27. ágú. 2002

Í gærkvöldi klukkan hálftvö hringdi gsm síminn hans Óla. Það var enginn á línunni og ekkert númer á númerabirtinum. Þetta fór óstjórnlega í taugarnar á mér því ég er svo forvitin. Sérstaklega þegar kemur að svona. Ætli þetta hafi verið einhver í hættu staddur? Viðhaldið? Símtal úr geimnum? Líklega var þetta bróðir hans á fylliríi að hringja frá Svíþjóð. Oh well. Það rifjaðist upp fyrir mér verslunarmannahelgin..... 94 að ég held. Ég var í Vatnaskógi með Freyju vinkonu en aðrir fjölskyldumeðlimir voru heima. Ég var fjórtán ára og varla nokkur maður með gsm síma. Um miðja nótt þá helgi hringdi einmitt síminn heima hjá sér. Pabbi svaraði og á línunni var ungur drengur. Hann kynnti sig og spurði eftir mér. Þegar í ljós kom að ég var ekki heima bað hann fyrir þau skilaboð að hann elskaði mig. Æsispennandi ekki satt? Nema hvað, þegar ég kom heim og fékk að vita fregnirnar af þessum dularfulla aðdáanda gat pabbi ekki með nokkru móti munað hvað hann hét. Það kom enginn sérstakur til greina og ég var ekki á því að spyrjast fyrir meðal þeirra sem ég þekkti. Þetta mál er því óupplýst enn þann dag í dag. Sorglegt :)

Mér eins og svo mörgum stelpum finnst voðalega gaman að kryfja mál til mergjar. Þetta kalla strákar að velta sér upp úr vandamálunum. Af þessum sökum er yfirleitt ómögulegt að segja “we need to talk” við stráka. Maður þarf að fara krókaleiðir að því. Og jafnvel þá missa þeir athyglina eftir smástund. Eins og maður þurfi að koma þessu að í skömmtum. Helst segja eitthvað eins og “fótbolti” og “brjóst” á milli svona til að halda þeim vakandi. Í fyrradag lá ég uppi í rúmi með mínum heittelskaða og lét móðan mása um lífið og tilveruna og sambandið og ástina. Mér fannst hann vera frekar þögull og spurði hann þess vegna hvað hann væri að hugsa. Hann sagði að honum hefði verið að detta í hug svolítið sem kæmi málinu ekkert við. Mér var alveg sama (eða þóttist vera alveg sama) og vildi endilega toga þetta upp úr honum. “Ég vil heyra allt sem þú hugsar elskan mín” bla bla og allt það. “Jú”, svarar hann, “mér datt í hug að það væri örugglega hægt að tjalda í hesthúsinu hérna fyrir neðan”. Great. Ég ákvað að sleppa því að spyrja framar. En þetta er svosem undantekning. Yfirleitt eru þeir ágætir þessi grey :)

Sveitatíðin er senn á enda og ég þarf þess vegna líklega að fara að breyta útliti síðunnar...... gengur ekki að vera með kindaþema þegar maður flytur til Brighton (eða ég vona það að minnsta kosti). Minn ástkæri Ólafur fékk þær fréttir í morgun að hann hættir að vinna í dag en ekki á föstudaginn eins og við héldum. Þannig að við förum bæði á einhvern lokafund í kvöld og svo getum við farið í smá ferðalag, vei!

Já og eitt enn. Þórdís vinkona í USA er farin að blogga aftur. Það er ótrúlega gaman að lesa það sem hún skrifar. Því miður get/kann ég ekki að linka í einstakar færslur hjá henni en ég mæli með færslu um strokleður/smokka frá 23. ágúst. Ég veltist um af hlátri :)

26. ágú. 2002

Komin aftur! Hætt að vinna og get því bloggað daglega, trallala. Verst að það eru allir hættir að skoða síðuna mína samkvæmt herra teljara en þaaaað er allt í lagi. Enda skrifa ég mest bara fyrir sjálfa mig, til að muna eftir sumrinu í sveitasælunni. Ég held að ég sé orðin einum of vön einverunni og á það til að gleyma að ég er kannski ekki alveg stödd í óbyggðum þótt það virðist stundum vera þannig. Ég hef nefnilega verið að njóta þess að vera svona ein í húsi í sveitinni með því að gera hluti sem ég myndi ekki gera heima hjá mér. Stilla græjurnar í botn og syngja og dansa uppi á borði á nærfötunum einum saman. Mjög gaman þangað til að maður heyrir bíl keyra niður heimreiðina. Hneggjandi hestamenn, fornleifafræðingar að leika bardagalistir og menn frá flugmálastjórn að mála kamar er meðal þess fólks sem mætir á svæðið. (Ætti kannski að taka það fram að maðurinn var ekki frá flugmálastjórn heldur var hann bara á bíl merktum þeim og kamarinn var í raun spennustöð - ég er bara svona treg).
Mig er annars farið að dreyma furðulega drauma. Í fyrrinótt var ég stödd í sjoppu á Akureyri um miðja nótt þar sem afgreiðslustúlkan var að reyna að selja mér pestó. Dollan kostaði tvöþúsund kall en hún sagði alltaf tuttuguhundruðkrónur til þess að ég héldi að það væri ódýrara. Afar dularfullt.
Já og hringurinn minn er fundinn! Verð að draga til baka allar samsæriskenningar um að honum hafi verið stolið. Eins og það var nú gaman að leika spæjara :)

24. ágú. 2002

Vinna vinna og enginn tími fyrir blogg :( Það verður þó bætt úr því á næstunni því ég á bara eftir að vinna í tvo daga!!! Annars er ýmislegt að frétta, ég fór í Drangey, ég veiddi fisk, fékk bólu á hökuna og fleira æsispennandi og skemmtilega. Frekari fregnir á mánudaginn :)

20. ágú. 2002

Rigning. Hnuss. Það er ekki búið að vera gott veður í Skagafirði í allt sumar. Nema í fyrstu vikunni en þá keypti ég mér einmitt þrjátíu miða sundkort og ætlaði mér að grillast í sundi í sumar. Hef frekar verið skjálfandi í heita pottinum. Nú segja menn að það sé byrjað að hausta hérna. Svakalegt.

16. ágú. 2002

Í nótt varð ég svo hrædd að ég var við það komin að hringja í neyðarlínuna. Ég kom heim frekar seint, foreldrarnir farnir að sofa en systirin ókomin heim þannig að ég tók úr lás fyrir hana og skreið upp í rúm. Hafði hurðina samt hálfopna svo að ég myndi heyra í litlu sis. Allt í einu heyri ég froskinn fræga úr þarsíðustu færslu byrja að kvaka. Hann er með hreyfiskynjara og þar sem það var enginn í stofunni datt mér auðvitað í hug að þarna væri innbrotsþjófur á ferð. Hann kvakar aftur og ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að athuga hvað væri í gangi. Ég hringi í systu sem segist vera á leiðinni. Ég skipaði henni að fara varlega, kveikja öll ljós og fara helst með barefli inn í stofu. Hún er í íþróttum og svona, það er bara ég sem er algjör aumingi :) Svo stimplaði ég inn 112 í símann, viðbúinn að leyfa Neyðarlínunni að hlusta á ópin í mér ef vondi kallinn í stofunni myndi ráðast á mig. Eftir að við höfðum grandskoðað stofuna saman og ekkert fannst skriðum við aftur í rúmið en helv... froskurinn hélt áfram að skríkja öðru hvoru alla nóttina. Morguninn eftir komu fjölskyldumeðlimirnir með ýmsar skýringar á þessu atferli herra frosks.
a) Froskurinn er bilaður (geðveikur)
b) Froskurinn er bilaður (tæknilega)
c) Froskurinn er andsetinn
d) Það eru draugar í stofunni
e) Froskurinn er að hefna sig vegna þess að hann var færður frá hinum froskunum.

Ég hallast persónulega að skýringu e)
Annars er það að frétta að ég brann á rassinum eftir ljósabaðið. Þetta gerðist einmitt líka síðast þegar ég fór í ljós nema að þá skaðbrann ég og gat ekki setið í nokkra daga. Skrýtið að ég hafi verið búin að gleyma því, eins og öllum (nema mér) fannst það fyndið þá :)
Svo fór ég líka í blóðbankann í fimmta sinn í fyrradag. Fékk svona fína nælu að því tilefni og er rosa stolt. Mæli með þessu. Eina slæma er að ég er með sprautufar á handleggnum sem er ekki heppilegt á mínum vinnustað...

15. ágú. 2002

Fólk forfallast í hittingum við mig í gríð og erg. Hvað er að gerast? Er vond lykt af mér?
Ég eyddi um það bil 20 þús. í dag og keypti eiginlega ekki neitt. Fyrst borgaði ég tannlækninum mínum fyrir að segja mér að tennurnar mínar væru ekki skemmdar. Svo borgaði ég Stoðtækni fyrir að mæla á mér lappirnar. Þær eru jafnlangar en ég geng eitthvað vitlaust. Skýrir af hverju ég get ekki verið í háhæluðum skóm í lengur en hálftíma. Ég borgaði þess vegna fullt af peningum til að láta smíða handa mér innlegg. Mér fannst ég vera frekar misheppnuð og keypti mér þess vegna ljósakort. Fæturnir geta verið skakkir en þeir verða þó að minnsta kosti brúnir.

14. ágú. 2002

Mamma mín safnar froskum. Ekki lifandi froskum heldur svona flottum, skemmtilegum og krúttlegum froskum til þess að hafa á hillu í stofunni. Safnið hefur vaxið ískyggilega undanfarið ár. Ég benti á þetta í gær en var pent bent á til baka að um það bil helmingur froskanna hefur verið gjöf frá mér og/eða systur minni. Þannig að við getum lítið sagt. Mér hefur líka bara fundist þetta skemmtilegt þangað til nýjasti fjölskyldumeðlimurinn bættist í safnið. Það er froskur með hreyfiskynjara sem hefur upp raust sína þegar einhver labbar framhjá honum. Sem er nokkuð oft ef maður er rápari eins og ég. Froskurinn kvakar líka (eða hvað sem þetta nú heitir) ef maður teygir úr sér í sófanum. Hljóðið er farið að fara í mínar fínustu taugar. Ég hef íhugað að koma honum fyrir kattarnef en finnst það heldur illa gert þar sem hann er ágætur að öðru leyti. Ég gæti tekið batteríin úr honum en er ég þá ekki orðin eins og vonda nornin (eða hvað það nú var) sem skar tunguna úr litlu hafmeyjunni? Samningaviðræður eru nú í gangi um að finna froskinum nýjan stað í stofunni. Hann yrði þá að vísu fjarri hinum froskunum. En hann gæti alltaf komið í heimsókn.

13. ágú. 2002

Komin í bæinn... yeah baby!
Er reyndar ennþá í sjokki yfir að hafa vaknað í morgun og fattað að við sofnuðum út frá kerti! Í litlum timburkofa með ekkert brunavarnarkerfi. Ekki mjög sniðugt. Sem betur fer var kertið svo svakalega stórt að það logaði ennþá á því í morgun. Dúkurinn hennar mömmu var hins vegar alsettur í rauðu kertavaxi.
En ég er á lífi og ætla að njóta þess í stórborginni minni....ahhhh
p.s. hringi í þig á morgun :) líst vel á annað kvöld!

12. ágú. 2002

Úff hvað ég er þreeeeeeeeytt. Og blá og marin. Maður er alltaf að lenda í einhverju smá tuski við þessa stráklinga. Ég hef aldrei kunnað að slást, hvorki í gríni né í alvöru og er þessa dagana bitur út í foreldra mína fyrir að hafa ekki eignast eins og einn strák til viðbótar við okkur systurnar. Þá hefði maður kannski verið í smá æfingu. Litla systir mín hefur einu sinni bitið mig og einu sinni ælt á mig and that´s about it.
Ég vann semsagt 46 tíma yfir helgina vegna þess að ég tók 18 tíma vakt í gær. Það var reyndar mjög fyndið. Ég átti bara að vera til miðnættis en konan sem átti að vera á næturvakt bað mig um að vera aðeins lengur vegna þess að hún ætlaði að koma ríðandi. Klukkan hálf eitt hringdi hún og sagðist vera villt. Klukkan tvö hringdi hún og sagði að hún vissi hvar hún væri. Klukkan hálf þrjú hringdi hún og sagðist vera komin niður að á en hestarnir vildu ekki fara yfir og að hún ætlaði að snúa við. Klukkan þrjú hringdi hún og bað um að láta sækja sig. Ég var komin heim klukkan fjögur.
Góðu fréttirnar eru þær að ég er að koma í bæinn á morgun....vúúúhúúú og verð líklega alveg fram á sunnudag. Hlakka til að sjá ykkur :)

11. ágú. 2002

Algjört HELL að vinna 10-24 föstudag laugardag og sunnudag. Kem gjörsamlega engu í verk. Helstu fréttir eru þær að ég er búin að týna hring sem ég á sem Óli gaf mér. Mig grunar að lítil stelpa hafi stolið honum í sundi. Hún er að ég held drottnari myrkra afla og ætlar að nota hann til að tortíma heiminum. Ég var reyndar að horfa á Lord of the Rings áðan þannig að ég gæti haft rangt fyrir mér. Á það til að lifa mig inn í bíómyndir. Það er samt ákveðin lítil stelpa sem á sinn þátt í því að hringurinn er týndur. Fyrir viku síðan fór ég í sund og hún lét mig ekki í friði í búningsklefanum. Var bara svona forvitinn og málglaður krakki en samt frekar þreytandi. "Varst þú í rauðum sundbol?" "Hvar áttu heima?" " Áttu kærasta?" og svo framvegis og svo framvegis.... who what when why where þangað til ég forðaði mér. Hún kom inn í klefann þegar ég var í sundi núna um daginn þannig að ég flýtti mér eiginlega bara út til að lenda ekki í þessu sama aftur. Gleymdi að taka hringinn í flýtinum og nú er hann horfinn. Æ þetta er samt bara dæmigert fyrir mig. Ég er svo utan við mig...... ég held að ég hafi aldrei átt vettlingapar lengur en í mánuð. Sem betur fer er ég farin að vera með fyrirbyggjandi aðgerðir. Ég keypti mér til dæmis tvö pör af vettlingum af sömu sort núna síðast. Kannski ætti ég bara að súperglúa næsta hring sem ég eignast á mig.

8. ágú. 2002

Alltaf gaman að frétta af hittingi með Dr. Brynju og félögum :) Ég mæti!
Annars er ægilega lítið að frétta. Ég held að ég geti sofið endalaust. Líkamsklukkan er búin að stilla sig inn á að vakna klukkan 12 saman hvenær ég fer að sofa. Ég slekk sofandi á snoozinu og rotast til akkúrat 12, þá rís ég upp. Dularfullt. Þetta veldur því að ég hef afskaplega lítinn tíma til að gera nokkuð þar sem ég á að fara að vinna kl. 16. Oh well. Nokkrir friendsþættir og smá ís and I´m good to go :)

7. ágú. 2002

Já já ferðasagan góða...
Ég vil samt byrja á því að segja að ég fór aðeins í bæinn í síðustu viku og fannst það æðislegt, hitti fullt af fólki og kvaddi fullt af fólki (alltaf jafn sorglegt) og fékk skemmtilegt símtal frá Helga og Brynju sem eru æðisleg og ég ætla sko að hitta þau næst þegar ég kem í bæinn :) Þau eru reyndar svo vinsæl að maður þarf að panta tíma, miðað við skemmtilegar sögur á heimasíðu Bryn :)
Enívei, á föstudagskvöldið fórum við skötuhjúin á ball í Miðgarði sem var mitt fyrsta ekta sveitaball... ég tel það ekki með að hafa farið á Sveitaböll MH eða á ball á Blönduósi sem 10 manns mættu á þegar ég var 16 ára. Ég bý tæpa 4 km frá Varmahlíð þar sem Miðgarður er þannig að okkur datt í hug að labba þetta bara í rólegheitunum fram og til baka. Sem var ekki svo sniðugt á heimleiðinni, ég í pilsi og við í rigningu. Það var mjög gaman á ballinu sjálfu, við vorum nú bara í einn og hálfan tíma og þetta var meira svona eins og félagsfræðileg athugun. Við þekktum ekki neinn og vorum ekki með vodkapelann á lofti þannig að við dönsuðum bara og horfðum í kringum okkur. Þetta átti reyndar upphaflega að vera Jet Black Joe ball sem hefði verið skemmtilegt en breyttist á síðustu stundu í ball með Sóldögg. Oh well. Þetta var samt svolítið subbulegt ball. Fólk var þarna reyndar á öllum aldri, frá fjórtán til fimmtíu og flestir að reyna að ná sér í bólvermir. Ég var inni á baði að mála mig aðeins þegar einhver frekar ógeðslegur strákur villtist inn. Hann ákvað að reyna smá pikköpp og tekur utan um mig, segir: "Hei, ég vil ÞIG" eins og ég hafi unnið í happadrætti og slefar á öxlina á mér. Frekar vibbalegt og ég afþakkaði boðið. Þetta var svona gaur sem ég hefði haldið að ætti engan séns hjá neinum á þessu balli en viti menn, fimm mínútum seinna var hann kominn með enn ógeðslegri stelpu að skiptast á munnvatni. Rómantíkin blómstraði semsagt og meira að segja dyraverðirnir slefuðu upp í stelpurnar um leið og þeir hentu þeim út. Svo fóru allir upp í skóg sem er þarna fyrir ofan til að eðla sig... ekki skrýtið þótt það fæðist alltaf svona mörg börn í maí. Inn á milli voru einhver slagsmál og nokkrar flöskur fengu að fjúka, semsagt ekta sveitaball.
Á laugardeginum fórum við til Akureyrar þar sem var reyndar ekki mikið um að vera. Við fórum fyrst í bíó á The Sweetest Thing sem var bara gaman. Síðan hittum við nokkra vinnufélaga okkar og vini þeirra og fengum gistinu hjá þeim um nóttina. Kjöftuðum í heimahúsi og fórum svo á kaffihús. Á sunnudeginum var það Dalvík-Ólafsfjörður-Siglufjörður-Hofsós menningarferð og svo fór ég að vinna á miðnætti. Frábær helgi í það heila þrátt fyrir endalausa rigningu.

6. ágú. 2002

Slappt blogg síðustu daga.... ekki nógu gott... og núna er ég að flýta mér alveg svaaaakalega. Ferðasaga verslunarmannahelgarinnar kemur vonandi inn á morgun. Sögur af subbulegu sveitaballi, rigningu á Eyrinni, síldarævintýri og fleiru og fleiru. So stay tuned....

1. ágú. 2002

Ég fór inn á heimabankann í vikunni minni og sjá! Á debetkortinu mínu voru heilar ein komma þrjár milljónir króna! Ég varð yfir mig glöð og hoppaði af kæti. "Yfirmaðurinn hefur loksins séð hvað ég er góður starfsmaður og ákveðið að tífalda launin mín" hugsaði ég. En nei, það var ekki komið að mánaðamótum þannig að það gat ekki verið. Því næst datt mér í hug hvort að einhver fjarskyld forrík frænka hefði fallið frá og ég hefði erft ríkidæmið óafvitandi. En nei, ég á víst enga svoleiðis. Bankamistök? Ekki til í dæminu, þá hefði frekar vantað peninga inn á reikninginn minn. Sending frá Guði fyrir að vera góð stelpa? Nei, ég myrti þúsundir rauðmaura um daginn og hann hefur örugglega ekki verið hrifinn af því. Þá var ég komin með það. Skatturinn! Það hlaut að vera. Eftir að hafa dansað stríðsdans um húsið mundi ég eftir símtali við pabba og fattaði að þetta væru auðvitað námslánin. Skólagjöld sem ég þarf að borga í september. Sem ég þarf svo að borga aftur með vöxtum eftir nokkur ár. Dem. Stuttu seinna kom bréf frá skattinum. Ég skulda þeim tólfþúsundkall.