11. okt. 2008

Á Spáni er gott að djamma og djúsa...

Gamlir vinnufélagar mínir eru nú um helgina að njóta lífsins í Sevilla á Spáni (þar á meðal þessi, þessi og þessi). Ég myndi öfunda þau alveg rosalega, ef ekki væri fyrir það ég hef farið einu sinni til Sevilla og þekkist sú ferð ekki undir öðru en nafninu Versta Frí Allra Tíma.

Þetta var sumarið 2004. Útlendingurinn var að fara að halda fyrirlestur á voða fínni ráðstefnu í Sevilla og ég fékk að fara með, til að slá tvær flugur í einu höggi og eiga saman rómantíska helgarferð að hluta til á kostnað fyrirtækisins. Við vorum voða spennt að vera á flottu hóteli í æðislegri borg og ætluðum að njóta þess að sóla okkur, borða tapas og fara í gönguferðir um borgina þar sem fyrirlesturinn var ekki fyrr en alveg í lokin á síðasta degi ráðstefnunnar. Þetta fór hins vegar ekki alveg eins og áætlað var.

Við komuna var glampandi sól og starfsfólk hótelsins bað okkur að afsaka hvað veðrið væri vont og vonaðist til að það myndi ekki versna. Við hlógum mikið að þessum brandara, enda tæplega 40 stiga hiti úti. En nei. Þetta var ekki grín. Á meðan á dvöl okkar stóð reið hitabylgja yfir borgina(sem er ekki við sjóinn, fyrir þá sem ekki þekkja til) sem sló víst öll met. Það varð bara heitara...og heitara...og heitara. Það var 45-47 stiga hiti ALLAN tímann og það kólnaði ekkert sérstaklega mikið á nóttunni, helst að það væri bærilegt rétt áður en sólin kom upp á morgnana.

Það var svo heitt að lyfturnar biluðu - og við vorum á næstefstu hæð. Það var svo heitt að það var ekki hægt að vera við sundlaugarbakkann nema í mesta lagi 20 mínútur í einu, þrátt fyrir að vera í skugga. Það var svo heitt að loftkælingin á hótelinu bilaði og það var ólíft inni jafnt sem úti. Eini staðurinn sem hægt var að vera á var verslunarmiðstöðin handan götunnar, því þar virkaði loftkælingin. Veit ekki hvort þið áttið ykkur á þessum hita - litla Íslendingnum fannst næstum óbærilegt að labba yfir götuna, hélt niðri í mér andanum og hljóp. Þannig að þarna ráfuðum við stefnulaust um deildir verslunarinnar, ekki að versla þar sem úrvalið var ekki upp á marga fiska, heldur bara að njóta þess að anda að okkur köldu lofti.

Við fórum einu sinni út að borða, á Pizza Hut stað við hliðina á hótelinu. Ég hætti mér einu sinni út fyrir dyr ein í skoðunarferð en sú ferð er öll í móki þar sem ég villtist og hélt grínlaust að ég myndi deyja úr ofþornun. Við vorum þar að auki bæði með flensu, fyrst ég og svo hann. Kvöldunum eyddum við uppi á hótelherbergi með snýtubréf og verkjalyf og völdum á milli þeirra þriggja lélegra bíómynda sem voru í boði á hótelvídjóleigunni, sem við höfðum allar séð áður. Kelerí var klárlega ekki á dagskrá.

Við vorum þess vegna fegin þegar kom að síðasta deginum, þá var bara eftir að halda fyrirlesturinn sem var nú ástæða ferðarinnar. Þegar þarna var komið við sögu voru allir ráðstefnugestirnir orðnir uppgefnir, fyrirlesturinn sem var næst á undan fór langt yfir öll tímamörk og flestir voru að missa af fluginu sínu. Það endaði þess vegna með þvi að ENGINN mætti á fyrirlesturinn, sem olli skiljanlega miklum vonbrigðum. Það voru þess vegna fölir og fúlir en ekki sólbrúnir og sællegir ferðalangar sem héldu heim á leið.

Ég efast þó ekkert um að Sevilla sé æðisleg borg og að það sé gaman að fara þangað í frí, sérstaklega á þessum árstíma. Hún er bara ekki á topp 10 staðir-sem-mig-langar-til-að-heimsækja listanum mínum í bili.

1 ummæli:

Freyja sagði...

Og líklega ekkert sérstaklega ódýr fyrir íslendinga eins og staðan er í dag...