22. jún. 2009

Helgarstiklur og vinir af gagnstæðu kyni

Hárgreiðslukonan sem ég hafði aldrei farið til áður var með mjög ákveðnar skoðanir og hélt því fram að liturinn sem ég vildi myndi ekki fara mér og að klippingin sem ég vildi væri gamaldags. Þreytt eftir daginn leyfði ég því sérfræðingnum að gera það sem hún vildi og eftir þrjá tíma í stólnum gekk ég út fimmtánþúsund krónum fátækari - eiginlega nákvæmlega eins og ég var þegar ég gekk inn.

Pöbb quizið á Grand var óvenju leiðinlegt, sérstaklega þar sem ég er illa að mér í póstnúmerum landsins og veit eiginlega ekkert um fótbolta þar sem ég gaf þá íþrótt upp á bátinn eftir að hafa verið lögð í íþróttaeinelti í kjölfar sjálfsmarks sem ég skoraði í sex ára bekk. Umræður á Santa Maria í kjölfarið voru sérdeilis hressandi þar sem við dáðumst að mexíkönskum glímuköppum og kepptumst um að velja okkur nöfn ef við skyldum einhvern tíman taka þátt í slíkri glímu.

Á laugardeginum tók ég þátt í kvennahlaupinu í fyrsta sinn svo að ég muni eftir og missti mig svo mikið í gleðinni að Blaðran hálfskammaðist sín. Tróð mér í bolinn utanyfir peysuna, setti á mig VÍS Sjóvá buffið, skrifaði undir fría líftryggingu í meðvirkniskasti (en ég meina ég fékk frítt gloss!) og gerði kellingaleikfimisæfingar á undan.

Um kvöldið var skemmtilegt fimmtu háskólagráðu útskriftarpartý og svo hélt ég í bæinn. Á einum staðnum var ofurfagur íslenskur handboltakappi, guðs gjöf til kvenna sem ekki var hægt annað en bara að stara á og dást að. Þótt stelpurnar hafi næstum allar sem ein gefið honum auga var miklu fyndara að fylgjast með karlmönnunum sem fengu stjörnur í augun. Menn föðmuðu hann og vildu ekki sleppa, grátbáðu um að bjóða honum í glas, þreifa á vöðvunum og láta taka myndir af sér með honum. Var alveg hissa á hvað strákurinn lét sér þetta í léttu rúmi liggja.

En ég fór semsagt í bæinn aðallega til að hitta einn besta strákavin minn sem ég hafði ekki hitt í háa herrans tíð þar sem hann er komin með kærustu. Hann tilkynnti mér það síðan á barnum að hann væri að fara að hefja sambúð og ég fékk svona smá My Best Friends Wedding sting í magann þrátt fyrir að ég samgleðjist honum auðvitað mjög. Á milli okkar ríkir innileg platónsk ást og við vorum sérstaklega mikið saman síðasta sumar að þvælast, borða saman og fara í bíltúra á trúnó. Ég sé fram að þetta hljóti að breytast núna og sagði honum það en hann varð voða sár, sérstaklega þegar hann fór heim (til kærustunnar) og ég hóf leit að rebound vini. Settist hjá strák sem ég kannast aðeins við og rakti raunir mínar en hann var líka ósammála og sagðist eiga fullt af stelpuvinkonum sem hann hefði haldið mjög góðu sambandi við þrátt fyrir sambönd. Sagði reyndar að kærusturnar hefðu orðið brjálaðar en sér væri bara alveg sama... Við ræddum þetta svolitla stund þangað til ég áttaði mig á að hann var að leita að einhverju öðru en vinskap þetta kvöld og væri þess vegna líklega ekki heppilegur kandídat í My New Best Friend.

En ég spyr ykkur... hin aldagamla spurning - ekki bara geta stelpur og strákar verið vinir því ég efast svosem ekkert um það. En er hægt að eiga góðan, gagnkynhneigðan vin af gagnstæðu kyni þegar annar hvor aðilinn er í sambandi? Eða öfugt, myndi það trufla þig að maki þinn færi á vídjókvöld með vini sínum ef vinurinn væri af gagnstæðu kyni?

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hhmmm...ég fór einu sinni í vinnuferð upp í sumarbústað þar sem gist var eina nótt. Við vorum fjórar konur og svo einn karlmaður sem var spurður í gríni hvað konan hans hefði sagt þegar hún frétti af þessari samsetningu.

Hann varð frekar móðgaður út í okkur og sagði að ef konan sín treysti sér ekki til að fara í vinnuferð þar sem væru einungis konur þá ættu þau nú að endurskoða sitt samband.

Hef stundum hugsað um þessa sögu þegar umræður um vini og vinkonur af gagnstæðu kyni koma upp. Held að það fari algjörlega eftir sambandinu, hvort hinn aðilinn sé afbrýðissamur að eðlisfari og svo auðvitað hvort hún eða hann ætlast til þess að fá sjálf/-ur að eiga vini af gagnstæðu kyni.

kv,
Hildur

Nafnlaus sagði...

Eftir smá umhugsun verð ég þó að vera heiðarleg og bæta við að líklega fari það einnig eftir því hvort maður telji sig standa framar en viðkomandi aðili sem maki manns vill hanga með :)

kv,
Hildur

Þóra Marteins sagði...

Ég og Siggi Ingi erum búin að vera bestu vinir í 10 ár....

Sólrún sagði...

Já ég held að þetta þurfi svosem ekkert að vera vandamál í traustum og öruggum samböndum. Og bara gaman að eiga alls konar vini. Það hefur tvisvar truflað mig að kærasti átti stelpuvinkonu og í bæði skiptin voru það fyrrverandi kærustur sem voru líka voða góðir vinir. Skil það svosem alveg en... Í fyrra tilfellinu voru þau ennþá ofsalega náin og hann skreið inn um gluggann hjá henni á afmælisdaginn og kúrði hjá henni þar sem hún lá nakin uppi í rúmi. Í seinna tilfellinu voru þau alltaf að fara saman á hámenningarlegar leikhússýningar eins og þau gerðu "í denn" og ég varð rosalega sár þegar hann fór með henni á leikrit sem mig langaði að sjá. En ég vona að þetta sé ekki normið.