24. jún. 2009

Jónsmessubarnið

Þá er komið að því - afmælisdeginum árlega og ég er í banastuði byrjuð að halda upp á hann með því að smakka á gömlum (útrunnum) sinnepsbrúsum síðan í afmælinu í fyrra. Niðurstaðan er sú að aðeins eitt af fjórum sinnepum er ætt. Í ár verður nefnilega leikurinn endurtekinn með grilli í Hljómskálagarðinum, stefni á að hafa það árlegan viðburð hér eftir. Nema kannski á næsta ári en þá er ég með þemapartý planað. Það ætti kannski ekki að koma á óvart að ég elska afmæli, öll afmæli og líka mitt eigið :) Ég fæddist semsagt á Jónsmessunótt en hef reyndar mjög sjaldan notað tækifærið og velt mér upp úr dögginni á afmælisnóttina. Fór reyndar í miðnæturhlaupið í gær og fór í sund á eftir, ég var þá að minnsta kosti að velta mér upp úr vatni. Man bara eftir einu skipti í sumarbústað þar sem ég var að rúlla mér allsber upp úr grasinu í panikk kasti yfir að fólkið í næsta bústað myndi sjá mig, enda ekki beint hægt að gera þetta í skjóli nætur á þessum tíma sumars. En þrátt fyrir að ég sé mjög ánægð með að hafa fæðst á þeirri merku nóttu hefur afskaplega lítið annað gerst merkilegt þennan dag, ég á ekki afmæli sama dag og neinn frægur og ef flett er upp á merkisatburðum sem hafa átt sér stað 24. júní koma upp atriði eins og...

1994 Sally Field sækir um skilnað frá eiginmanni nr. 2
1976 Rocky Horror myndin er tekin til sýninga í Þýskalandi (hún kom fyrst út 1975)
1963 Fyrsta heimavídjókameran kynnt til sögunnar í höfuðstöðvum BBC í London
1894 Ákveðið að halda Ólympíuleikana í þeirri mynd sem við þekkjum þá á fjögurra ára fresti
1817 Fyrstu kaffiplantan sett niður í Hawaii
1540 Hinrik áttundi skilur við fjórðu eiginkonu sína


Svo er ekki úr vegi að minnast á það að í dag eru akkúrat 6 mánuðir í jólin þannig að um að gera fyrir hagsýna að byrja að föndra jólakortin :)

Er búin að vera með tremma yfir veðurspánni sem hefur breyst frá einni klukkustund til annarar síðustu viku liggur við, er búin að skoða íslenskar, bandarískar og breskar spár fyrir Reykjavík og þeim hefur engan veginn borið saman. Setti Veðurfréttaskvísuna í málið og hún rýndi í líkön fyrir mig og samkvæmt nýjustu spám á að vera sól og blíða! Svo bauð ég líka háttsettum manni hjá Veðurstofu Íslands í afmælið, hann hlýtur að geta togað í einhverja spotta svo að góða veðrið haldist.

Sendi ást og gleði og fallegar hugsanir út í heiminn og til þín. Sjáumst í Hljómskálagarðinum! Þótt ekki sé nema bara í anda :)

22. jún. 2009

Helgarstiklur og vinir af gagnstæðu kyni

Hárgreiðslukonan sem ég hafði aldrei farið til áður var með mjög ákveðnar skoðanir og hélt því fram að liturinn sem ég vildi myndi ekki fara mér og að klippingin sem ég vildi væri gamaldags. Þreytt eftir daginn leyfði ég því sérfræðingnum að gera það sem hún vildi og eftir þrjá tíma í stólnum gekk ég út fimmtánþúsund krónum fátækari - eiginlega nákvæmlega eins og ég var þegar ég gekk inn.

Pöbb quizið á Grand var óvenju leiðinlegt, sérstaklega þar sem ég er illa að mér í póstnúmerum landsins og veit eiginlega ekkert um fótbolta þar sem ég gaf þá íþrótt upp á bátinn eftir að hafa verið lögð í íþróttaeinelti í kjölfar sjálfsmarks sem ég skoraði í sex ára bekk. Umræður á Santa Maria í kjölfarið voru sérdeilis hressandi þar sem við dáðumst að mexíkönskum glímuköppum og kepptumst um að velja okkur nöfn ef við skyldum einhvern tíman taka þátt í slíkri glímu.

Á laugardeginum tók ég þátt í kvennahlaupinu í fyrsta sinn svo að ég muni eftir og missti mig svo mikið í gleðinni að Blaðran hálfskammaðist sín. Tróð mér í bolinn utanyfir peysuna, setti á mig VÍS Sjóvá buffið, skrifaði undir fría líftryggingu í meðvirkniskasti (en ég meina ég fékk frítt gloss!) og gerði kellingaleikfimisæfingar á undan.

Um kvöldið var skemmtilegt fimmtu háskólagráðu útskriftarpartý og svo hélt ég í bæinn. Á einum staðnum var ofurfagur íslenskur handboltakappi, guðs gjöf til kvenna sem ekki var hægt annað en bara að stara á og dást að. Þótt stelpurnar hafi næstum allar sem ein gefið honum auga var miklu fyndara að fylgjast með karlmönnunum sem fengu stjörnur í augun. Menn föðmuðu hann og vildu ekki sleppa, grátbáðu um að bjóða honum í glas, þreifa á vöðvunum og láta taka myndir af sér með honum. Var alveg hissa á hvað strákurinn lét sér þetta í léttu rúmi liggja.

En ég fór semsagt í bæinn aðallega til að hitta einn besta strákavin minn sem ég hafði ekki hitt í háa herrans tíð þar sem hann er komin með kærustu. Hann tilkynnti mér það síðan á barnum að hann væri að fara að hefja sambúð og ég fékk svona smá My Best Friends Wedding sting í magann þrátt fyrir að ég samgleðjist honum auðvitað mjög. Á milli okkar ríkir innileg platónsk ást og við vorum sérstaklega mikið saman síðasta sumar að þvælast, borða saman og fara í bíltúra á trúnó. Ég sé fram að þetta hljóti að breytast núna og sagði honum það en hann varð voða sár, sérstaklega þegar hann fór heim (til kærustunnar) og ég hóf leit að rebound vini. Settist hjá strák sem ég kannast aðeins við og rakti raunir mínar en hann var líka ósammála og sagðist eiga fullt af stelpuvinkonum sem hann hefði haldið mjög góðu sambandi við þrátt fyrir sambönd. Sagði reyndar að kærusturnar hefðu orðið brjálaðar en sér væri bara alveg sama... Við ræddum þetta svolitla stund þangað til ég áttaði mig á að hann var að leita að einhverju öðru en vinskap þetta kvöld og væri þess vegna líklega ekki heppilegur kandídat í My New Best Friend.

En ég spyr ykkur... hin aldagamla spurning - ekki bara geta stelpur og strákar verið vinir því ég efast svosem ekkert um það. En er hægt að eiga góðan, gagnkynhneigðan vin af gagnstæðu kyni þegar annar hvor aðilinn er í sambandi? Eða öfugt, myndi það trufla þig að maki þinn færi á vídjókvöld með vini sínum ef vinurinn væri af gagnstæðu kyni?

19. jún. 2009

Skyndistefnumót

Yndislegur breskur vinur minn sem er búinn að vera lengi á lausu (fyrir utan ímyndað ástarsamband hans við Kylie Minogue) ákvað um daginn að prófa eitthvað nýtt og fara á speed dating kvöld. Hann er svona frekar afslöppuð týpa og hélt að þetta yrði bara tækifæri til að kynnast fólki, pínku fyndið og skemmtilega vandræðalegt enda ekki á hverjum degi sem maður á stefnumót við 30 konur sama kvöldið. Hann bjóst hins vegar ekki við því sem hann fékk - þrjátíu uppstrílaðar skvísur, vel undirbúnar með spurningalista, með eitt takmark: Að finna sér eiginmann. Ein spurði hann Ef þú værir ávöxtur, hvaða ávöxtur værirðu? Hann hváði og sagðist ekki vita hvernig hann ætti að svara þessu. Hann spurði hana sömu einkennilegu spurningarinnar á móti. Ég væri auðvitað ástaraldin (passion fruit), af því að ég er svo ástríðufull sagði hún og hló og fannst hún greinilega ofsalega sniðug. Hann sagði mér eftirá að sér hefði liðið eins og hann hefði fallið á prófi.

Mér finnst hugmyndin um skyndistefnumót ekkert sérstaklega aðlaðandi en hef stundum velt því fyrir mér að hverju ég myndi spyrja ef ég færi á svona kvöld. Ég kaupi það alveg að first impressions skipti máli og rannsóknir hafa sýnt að mat þitt á ókunnugum er ósköp svipað hvort sem þú eyðir 3 mínútum með þeim eða klukkutíma. Sem er auðvitað hugmyndin á bak við speed dating, að spara tíma. Mér finnst spurningin "hvað gerirðu" alveg brjálæðislega leiðinleg eins og ég hef áður sagt en það er samt algeng opnunarlína og auðvitað getur það sagt heilmikið um viðkomandi. Á Íslandi fer fólk síðan oftast út í "í hvaða skóla varstu/hverfi býrðu/þekkirðu þennan eða hinn?" En þarna er samt komið kjörið tækifæri til að vera pínulítið frumlegur. Mér fyndist t.d. gaman að spyrja "Ef þú dræpir mann, hvar myndirðu fela líkið?". Bara svona að sjá hvort viðkomandi færi að hlæja eða kæmist úr jafnvægi. Nú eða kæmi með eitthvað frumlegt svar...

Á netinu er að finna ýmsar hugmyndir að spurningum sem er mælt með að spyrja á svona stefnumótum. Sumar þeirra finnst mér afspyrnu lélegar eins og:

- Hvenær var síðasta samband þitt og hversu lengi varði það? (er þetta rétti tíminn til að ræða um fyrrverandi kærustur? )
- Trúirðu á ást við fyrstu sýn? (kannski rómantískt en mér finnst þetta pínu yfirþyrmandi spurning)
- Hvar sérðu þig eftir fimm ár? (mjög atvinnuviðtalslegt)
- Langar þig til að eignast (fleiri) börn? (jú mikilvæg spurning en kannski ekki málið að ræða barneignir á fyrstu þremur mínútunum)
- Hverju sérðu mest eftir í lífinu? (langar þig til að vita svarið? og værir þú tilbúin/nn til að deila þínu svari með ókunnugum?)

Mér fannst þessar betri:

- Hver er uppáhalds árstíminn þinn?
- Hvaða hlut sem þú átt heldurðu mest upp á?
- Lýstu fullkomnu sumarfríi.
- Hvaða geisladisk keyptirðu síðast?
- Hvað myndirðu gera við peningana ef þú ynnir í lottó?
- Ertu morgunhani eða nátthrafn? (kannski ekki mikill umræðugrundvöllur en fáránlega miklvægt)
- Hvernig myndu vinir þínir lýsa þér?

Það er samt þvílíkt erfitt að svara svona spurningum upp úr þurru og reyna að koma með eitthvað spennandi svar (mitt helsta vandamál er að í svona streituvekjandi aðstæðum er mjög hávær rödd innra með mér sem öskrar SEGÐU EITTHVAÐ SNIÐUGT á meðan það er vandræðaleg þögn þangað til ég segi eitthvað mjög svo ósniðugt bara til að segja eitthvað). Þannig að kannski væri bara best að halda sig við "seif" spurningar eins og "hvað gerirðu í frístundum?" Ég held bara að ég myndi alltaf kjósa að spyrja einn mann þrjátíu spurninga frekar en að spyrja þrjátíu menn einnar fullkominnar spurningar. Veit þó um einn karlkyns (íslenskan) vin sem væri þessu pottþétt ósammála, enda heldur hann því statt og stöðugt fram að allir karlmenn myndu velja eina nótt með hundrað konum framyfir hundrað nætur með einni konu. En það er önnur saga.

15. jún. 2009

Tvífarar #2

Eftir misheppnaða ferð á hina klisjukenndu og ótrúverðugu Ghosts of girlfriends past á föstudagskvöldið skemmti ég mér konunglega á Grease á laugardagskvöldið. Það hjálpaði reyndar ekki með bíómyndina hvað mér finnst Matthew McConaughey alltaf leiðinlegur, alveg sama hversu sætur hann er ber að ofan með Colgate brosið sitt (er hins vegar Söndru Bullock fan sem kemur málinu ekki við nema hvað það eru margir sem þola hana ekki og mér datt það allt í einu í hug). Anyway...já með Grease - Fór einmitt líka á sýninguna fyrir 10 árum síðan þegar Selma lék Sandy en nú var hún að leikstýra. Af leikurunum bar Unnur Ösp af sem Rizzo en annars var ég svosem ekki mikið að pæla í uppfærslunni heldur bara að njóta þess að hlusta og horfa á söng- og dansatriðin.

Ég er ekki-svo-leyndur aðdáandi unglingamynda og -þátta og hef verið síðustu 20 árin, held að ég sé ekkert að fara að vaxa upp úr því á næstunni. Ég tók smá unglinga sci-fi syrpu um daginn og horfði m.a. á nokkra þætti af Kyle XY sem fjalla um unglingsstrák með yfirnáttúrulega hæfileika sem er ekki með nafla... afar dularfullt og spennandi. Nema hvað (og nú er ég loksins að koma að kjarna þessarar bloggfærslu) að ég kannaðist svo við stelpuna sem leikur fóstursystur hans í þáttunum. Fletti henni upp og leikkonan heitir April Matson, sem hringdi svosem engum bjöllum. Þetta truflaði mig samt allan tíman sem ég horfði á þættina þar til það rann loks upp fyrir mér ljós hverri hún líktist - leikkonunni sem leikur Rizzo í Grease myndinni (sem heitir víst Stockard Channing). Fann reyndar ekki alveg nógu góðar tvífaramyndir af þeim þar sem Stockhard er 37 árum eldri en April og ég fann engar almennilegar myndir af henni frá Grease tímabilinu... en þær líta a.m.k. út fyrir að vera mæðgur!













Hmm... þær eru nú ekki jafn líkar og mig minnti nú þegar ég er að setja inn þessar myndir :)


Þótt það hafi verið gaman á Grease þá ræddum við Freyja eftir sýninguna að skilaboðin sem hún sendir eru ekkert æðisleg... saklausa góða stelpan (sem reykir ekki, drekkur ekki og neitar að kela) fær leið á að það sé gert grín að sér, fer í latexbuxur, breytist í foxy gellu sem er til í tuskið, nær í gæjann og verður aðalskvísan í skólanum. Vorum svona að spá í þessu út frá öllum litlu stelpunum sem voru á sýningunni og fannst hún æði, eins og okkur fannst myndin æðisleg þegar við vorum litlar. Svo fannst okkur við vera algjörar kellingar að vera að pæla í þessu. Þvælist allt of mikið fyrir manni þessi gagnrýna hugsun stundum, til dæmis er ég hætt að geta horft á Pretty Woman án þess að hugsa að Richard Gere sé kannski ekki draumaprinsinn heldur bara hundleiðinlegur perri.

14. jún. 2009

Karlmenn sem kjötstykki

Ég er svo heppin að eiga töluvert mikið af stórkostlegum vinkonum og þótt við ræðum reyndar um allt milli himins og jarðar (og stundum um geiminn) berst talið oft að karlmönnum. Vissulega er talað um tilfinningar og nákvæmlega hver sagði hvað hvenær og hvað hann var raunverulega að meina þegar hann sagði "sjáumst seinna" eða eitthvað álíka sem er alveg banalt að velta sér upp úr. En við höfum líka stundum þann slæma (en afar skemmtilega) ósið að hlutgera karlmenn. Úff þetta hljómar eiginlega alveg skelfilega þegar ég byrja að skrifa þetta enda yrðum við örugglega brjálaðar ef það væri talað svona um okkur... en þetta er allt í gamni gert og dómarnir sem falla eru yfirleitt ekki eingöngu byggðir á ummáli framhandleggsvöðva eða öðrum ytri einkennum. Og svona til að fyrirbyggja misskilning verð ég að taka það fram að þetta er allt auðvitað í gamni gert. Jæja, here goes...

Til dæmis er það íslenski listinn sem er ekki ósvipaður íslenska tónlistanum þar sem menn detta út og inn af topp tíu miskunnarlaust. Svo er auðvitað hástökkvari vikunnar/mánaðarins/ársins eftir því hvað listinn er uppfærður oft. Tekið skal fram að listinn er gerður á einstaklingsgrundvelli og hver og einn ákveður eigin kríteríu. Það er til langur listi af reglum um listagerð en það yrði of pínlegt að birta þær hér, enda byrjaði þetta sem einkahúmor fyrir löngu síðan þegar því var haldið fram að sjórinn væri tómur af fiskum.

Svo eru það ýmsir leikir eins og "X, Y og Z, hverjum myndirðu henda fram af kletti/giftast/sænga hjá". Þessi er frekar brútal og hægt að skipta út "henda fram af kletti" fyrir "fara á kaffihús með". Ein sem ég þekki kann afar illa að meta þennan leik og vildi henda öllum fram af kletti eða þá sjálfri sér ef það væri ekki hægt.

Síðan er það eitthvað sem ég þekki reyndar ekki mikið en það er að dæma karlmenn eftir árgöngum, ekki ósvipað vínum. Þekki eina sem mælir t.d. mikið með '73 árgangnum og hrósar honum í hástert. Sjálf hef ég haldið mig við svona '76 -'82 árgerðirnar en hef aldrei svo mikið sem verið hrifin af (svo ég muni eftir) einhverjum fæddum '70-'75 þótt ég þekki síðan ágætlega til sextíuogeitthvað rekkans. Mér var svo bent á um daginn að strákar svona í kringum tuttugogþriggjaaldurinn væru óplægður akur. Veit ekki hvort þessar pælingar tengist eitthvað kínversku stjörnumerkjunum, það er spurning.

Ég gæti nefnt fleiri atriði en ætla að sleppa því hér. Auðvitað er þetta svo eins og áður sagði allt í nösunum á okkur og þótt einhver lýsi draumaprinsinum sem hávöxnum dökkhærðum græneygðum hægrisinnuðum stjórnmálafræðingi fæddum 1973 með tungl í sporðdreka er hún allt eins líkleg til að enda með litlum rauðhærðum jafnaðarmanni fæddum 1984 því ástin er hverful, diskó, blindfull og ófyrirsjáanleg. Sem betur fer.

11. jún. 2009

Brúðarmær á balli

Þegar ég var lítil stúlka óskaði ég þess afar heitt að verða brúðarmær. Af einhverjum ástæðum fannst mér það afskaplega heillandi hlutverk og fylgdist grannt með ástarmálum frænda og frænkna, líklegra kandídata sem gætu valið mig til verksins. En allt kom fyrir ekki og á unglingsárunum sætti ég mig við að brúðarmeyjardraumurinn yrði sennilega aldrei að veruleika.

Eftir ársdvöl í Kanada tók nýr draumur við. Að fara á prom, amerískt lokaball. Ég las endalaust af unglingablöðum sem fjölluðu um þennan að því er virtist hápunkt unglingsáranna í vesturheimi. Íslenskar árshátíðir stóðust ekki samanburðinn og ég lét mig dreyma um síðan ballkjól og uppsett hár og limósínu og deit til að labba inn á ballið með. Það var ekki fyrr en um tvítugt að ég sætti mig við að því hefði ekki verið ætlað að verða.

Það var síðan í byrjun árs 2007 að bandarísk stelpa sem ég kynntist í Brighton hafði samband við mig og óskaði eftir að ég yrði brúðarmær í brúðkaupinu hennar í mars í New York. Hún var komin með þrjár, systur sína, frænku og loks bestu vinkonu og langaði að hafa eina vinkonu enn sem væri þarna "fyrir Bretlands hönd" þar sem unnustinn var breskur og þau höfðu kynnst þar. Ég sló til og þetta var algjör draumur í dós. Bæði innra barnið og unglingurinn voru himinlifandi með pínulítið hallærislega en ofsafína kjólinn (sem tók reyndar forever að fá úr Tollinum, var sendur hingað í mátun), púffhárgreiðsluna (ekki að eigin vali) og brúðarsveininn sem ég fékk sem deit (var reyndar með mitt eigið deit í veislunni en labbaði með brúðarsveininum inn og út kirkjugólfið).

Ég hef ofsalega lítið samband við þessi frábæru brúðhjón í dag en þessi upplifun var bara eitthvað svo óvænt og skemmtileg og öðruvísi. Rakst á myndir úr veislunni í gær og mundi eftir þessu og langaði að skrifa smá um þetta til að rifja upp góðar stundir. Hér er mynd sem er tekin í limmónum með brúðarmeyjum og -sveinum, nýbúið að opna kampavínið. Ekkert sérstök mynd en lýsir stemningunni vel. Það sést í mig þarna í móðu aftast skælbrosandi. Viðeigandi, enda er minningin hálf móðukennd.




Mér finnst gaman að ímynda mér að það sé einhver þarna úti sem hjálpi okkur stundum við að uppfylla hversdagslegar óskir og þrár. Hvort sem það er einhver örlaganorn eða töfradís eins og í ævintýrunum, karmalöggan eða guð sjálfur að sortera tölvupósta eins og í myndinni Bruce Almighty. Skildi reyndar ekki alveg af hverju hann gat ekki ráðið einhverja verkefnisstjóra til að aðstoða sig, varla nenna allir að spila á hörpu eða blása í lúðra. En jæja, ég er semsagt ekki að meina þessar "stóru" óskir eða bænir eins og um heimsfrið, lækningar eða icesave. Vona samt að það sé einhver að hlusta á þær líka :)

10. jún. 2009

Gamalt drasl og góð ráð við ástarsorg

Ég á alveg ótrúlega erfitt með að henda hlutum og á það til að safna í kringum mig drasli sem

a)ég nota aldrei og veit jafnvel ekki alveg hvað er en tel mig einhvern tíman mögulega geta haft not fyrir (í þennan flokk falla t.d. ýmis hleðslutæki og snúrur, skrúfur og tölur sem ég veit ekki alveg hvað passa við)

eða

b)ég hef bundist tilfinningaböndum eða er bundið einhverri (mis)óljósri nostalgíu (í þennan flokk falla t.d. gamlir bíómiðar, kvittanir og blaðsneplar af ýmsu tagi).

Skattholið sem ég keypti fyrir fermingarpeningana mína hefur að mestu að geyma alls konar smádrasl sem hefur safnast þar fyrir gegnum árin. Einstöku sinnum ákveð ég að fara í gegnum dótið og henda en enda alltaf með að sökkva í einhverja fortíðarvímu við það að skoða dótið og kemst lítið áfram í tiltektinni. Inn á milli draslsins eru nefnilega algjörir gimsteinar sem mér þykir vænt um.

Í skattholinu eru þrjár stórar skúffur og fjórar pínulitlar. Skoðum nú sýnishorn af innihaldi einnar af smærri skúffunum sem hefur ekki verið opnuð í nokkur ár.

-Inneignarnóta upp á kr. 1.299 í búðinni Oxford Faxafeni síðan í júní 2000.
-Kvittun fyrir úttekt úr hraðbanka 1995 (fer þetta ekki að hafa sögulegt gildi? Var búin að gleyma að úttektarmiðarnir litu svona út).
-Mynd af kanadískum frænda mínum sem mér fannst hrikalega sætur en skammaðist mín fyrir (af því að hann var frændi minn).
-Ómerkt neonarmband líklega af útihátíð eða tónleikum sem myndi sjálfsagt hafa tilfinningalegt gildi ef ég myndi muna hvaðan það kom.
-Blá plastísskeið (sama og að ofan, örugglega úr einhverjum mikilvægum ísbíltúr sem ég man ekki eftir. Hendi henni núna).
-Hálfsköllótt lítil barbídúkka með gallaða fætur sem ég var búin að líma aftur á (þessari átti að henda en var naumlega bjargað á sínum tíma).
- Miði með símanúmeri, en engu nafni. Spurning um að hringja bara?


Gullmolinn í skúffunni eru tvímælalaust ráðleggingar sem yndisleg vinkona mín skrifaði fyrir mig í fyrstu ástarsorginni, sumarið eftir 9. bekk. Verð eiginlega bara að deila þeim hér.

Ráðleggingar fyrir ástarsorg

1. Láta hann sjá eftir því að hafa sagt þér upp með því að vera glöð og sæt og alltaf fjör í kringum þig. Alltaf fullt að gera.
2. Ekki ganga á eftir honum!!! Mjög áríðandi. Be cool.
3. Samt ekki vera vond við hann. Ég meina sko, vertu skemmtileg og góð við hann þegar þú hittir hann.
4. Ef hann svo sýnir þér áhuga og þú vilt eitthvað með hann hafa skalt þú á einn eða annan hátt láta hann via að þú sért ennþá volg fyrir honum. ANNARS EKKI!
5. Ekki liggja heima í ástarsorg og hugsa um fyrri tíma þegar allt var svo gott og yndislegt. Because nothing lasts forever and the future is now.
6. Hafa nóg við tímann að gera, fá áhuga á einhverju. Vera með vinum og láta þér aldrei leiðast.
7. Hætta að hugsa um stráka, þeir eru heimskir, vitlausir og óþroskaðir. Láttu þá eiga sig. Bíddu þar til þeir koma til þín.
8. Njóttu lífsins. Hættu að hafa áhyggjur af fortíðinni því þá nærðu ekki að njóta augnabliksins. Því lífið er núna og ef þú nýtur ekki núna þá nýtur þú ekki lífsins og það er slæmt.
9. Brostu og líttu á björtu hliðarnar.

6. jún. 2009

Heimsókn til ömmu

Fór í kaffi til samstarfskonu minnar eftir vinnu í dag á Selfossi og þegar ég var að keyra þaðan datt mér í hug að það gæti verið gaman að kíkja aðeins til ömmu minnar sem býr á Stokkseyri. Bara 10 mín. akstur frá vinnunni en ég fer allt of sjaldan, á alveg stórkostlega ömmu sem gaman er að koma til, en það er önnur saga. Þar sem þetta er leið sem ég þekki vel fannst mér gaman að taka allt í einu eftir nýjum hlutum og bæjum, enda er ég vanalega frekar utan við mig og ekki alltaf að horfa í kringum mig. Fannst ég upplifa umhverfið einhvern veginn á annan hátt en tengdi það bara við góða skapið og hugsaði með mér að ég ætti nú að horfa oftar á þessa fallegu sveitasælu í kringum mig í stað þess að vera svona mikið í eigin heimi. Svo keyrði ég og keyrði og fannst ég reyndar hafa verið svolítið lengi á leiðinni þarna á tímabili en umferðin gekk reyndar hægt. Bensínljósið var farið að blikka svo ég fór að verða pínu stressuð með hvort ég væri ekki að verða komin. Fannst samt skrýtið að sjá í hvorki Stokkseyri né Eyrarbakka, bara fjöll og sveitabæir svo langt sem augað eygði. Hægt og hægt rann upp fyrir mér ljós að ég væri bara á bandvitlausum vegi, semsagt á leiðinni á Hellu. Fór svo á einhvern míní "ó hvað ég er mikil steik" bömmer á staðnum yfir því hvað ég var fáránlega lengi að fatta þetta en jafnaði mig nú fljótt, verð bara að reyna að sætta mig við það hvað ég er mikill skýjahaus og klaufi. Nema hvað að svo upphófst panikk þar sem mér var ekki að takast að snúa við, sá enga hentuga staði og hægði verulega á mér til að reyna að svipast betur um. Bílalestin varð þá óþolinmóð og pirruðu ökumennirnir fóru að taka framúr sem mest þeir máttu og á meðan gat ég ekki beygt neins staðar og ég var að verða bensínlaus (af einhverjum ástæðum óttast ég mjög að verða bensínlaus, já og að fá stöðumælasektir). En þetta hafðist að lokum og mér tókst að snúa við og taka bensín á Selfó. Þá var hins vegar klukkan orðin svo margt að ég hafði engan tíma til að fara til ömmu og brunaði beint í bæinn. Þannig fór um sjóferð (bílferð?) þá...

4. jún. 2009

Sumarbústaðir, skokk og skoppandi kindur

Ég er greinilega ekki alveg með sjálfri mér því ég fékk löngun þess að fara út að hlaupa seint í kvöld. Og fór. Eða svona, kannski ekki út að hlaupa. Út að skokka. Hægt. Mjööög hægt. Fannst það meira að segja ekkert svo leiðinlegt þökk sé killer iPod mixinu sem ég gerði fyrir sumarbústaðarferðina síðustu helgi og hefði sungið með Bobbysocks í La det swinge ef ekki hefði verið fyrir allt fólkið sem var í göngutúr í góða veðrinu (fyrir utan það að ég gat varla andað, hvað þá sungið þegar þarna var komið við sögu). Kenni Ólöfu alfarið um þetta sem vildi endilega fara að skokka í Árbænum í kvöld en ég harðneitaði að koma með. Saumaklúbburinn ætlaði semsagt að bæta upp fyrir syndir helgarinnar en við fórum í fyrsta sinn allar saman í bústað. Ég hló svo mikið að ég er með harðsperrur í kinnunum. Held samt að brandararnir séu meira svona "had to be there" fyndnir svo kannski engin ástæða til að fara að telja þá upp hér. Við bjuggum til mojito og strawberry daiquiri, borðuðum kjúklingaspjót og bruschetta, spiluðum Scrabble (með extra stigum fyrir dónaleg orð), Actionary (það er ótrúlega erfitt að leika orðið mistök) og Partý og co (tapaði stórt). Sungum og dönsuðum, settum á okkur maska, fórum á trúnó og svo voru skemmtiatriði og leikir.

Sumarið byrjar vel því þetta var önnur sumarbústaðarferðin í maí, fór með þremur stelpum í bústað um Júróvisjónhelgina. Þetta átti reyndar ekki að vera stelpuferð, við buðum alls 12 strákum að koma með en þrátt fyrir loforð sumra um bikini í pottinum kom allt fyrir ekki svo það var bara fámennt en góðmennt (fákvennt?). Ég kveikti reyndar næstum því í bústaðnum með grillmeistaratöktum mínum. Síðan slógum við Blaðran pottamet með því að vera sex tíma samfleytt í heita pottinum, stóðum bara upp til að ná okkur í mat (sem við tókum með á pottabakkann) og fara á salernið. Við lásum bara, slökuðum á og kjöftuðum og vorum orðnar ansi bleikar og krumpaðar þegar við stóðum upp úr. Er af þessum sökum orðin óvenju brún miðað við árstíma, verst að freknurnar eru orðnar svo stórar sumar að það er eins og ég sé með súkkulaðiklessur á andlitinu, sérstaklega er ein stór við munnvikið sem truflar mig.

Sé samt núna að það er ekki sniðugt að hreyfa sig svona seint á kvöldin, ég er glaðvakandi, klukkan er hálf þrjú og ég þarf að vakna eftir svona sirka þrjá og hálfan tíma. Búin að reyna að drekka epla og kamillute með fíflahunangi sem Unnar vinnufélagi minn bjó til. Bragðast ljómandi vel, alveg eins og alvöru hunang. Skil samt ekki ennþá hvernig hann gat gert þetta án þess að býflugur kæmu nokkuð við sögu og óttast atvinnuleysi í stórum stíl þeirra á meðal. Spurning samt um að reyna að fara upp í rúm og telja kindur. Mér hefur samt aldrei fundist það róandi að telja ímyndaðar kindur, fer alltaf að pæla of mikið í hvernig kindur þetta séu. Ég meina hvernig eru þær á litinn, eru þær jarmandi, eru hrútar og lömb líka, hvar eru þær og hvernig girðing er þetta eiginlega eða er þetta hlið og er erfitt að hoppa yfir...og af hverju eru þær yfirhöfuð að hoppa, er enginn þarna sem getur hleypt þeim í gegn!?