Fætur mínir hafa (því miður) ekki fengið mikla þjálfun í göngu á háhæluðum skóm, enda var ég með mikla minnimáttarkennd (stærrimáttarkennd?) yfir því að vera "of hávaxin" sem unglingur. Ég þróaði þess vegna með mér göngulag í ætt við hringjarann af Notre dame þrátt fyrir tilmæli móður minnar um að vera bein í baki. Auk þess stóð alltaf svolítið bogin í löppum og hallaði mér eins og ég væri með hryggskekkju ef ég var að tala við einhvern sem var minni en ég. Þessir ósiðir gerðu samt sem áður tærnar mínar afskaplega hamingjusamar, þær fengu að leika lausum hala og var aldrei þröngvað í óþægilega skó. Stuttu síðar fóru langflestir fermingardrengirnir fram úr mér í hæð og auk þess systir mín og margar vinkonur og ég fór að átta mig á því að 173 cm þætti ekki hátt á America's Next Top Model kvarða.
Þrátt fyrir þrotlausar (eða a.m.k. nokkrar) æfingar síðustu ár held ég yfirleitt ekki lengi út í einu á háum hælum og er yfirleitt með flatbotna með mér í töskunni þegar ég fer út á lífið. Eins og sumir vita er ég með frekar ósamhæfðar hreyfingar sem fer ekkert sérstaklega vel saman við hælaðan skófatnað, enda var það mjööög óheppilegt þegar ég var hársbreidd frá því að hrasa í fangið á háskólarektor í nýju skónum mínum á útskriftinni í fyrra. Hef samt reynt að taka mig á og ákvað í gær að vera pæjuleg og fara í ekki-svo-háu-en-samt-með-hæl-sem-ég-keypti-í-New-York skónum mínum í vinnuna. Fannst ég samt hálf óstöðug á þeim og var frekar svekkt yfir að vera ekki búin að ná betri færni eftir allar æfingarnar. Fannst líka heyrast eitthvað skrýtið hljóð þegar ég labbaði en hugsaði svosem ekki mikið út í það. Enda er ég viss um að vera með skakkt göngulag frá náttúrunnar hendi þrátt fyrir að rándýr göngugreining á sínum tíma hafi leitt í ljós jafnlanga fætur og ekkert sérstakt athugavert. Hálf missteig mig nokkrum sinnum þarna í vinnunni og fannst ég leiðinlega klaufaleg en tókst samt að komast í gegnum daginn, ægilega dugleg.
Fór svo í Baðhúsið eftir vinnu og var fegin að komast úr skónum og í íþróttaskóna. Þegar ég var að klæða mig úr skónum tók ég eftir að þeir voru eitthvað skrýtnir... ég semsakt tók eftir því að það VANTAÐI HÆLINN á annan skóinn! Hann hafði líklega dottið af án þess að ég tæki eftir því og ég var augljóslega búin að ganga ansi lengi um (líklega allan daginn) á misháum skóm. Vona innilega að enginn hafi tekið eftir þessu í vinnunni, en hvað veit maður. Spurning um að halda sig bara við inniskóna þar...
Ég hef mikið að segja
Fyrir 9 árum
2 ummæli:
Persónulega finnst mér best að venja mig við háu hælana með því að ryksuga í þeim. Maður þarf að labba um og svitnar aðeins líka. Svínvirkar. Svo klikkar ekki að blasta gott rokk samhliða og taka eitt og eitt dansspor með.
Snilld. Ég var einmitt að hugsa um að fara að venja mig aftur við háu hælana. Svona einhvern tímann bráðum. Kannski
Skrifa ummæli