig á því að þetta er aðeins lengra en helgarferð. Held að ég byrji á því að taka upp úr töskunum og fara kannski aðeins út að spóka mig.

Annars verð ég að segja frá einu sem pirraði mig óstjórnlega á flugvellinum. Eins og ég skrifaði um daginn bað Útlendingurinn mig um að kaupa handa sér íslenskar súkkulaðirúsínur. Þær voru því miður uppseldar í tveimur búðum (þar sem þær áttu að kosta 200 kr) en viti menn, þær voru til í okurbúllunni við hliðina á á 469 kr! Þannig að munið, ekki versla nammi í búðinni sem er beint á móti passatékkinu og Eymundsson eins og er heldur athugið fyrst hvort það sé meira en helmingi ódýrara við hliðina á.

Kveðja, önug húsmóðir úr vesturbænum.

p.s. stefnan er að vera dugleg að skrifa frá Londonlífinu...

13. maí 2006

Gamlar gulrætur

Jæja þá er prófamanían búin að þessu sinni. Nokkur verkefni eftir og púff... London beibí! Held að hámark geðveikinnar hafi verið í náð í fyrradag þegar ég, úfin og ósofin, tók kast á starfsfólk 10-11 yfir gömlum gulrótum. Það stóð á pakkningunni að þær hefðu runnið út júní 2002 og mér stóð ekki á sama. Bæði hvað þær væru gamlar og hvers konar ógeðslegu rotvarnar- og gervi-efnum væri eiginlega sprautað. Eftir að hafa þusað um erfðabreytt matvæli í smástund var mér góðfúslega bent á að síðasti söludagur gulrótapakkans(sem á stóð JUN 02) væri 2. júní. Á þessu ári. Hemm...

11. maí 2006

Mygluostailmvatn

Mörgum (þar með talið mér) finnst góð lykt hafa mikið aðdráttarafl og að sama skapi þykir sterk líkamslykt vera fráhrindandi. Síðustu árin hafa ilmvatns- og rakspíralyktir orðið fjölbreyttari. Einhverra hluta vegna datt fólki í hug að það væri samasem merki milli þess sem væri gott á bragðið og góð lykt af. Ávaxtailmvötn eru til dæmis mjög vinsæl svo og alls konar vanillu ilmir og jafnvel lykt af súkkulaði og kanel og ég veit ekki hvað. Bretar ákváðu að taka þetta enn lengra og hafa nú sett á markaðinn mygluostailmvatn.Namm eða hvað? Næst er bara að virkja íslenskan útflutning á harðfisk og hákarla rakspíra. Þetta er reyndar kannski ekki eins slæm hugmynd og það hljómar. Er ekki frá því að ég myndi halla mér upp að einhverjum sem lyktaði af einni með öllu svona síðla kvölds í bænum...

7. maí 2006

Hvernig útlendingar biðja um greiða...

Ein furðuleg saga sem ég má til með að segja af fjarbýlismanni mínum... svona af því að hann er útlendingur og getur ekki lesið bloggið mitt (ætti þetta ekki að hvetja hann til að læra íslensku?) ;)

Fékk myndskeið frá honum í tölvupósti um daginn sem hann hafði tekið upp á símann sinn. Hann birtist á skjánum mjög alvarlegur á svipinn og segir að svolítið hræðilegt hafi komið fyrir. Hjartað í mér tekur auðvitað kipp og svo heyri ég hann segja að hann ætli að sýna mér vandamálið. Myndavélin færist og ég sé að hann er í eldhúsinu heima hjá sér. Myndin stöðvast á kassa af íslenskum súkkulaðirúsínum. Mér dettur strax í hug að það hafi verið eitthvað ógeðslegt ofan í kassanum. Síðan sést að hann er tómur. Þá kallar útlendingurinn upp yfir sig: "Oh no! I have finished all the chocolate raisins!". Mjög dramatískt. Beinir síðan myndavélinni aftur að sér og minnir mig á að kaupa súkkulaðirúsínur handa sér þegar ég kem til hans (eftir tvær vikur). Sumir hringja, aðrir senda tölvupóst... og enn aðrir búa til stuttmynd.

Ég fór til Rómar og tíndi orm

Þá er maður í miðjum prófum. Fyrstu prófin síðan vorið 2001. Engin próf, "bara" verkefni í mastersnáminu og svo líka núna um jólin. Ég er þess vegna komin úr æfingu við að leggja atriði á minnið og læra utanað. Er að reyna að notfæra mér alls konar minnistækni, semja lög, rappa textann, búa til skammstafanir, myndlíkingar og svo framvegis um það sem ég þarf að læra. Ég fann til dæmis út úr því áðan að ég gat raðað fyrstu stöfunum í nokkrum punktum sem ég þarf að læra í orðin RÓM og ORM. Þannig að ég er búin að sjá fyrir mér að ég hafi farið til Rómar og tína orm. Minnistæknisérfræðingar segja að það sé gott ef ímyndirnar sem maður býr sér til eru skrýtnar og eftirminnilegar. Hingað til hef ég hins vegar munað ímyndirnar betur en það sem þær standa fyrir. Er viss um að í prófinu á þriðjudaginn á ég eftir að muna vel eftir ormatínsluferðinni til Rómar en hafa ekki hugmynd um hvað liggur að baki. Ó vell...

28. apr. 2006

Jeppinn og ég

Eins og þeir sem þekkja mig vita er ég ekki ein af þeim sem er haldin þeirri ranghugmynd að ég sé sérstaklega góður ökumaður. Mér finnst fínt að keyra ein í litlum bíl í lítilli umferð en annars get ég orðið svolítið stressuð þegar ég keyri. Sérstaklega finnst mér óþægilegt að keyra nálægt strætó (hvað þá að keyra milli tveggja strætóa) eða keyra á móti vörubíl. Ég á líka erfitt með að keyra stóra bíla eða nýja bíla. Það var því nokkur streituvaldur þegar góðhjartaður faðir minn lánaði mér jeppann sinn (sem er nýlegur) í dag. Mér leið eins og pandabirni í postulínsbúð í þessu ferlíki á götunni, enda með lélega rúmskynjun og á erfitt með að skynja hvað er langt í næsta bíl (þekki auk þess illa muninn á hægri/vinstri, það er helst að upp/niður skynjun sé í lagi). En þetta hafðist allt saman, ég slökkti á útvarpinu og einbeitti mér að akstrinum, fór ekki yfir 40km/klst, lagði í tvö stæði saman og reyndi að velja leið þar sem ég þurfti ekki að skipta um akrein (sem reyndist vera talsverður aukahringur). Þið sem lentuð fyrir aftan hægfara bláan Mitsubishi Pajero á vinstri akrein í dag vil ég því biðja afsökunar. Gleðilegan föstudag!

26. apr. 2006

Kaffi París

Eins og margir hafa tekið eftir er nýbúið að opna Kaffi París (Café Paris hvað) eftir breytingar. Fór þangað um daginn með vinkonu minni og fékk mér panini (sem reyndist vera baguette) sem var ágætt (sakna samt tuna-meltsins). Aðallega fannst mér samt gaman að fylgjast með ótrúlega fjölskrúðugu mannlífinu. Þarna voru mömmur og pabbar með ungana sína, fínar frúr, heldri menn, háskólanemar, ellismellar, kúrekar, útlendingar, þotulið, unglingar, gamlir vinir og nýjir að spjalla saman um allt og ekkert. Það er nefnilega oft þannig með nýja staði að það tekur þá smá tíma að finna sína fastagesti. Man að þegar Ólíver opnaði voru gamlir hippar og plastpíur saman á dansgólfinu (og allt þar á milli) þangað til ákveðið crowd tók yfir. Hef reyndar ekki farið þangað lengi en heyrði staðnum lýst sem "kjötmarkaði" um daginn. Það verður gaman að fylgjast með hvernig kúnnahópurinn breytist á Kaffi París.

Komin frá Kúbu



Frábært á Kúbu fyrir utan að ég braut páskaeggin og tána. Misgóðir Mohitos, besta pina colada í heimi, þægileg sól, misjafn matur, húrra fyrir Havana...þarf ég að segja eitthvað meira? Á maður ekki að fara sér hægt eftir rúmlega árs blogghlé? (hemmm....)