24. jún. 2009

Jónsmessubarnið

Þá er komið að því - afmælisdeginum árlega og ég er í banastuði byrjuð að halda upp á hann með því að smakka á gömlum (útrunnum) sinnepsbrúsum síðan í afmælinu í fyrra. Niðurstaðan er sú að aðeins eitt af fjórum sinnepum er ætt. Í ár verður nefnilega leikurinn endurtekinn með grilli í Hljómskálagarðinum, stefni á að hafa það árlegan viðburð hér eftir. Nema kannski á næsta ári en þá er ég með þemapartý planað. Það ætti kannski ekki að koma á óvart að ég elska afmæli, öll afmæli og líka mitt eigið :) Ég fæddist semsagt á Jónsmessunótt en hef reyndar mjög sjaldan notað tækifærið og velt mér upp úr dögginni á afmælisnóttina. Fór reyndar í miðnæturhlaupið í gær og fór í sund á eftir, ég var þá að minnsta kosti að velta mér upp úr vatni. Man bara eftir einu skipti í sumarbústað þar sem ég var að rúlla mér allsber upp úr grasinu í panikk kasti yfir að fólkið í næsta bústað myndi sjá mig, enda ekki beint hægt að gera þetta í skjóli nætur á þessum tíma sumars. En þrátt fyrir að ég sé mjög ánægð með að hafa fæðst á þeirri merku nóttu hefur afskaplega lítið annað gerst merkilegt þennan dag, ég á ekki afmæli sama dag og neinn frægur og ef flett er upp á merkisatburðum sem hafa átt sér stað 24. júní koma upp atriði eins og...

1994 Sally Field sækir um skilnað frá eiginmanni nr. 2
1976 Rocky Horror myndin er tekin til sýninga í Þýskalandi (hún kom fyrst út 1975)
1963 Fyrsta heimavídjókameran kynnt til sögunnar í höfuðstöðvum BBC í London
1894 Ákveðið að halda Ólympíuleikana í þeirri mynd sem við þekkjum þá á fjögurra ára fresti
1817 Fyrstu kaffiplantan sett niður í Hawaii
1540 Hinrik áttundi skilur við fjórðu eiginkonu sína


Svo er ekki úr vegi að minnast á það að í dag eru akkúrat 6 mánuðir í jólin þannig að um að gera fyrir hagsýna að byrja að föndra jólakortin :)

Er búin að vera með tremma yfir veðurspánni sem hefur breyst frá einni klukkustund til annarar síðustu viku liggur við, er búin að skoða íslenskar, bandarískar og breskar spár fyrir Reykjavík og þeim hefur engan veginn borið saman. Setti Veðurfréttaskvísuna í málið og hún rýndi í líkön fyrir mig og samkvæmt nýjustu spám á að vera sól og blíða! Svo bauð ég líka háttsettum manni hjá Veðurstofu Íslands í afmælið, hann hlýtur að geta togað í einhverja spotta svo að góða veðrið haldist.

Sendi ást og gleði og fallegar hugsanir út í heiminn og til þín. Sjáumst í Hljómskálagarðinum! Þótt ekki sé nema bara í anda :)

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með afmælið Sólrún mín! Held að margir séu sammála mér með að niðursetning fyrstu kaffiplöntunnar í Hawaii og fæðing þín marka tímamót í mannkynssögunni :D

kv,
Hildur

Nafnlaus sagði...

Þetta var æðislega gaman :) Jafn gaman og í fyrra (þótt ég hafi þurft að kveðja gleðskapinn mitt á milli frum- og nándarhrifa... og ekki endað á Boston/Rósen eins og stórskotaliðið:) )

Óla (Jóhanna)

Nafnlaus sagði...

Og tek undir með Hildi! Kaffi og Sólrún, ómissandi!

Ólafía (Jóhanna)

Nafnlaus sagði...

Eða ég endaði reyndar á Boston í fyrra :)

Ólöf (Jóhanna)