28. apr. 2006

Jeppinn og ég

Eins og þeir sem þekkja mig vita er ég ekki ein af þeim sem er haldin þeirri ranghugmynd að ég sé sérstaklega góður ökumaður. Mér finnst fínt að keyra ein í litlum bíl í lítilli umferð en annars get ég orðið svolítið stressuð þegar ég keyri. Sérstaklega finnst mér óþægilegt að keyra nálægt strætó (hvað þá að keyra milli tveggja strætóa) eða keyra á móti vörubíl. Ég á líka erfitt með að keyra stóra bíla eða nýja bíla. Það var því nokkur streituvaldur þegar góðhjartaður faðir minn lánaði mér jeppann sinn (sem er nýlegur) í dag. Mér leið eins og pandabirni í postulínsbúð í þessu ferlíki á götunni, enda með lélega rúmskynjun og á erfitt með að skynja hvað er langt í næsta bíl (þekki auk þess illa muninn á hægri/vinstri, það er helst að upp/niður skynjun sé í lagi). En þetta hafðist allt saman, ég slökkti á útvarpinu og einbeitti mér að akstrinum, fór ekki yfir 40km/klst, lagði í tvö stæði saman og reyndi að velja leið þar sem ég þurfti ekki að skipta um akrein (sem reyndist vera talsverður aukahringur). Þið sem lentuð fyrir aftan hægfara bláan Mitsubishi Pajero á vinstri akrein í dag vil ég því biðja afsökunar. Gleðilegan föstudag!

Engin ummæli: