Nú er mikið í umræðunni kreppu- þetta og kreppu- hitt. Ég tók þátt í skemmtilegum umræðum í dag um kreppukærasta/kærustur. Á erfiðum óvissutímum er nefnilega mikilvægara en oft áður að hafa einhvern til að halla sér að, einhvern til að tala við, hugga mann, til að kúra/knúsa/kyssa osfr. Eins og það getur verið gott að vera einhleypur er það einmitt svona í fjármálakreppuskammdeginu sem einmanaleikinn sækir að fólki og það saknar þess að hafa ekki maka. Þá er tilvalið að slaka aðeins á kröfunum um hinn eina rétta og finna sér kreppukærasta. Einhvern sem maður kannski er nokkuð viss um að myndi ekki ganga upp þegar til lengri tíma er litið, en sem getur vel yljað manni fram á vorið. Fyrstu sex mánuðurnir eru mest spennandi hvort eð er og það sem stíar fólki í sundur á endanum kemur yfirleitt ekki fram fyrr en seinna. Hætta að spá í hvort þið viljið bæði eignast börn, hafið sömu skoðanir á Söruh Palin eða hvort þú haldir að nefkækurinn muni pirra þig ef þið byggjuð saman. Yfirleitt á við "Betra er autt rúm en illa skipað" en á krepputímum gildir "Betra er sæmilega skipað rúm en illa skipað". Svo sparar það pening og kyndingu að elda fyrir tvo og hlýja sér á öðrum. Síðan þegar hagurinn fer að vænkast og veðrið að hlýna er alltaf hægt að leika sér einn á ný eða skipta út fyrir betra módel. Ótrúlega góð hugmynd...
1 ummæli:
tíhíhíhíhí :D
Skrifa ummæli