14. okt. 2008

Wish it was Sunday, 'cause that's my funday...

Ég hef mjög gaman af því að gera lista af ýmsu tagi, sérstaklega topp 5 og topp 10 lista. Hér koma topp 5 uppáhalds vikudagarnir mínir :)

1. Sunnudagur. Klárlega besti dagur vikunnar. Hvað er betra en að vakna úthvíldur á sunnudagsmorgni, elda egg og beikon eða fara út í bröns og lesa blaðið í rólegheitunum...ahhh. Í Bretlandi var það English breakfast og Sunday Times, í sumar voru það svalirnar og sunnudagsmogginn. Á sunnudögum fær maður ekki samviskubit yfir að liggja í leti allan daginn og horfa á vídjó, en það eru líka tilvaldir dagar til að fara í sund, hitta vini, fara í kaffiboð, göngutúr, bíó... Síðasta mánuðinn hef ég farið í mat til mömmu og pabba á sunnudögum og horft með þeim á Svarta Engla og Dagvaktina og það hefur verið afar skemmtilegt. Húrra fyrir sunnudögum!

2. Fimmtudagur. Vanmetinn dagur sem Íslendingar hafa lært að meta í síauknum mæli á undanförnum árum. Á fimmtudögum er vikan alveg-að-verða-búin svo maður fær auka innspýtingu á orku. Tilvalið er að nota fimmtudagana til að lyfta sér aðeins upp, fara á tónleika, í saumaklúbb eða kíkja í einn á pöbbnum. Fínt að vaka aðeins lengur en venjulega, alltaf hægt að sofa aðeins lengur hinn daginn. Vonir og væntingar helgarinnar byrja að vakna og tilhlökkunin er í hámarki ef það er eitthvað skemmtilegt framundan. Enda vita allir að tilhlökkunin veitir í það minnsta helming ánægjunnar...

3. Mánudagur. Misskilinn dagur. Mánudagur til mæðu hvað? Nýtt upphaf. Fögur fyrirheit. Ef þú byrjar í einhvers konar átaki varðandi mataræði/hreyfingu/skipulag osfr. eru allar líkur á að þú byrjir á mánudegi. Og þótt þú gefist upp á þriðjudeginum eru allar líkur á því að þú haldir út mánudaginn og sért rosa ánægður með þig í lok dagsins. Svo fylgir mánudögum stundum aukin orka, að vera endurnærður eftir æðislegan sunnudag. Dagurinn líður yfirleitt fljótt hjá mér og ég fer yfirleitt sátt að sofa eftir vel unnið dagsverk á mánudagskvöldum. Á það samt til að vaka of lengi á sunnudögum og vera rosa þreytt á mánudögum og nenna lítið að gera. Mánudagskvöld eru líka bara ágæt hangaheimakvöld. Setja í þvottavélina eftir helgina og kíkja í bók.

4. Föstudagur. Uppáhaldsdagur margra. Föstudagur er dagur feginleikans, vinnuvikan búin og helgin framundan með ótal möguleikum. Oft afslappaðra andrúmsloft á vinnustöðum, brandarar sendir á milli manna og flöskudagsgrín haft í hávegum. Helsta ástæðan fyrir því að föstudagar eru ekki hærra á listanum er að ég er yfirleitt mjöööög þreytt á föstudagskvöldum eins og margir eru, búnir eftir vinnuvikuna. Það verður oft hálflítið úr þeim kvöldum, soldið svona sofna-fyrir-framan-sjónvarpið stemning. Svo er einbeitingin alveg út og suður eftir hádegi en samt stress yfir að ná ekki að klára verkefni vikunnar. Allt í allt ágætur dagur, en fellur svolítið í skuggann vegna þreytu eftir fimmtudagsgleðina.

5. Laugardagur. Já laugardagur verður að fá að vera með. Þótt laugardagur sé auðvitað eðaldagur að því leyti að það er frídagur og gott að sofa út, er hann líka dagur vonbrigða. Það er nefnilgea svo mikil pressa á aumingja laugardeginum, það Á að gera eitthvað skemmtilegt, eða í það minnsta gera eitthvað sem hefur til dæmis setið á hakanum, en svo finnst mér oft ekki verða neitt úr deginum. Svo fer ég í mínus ef ég fer ekkert á laugardagskvöldum, þótt það sé auðvitað hallærislegt. Held að það minni mig á endalausu laugardagskvöldin sem var eytt í Sumarhöllinni góðu við lærdóm *hrollur* Fínn dagur til að taka til. Jú og til að fara í badminton. Svo geta laugardagskvöldin auðvitað verið ansi skemmtileg, sérstaklega þegar maður á síst von á því :)

Það sést semsagt á þessari upptalningu að þriðjudagar og miðvikudagar ná ekki inn á topp fimm listann. Enda finnst mér miðvikudagsmorgnar með eindæmum leiðinlegur. Vikan löngu byrjuð en samt svo mikið etir af henni. Þreyta og ekki séð fyrir endann á henni. Ágætir dagar samt til að fara í heimsóknir eða mæla sér mót á kaffihúsi, en gott að plana aðeins fyrirfram. Bestu dagarnir til að fara í leikfimi ef maður fílar svoleiðis, svona til að dæla smá bensíni á tankinn.

Ú gaman að gera lista! Ætla að gera fleiri :) Stay tuned...

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Afhverju vissi ég ekki að þú værir með blogg sæta mín? Má ég linka á þig frá mínu bloggi?

knús og klem
Þ.

Freyja sagði...

Endilega fleiri lista takk.. Listinn minn yfir vikudagana er aðeins öðruvísi. Dagarnir renna bara saman, og enginn dagur stendur upp úr... nema kannski sunnudagar. Einu frídagarnir mínir. Hlakka til að sjá þig á morgun sæta mús