18. okt. 2008

Running against the wind...

Mér finnst leiðinlegt í leikfimi. Mér finnst ekkert leiðinlegt að hreyfa mig, og ekkert leiðinlegt í íþróttum yfirhöfuð, var til dæmis í badminton áðan eins og flesta laugardaga og finnst það frábært. En mér finnst bara... ekki gaman að hlaupa á hlaupabretti eða púla á stigvél eða hvað þetta nú allt saman heitir. Á vinkonu sem er alltaf með sælusvip á hlaupabrettinu og fær að því er virðist þvílíkt endorfín-kikk við áreynsluna en ég bara kemst ekki sjálf í hæstu hæðir Nirvana á þennan hátt. Mig langar ekki í Boot Camp og færi örugglega að grenja ef einhver einkaþjálfari öskraði á mig að gera fleiri armbeygjur.

Hins vegar er hollt og gott fyrir heilsu, hug og hjarta að púla svolítið og þess vegna fer ég nú samt á hamstrahjólið, enda líður mér voða vel eftirá. Hef (eins og margir) gerst styrktaraðili ýmissa líkamsræktarstöðva gegnum árin, byrjað vel og hætt að mæta... þannig að núna er ég að reyna að "taka sjálfa mig á sálfræðinni". Nýjasta trikkið er að vera alltaf með dótið í bílnum og fara beint úr vinnunni, það er svona næstum því í leiðinni. Síðan er ég orðin mun duglegri í að tala mig til. Letipúkinn og Leikfimiengillinn hnakkrífast hvor í sitt eyrað á mér.

- Ertu ekki þreytt eftir vinnuna? Farðu bara aðððeins heim fyrst. Langar þig ekki bara að slaka á...þetta var svo langur dagur...
- Hlustaðu ekki á þetta kjaftæði. Ef þú ferð heim þá ferðu ekkert út aftur. Hvað kom fyrir heilsuátakið? Þú verður hress og kát á eftir...


Og á meðan þeir rífast keyri ég fyrir framan Baðhúsið og enda yfirleitt á því að fara inn úr því að ég er nú einu sinni kominá staðinn.

Fór á brettið í fyrradag í svona hlaupa-labba rútínu og var algjörlega uppgefin eftir tæpan hálftíma. Skildi ekkert í því hvað þolið hefði versnað svona skyndilega því þetta er æfing sem hafði gengið svona ljómandi vel fyrr í vikunni án þess að fá blóðbragð í munninn. Sé ég þá ekki að brettið er stillt í halla (ekki hægt að breyta því) og hallar bara töluvert mikið upp á við. Ahhhh.

Engin ummæli: