5. júl. 2009

Töfratalan

Síðustu helgi sat ég á spjalli við vinkonu mína á Ölstofunni eins og svo oft áður og tókst að plata sætan strák sem ég kannaðist lítillega við til að veita okkur félagsskap. Ég byrjaði strax að bauna á hann spurningum eins og hvaða ávöxtur hann væri og hvar hann myndi fela lík en honum til hróss lét hann ekki slá sig út af laginu og kom með nokkuð góð svör. Svo spurðum við hann hverju hann myndi sjálfur spyrja að á þriggja mínútna speed date-i og hann nefndi spurninguna Hvað hefurðu sofið hjá mörgum? Sem myndi örugglega hafa sömu áhrif á suma og ef maður spyrði þá hvar væri heppilegast að fela lík.

Mér datt í hug þessi æðislega sena úr mynd sem ég held mikið upp á, Four weddings and a funeral, þar sem Hugh Grant spyr Andie MacDowell að þessu (og sér örugglega eftir því þegar hún telur upp bólfélagana), sjá hér. Svo man ég eftir að hafa séð í annarri og öllu lélegri mynd, American Pie 2 að ef maður óskaði eftir svari við þessari spurningu ætti alltaf að deila með 3 fyrir konur og margfalda með 3 fyrir karlmenn. En það átti auðvitað kannski aðallega við um bandaríska háskólakrakka svo veit ekki hvort það sé mark takandi á því svona almennt. Ég var þó einu sinni að hitta strák sem laug því ítrekað (að vinum sínum, ekki að mér) að hann hefði sofið hjá töluvert fleiri stelpum en raunin var og það fór alltaf svolítið í taugarnar á mér. En honum til varnar er langt, langt síðan.

Í kynfræðslu og forvarnarvinnu í sambandi við kynsjúkdóma er svolítið lagt upp úr því að þetta skipti máli, að þekkja kynferðislega sögu viðkomandi upp á áhættumat, því þú sért í raun að sofa hjá öllum sem bólfélaginn hafi sofið hjá, og öllum sem þeir hafi sofið hjá osfr. Veit nú ekki alveg með þessa framsetningu þótt ég skilji svosem pælinguna varðandi kynsjúkdómasmit og annað. Þetta hafði að minnsta kosti áhrif á okkur vinkonurnar og við pældum mikið í því svona um tvítugt hvenær ætti að spyrja um Töluna, ekki of seint og ekki of snemma, rétt eins og hvenær væri rétti tíminn til að segjast elska einhvern. Svo var pælt í því hver væru mörkin, þá var átt við efri mörkin, það er að segja myndum við segja nei ef viðkomandi segðist hafa sofið hjá X mörgum. Auðvitað pældum við líka í mörkunum fyrir stelpur, hvað væri ásættanlegt að hafa (eða segjast hafa) sængað hjá mörgum. Þá var líka mikið í umræðunni hvað teldist með. Veit um einhverjar sem voru með allt á hreinu og settu upp í Excel skjali til að hafa nákvæmt yfirlit yfir fjölda, skipti og síðast en ekki síst stjörnugjöf...

En svo með árunum hætti þetta að skipta máli enda getur svo ótal margt verið á bak við einhverja tölu sem segir í raun voða lítið í sjálfu sér. Man bara eftir einu skipti þar sem mér fannst þetta skipta máli, en þá neitaði ég að fara á stefnumót með (tæplega þrítugum) strák sem tilkynnti mér í óspurðum fréttum að hann hefði bókstaflega aldrei verið við kvenmann kenndur. Hálfskammast mín nú samt fyrir það og er nokkuð viss um að það hafi ekki verið aðalástæðan fyrir því að ég hafi neitað. Fjölmargar vinkonur mínar segjast ekki hafa hugmynd um hverjum eða hve mörgum kærastarnir eða eiginmennirnir hafi verið með og að þær langi ekkert að vita það. Er sjálf ekkert viss um að ég myndi spyrja - að minnsta kosti ekki á fyrstu þremur mínútunum í samtalinu :)

16 ummæli:

Anna Pála sagði...

Váá persónan hennar Andie hefur a.m.k. verið með mjög vel skipulagt excel skjal!!!

Bjó reyndar sjálf til skjal án stjörnugjafar eða frekari details fyrir frekar stuttu, eftir að ég hitti gamla vinnufélaga og var að tala um e-ð skírlífistímabil og fékk bara: "NEIII, þú varst sko með X í útilegunni þarna á Búðum, mjöööög greinilega!" í hausinn! Varð hreinlega skíthrædd við krónísku gleymskuna í mér og varð bara að skjalfesta þá sem stöldruðu stutt við áður en þeir hyrfu í gleymskunnar dá. Ber við mig alvarlegri kölkun og stórri ástarsorgarmóðu á umræddu tjaldskemmtunartímabili:)

Skemmti mér síðan bara hið ágætasta við þessa iðju, en vantar reyndar aðeins uppá töluna sem ég fékk í frægu stelpuhóptrúnói fyrir 10 árum :-)

Svo ef ég bæti við bólfélagasmitfaktorinn, þá kom sameiginleg vinkona okkar með þann punkt að það skipti máli HVENÆR fólk hefði verið afkastamikið í töluhækkun, því minni líkur væri á því að smitast af kynsjúkdómi fyrir tvítugt að sofa hjá sama aldri, en t.d. eftir þrítugt, auðvitað vegna áðurnefnds hugsanlegs fjölda elskhuga.

Jamm, er svo búin að vera með kallinum mínum í næstum tíu ár og hann hefur ennþá ekki spurt mig um þessa tölu..

Nafnlaus sagði...

Hef persónulega aldrei verið fyrir þessa spurningu...og svo sannarlega ekki á fyrstu 3 mínútunum :)

Þó finnst mér hallærislegt að svara með einhverju eins og "I won't dignify that question with an anwser" ...þar sem það gefur annað hvort í skyn tepruskap eða tölu sem er svo himinhá að hún er ekki húsum hæf.

Gullna reglan er eiginlega sú að ef þú ert ekki sjálf/-ur tilbúin að gefa upp þína tölu þá skaltu ekki vera að spyrja hinn aðilann um sína.

kv,
Hildur

Blaðran sagði...

Mjög áhugaverðar pælingar.

Get nú ekki sagt að ég eigi excel skjal en reyndi svona að telja reglulega í huganum og lenti þá stundum einmitt í þessari gleymsku, að muna ekki eftir einhverjum gaur. Það hefur þá líklega verið afar tilþrifalítil reynsla í bólinu þar ;-)

Ég lenti annars í því með fyrrverandi að ég hafði sofið hjá fleirum en gaurinn og hann baunaði því óspart á mig í rifrildum, druslustimpill etc. Samt munaði bara tveimur eða e-ð og talan var alls ekki há (puttarnir dugðu til að telja og þurfti ekki alla). Þetta fór bara svona hrikalega illa í hann að ég hefði meiri "reynslu". Það er greinilega misjafnt hvernig fólk tekur þessu.

Eftir þessa reynslu hef ég bara sleppt því að ræða fjöldann og það hefur ekki truflað mig neitt að vita þetta ekki.

Kristján sagði...

Já þetta eru áhugaverðar pælingar.

Voru excel-skjals vinirnir í sálfræði? :) Svolítið sálfræðinemalegt að vilja kortleggja þetta með slíkum hætti (býður líka upp á svo marga úrvinnslumöguleika!)

Sólrún sagði...

Ha ha já hef lent í svona útilegu tölu-trúnó sem er alveg fatalt, svona hluti man fólk!

Hildur ég er sammála, finnst eiginlega bæði glatað að svara og svara ekki, hugsa að ég myndi bara snúa út úr og segja eins og Andie, "less than Madonna but more than Princess Di".

Og já strákar geta verið voðalega viðkvæmir fyrir þessu, hef heyrt að allir strákar ímyndi sér að þeir séu sá fyrsti og eini sem stúlkan þeirra hefur verið með, finnst það samt frekar skrýtið.

Jóhanna ég er vissulega með fyrrverandi sálfræðinema í huga! Já úrvinnslumöguleikarnir eru mjög spennandi, maður ætti kannski að fara að koma sér upp svona skjali! En held að margt yrði ekki tölfræðilega marktækt sökum fjölda þátttakenda.

Nafnlaus sagði...

ef fjöldi þátttakenda er ekki mikill mæli mæli með að nota non-parametric tölfræði! gerði einmitt stórgóða úttekt á slíkum aðferðum í kandinum (sælla minninga...)

Jóhanna

Nafnlaus sagði...

ég vil fá plakat með þessum tölfræðilegu upplýsingum!

kv,
Hildur

Nafnlaus sagði...

ég tek með mér ritgerð mína um nonparametric statistics næst þegar ég fæ að slást í för á barinn með ykkur sól!!

jóhanna

Nafnlaus sagði...

algjörlega...við verðum með bás á Ölstofunni :)

kv,
Hildur

Sólrún sagði...

Bás á Ölstofunni já... hvort er það þá til að rýna frekar í gögnin eða til að safna frekari gögnum?

Nafnlaus sagði...

Ég er tæknilega séð ekki fræðimaður á þessu sviði svo ég skal safna og einhver annar má rýna þau ;)

kv,
Hildur

Gummi sagði...

Ætti það ekki frekar að vera að deila með þremur fyrir karlmenn (af því að þeir ýkja alltaf) og margfalda með þremur fyrir kvenmenn (af því að þær þora ekki að segja rétta tölu)?

Kristján sagði...

Oh, alltaf þarf ég að vera freakið með vasareikninn á djamminu :( (Fékk A+ fyrir ritgerðina btw...)

Góður punktur hjá Gumma - verðum að halda kyni sem fastri breytu og leiðrétta.

Sólrún sagði...

Já þetta kom vitlaust út Gummi, góður punktur, meinti semsagt að konur ættu að deila í 3 þegar þær heyrðu tölu karlmanns og öfugt. Og Jó og Hildur... Ég býð mig annars fram til að vera með vasareikninn meðan þið getið safnað þátttakendum! Vá hvað þetta er annars orðinn súr einkahúmor :)

blogger sagði...

Lífið er gott þegar þú hefur ástina þína í kringum þig, ég er að segja þetta vegna þess að þegar ég átti mál við elskan minn sá ég aldrei lífið sem gott en þökk sé Dr. AGBAZARA AGBAZARA TEMPLE, til að hjálpa mér að kasta álögum færði elskhugi minn aftur til mín innan 48 klst. Maðurinn minn skilaði mér eftir aðra konu eftir 7 ára hjónaband, en Dr.AGBAZARA hjálpaði mér að kasta álögum sem leiddi hann aftur til mín innan 48 klst. Ég ætla ekki að segja þér meiri upplýsingar um mig heldur vil ég aðeins ráðleggja þeim sem eru með vandamál í því sambandi eða hjónabönd að hafa samband við Dr.AGBAZARA TEMPLE með þessum upplýsingum um;
(agbazara@gmail.com) eða hringdu í Whatsapp: +2348104102662

Anonymous. sagði...

Kærleikurinn gefst aldrei upp, missir aldrei trúna, er alltaf vongóður og varir við allar aðstæður. Ég gef Guði alla heiðurinn fyrir að koma Dr. Ige Ajayi inn í líf mitt fyrir að hjálpa mér að fá konuna mína aftur sem skilaði mér í eitt ár. Ég var síðasti maðurinn á jörðinni til að sætta mig við þá staðreynd að galdrar eru til eða virka ekki fyrr en mér var vísað til Dr. Ige Ajayi, á netinu sem hefur hjálpað svo mörgum með kröftugum galdra hans. Ég hafði engan annan kost en að prófa því 3 mánuðum eftir skilnaðinn var ég settur niður á vinnustaðnum mínum vegna þunglyndis því ég veit ekki hvað ég á að gera til að fá hana aftur en þakka Guði í dag fyrir að nota Dr. Ige Ajayi að fá hamingju mína og ástarlíf aftur innan 48 klukkustunda. Í síðustu viku hér, var ég færður aftur í stöðu mína og ég er hér til að deila eigin reynslu minni með þessum manni sem heitir Dr. Ige Ajayi. Ég veit ekki hvað þú ert að ganga í gegnum í dag en veit að í öllum aðstæðum er alltaf leið út. Dr, Ajayi, undirbýr líka galdra eins og happdrættisgaldra, vinnugaldur, galdra til að stöðva skilnað, galdralækning við hvaða sjúkdómum sem er, verndargaldra, galdra til að verða farsæll og auðugur E.T.C. Hafðu samband við netfang drigeajayi@gmail.com. Sími/Whatsapp +2348057393990