9. des. 2008

Fjör á feisinu eða fjandinn laus?

Smá grín í kjölfar mikilla deilna við tímabundna sambýlismanninn sem haaaatar feisið...





8. des. 2008

Rósir

Allt sem mig langar að blogga um á ekki heima fyrir opnum tjöldum, því miður. Ég er ekki jafn góð í að tala undir rós á bloggum eins og sumir.

18. nóv. 2008

Andsetinn sími

Ég á við þann vanda að stríða að eiga erfitt með að henda hlutum, hvort sem það eru gamlir bíómiðar, símanúmer eða ritgerðir. Það hefur aðeins vantað í síuna hjá mér og þessir „minjagripir“ eru auðvitað yfirleitt ekkert nema drasl. Fékk að kenna á því þarsíðustu helgi eftir að síminn minn marineraðist óvænt í pepsi-max um daginn og ég prófaði í símaleysis neyð minni fjóra gamla síma sem ég fann heima hjá mér – enginn af þeim virkaði. Öllu verra voru öll gömlu símanúmerin sem ég hef ekki hent út úr símanum síðastliðin 10 ár. Síminn hefur nefnilega eftir baðið verið haldinn illum öndum og takkarnir á lyklaborðinu virka ekki rétt. Afturábak þýðir áfram og þar fram eftir götunum, nema hvað þetta er frekar breytilegt. Ég reyndi alla nóttina að fá símann til að virka en ekkert gekk og síminn gerði lítið annað en að fletta upp í símaskránni sama hvaða takka ég notaði. Nema hvað þegar ég reyndi svo að komast út úr skjámyndinni hringdi síminn alltaf í það númer sem hann hafði stöðvað á. Daginn eftir komst ég að því að um kl. 4:44 um nóttina hringdi ég meðal annars í alla sem byrja á K í símaskránni, töluvert af fólki sem byrjar á A, nokkur Ó, eitt Æ ofl. Þetta hefði verið allt í lagi ef þetta væri bara fólk sem ég þekkti en nei nei. Ég hringdi í hitt og þetta fólk sem ég myndi ekki heilsa úti á götu, þar á meðal vinnufélaga sem ég hef ekki séð fjölda ára, útlendinga sem við stelpurnar hittum á interaili 2001, konu sem stjórnaði einu sinni gæsaveislu sem ég fór í og síðast en ekki síst, foreldra fyrrverandi kærasta. Ég held reyndar að mér hafði tekist að stöðva megnið af símtölunum á endanum áður en það hringdi (oft) á hinum endanum. En ef ég hringdi í þig og skellti á biðst ég afsökunar. Það er ennþá eitthvað símavesen á mér, fann loksins síma hjá ma og pa sem virkaði. Sá verður reyndar rafhlöðulaus fyrirvaralaust og er ekki með nein símanúmer vistuð. Kannski bara fínt að byrja upp á nýtt, enda ekkert kappsmál að safna símanúmerum eins og glansmyndum í denn. Enda sagðist einn kunningi minn hafa uppgötvað fyrir nokkrum árum að hann væri með fullan síma af símanúmerum – en engan til að hringja í.

6. nóv. 2008

Dude, where's my car?

Fór í Bónus í gær sem er svosem ekkert sérstaklega merkilegt nema að ég fékk hálfgert taugaáfall á bílastæðinu með fjóra poka í höndunum. Ég fann hvergi bílinn! Nú hefur það gerst oftar en einu sinni eða tvisvar að ég get ómögulega munað hvar ég hef lagt en það gerist yfirleitt við verslunarmiðstöðvar eða niðri í bæ eftir hringsól í leit að stæði. En þarna var bílastæðið ekkert rosalega stórt og ég sá bara ekki bílinn! Orðið dimmt að vísu svo ég reyndi að skima eftir númerinu en allt kom fyrir ekki. Ég hélt að ég væri að missa vitið, mundi ekki betur en að ég hefði lagt bara í venjulegri fjarlægð frá búðinni. Þá datt mér auðvitað í hug að bílnum hefði verið stolið og ég hefði jafnvel skilið hann eftir ólæstan og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta var orðið heljarinnar drama og ég alveg við það að fara að hringja í einhvern grenjandi til að láta sækja strandaglópinn.

Sé ég þá ekki í tunglsljósinu glitta í kunnuglegan eiturgrænan lit á einum bílnum, þótt ekki væri það dökkbláa Toyotan sem ég var að leita að. Þá LOKSINS rann það upp fyrir mér að ég var bara alls ekkert á dökkblárri Toyotu, enda var hún í viðgerð, heldur á nýja sæta græna (og afar umhverfisvæna) bílnum hennar mömmu sem ég var með í láni...

5. nóv. 2008

Curiosity killed the cat

Ég get verið gúgl-óð á köflum og gúgla allt og alla enda afar forvitin. Þetta hefur kosti og galla og ég hef heldur farið að hemja mig í seinni tíð enda hef ég komist að því að það er hægt að fá Of Miklar Upplýsingar um fólk á netinu.

Ég hitti til að mynda gamla skólasystur mína í sundi um daginn þar sem hún sagði mér hvað á daga hennar hefði drifið síðan við hittumst síðast. Ég virtist mjög áhugasöm og spurði hvað barnið hennar hét og hvað það væri gamalt og þetta venjulega. Ekki gat ég sagt henni að ég væri búin að fletta þessu öllu upp á netinu fyrir löngu í gömlu-skólafélaga-gúgl-æði og var búin að lesa fæðingarsöguna og skoða myndir úr skírninni.

Að sama skapi fletti ég einu sinni upp stelpu sem vinur minn var að deita og sagði honum gjörsamlega allt um hana - fyrir fyrsta deitið. Hann var ekki ánægður með að ég skyldi hafa aflétt dulúðinni og missti eiginlega áhugann (nú reyni ég að takmarka deit-gúgl við Íslendingabók, svona bara til að tékka hvort um náskyldmenni sé að ræða).

Stundum kemst upp um gúglið eins og um daginn þegar ég var að spjalla við nýjan vinnufélaga minn og minntist á fyndna mynd sem ég hafði séð af honum á facebook. Hann vissi hvaða mynd ég var að tala um - en sagði strax að þessa mynd væri nú ekki að finna þar. Varstu að gúgla mig? ,spurði hann og ég játaði skömmustulega og romsaði út úr mér að ég væri ekki kreisí stalker heldur bara almennt forvitin um fólk sem ég kynnist.

En já, ástæðan fyrir því að ég fór að velta þessu fyrir mér eru samræður sem ég átti síðustu helgi þegar ég rakst á skemmtilega stelpu sem ég hafði ekki hitt lengi.
Nei hæ, gaman að sjá þig sögðum við hvor við aðra. Ég ákvað bara að vera hreinskilin og spurði hana hvort hún hefði ekki verið að gifta sig í fyrra, ég hefði nefnilega séð brúðkaupsmyndirnar á facebook (sá semsagt myndir sem sameiginlegir vinir okkar höfðu sett inn). Óskaði henni til hamingju þótt seint væri og hún þakkaði fyrir sig. Síðan kom vandræðaleg þögn þar sem hún var sjálfsagt að velta fyrir sér hvort hún gæti ekki komið með eitthvað á móti, hvort hún hefðiekki átt að reka augun í beibí/brúðkaups/innflutnings/útskriftar etc. myndir af mér á netinu. Loksins kveikti hún á perunni, brosti til mín og sagði Heyrðu, varst þú ekki að láta taka úr þér endajaxla í fyrra? Ég nefnilega gúglaði "endajaxlataka" og bloggið þitt kom upp...

3. nóv. 2008

Jólafól

Ég fór á tónleika í síðustu viku sem voru frábærir að öllu leyti nema hvað sætið mitt var yst hægra megin í salnum og sætið hennar mömmu yst vinstra megin í salnum röð ofar. Þetta var semsagt rúlla af boðsmiðum og einhver ekki fattað að sæti 4:21 og sæti 5:01 væru ekki hlið við hlið eins og sjálfsagt hefur verið ætlunin...
Kannaðist svo við einn hljóðfæraleikarann, myndarlegan pilt sem stóð sig mjög vel, en mundi ekki alveg hvaðan ég þekkti hann. Fattaði svo allt í einu að um var að ræða strák sem ég kenndi einu sinni, og fannst ég vera orðin algjör kelling (af því að þetta voru sko fullorðinstónleikar, en ekki svona efnileg unglingahljómsveit).


Hef ákveðið að taka jólin snemma í ár og listi yfir topp 5 uppáhalds jólalögin mín birtist því von bráðar. Jólin eru nefnilega í miklu uppáhaldi hjá mér, en mér finnst undirbúningurinn eiginlega skemmtilegri en jólin sjálf (ef til vill meira um það síðar). Finnst um að gera að teygja bara úr tilhlökkuninni. Ég frábið mér þess vegna allt nöldur um að það megi ekki byrja að hlakka til jólanna fyrr en í desember. Það hlýtur að vera mönnum bara í sjálfsvald sett hvort þeir byrja að hlakka til á Jónsmessu eða Þorláksmessu eða einhvers staðar þar á milli. Enda er nóg um tuð yfir hinu og þessu þótt það sé ekki verið að tuða yfir því að fólk sé í of góðu skapi of snemma. Svo er ég víst farin að tuða yfir tuðinu núna. Arg!

28. okt. 2008

Klukk og kaka

Í kvöld borðaði ég margar mismunandi kökusneiðar sem mér höfðu borist í nestisboxi alla leið frá Danmörku. Á meðan skoðaði ég myndir úr afmælisboðinu þar sem kökurnar höfðu upphaflega átt samastað og fannst í augnablik að ég hefði ekki misst af neinu. Þar til ég sá myndirnar af barninu besta þar sem það labbaði um, litaði og pissaði í kopp. Vildi að hægt væri að taka svona mikinn persónulegan þroskakipp á tveimur mánuðum á öllum æviskeiðum.

Þóra Marteins, úbertalent og megabeib (með lok, lok og læs blogg) klukkaði mig í gömlum og góðum bloggleik sem ég var reyndar ekki búin að taka þátt í. Hér koma svörin mín.

1. Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:

1. Ræstitæknir á glasafrjóvgunardeild
2. Kennari í framhaldsskóla
3. Skrifstofumær í dúskadeild
4. Forstöðumaður á sambýli

2. Fjórar íslenskar bíómyndir sem ég held upp á:

1. Stella í orlofi
2. Veggfóður
3. Jón Oddur og Jón Bjarni
4. Börn

3. Fjórir staðir sem ég hef búið á:

1. Waterloo
2. Brighton
3. Óðinsvé
4. Skagafjörður

4. Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:

1. Mallorca
2. París
3. Ljubliana
4. Havana

5. Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:

1. My So-called Life
2. Arrested Development
3. Dr. Phil
4. Without a Trace

6. Fjórar síður sem ég skoða daglega:

1. Feisið
2. Bloggin
3. Mogginn
4. Gúglið

7. Fernt matarkyns sem ég held upp á:

1. Tom Yum súpa
2. Hrísgrjónagrautur
3. Bragðarefur
4. Hot wings

8. Fjórar bækur/blöð sem ég held upp á/les oft:

1. Ljónið, nornin og skápurinn
2. Nöfn Íslendinga
3. Dagbók Bridget Jones
4. Freakonomics

9. Fjórir staðir sem ég vildi vera á núna:

1. Hjá litlu systur og systurdóttur í Danmörku
2. Á trúnó á Hop Poles pöbbnum í Brighton
3. Að spila í sumarbústað í góðra vina hópi
4. Að sleikja sólina og slaka á í fríi með elskhuga

10. Fjórir bloggarar sem ég á að klukka:

Ef það er ekki búið að klukka þig og þig langar á annað borð að láta klukka þig, þá klukka ég þig hér með. Annars ekki.

The laminated list...


1. Josh Holloway, aðallega sem Sawyer í Lost (hef skrifað aðrar færslur eingöngu um þennan mann). Bad boy af bestu gerð, harður að utan, mjúkur að innan. Ómótstæðilegt bros. Ég væri alveg til í að bíða kreppuna af mér föst á eyðieyju ef hann væri röltandi um hálfnakinn og sveittur.





2. Ewan McGregor. Persónuleikinn, hreimurinn, hendurnar, útgeislunin. H.O.T. Hvað er hægt að segja meira?





3. Viggo Mortensen, nota bene sem Aragorn í LOTR. Er ekkert að missa mig yfir ljósmyndaranum og "Íslandsvininum" Viggo þótt hann sé alveg sætur á hestbaki með syni sínum. En Aragorn er hetjan mín og hann fær mig til að vilja vera álfaprinsessa...





4. Mark Ruffalo. Ég veit ekki hvað það er við þennan mann, en hann kveikir einhvern neista. Svo er hann flottur leikari, hef séð hann leika bæði góða og vonda gæjann. Og svo er hann með kaffibollaaugu sem mann langar að drukkna í og ótrúlega kynþokkafulla rödd.




5. Marlon Brando, ca. 1950. Ef bara ég hefði aðgang að tímavél. Augnaráðið, varirnar, herðarnar. Féll fyrir honum þegar ég sá hann í myndinni Streetcar named desire í enskutíma í MH forðum daga. Held að þessi muni alltaf hafa sinn stað á listanum.





Þetta er auðvitað bara celebrity listinn, hinn fæst ekki gefinn upp á netinu :) En þeir sem eru á honum eru ekkert síðri...

27. okt. 2008

Ár, afmæli og Prins Póló



Ár síðan besta barn í heimi fæddist. Ár síðan ég útskrifaðist. Ár síðan fór á Grillið að fagna báðum þessum áföngum. Namm.

Mamma og pabbi komu með afmælisköku handa mér frá Danmörku, mér þótti afar vænt um það. Þau voru ekki stoppuð í tollinum með kökuna og ég hlakka til að smakka hana á morgun.

Ég hef miklar áhyggjur af fréttaflutningi um að það verði ef til vill Prins Póló skortur í landinu og hefur þetta valdið óslökkvandi þörf í Prins Póló. Vona eiginlega að þetta sé bara auglýsingatrix. Í interrail ferðinni góðu 2001 eyddum við vinkonurnar dágóðum tíma í að útskýra fyrir Pólverjum í Póllandi hvað Prins Póló væri merkilegt á Íslandi, og sýna þeim íslensku innihaldslýsingarnar á pakkningunum (tókum líka mikið af myndum af okkur haldandi á Prins Póló í Póllandi). En nú eru víst bæði Pólverjarnir og Prins Pólóið á förum. Andvarp.

25. okt. 2008

Heyrnarmæling?

Var að tala við góðan vin minn í síma í gær, heyra í honum hljóðið og hvað hann ætlaði að gera um helgina og svona.

Ég: Jæja, hvað segirðu, hvað ertu að gera?

Hann: Ég er bara á leið til vinar míns X, ætlum að horfa á klám.

Ég: Ha? Ertu að grínast?

Hann: Grínast? Nei nei.

Ég: Oj hvað þið getið verið hallærislegir og perralegir. Hittast fullorðnir karlmenn á föstudagskvöldi til að horfa saman á klám og finnst það bara alveg í lagi? Þið þurfið að fara að finna ykkur kreppukærustur (sjá næstu færslu á undan). Ég vil ekki vita af þessu, gastu ekki bara logið að þið væruð að fara að gera eitthvað annað? Oj!

Hann: Bíddu bíddu... við erum að fara að horfa á KLOVN!

23. okt. 2008

Kreppukærastar

Nú er mikið í umræðunni kreppu- þetta og kreppu- hitt. Ég tók þátt í skemmtilegum umræðum í dag um kreppukærasta/kærustur. Á erfiðum óvissutímum er nefnilega mikilvægara en oft áður að hafa einhvern til að halla sér að, einhvern til að tala við, hugga mann, til að kúra/knúsa/kyssa osfr. Eins og það getur verið gott að vera einhleypur er það einmitt svona í fjármálakreppuskammdeginu sem einmanaleikinn sækir að fólki og það saknar þess að hafa ekki maka. Þá er tilvalið að slaka aðeins á kröfunum um hinn eina rétta og finna sér kreppukærasta. Einhvern sem maður kannski er nokkuð viss um að myndi ekki ganga upp þegar til lengri tíma er litið, en sem getur vel yljað manni fram á vorið. Fyrstu sex mánuðurnir eru mest spennandi hvort eð er og það sem stíar fólki í sundur á endanum kemur yfirleitt ekki fram fyrr en seinna. Hætta að spá í hvort þið viljið bæði eignast börn, hafið sömu skoðanir á Söruh Palin eða hvort þú haldir að nefkækurinn muni pirra þig ef þið byggjuð saman. Yfirleitt á við "Betra er autt rúm en illa skipað" en á krepputímum gildir "Betra er sæmilega skipað rúm en illa skipað". Svo sparar það pening og kyndingu að elda fyrir tvo og hlýja sér á öðrum. Síðan þegar hagurinn fer að vænkast og veðrið að hlýna er alltaf hægt að leika sér einn á ný eða skipta út fyrir betra módel. Ótrúlega góð hugmynd...

22. okt. 2008

Kleinuhringjablogg

Einn af fjölmörgum kennurum í mínu lífi var um daginn að lesa sögu fyrir yngstu börnin sem áttu síðan að teikna mynd upp úr frásögninni. Í sögunni kom fyrir kona sem var að steikja kleinur. Umræddur kennari gekk síðan á milli og skoðaði myndirnar hjá krökkunum, sem teiknuðu flestir hringi í gríð og erg. Hvað á þetta að vera? spurði kennarinn hvumsa og áttaði sig ekki alveg á þessum abstrakt verkum nemenda sinna. Nú auðvitað kleinuhringirnir! svöruðu börnin.

Kleinuhringir voru einmitt stuttlega til umræðu í kvöld í saumaklúbbnum þar sem ein sagði okkur frá því þegar hún reyndi að sannfæra hina um að kleinuhringir væru sérlega heilsusamleg fæða með lágu kaloríuinnihaldi. Ég get alveg skilið þau rök, ég meina það er stórt gat í miðjunni sem er væntanlega alveg fitusnautt!

Þessar pælingar minntu mig aftur á hin fjölmörgu eldhústæki sem eru til á heimili mínu og nánustu fjölskyldumeðlima. Við tókum nefnilega smá tímabil og sönkuðum að okkur "sniðugum" eldhústækjum, eins og mini-kleinuhringjavél og mini-djúpsteikingarpotti (sem er vel varðveittur inni í skáp hjá mér og myndi duga til að steikja ca. 2 kleinur). Spurning um að setja þetta á tombólu með fótanuddtækinu en ég á mjög erfitt með það, enda sé ég alveg fyrir mér að það komi sá tími að mig muni langa til að bjóða upp á mini-kleinuhringi í kaffinu (af því að ég er einmitt alltaf að baka og bjóða fólki í kaffi...)

21. okt. 2008

Bananarokk og bananarall eru á ballinu hér í nótt...

Var að fara gegnum gamlar kasettur hjá mömmu og pabba og fann fullt af gömlum og næstum-gleymdum fjársjóðum sem ég fékk lánaða með mér heim. Fyrst ber að nefna Smjattpattar: Söngvar og sögur (1984), algjört æði! Smjattpattar burt flúðu fljótt, í frelsisleit um miðja nótt...(þvílíkt skrall annars alltaf hreint á þessum Smjattpöttum). Finnst alveg merkilegt ég man ekki hvar ég setti lyklana mína (búnir að vera týndir núna í tvo daga) og get aldrei munað hvar ég lagði bílnum, en ég get sungið textann við Banana-rokk aftur á bak og áfram þrátt fyrir að hafa ekki heyrt hann í örugglega meira en 20 ár.

Síðan er það meistaraverkið Sagan af vaskafatinu og fleiri sögur (1983). Ég gat hlustað á þessa spólu út í eitt sem krakki, hún kom mér alltaf í gott skap og ég hló og hló og hló að sögunum. Mamma kom að mér áðan í kasti yfir bara að lesa titlana(hún kallar þetta vitleysissögurnar). Hún horfði á mig skringilega meðan ég frussaði út úr mér Tíkó tíkó og prumphænsnið! og grenjaði úr hlátri. Húmorinn alltaf jafn þroskaður hjá manni... Fyrir þá sem kannast við þetta eru aðrar sögur á spólunni meðal annars Lásý og fótbrotna hænan, Ævintýrið um ólapól og Kishildur María Snúlla. Snilld!

Þori samt varla að hlusta á spólurnar af ótta við að lögin og sögurnar missi eitthvað af sjarma barnæskunnar og nostalgíunni. Hef áður gert uppgötvanir um að sumt sé ekki alveg jafn ótrúlega mikið meistaraverk og ég hélt. En annað stenst algjörlega tímans tönn og ég hugsa að ég láti á það reyna með Lúlla lauk og prumphænsnið. Verður fínt að hlusta á þetta á leiðinni yfir heiðina í vikunni.

18. okt. 2008

Running against the wind...

Mér finnst leiðinlegt í leikfimi. Mér finnst ekkert leiðinlegt að hreyfa mig, og ekkert leiðinlegt í íþróttum yfirhöfuð, var til dæmis í badminton áðan eins og flesta laugardaga og finnst það frábært. En mér finnst bara... ekki gaman að hlaupa á hlaupabretti eða púla á stigvél eða hvað þetta nú allt saman heitir. Á vinkonu sem er alltaf með sælusvip á hlaupabrettinu og fær að því er virðist þvílíkt endorfín-kikk við áreynsluna en ég bara kemst ekki sjálf í hæstu hæðir Nirvana á þennan hátt. Mig langar ekki í Boot Camp og færi örugglega að grenja ef einhver einkaþjálfari öskraði á mig að gera fleiri armbeygjur.

Hins vegar er hollt og gott fyrir heilsu, hug og hjarta að púla svolítið og þess vegna fer ég nú samt á hamstrahjólið, enda líður mér voða vel eftirá. Hef (eins og margir) gerst styrktaraðili ýmissa líkamsræktarstöðva gegnum árin, byrjað vel og hætt að mæta... þannig að núna er ég að reyna að "taka sjálfa mig á sálfræðinni". Nýjasta trikkið er að vera alltaf með dótið í bílnum og fara beint úr vinnunni, það er svona næstum því í leiðinni. Síðan er ég orðin mun duglegri í að tala mig til. Letipúkinn og Leikfimiengillinn hnakkrífast hvor í sitt eyrað á mér.

- Ertu ekki þreytt eftir vinnuna? Farðu bara aðððeins heim fyrst. Langar þig ekki bara að slaka á...þetta var svo langur dagur...
- Hlustaðu ekki á þetta kjaftæði. Ef þú ferð heim þá ferðu ekkert út aftur. Hvað kom fyrir heilsuátakið? Þú verður hress og kát á eftir...


Og á meðan þeir rífast keyri ég fyrir framan Baðhúsið og enda yfirleitt á því að fara inn úr því að ég er nú einu sinni kominá staðinn.

Fór á brettið í fyrradag í svona hlaupa-labba rútínu og var algjörlega uppgefin eftir tæpan hálftíma. Skildi ekkert í því hvað þolið hefði versnað svona skyndilega því þetta er æfing sem hafði gengið svona ljómandi vel fyrr í vikunni án þess að fá blóðbragð í munninn. Sé ég þá ekki að brettið er stillt í halla (ekki hægt að breyta því) og hallar bara töluvert mikið upp á við. Ahhhh.

14. okt. 2008

Wish it was Sunday, 'cause that's my funday...

Ég hef mjög gaman af því að gera lista af ýmsu tagi, sérstaklega topp 5 og topp 10 lista. Hér koma topp 5 uppáhalds vikudagarnir mínir :)

1. Sunnudagur. Klárlega besti dagur vikunnar. Hvað er betra en að vakna úthvíldur á sunnudagsmorgni, elda egg og beikon eða fara út í bröns og lesa blaðið í rólegheitunum...ahhh. Í Bretlandi var það English breakfast og Sunday Times, í sumar voru það svalirnar og sunnudagsmogginn. Á sunnudögum fær maður ekki samviskubit yfir að liggja í leti allan daginn og horfa á vídjó, en það eru líka tilvaldir dagar til að fara í sund, hitta vini, fara í kaffiboð, göngutúr, bíó... Síðasta mánuðinn hef ég farið í mat til mömmu og pabba á sunnudögum og horft með þeim á Svarta Engla og Dagvaktina og það hefur verið afar skemmtilegt. Húrra fyrir sunnudögum!

2. Fimmtudagur. Vanmetinn dagur sem Íslendingar hafa lært að meta í síauknum mæli á undanförnum árum. Á fimmtudögum er vikan alveg-að-verða-búin svo maður fær auka innspýtingu á orku. Tilvalið er að nota fimmtudagana til að lyfta sér aðeins upp, fara á tónleika, í saumaklúbb eða kíkja í einn á pöbbnum. Fínt að vaka aðeins lengur en venjulega, alltaf hægt að sofa aðeins lengur hinn daginn. Vonir og væntingar helgarinnar byrja að vakna og tilhlökkunin er í hámarki ef það er eitthvað skemmtilegt framundan. Enda vita allir að tilhlökkunin veitir í það minnsta helming ánægjunnar...

3. Mánudagur. Misskilinn dagur. Mánudagur til mæðu hvað? Nýtt upphaf. Fögur fyrirheit. Ef þú byrjar í einhvers konar átaki varðandi mataræði/hreyfingu/skipulag osfr. eru allar líkur á að þú byrjir á mánudegi. Og þótt þú gefist upp á þriðjudeginum eru allar líkur á því að þú haldir út mánudaginn og sért rosa ánægður með þig í lok dagsins. Svo fylgir mánudögum stundum aukin orka, að vera endurnærður eftir æðislegan sunnudag. Dagurinn líður yfirleitt fljótt hjá mér og ég fer yfirleitt sátt að sofa eftir vel unnið dagsverk á mánudagskvöldum. Á það samt til að vaka of lengi á sunnudögum og vera rosa þreytt á mánudögum og nenna lítið að gera. Mánudagskvöld eru líka bara ágæt hangaheimakvöld. Setja í þvottavélina eftir helgina og kíkja í bók.

4. Föstudagur. Uppáhaldsdagur margra. Föstudagur er dagur feginleikans, vinnuvikan búin og helgin framundan með ótal möguleikum. Oft afslappaðra andrúmsloft á vinnustöðum, brandarar sendir á milli manna og flöskudagsgrín haft í hávegum. Helsta ástæðan fyrir því að föstudagar eru ekki hærra á listanum er að ég er yfirleitt mjöööög þreytt á föstudagskvöldum eins og margir eru, búnir eftir vinnuvikuna. Það verður oft hálflítið úr þeim kvöldum, soldið svona sofna-fyrir-framan-sjónvarpið stemning. Svo er einbeitingin alveg út og suður eftir hádegi en samt stress yfir að ná ekki að klára verkefni vikunnar. Allt í allt ágætur dagur, en fellur svolítið í skuggann vegna þreytu eftir fimmtudagsgleðina.

5. Laugardagur. Já laugardagur verður að fá að vera með. Þótt laugardagur sé auðvitað eðaldagur að því leyti að það er frídagur og gott að sofa út, er hann líka dagur vonbrigða. Það er nefnilgea svo mikil pressa á aumingja laugardeginum, það Á að gera eitthvað skemmtilegt, eða í það minnsta gera eitthvað sem hefur til dæmis setið á hakanum, en svo finnst mér oft ekki verða neitt úr deginum. Svo fer ég í mínus ef ég fer ekkert á laugardagskvöldum, þótt það sé auðvitað hallærislegt. Held að það minni mig á endalausu laugardagskvöldin sem var eytt í Sumarhöllinni góðu við lærdóm *hrollur* Fínn dagur til að taka til. Jú og til að fara í badminton. Svo geta laugardagskvöldin auðvitað verið ansi skemmtileg, sérstaklega þegar maður á síst von á því :)

Það sést semsagt á þessari upptalningu að þriðjudagar og miðvikudagar ná ekki inn á topp fimm listann. Enda finnst mér miðvikudagsmorgnar með eindæmum leiðinlegur. Vikan löngu byrjuð en samt svo mikið etir af henni. Þreyta og ekki séð fyrir endann á henni. Ágætir dagar samt til að fara í heimsóknir eða mæla sér mót á kaffihúsi, en gott að plana aðeins fyrirfram. Bestu dagarnir til að fara í leikfimi ef maður fílar svoleiðis, svona til að dæla smá bensíni á tankinn.

Ú gaman að gera lista! Ætla að gera fleiri :) Stay tuned...

11. okt. 2008

Á Spáni er gott að djamma og djúsa...

Gamlir vinnufélagar mínir eru nú um helgina að njóta lífsins í Sevilla á Spáni (þar á meðal þessi, þessi og þessi). Ég myndi öfunda þau alveg rosalega, ef ekki væri fyrir það ég hef farið einu sinni til Sevilla og þekkist sú ferð ekki undir öðru en nafninu Versta Frí Allra Tíma.

Þetta var sumarið 2004. Útlendingurinn var að fara að halda fyrirlestur á voða fínni ráðstefnu í Sevilla og ég fékk að fara með, til að slá tvær flugur í einu höggi og eiga saman rómantíska helgarferð að hluta til á kostnað fyrirtækisins. Við vorum voða spennt að vera á flottu hóteli í æðislegri borg og ætluðum að njóta þess að sóla okkur, borða tapas og fara í gönguferðir um borgina þar sem fyrirlesturinn var ekki fyrr en alveg í lokin á síðasta degi ráðstefnunnar. Þetta fór hins vegar ekki alveg eins og áætlað var.

Við komuna var glampandi sól og starfsfólk hótelsins bað okkur að afsaka hvað veðrið væri vont og vonaðist til að það myndi ekki versna. Við hlógum mikið að þessum brandara, enda tæplega 40 stiga hiti úti. En nei. Þetta var ekki grín. Á meðan á dvöl okkar stóð reið hitabylgja yfir borgina(sem er ekki við sjóinn, fyrir þá sem ekki þekkja til) sem sló víst öll met. Það varð bara heitara...og heitara...og heitara. Það var 45-47 stiga hiti ALLAN tímann og það kólnaði ekkert sérstaklega mikið á nóttunni, helst að það væri bærilegt rétt áður en sólin kom upp á morgnana.

Það var svo heitt að lyfturnar biluðu - og við vorum á næstefstu hæð. Það var svo heitt að það var ekki hægt að vera við sundlaugarbakkann nema í mesta lagi 20 mínútur í einu, þrátt fyrir að vera í skugga. Það var svo heitt að loftkælingin á hótelinu bilaði og það var ólíft inni jafnt sem úti. Eini staðurinn sem hægt var að vera á var verslunarmiðstöðin handan götunnar, því þar virkaði loftkælingin. Veit ekki hvort þið áttið ykkur á þessum hita - litla Íslendingnum fannst næstum óbærilegt að labba yfir götuna, hélt niðri í mér andanum og hljóp. Þannig að þarna ráfuðum við stefnulaust um deildir verslunarinnar, ekki að versla þar sem úrvalið var ekki upp á marga fiska, heldur bara að njóta þess að anda að okkur köldu lofti.

Við fórum einu sinni út að borða, á Pizza Hut stað við hliðina á hótelinu. Ég hætti mér einu sinni út fyrir dyr ein í skoðunarferð en sú ferð er öll í móki þar sem ég villtist og hélt grínlaust að ég myndi deyja úr ofþornun. Við vorum þar að auki bæði með flensu, fyrst ég og svo hann. Kvöldunum eyddum við uppi á hótelherbergi með snýtubréf og verkjalyf og völdum á milli þeirra þriggja lélegra bíómynda sem voru í boði á hótelvídjóleigunni, sem við höfðum allar séð áður. Kelerí var klárlega ekki á dagskrá.

Við vorum þess vegna fegin þegar kom að síðasta deginum, þá var bara eftir að halda fyrirlesturinn sem var nú ástæða ferðarinnar. Þegar þarna var komið við sögu voru allir ráðstefnugestirnir orðnir uppgefnir, fyrirlesturinn sem var næst á undan fór langt yfir öll tímamörk og flestir voru að missa af fluginu sínu. Það endaði þess vegna með þvi að ENGINN mætti á fyrirlesturinn, sem olli skiljanlega miklum vonbrigðum. Það voru þess vegna fölir og fúlir en ekki sólbrúnir og sællegir ferðalangar sem héldu heim á leið.

Ég efast þó ekkert um að Sevilla sé æðisleg borg og að það sé gaman að fara þangað í frí, sérstaklega á þessum árstíma. Hún er bara ekki á topp 10 staðir-sem-mig-langar-til-að-heimsækja listanum mínum í bili.

8. okt. 2008

Sönnunargagnið er astraltertugubb...


Sá bregða fyrir einkennilegum ljósgeisla yfir Reykjavík þegar ég var að koma af heiðinni í kvöld. Það var reyndar skýjað og ég í svolítilli fjarlægð svo þetta var ekki alveg greinilegt en helst minnti ljósið á lokaatriðið úr E.T. (sem er bæ ðe vei æðisleg, hver elskar ekki E.T.). Það er svosem ekki margt sem maður kippir sér upp við eftir taugatitring síðustu daga en engu að síður langaði mig að finna skýringu á þessu fyrirbæri.

Ég velti því strax fyrir mér hvort Rússarnir væru mættir á svæðið í ofur-tæknilegu herskipi til að taka yfir land og þjóð að launum fyrir lánið góða. Því næst datt mér í hug að þarna væru verur frá framandi hnöttum komnar til að sækja einhvern frænda sinn, enda er ég viss um að það eru nokkrar geimverur á gangi á meðal vor (ókei ég hef kannski horft aðeins of mikið á Men in Black, sem mér finnst líka skemmtileg þótt hún sé ekki jafn frábær og E.T.) Til dæmis datt mér í hug að verið væri að sækja Geir Haarde en mér hefur alltaf fundist hann brosa pínulítið líkt og E.T. sjálfur - og ég meina þetta á mjög jákvæðan hátt enda E.T. algjört krútt. Aðra potential geimverukandídata er best að nefna ekki, svona upp á eigið öryggi... (ég sé að geimverumyndir eru efni í annað blogg, Coneheads er til dæmis æðislega fyndin og í miklu uppáhaldi hjá mér og litlu systur).

En semsagt, aftur að ljósgeislanum dularfulla. Ég hugsa því miður, að líklegasta skýringin sé sú að þarna hafi Yoko Ono verið að fitla aðeins við stýripinnann á friðarsúlunni til að athuga hvort allt væri í lagi áður en hún kveikir formlega á henni núna á fimmtudaginn. Geimveruskýringin er samt miklu skemmtilegri, og ég ætla að halda áfram að velta fyrir mér hverjir séu innflytjendur á Hótel Jörð.

6. okt. 2008

Bíódagar í hjörtunum smæla...

Bara svona af því að ég var með yfirlýsingar um að þykjast ætla að hætta að fara í bíó (ekki það að ég sé alltaf í bíó) þá verð ég að mæla með tveimur æðislegum myndum sem ég sá á Kvikmyndahátíðinni sem var að ljúka. Fór á dönsku myndina Til døden os skiller með Hildi hotshot. Hún var flokkuð sem grínmynd en var samt ekki beint grín, þótt hún væri grátbrosleg. Hélt fyrst að hún væri kómísk ádeila á heimilisofbeldi en efaðist svo um það eftir að myndinni lauk. Sérstaklega fannst mér aðalleikarinn góður, og svo spillti það ekki fyrir að leikstjórinn heitir flottu nafni, Paprika (Steen). Síðan fór ég á frönsku myndina Il y a longtemps que je t'aime með Soffíu orkukanínu. Hún var flokkuð sem drama og Kristin Scott Thomas lék aðalhlutverkið. Fannst þetta vel gert, tókst vel að fá mann til að finna til með karakterunum án þess að spila með tilfinningar bíógesta að óþörfu. Báðar myndirnar sitja svolítið í mér ennþá á þann hátt sem góðar myndir gera. Menningarsnobbið heldur svo áfram næstu helgi þar sem ég er að fara á Villa Vill tónleika á föstudaginn og á leikritið Fýsn eftir Þórdísi ofurkonu á laugardaginn. Vúhú!

Aftur til fortíðar

Bara svona for info... þá er ég að gera tilraun með að blogga á gamla blogginu mínu. Sjáum hvernig það gengur.

Money, money, money, must be funny in the rich man's world...

Ég er að hugsa um að missa af kreppunni alveg eins og ég missti af góðærinu. Kannski sleppa því að halda uppi 10-11 sjoppunni á horninu og skipta pöbbarölti og veitingastöðum út fyrir heimapartý og matarboð. Skreppa í sumarbústað en ekki til útlanda og lesa bækur í staðinn fyrir bíóferðir. Gott plan.

Ég á hvorki íbúð né bíl og yfirdrátturinn er svipað hár og upphæðin á sparnaðarreikningum. En ég á 24 dollara sem ég var að finna í gömlu veski, 298 félaga á feisbúkk og gommu af Euroshopper pasta uppi í skáp. Bring on the kreppa!

5. okt. 2008

I just called to say I love you...

Eftir margra mánaða hunsun á báða bóga hringir Útlendingurinn í mig á laugardagsmorguninn.

Já… sæl… segir hann vandræðalega (enda hef ég ekki heyrt í honum í síma í marga mánuði ef talhólfið hans er undanskilið sem við skulum ekki fara nánar út í). Það er svolítið sem ég þarf að ræða við þig um (tek líka fram að hann segir þetta allt að sjálfsögðu á ensku, enda takmarkast íslenskur orðaforði hans við já, nei, kannski, takk, húsamús, naflakusk og auk þess eitt orð sem er ekki prenthæft).

Hjartað tekur kipp, það er í raun ótrúlegt hvað er hægt að hugsa mikið á nokkrum sekúndum, að minnsta kosti var ansi margt sem flaug gegnum hugann áður en hann kom sér að efninu. Hann ætlar að segja mér að hann sé kominn með nýja kærustu, hugsa ég og fæ smá sting í magann, og þau eiga von á barni… þríburum… og… og…

Hér grípur rökhugsunin inn í… Nei bíddu hann færi aldrei að hringja í mig til að segja mér þetta...

Nú jæja, hann ætlar að segja mér að hann sé ennþá ástfanginn af mér hugsa ég næst og fæ ennþá meiri sting í magann. Að hann sé búinn að sakna mín óendanlega og geti ekki lifað án mín, að hann ætli að flytja til Íslands og..og… og hvað á ég að segja við því… er næsta hugsun, en þarna er ég farin að engjast um af magakvölum.

Það snýst um íslenska efnahagsástandið, segir Útlendingurinn alvarlegur í bragði. Það er allt að fara til fjandans þarna hjá ykkur.

Já ég veit, svara ég og stingurinn dofnar þrátt fyrir að ég finni ennþá fyrir honum, og við tölum saman í einn og hálfan tíma um íslenska hagkerfið og umfjöllun breskra fjölmiðla og endum á því að veðja um hvort Kaupþing fari á hausinn fyrir eða eftir miðnætti á þriðjudaginn.

1. okt. 2008

Hell on high heels...

Fætur mínir hafa (því miður) ekki fengið mikla þjálfun í göngu á háhæluðum skóm, enda var ég með mikla minnimáttarkennd (stærrimáttarkennd?) yfir því að vera "of hávaxin" sem unglingur. Ég þróaði þess vegna með mér göngulag í ætt við hringjarann af Notre dame þrátt fyrir tilmæli móður minnar um að vera bein í baki. Auk þess stóð alltaf svolítið bogin í löppum og hallaði mér eins og ég væri með hryggskekkju ef ég var að tala við einhvern sem var minni en ég. Þessir ósiðir gerðu samt sem áður tærnar mínar afskaplega hamingjusamar, þær fengu að leika lausum hala og var aldrei þröngvað í óþægilega skó. Stuttu síðar fóru langflestir fermingardrengirnir fram úr mér í hæð og auk þess systir mín og margar vinkonur og ég fór að átta mig á því að 173 cm þætti ekki hátt á America's Next Top Model kvarða.

Þrátt fyrir þrotlausar (eða a.m.k. nokkrar) æfingar síðustu ár held ég yfirleitt ekki lengi út í einu á háum hælum og er yfirleitt með flatbotna með mér í töskunni þegar ég fer út á lífið. Eins og sumir vita er ég með frekar ósamhæfðar hreyfingar sem fer ekkert sérstaklega vel saman við hælaðan skófatnað, enda var það mjööög óheppilegt þegar ég var hársbreidd frá því að hrasa í fangið á háskólarektor í nýju skónum mínum á útskriftinni í fyrra. Hef samt reynt að taka mig á og ákvað í gær að vera pæjuleg og fara í ekki-svo-háu-en-samt-með-hæl-sem-ég-keypti-í-New-York skónum mínum í vinnuna. Fannst ég samt hálf óstöðug á þeim og var frekar svekkt yfir að vera ekki búin að ná betri færni eftir allar æfingarnar. Fannst líka heyrast eitthvað skrýtið hljóð þegar ég labbaði en hugsaði svosem ekki mikið út í það. Enda er ég viss um að vera með skakkt göngulag frá náttúrunnar hendi þrátt fyrir að rándýr göngugreining á sínum tíma hafi leitt í ljós jafnlanga fætur og ekkert sérstakt athugavert. Hálf missteig mig nokkrum sinnum þarna í vinnunni og fannst ég leiðinlega klaufaleg en tókst samt að komast í gegnum daginn, ægilega dugleg.

Fór svo í Baðhúsið eftir vinnu og var fegin að komast úr skónum og í íþróttaskóna. Þegar ég var að klæða mig úr skónum tók ég eftir að þeir voru eitthvað skrýtnir... ég semsakt tók eftir því að það VANTAÐI HÆLINN á annan skóinn! Hann hafði líklega dottið af án þess að ég tæki eftir því og ég var augljóslega búin að ganga ansi lengi um (líklega allan daginn) á misháum skóm. Vona innilega að enginn hafi tekið eftir þessu í vinnunni, en hvað veit maður. Spurning um að halda sig bara við inniskóna þar...

30. sep. 2008

All the leaves are brown, and the sky is grey...

Ég hætti með þetta blogg haustið 2003 þegar ég flutti til London og fór að leigja ódýrt húsnæði í hjarta borgarinnar af handrukkara. Sá var stór og mikill þeldökkur plötusnúður sem hafði snúið baki við eiturlyfjaheiminum og flutt með fjölskyldu sinni til Jórvíkurskíris, en vildi halda íbúðinni í London þangað sem hann kom í "viðskiptaerindum" mánaðarlega. Fyrirmælin voru skýr, ódýr leiga greidd út í hönd, ekki svara óboðnum gestum og taka skilaboð í símann um að hann væri ekki við. Þarna bjó ég í 16 mánuði, fyrst með Hobbitanum og svo með Útlendingnum.

Þetta var stormasamur tími í tilfinningalífinu og töluverður skellur eftir heilt ár af sólarsamba stúdentalífsins í Brighton. Ég tók upp nýtt nafn (Sue Lawrence), nýjan starfsferil sem skrifstofumær í dúskadeild og stefndi um tíma á frama innan verslunarkeðjunnar John Lewis. Brighton bloggið vék fyrir Bakarastrætis blogginu og á tímabili hélt ég auk þess út leynilegu bloggi þar sem ég skrifaði dramatískar lýsingar á því hvernig það væri hægt að vera einmana í 8 milljón manna stórborg. Auðvitað var þetta ekki alslæmt, það skiptust á skin og skúrir eins og alltaf, og þetta var mjög lærdómsríkur tími að mörgu leyti. Nánari lýsing á London: The true story bíður betri tíma, langaði bara aðeins að tengja, enda fimm ár síðan ég skrifaði síðast á þetta blogg.

Haustið leggst vel í mig enda uppáhaldsárstíminn minn. Haustlitirnir fallegir, veðrið oft milt og maður er þakklátur fyrir alla sólardaga, ólíkt því sem gerist á sumrin þegar veðrið veldur yfirleitt eilífum vonbrigðum (viðurkenni samt að sumarið í ár var yndislegt). Rökkrið er notalegt og felur þar að auki bauga, bólur og aðrar misfellur, svo hverfa mini-pilsin og sandalarnir af sjónarsviðinu og hentugri klæðaburður tekur við. Teppin og kertin (í miklu uppáhaldi hjá mér) fá uppreisn æru, best er auðvitað að hafa einhvern til að halda á sér hita svo maður geti skrúfað fyrir ofnana í kreppunni. Rúsínus sinnir þessu hlutverki prýðisvel hjá mér, enda hárprúður og heitfengur með eindæmum, verst að hann helst ekki lengi undir teppinu í einu.

Það besta við haustið er samt árstíðaskiptin, þessi áramótafílingur. Skólarnir byrja og á sama tíma alls konar námskeiðahald og átök, hvort sem það eru tómstundir, líkamsrækt eða vinnutengt. Tími breytinga og betrunar. Ég hlakka til :)