Ég hætti með þetta blogg haustið 2003 þegar ég flutti til London og fór að leigja ódýrt húsnæði í hjarta borgarinnar af handrukkara. Sá var stór og mikill þeldökkur plötusnúður sem hafði snúið baki við eiturlyfjaheiminum og flutt með fjölskyldu sinni til Jórvíkurskíris, en vildi halda íbúðinni í London þangað sem hann kom í "viðskiptaerindum" mánaðarlega. Fyrirmælin voru skýr, ódýr leiga greidd út í hönd, ekki svara óboðnum gestum og taka skilaboð í símann um að hann væri ekki við. Þarna bjó ég í 16 mánuði, fyrst með Hobbitanum og svo með Útlendingnum.
Þetta var stormasamur tími í tilfinningalífinu og töluverður skellur eftir heilt ár af sólarsamba stúdentalífsins í Brighton. Ég tók upp nýtt nafn (Sue Lawrence), nýjan starfsferil sem skrifstofumær í dúskadeild og stefndi um tíma á frama innan verslunarkeðjunnar John Lewis. Brighton bloggið vék fyrir Bakarastrætis blogginu og á tímabili hélt ég auk þess út leynilegu bloggi þar sem ég skrifaði dramatískar lýsingar á því hvernig það væri hægt að vera einmana í 8 milljón manna stórborg. Auðvitað var þetta ekki alslæmt, það skiptust á skin og skúrir eins og alltaf, og þetta var mjög lærdómsríkur tími að mörgu leyti. Nánari lýsing á London: The true story bíður betri tíma, langaði bara aðeins að tengja, enda fimm ár síðan ég skrifaði síðast á þetta blogg.
Haustið leggst vel í mig enda uppáhaldsárstíminn minn. Haustlitirnir fallegir, veðrið oft milt og maður er þakklátur fyrir alla sólardaga, ólíkt því sem gerist á sumrin þegar veðrið veldur yfirleitt eilífum vonbrigðum (viðurkenni samt að sumarið í ár var yndislegt). Rökkrið er notalegt og felur þar að auki bauga, bólur og aðrar misfellur, svo hverfa mini-pilsin og sandalarnir af sjónarsviðinu og hentugri klæðaburður tekur við. Teppin og kertin (í miklu uppáhaldi hjá mér) fá uppreisn æru, best er auðvitað að hafa einhvern til að halda á sér hita svo maður geti skrúfað fyrir ofnana í kreppunni. Rúsínus sinnir þessu hlutverki prýðisvel hjá mér, enda hárprúður og heitfengur með eindæmum, verst að hann helst ekki lengi undir teppinu í einu.
Það besta við haustið er samt árstíðaskiptin, þessi áramótafílingur. Skólarnir byrja og á sama tíma alls konar námskeiðahald og átök, hvort sem það eru tómstundir, líkamsrækt eða vinnutengt. Tími breytinga og betrunar. Ég hlakka til :)
Ég hef mikið að segja
Fyrir 9 árum
Engin ummæli:
Skrifa ummæli